Óli Björn Kárason
Síðastliðinn mánudag voru fimm ár liðin frá ógeðfelldri atkvæðagreiðslu á Alþingi. Pólitísk hefnigirni og heift náði yfirhöndinni í þingsal 28. september 2010 þegar 33 þingmenn samþykktu að ákæra Geir H. Haarde og stefna honum fyrir landsdóm. Með strategískri og hannaðri atkvæðagreiðslu var tryggt að aðeins einn maður – fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins – yrði dreginn fyrir dóm.
Í upphafi var lagt til að fjórir fyrrverandi ráðherra yrðu dregnir fyrir landsdóm; Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Flutningsmenn þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum voru fimm – tveir þingmenn VG, tveir þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður Hreyfingarinnar (nú Pírata):
Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir.
Fjórir af flutningsmönnunum sitja enn á þingi en Atli Gíslason ákvað að láta af þingmennsku eftir að hafa sagt skilið við Vinstri græna. Tveir flutningsmanna eru ráðherrar í samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sigurður Ingi vildi síðar afturkalla ákæruna en Eygló var því andvíg.
Af þeim 33 þingmönnum sem greiddu atkvæði með ákærunni á hendur Geir H. Haarde sitja 14 enn á þingi sem aðalmenn en nokkrir eru varaþingmenn. Atkvæðagreiðslan er eitt og furðulegar en hættulegar hugmyndir sumra þingmanna um réttarríki eru sérkafli sem vikið verður að síðar.
Strategísk atkvæðagreiðsla
Fyrst er rétt að draga fram hvernig atkvæði voru greidd til að tryggja að forsætisráðherrann fyrrverandi stæði einn frammi fyrir landsdómi.
Eftirtaldir þingmenn (allir í Samfylkingunni) studdu ákæruna gegn Geir en lögðust gegn því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu:
- Ólína Þorvarðardóttir,
- Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
- Skúli Helgason,
- Helgi Hjörvar.
Eftirtaldir þingmenn (í Samfylkingunni) voru á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu en töldu rétt að stefna Árna M. Mathiesen fyrir landsdóm:
- Ólína Þorvarðardóttir,
- Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Eftirtaldir þingmenn studdu ákæruna gegn Geir en vildu ekki ákæra Björgvin G. Sigurðsson (allir í Samfylkingunni):
- Helgi Hjörvar,
- Magnús Orri Schram,
- Oddný G. Harðardóttir,
- Skúli Helgason,
- Valgerður Bjarnadóttir,
Mörður Árnason greiddi ekki atkvæði um ákæruna gegn Björgvin G. Sigurðssyni.
Vondur málstaður varinn
Einn þingmanna Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram – sem ekki á lengur sæti á þingi – tók að sér að reyna að verja gjörðir meirihlutans. Í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið 14. maí 2011 sagði meðal annars:
„Með því er ekki sagt fyrir um sekt eða sakleysi, enda er það landsdóms að komast að efnislegri niðurstöðu og ber ég fullt traust til þess að þar njóti Geir sanngjarnrar og réttlátrar málsmeðferðar og að málinu ljúki með efnislega réttri niðurstöðu.“
Ranghugmyndin um meginreglu réttarríkisins, sem birtist í þessum orðum var og er ógnvekjandi. Enginn á að sæta ákæru nema því aðeins að ákæruvaldið (í þessu tilfelli var það Alþingi) sé sannfært um að viðkomandi hafi í raun brotið lög og að meiri líkur en minni séu á sakfellingu. Ákæruvaldið tekur afstöðu enda er ákvörðun um ákæru yfirlýsing um að talið sé að hinn ákærði hafi brotið lög. Dómstólar eru ekki einhver tilraunastofa líkt og nokkrir þingmenn virðast hafa haldið þegar þeir ákváðu að Geir H. Haarde skyldi mæta fyrir Landsdóm.
Björn Valur Gíslason, núverandi varaþingmaður og varaformaður Vinstri grænna, skrifaði á bloggsíðu sína 8. júní 2011:
„Ég hef ekki hugmynd um hvort Geir H. Haarde er sekur eða saklaus. Mér finnst það hinsvegar til fyrirmyndar af okkur Íslendingum að láta á það reyna fyrir dómi – loksins – hvort stjórnmálamaður af hans kaliberi geti verið ábyrgur gerða sinna í svo alvarlegu máli sem um ræðir.“
Ef ákæruvaldið (Alþingi) er ekki sannfært um sekt þá skal viðkomandi njóta vafans. Þessi einfalda en mikilvæga regla var þverbrotin í þingsal fyrir fimm árum.
Komið í veg fyrir efnislega afgreiðslu
Þingmenn fengu tækifæri til að leiðrétta misgjörðir þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu um að ákæran á hendur Geir H. Haarde yrði afturkölluð. Þetta var í desember 2011 og Landsdómur hafði þegar vísað frá veigamiklum atriðum í ákærunni.
Þá stóð fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar upp og hélt því fram að með ákærunni gætu „okkar vísustu lögspekingar ákvarðað hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð eða ekki“. Með því að vísa málinu til Landsdóms væri ekki „sagt fyrir um sekt eða sakleysi“.
Magnús Orri Schram, Eygló Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir lögðu fram frávísunartillögu til að koma í veg fyrir að tillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru kæmi til lokaafgreiðslu. Það tókst meðal annars með stuðningi fjögurra þingmanna Samfylkingarinnar sem þó höfðu greitt atkvæði gegn málshöfðun:
- Guðbjartur Hannesson
- Jóhanna Sigurðardóttir
- Róbert Marshall (nú í Bjartri framtíð)
- Sigmundur Ernir Rúnarsson
Meirihluti þingmanna sem kom í veg fyrir afgreiðslu á tillögu Bjarna Benediktssonar, reyndi að skýla sér á bak við að óeðlilegt væri að þingið væri að skipta sér af máli sem væri komið fyrir dómstól. Engu skipti þótt saksóknari hefði lýst því yfir að Alþingi hefði fulla heimild til þess að afturkalla ákæru og ekki hægt að líta á það sem inngrip í störf dómstóla.
Landsdómsmálið er sorgarsaga og það er skiljanlegt að ekki vilji allir sem þar léku stór hlutverk að sögunni sé haldið til haga. En Alþingi kemst vart hjá því að gera ítarlega úttekt á því hvernig staðið var að verki við málshöfðun gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Þingið verður að gera hreint fyrir sínum dyrum. Eðlilegast væri að frumkvæðið kæmi frá þeim 14 þingmönnum sem enn sitja á þingi og studdu málssóknina á hendur Geir H. Haarde. Fyrir alla færi best á því að úttektin eða rannsóknin yrði unninn af „okkar vísustu lögspekingum“.