Bjarni Jónsson
Allmikil opinber umræða hefur verið hérlendis nú á árinu 2015
um orkumál. Hefur hún aðallega snúizt um mismunandi orkulindir, þ.á.m. af nýjum toga, orkuverð, orkunýtingu og orkuskort, en einnig um flutningskerfi raforkunnar og þær ógöngur, sem athafnalífið og allir raforkunotendur standa frammi fyrir af völdum úrelts flutningskerfis. Fram hefur komið, að á næsta áratugi er von á nýrri gerð kjarnorkuvera, sem klýfur frumefnið Þóríum, og verður geislavirkni eldsneytisleifanna hættulaus á innan við 100 árum, sem er innan við 1/10 af helmingunartíma eldsneytisleifa hefðbundinna úraníum kjarnakljúfa. Hægt verður t.d. að reisa Þóríumkjarnorkuver hjá stórnotendum, og losna þeir þá við truflanir á stofnkerfinu, svo að ekki sé nú minnzt á afl- og orkuskort.
Skiptar skoðanir eru um arðsemi sæstrengs á milli Íslands og Skotlands, enda ríkir enn, eftir 5 ára meðgöngutíma Landsvirkjunar, óvissa um tæknilega útfærslu strengmannvirkjanna, virkjanaþörf og viðskiptaskilmála. Telja ýmsir hana ganga þar með steinbarn í maganum, ekki sízt í ljósi frétta af nýjum orkulindum, sem ekki menga andrúmsloftið umtalsvert, og lækkandi orkuverðs á Englandi, einnig á endurnýjanlegri orku. Menn virðast sammála um, að skilyrði fyrir lágmarksarðsemi verkefnisins sé, að brezka ríkið tryggi lágmarksverð fyrir rafmagn um strenginn, sem verði hátt ofan við markaðsverð á Bretlandi um þessar mundir; sennilega þarf um 2,3-falt markaðsverð í Bretlandi til að tryggja lágmarks arðsemi bæði raforkuvera, stofnlína og sæstrengs. Er þetta mun hærra verð en brezk yfirvöld greiða nú fyrir endurnýjanlega orku á Bretlandi, svo að viðskiptahugmyndin er í rauninni andvana fædd. Þegar ný og umhverfisvæn orkutækni mun ryðja sér til rúms, og jafnvel fyrr, er líklegt, að stórfelldar niðurgreiðslur fyrir endurnýjanlega orku á Englandi og annars staðar muni heyra sögunni til, og þar með mun áhugamönnum á Íslandi um sæstreng til útlanda væntanlega falla allur ketill í eld. Færeyingar, sem nú brenna jarðefnaeldsneyti til rafmagnsframleiðslu, munu væntanlega sjá hag sínum bezt borgið með Þóríum-kjarnorkuveri við sitt hæfi, svo að sæstreng á milli Íslands og Færeyja má einnig telja úr sögunni.
Nýting orkulindanna til rafmagnsvinnslu fyrir orkukræfan iðnað veldur enn deilum hérlendis, og má um þær segja, að lengi lifir í gömlum glæðum frá árinu 1966, er lög um Íslenzka Álfélagið hf. voru samþykkt eftir harðar deilur. Enn eru hafðar uppi bölbænir í garð stóriðjunnar, þó að hún sé fyrir löngu orðin ein þriggja grunnstoða gjaldeyrisöflunarinnar, og henni megi þakka eitt lægsta raforkuverð til almennings, sem þekkist. Er undirfurðuleg sú útúrborulega árátta ýmissa, sem þó vilja láta taka sig alvarlega á opinberum vettvangi, að stilla heilu atvinnuvegunum upp sem andstæðum hagsmunum almennings, og andstæðum hagsmunum annarra atvinnuvega, þó að rökin séu fátækleg og oftast úrelt. Tilgangurinn virðist helga meðalið hjá þeim, sem vita varla lengur, hvers vegna þeir eru á móti stóriðjunni.
Ýmis teikn eru á lofti um, að stjórnkerfi orkumála í landinu sé ekki jafnskilvirkt og nauðsyn krefur til skynsamlegrar stefnumörkunar í því mikilvæga hagsmunamáli almennings að forðast afl- og orkuskort, og verður sá hluti þessa stjórnkerfis, sem undirbýr flokkun virkjunarkosta, meginumfjöllunarefni þessarar greinar, þó að af mörgu sé að taka, þegar orkumálin eru annars vegar.
Orkustofnun og Rammaáætlun
Eftirfarandi er lýsing á hlutverki (OS)1):
- Orkustofnun fer með stjórnsýslu í orkumálum og aflar þekkingar á nýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda.
- Stendur fyrir rannsóknum á nýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda og öðrum viðfangsefnum á sviði orkumála.
- Vinnur að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar.
- Er ríkisstjórn til ráðuneytis um orkumál og auðlindanýtingu.
- Fer með leyfisveitingar vegna rannsókna og nýtingar á auðlindum og orkuvinnslu.
Um Rammaáætlun gilda lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun:
- Hlutverk Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar er að veita ráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða.
- Verkefnisstjórnin telur 6 manns og er skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra.
Ekki verður betur séð við samanburð á þessum tveimur stofnanalýsingum en starfssvið þeirra skarist illilega. Hætt er við, að Verkefnisstjórnin beri stjórnmálalegan keim, þar sem hún er skipuð af ráðherra. Þetta getur komið fram sem slagsíða á störfum Verkefnisstjórnar, annaðhvort í átt til ofverndunar eða ofnýtingar, sérstaklega hafi ráðherrann eða aðrir fulltrúar stjórnmálaflokks hans tjáð sig með tilteknum hætti um nýtingu/verndun orkulinda.
Stjórnsýslulega er Rammaáætlun af þessum sökum hálfgert örverpi, og er henni eiginlega ofaukið í stjórnkerfinu miðað við hlutverk og starfssvið Orkustofnunar.
Rammaáætlun í verki
Fyrsti áfangi Rammaáætlunar, Maður – nýting – náttúra, spannaði tímabilið 1999-2003.
Annar áfangi Rammaáætlunar átti að spanna tímabilið 2004-2011, en á verkinu varð tveggja ára töf, sem e.t.v. var af pólitískum rótum
runnin. Flokkun virkjunarkosta í Nýtingarflokk, Biðflokk og Verndarflokk, var að lokum umturnað á Alþingi á síðasta kjörtímabili, sem var í trássi við hugmyndafræði um Rammaáætlun, sem átti að fást við faglega flokkun orkulindanna á grundvelli mats ólíkra faghópa. Það er hætt við, að svipaðar uppákomur á Alþingi um
flokkun virkjunarkosta muni endurtaka sig, og m.a. þess vegna verður annað fyrirkomulag þessara mála lagt til í þessari grein.
Þann 25. marz 2013 skipaði Umhverfis- og auðlindaráðherra Verkefnisstjórn 3. áfanga Rammaáætlunar. Situr hún að óbreyttu til ársins 2017 og mun halda áfram starfi við röðun og flokkun virkjunarkosta, þar sem frá var horfið við lok 2. áfanga. Það er í höndum Orkustofnunar að auglýsa eftir umsóknum um umfjöllun Verkefnisstjórnar á virkjanakostum. Óskað hefur verið eftir endurskoðun á flokkun Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar í Neðri-Þjórsá í vinnu við 3. áfanga, en það var ekki við það komandi að hálfu Verkefnisstjórnarinnar. Virtist þar gæta nokkurrar þvermóðsku, því að virkjunaraðilinn, Landsvirkjun, var tilbúinn að leggja fram nýjustu rannsóknarniðurstöður og verkhönnun.
Störf Verkefnisstjórnar 2. áfanga og fyrrverandi ríkisstjórnar sættu gagnrýni fyrir fleira en að færa virkjanirnar í Neðri-Þjórsá úr nýtingarflokki, þar sem þær voru flokkaðar í 1. áfanga, yfir í biðflokk, á hæpnum forsendum. Gunnlaugur H. Jónsson, fyrrum eðlisfræðingur hjá OS, ritaði hinn 13. ágúst 2015 hvassa ádeilu á HS Orku og ON2) fyrir áform um nýtingu jarðgufu, sem hann telur ósjálfbær, en flokkun viðkomandi jarðgufuvirkjana í nýtingarflokk var samþykkt í 2. áfanga Rammaáætlunar.
Það er skylt að geta þess , að 27. ágúst 2015 andmæltu Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR3) og Guðni Axelsson, sviðsstjóri hjá ÍSOR4), röksemdum Gunnlaugs, sem sýnir, að um málefnið ríkir fræðilegur ágreiningur, en í ljósi mikilvægis málsins í bráð og lengd bar Verkefnisstjórn Rammaáætlunar „að láta náttúruna njóta vafans“, sem er reyndar alræmd klisja umhverfisráðherra ríkisstjórnarinnar 2009-2013.
Gagnrýni Gunnlaugs var m.a. svo hljóðandi:
„Rammaáætlun um jarðvarma fór út af sporinu, þegar hún skipti litlum landsvæðum, eins og Reykjanesi/Svartsengi annars vegar og Hengli hins vegar, upp í marga virkjunarkosti, en hvort þeirra er í eðli sínu aðeins einn virkjunarkostur. Þegar kemur að stórfelldri nýtingu jarðvarma, eins og raforkuvinnsla óhjákvæmilega er, með borholum, sem geta teygt sig allt að þrjá kílómetra niður í jörðina og mörg hundruð eða þúsundir metra til hliðar frá borsvæðunum, þarf hver virkjun helgunarsvæði, sem nær 10 km út frá virkjuninni, og sambærilega virkjun mætti ekki setja nær en í 20 km fjarlægð.“
Ekki er ástæða til að efast um jarðeðlisfræðileg rök hins virðulega eðlisfræðings að baki þeirri kenningu, sem hann setur hér fram sem almenna reglu, væntanlega varúðarreglu, því að jarðlög, gleypni og gufuinnstreymi eru auðvitað mismunandi frá einu landsvæði til annars. Verður að ætla, að innan viðkomandi sérfræðingahóps 2. áfanga um jarðgufuvirkjanir hafi mönnum verið kunn téð varúðarregla, og það er kyndugt, að Verkefnisstjórnin skyldi sniðganga hana með þeim hætti að setja Eldvörp og Stóru-Sandvík, sem brjóta fjarlægðarreglu Gunnlaugs á Reykjanesi, ásamt Hverahlíð, Gráuhnúkum og Meitlinum á Hengilssvæðinu, í nýtingarflokk. Þrír virkjunarkostir á Hengils-svæðinu eru settir í biðflokk, en aðeins tveir í verndarflokk, þ.e. Bitra og Grændalur. Í ljósi þess, að umrædd tvö vinnslusvæði eru núna alls ekki í jafnvægi, heldur dregur á köflum óeðlilega mikið niður í þeim, er óvarlega fram gengið að hálfu Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun, áfanga 2, að gefa grænt ljós á svo mikinn þéttleika, fjölda/km2 , jarðgufuvirkjana. Í ljósi tregðu hennar við að setja vel rannsakaða, hagkvæma og umhverfisvæna vatnsvirkjunarkosti í nýtingarflokk, vekja þessi vinnubrögð tortryggni um hlutlægni Verkefnisstjórnar.
Síðar í grein sinni setur Gunnlaugur H. Jónsson fram skoðun um nýtingu og nýtni virkjana, sem höfundur þessarar Þjóðmálagreinar hefur iðulega viðrað á vefsetri sínu5) með hag komandi kynslóða að leiðarljósi, þar sem sjálfbærni nýtingarinnar er ekki örugg. Væri ekki úr vegi, að atvinnuveganefnd Alþingis tæki nýtnikröfuna til umræðu í því skyni, að þingið setji virkjunarfyrirtækjum lágmarkskröfur um heildarnýtni virkjana.
Gefum Gunnlaugi, eðlisfræðingi, orðið:
„Það er góð orkustefna að framleiða rafmagn, með jarðhita sem aukaafurð með lághitanýtingu í hitaveitum, en það er orkusóun að láta raforkuframleiðsluna hafa forgang, og stýra álaginu á jarðhitasvæðin. Þetta á einkum við á svæðum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, þar sem orkuþörf [aflþörf – innskot höf.] vex um tugi MW árlega, á sama tíma og gengið er á jarðhitann með því að senda árlega meiri varmaorku út í loftið um kæliturna en sem nemur framleiddri raf- og varmaorku og menga andrúmsloftið óhóflega í leiðinni.“
Undir þetta er heils hugar hægt að taka. Þegar OS gefur út virkjunarleyfi, ætti hún að gaumgæfa nýtnina við nýtingu auðlindanna, en til þess þarf hún væntanlega þingsályktunartillögu sem bakhjarl. Sem lágmarksorkunýtni virkjunar í rekstri, yfir árið, mætti nefna 40 %, en það er tæplega ferföld nýtni raforkuvera, þar sem aðeins háhitavarminn er nýttur, en með lághitanýtingu að auki fimmfaldast nýtni orkuversins. Baðvatn fyrir ferðamenn er verðmæt aukaafurð jarðgufuvirkjana auk vinnslu kísils og steinefna fyrir húðkrem o.fl. úr jarðvökvanum.
Heildarnýtni vatnsorkuvera við umbreytingu fallorku vatns í raforku er yfir 90% og
mengun frá þessari gerð orkuvera er ekki önnur en lítilsháttar metangas, sem stígur upp úr miðlunarlónum um tíma, þar sem gróður hefur lent undir vatni. Þetta er að líkindum minna metanmagn en stígur upp af fjóshaugum og haughúsum landsins. Metan er rúmlega 20 sinnum sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, CO2.
Bráðabirgða reynsla af vindmyllum hérlendis bendir til nýtni yfir rekstrartímann, sem er rúmlega 40 %, og þar sem þarna er ótvírætt um endurnýjanlega orku að ræða, þurfa yfirvöld ekki að gæta hagsmuna komandi kynslóða gagnvart vindmyllum með kröfum um lágmarks nýtni þeirra, enda er undir hælinn lagt, hvernig vindar blása. Um ölduvirkjanir og sjávarfallavirkjanir framtíðarinnar gegnir svipuðu máli og um vindmyllurnar. Verði hér reist Þóríum-kjarnorkuver, mun líklega gilda svipað um þau og jarðgufuvirkjanirnar, því að lögmál varmafræðinnar gera engan greinarmun á frumorkugjöfum, en taka mið af hitastigsmuni varmagjafa og varmaþega.
Betra fyrirkomulag
Í þessari grein hefur komið fram, að núverandi kerfi við mat og flokkun virkjunarkosta er óskilvirkt (seinvirkt), og verklagið orkar tvímælis, enda er Verkefnisstjórn Rammaáætlunar skipuð af ráðherra. Ennfremur hefur komið fram, að tvíverknaðar gæti gætt í kerfinu, enda er lýsingin á hlutverki og viðfangsefnum OS þannig, að hún getur hæglega spannað viðfangsefni Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar með lítils háttar áréttingu.
Í því augnamiði að einfalda þessa stjórnsýslu og leggja enn meiri áherzlu á fagmennskuna en nú virðist vera raunin, er lagt til að breyta lögum nr. 48/2011 í þá veru, að OS yfirtaki alfarið hlutverk Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun, sem eru forrannsóknir á virkjanakostum, röðun þeirra eftir kostnaði og umhverfisáhrifum, en flokkunin, í nýtingu, bið eða vernd, verði í höndum Alþingis. Eftir atvikum verður þá væntanlega í framtíðinni hægt að skjóta miklum ágreiningsefnum um flokkunina til úrskurðar þjóðarinnar.
Niðurstaða
Tæknilega nýtanleg orka fallvatnanna er talin nema 64 TWh/a6), en af hagkvæmni- og umhverfisverndarástæðum má telja, að aðeins um helmingur eða 35 TWh/a verði fyrir valinu í nýtingarflokk, þegar upp verður staðið. Tæplega 40% þeirrar orku hefur verið virkjaður nú þegar.
Að teknu tilliti til sjálfbærni jarðgufusvæða, sem gerð hefur verið að umræðuefni í þessari grein, er ekki líklegt, að meiri jarðgufa verði nokkru sinni sett í nýtingarflokk en nemur 15 TWh/a í raforkuvinnslu. Nú þegar á að heita, að vinnslugeta raforku úr jarðgufuvirkjunum nemi 5,3 TWh/a eða 35 % af líklegu hámarki í nýtingarflokki. Vinnslugeta rafmagns með virkjunum í rekstri um þessar mundir er þannig um 19 TWh/a af væntanlegri vinnslugetu, 50 TWh/a, eða 38%.
Væntar beinar tekjur óvirkjaðrar raforku úr fallvötnum og jarðgufu, alls um 30 TWh/a, gæti numið ISK 150 milljörðum á ári, og alls gæti verðmætasköpun við nýtingu á þessari raforku hér innanlands numið um ISK 300 milljörðum, sem væri 15% aukning á núverandi landsframleiðslu. Það er þess vegna til lengri tíma litið mikill auður fólginn í óvirkjaðri orku á Íslandi, og það er skoðun höfundar, að hagsmunir þessarar orkunýtingar séu með góðu móti samrýmanlegir hagsmunum ferðaþjónustunnar með því að nýta beztu fáanlegu tækni við mannvirkjagerð og leita lausna, þar sem siglt verður á milli skers og báru. Þetta verkfræðilega viðfangsefni hefur höfundur gert stundum að umfjöllunarefni á vefsvæði sínu5 .
Af þessum ástæðum þjóðarhagsmuna er mikils um vert, að langtímasjónarmið um hámörkun þjóðhagslegs ávinnings af orkulindunum séu lögð til grundvallar í stað þess að reyna að slá einhvers konar pólitískar keilur, þar sem mjög þröngsýn og jafnvel ofstækisfull sjónarmið náttúruverndar ráða ríkjum, við val á virkjunarkostum og verndunarkostum. Það er jafnframt mikilvægt, að þetta ferli frumrannsókna og kostamats sé skilvirkt, og það verður að gæta þess að fara ekki of djúpt í saumana á virkjunartilhögun á þessu stigi, því að dýpri rannsóknir eru hlutverk þess, sem rannsóknarleyfið hlýtur, eða virkjunarfyrirtækisins við mat á umhverfisáhrifum og við verkhönnun virkjunarinnar, sem síðan að lokum þarf samþykki Orkustofnunar og framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags. Löggjafinn hefur sett mýmarga varnagla, sem hindra eiga einsýni við val á tilhögun eða óafturkræf náttúruspjöll. Í raun virðist grunnstefið yfirleitt vera, að náttúran fái að njóta vafans, með þeirri undantekningu, að of ágeng nýting jarðhitasvæða, einkum háhita, hefur verið leyfð. Vinda þarf ofan af því, þó að það geti leitt til meiri þarfar á vatnsaflsvirkjunum um sinn.
Síðan á 7. áratugi 20. aldarinnar, þegar áhugamenn um nýtingu orkulindanna hér á landi óttuðust samkeppni frá kjarnorkuverum, hafa menn talið, að íslenzkar orkulindir væru samkeppnishæfar í alþjóðlegu samhengi. Gríðarleg þróunarvinna hefur síðan 1990 farið fram til leysa orkuvandamál heimsins, sem stafar af gríðarlegum bruna jarðefnaeldsneytis við raforkuvinnslu og til að knýja farartæki. Margvíslegur árangur hefur náðst, en nú er komin fram á sjónarsviðið ný tilhögun kjarnorkuvera, sem strax á næsta áratugi er talin geta keppt við nýtingu íslenzku orkulindanna. Ef væntingar til Þóríum-kjarnorkuveranna rætast, stórra og smárra, þá munu íslenzku orkulindirnar hrapa í verði, ef marka má grein7) í Morgunblaðinu í sumar, þar sem spáð var vinnslukostnaði raforku frá Þóríum-orkuverum árið 2030 undir 10 USD/MWh8 . Greininni lýkur á eftirfarandi hátt:
„Frumefnið Þóríum heitir í höfuðið á norræna þrumuguðinum Þór. Það er kannski táknrænt, að Þóríum mun væntanlega hafa mikil áhrif hér á Sögueyjunni. Í mínum huga er það þannig, að við höfum um þrjú ár til að fá hingað orkusækinn iðnað. Eftir það fer varla nokkur norður í Ballarhaf til að ná sér í orku. Enginn veit því fyrir víst í hvaða stöðu við verðum til að semja um raforkuverð eftir nokkur á.“
Af öllum þeim ástæðum, sem raktar hafa verið í þessari grein, ber brýna ástæðu til að auka skilvirkni frummats og flokkunarferlis orkulindanna jafnframt því, sem tryggja þarf, að áhrif stjórnmálamanna komi ekki við sögu bráðabirgða kostnaðarmats og umhverfismats, sem eru undanfari endanlegrar flokkunar í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk. Eðlilegt má hins vegar telja, að endanleg flokkun sé á hendi Alþingis, enda hafa margir þingmenn jafnan mikinn áhuga á þessu máli, og það varðar ríka hagsmuni í bráð og lengd. Þingmenn hafa í þessu máli sem öðrum frjálsar hendur, en aðeins í undantekningartilvikum ættu þeir að hafa ástæðu til að sniðganga leiðbeiningarnar, sem fólgnar eru í bráðabirgða kostnaðar- og umhverfismati, sem hér er lagt til, að OS annist, og þá er jafnframt gerð krafa um ítarlegan rökstuðning.
Til að einfalda stjórnsýsluna í þessum efnum og bæta núverandi ferli, eins og rakið hefur verið, liggur beint við að fela OS verkefni Verkefnastjórnunar Rammaáætlunar með lagabreytingu um OS um leið og lögin um „verndar og orkunýtingaráætlun“ verða afnumin eða heimfærð á OS.
Tilvísanir og skýringar:
1) Heimasíða Orkustofnunar, OS.
2) ON – Orka náttúrunnar, er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, OR
3) Ólafur Flóvenz er dr. scient í jarðeðlisfræði og forstjóri Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR.
4) Guðni Axelsson er PhD í forðafræði jarðhita og sviðsstjóri kennslu og þróunar hjá ÍSOR.
5) Vefsetur höfundar:
http://www.bjarnijonsson.blog.is
6) TWh/a: les terawattstundir á ári, tera =1000 giga = 1000´000 mega
7) Kjartan Garðarsson, vélaverkfræðingur, Morgunblaðið 11. júlí 2015, „Orkubyltingin mikla er að hefjast“.
8) 10 USD/MWh = 1,30 kr/kWh m.v. 1 USD=130 kr .