Peningaprentvélar sem framleiðendur verðmæta

Geir ÁgústssonGeir Ágústsson

Stjórnmálamenn á öllum tímum og í öllum ríkjum hafa alltaf staðið fyrir ákveðnum vanda:

Hvernig geta þeir fjármagnað gengdarlaus og síaukin ríkisafskipti til að styrkja völd sín og auka vinsældir án þess að það komi í bakið á þeim seinna meir?

Til að ná þessu markmiði hafa stjórnmálamenn beitt mörgum úrræðum. Sumir hafa hækkað skatta til að fjármagna útgjaldahugmyndir sínar en sú leið mætir fljótt ákveðinni andspyrnu frá almenningi sem annaðhvort blæs til uppreisnar eða kýs með fótunum og flýr skattheimtuna. Fljótlega er þá gripið til skuldsetningar en lánadrottnar segja líka stopp að lokum.

Sumir hafa blásið til stórra átaksverkefna eins og að „endurnýja innviði samfélagsins“ eða „bæta menntun barnanna“ eða „tryggja áhyggjulaus ævikvöld“. Undir fána þess konar yfirlýsinga – sé þeim trúað – má soga gríðarlega fjármuni inn í hirslur ríkisvaldsins og deila þeim út þar sem helst þarf að afla stuðnings við ríkisreksturinn. Í sumum löndum eru margir aldraðir kjósendur og því upplagt að niðurgreiða þeirra aðhlynningu, lyf og sundferðir til að tryggja sér atkvæði þeirra. Í öðrum eru margar barnafjölskyldur og þá liggur beint við að senda þeim reglulega ávísanir og lækka skatta á nákvæmlega þeirra neysluvenjur til að tryggja sér stuðning þeirra. Öryggisnet er ofið þétt og markmiðið – meðvitað eða ómeðvitað – er að reyna festa sem flesta í því svo úr verði öryggisvefur – eins konar kóngulóarvefur fyrir skjólstæðinga velferðarkerfisins sem erfitt er að losna úr. Þessi aðferð átaksverkefna og sértækra aðgerða takmarkast samt við það sem hægt er að draga inn í ríkisreksturinn af verðmætum annarra, þá ýmist í núinu sem skattheimta eða í framtíðinni sem skuldsetning.

Sumir hafa farið á beit á högum erlendra skattgreiðenda og reynt að útvega ýmis konar styrki og aðstoð frá erlendum ríkissjóðum, t.d. í nafni hörmunga eða viðvarandi fátæktar í heimalandinu. Svokölluð þróunaraðstoð hefur reynst mörgum stjórnmálamanninum dýrmæt uppspretta fjár, sem að hluta til er send í verkefni sem kaupa vinsældir innanlands, og að hluta inn á eigin persónulega bankareikninga stjórnmálamannanna í Sviss.

Sumir hafa farið í stríð sem hefur marga kosti fyrir stjórnmálamanninn. Með réttum aðferðum má fylkja almenningi á bak við stríðsreksturinn í nafni þjóðarstolts og sjálfsvarnar og deyfa þannig mótspyrnu við skattahækkunum, skuldsetningu og stríðstólasmíði. Stríð afvegaleiða almenning og flytja athyglina frá innanlandsvandamálum og að því hvað erlendi andstæðingurinn er slæmur og árásargjarn. Stríð réttlæta að margra mati skuldsetningu og peningaprentun og skapa dýrðarljóma í kringum leiðtoga ríkisvaldsins ef vel gengur.

Peningaprentunin hefur hins vegar reynst vera það tæki sem stjórnmálamenn hafa tekið hlýjast upp á arma sína. Fyrir um 100 árum var gefin út bók[1] sem gaf þau skilaboð til stjórnmálamanna að þeir gætu framleitt velsæld og verðmæti með notkun peningaprentvélanna. Ekki væri lengur nauðsynlegt að leggja fyrir, spara og passa upp á kaupmátt peninganna. Nei, núna væri bara hægt að prenta peninga, lækka vexti og fá öll hjólin til að snúast í einu: Neytendur kaupa, fyrirtæki fjárfesta og allir eru ánægðir!

Sagan og hagfræðin hafa vitaskuld margafsannað notagildi þessarar velferðaruppsprettu[2], en stjórnmálamenn og launamenn þeirra í fræðasamfélaginu ríghalda í goðsögnina. Ávinningurinn fyrir stjórnmálamanninn og skjólstæðinga hans í bönkunum, viðskiptalífinu og háskólasamfélaginu er auðvitað augljós. Ríkisvaldið getur þanist út fyrir nýprentað fé og veislan þarf aldrei að stoppa, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili. Á meðan vona allir sem hlut eiga að máli að bólan springi ekki fyrr en viðkomandi aðilar eru komnir víðsfjarri í öruggt skjól, með fulla vasa fjár eða umvafðir frægðarljóma, nema hvoru tveggja sé.

En hvernig stendur á því að stjórnmálamenn komast upp með að láta ríkisvaldið sjá um framleiðslu peninga og einokun á verði þeirra (t.d. í gegnum ákvörðun vaxtastigs og róttækar breytingar á magni peninga í umferð)? Ein aðalástæðan hlýtur að vera hið grugguga vatn sem vísindin í kringum peninga liggja ofan í. Heilu bækurnar eru vissulega til sem útskýra þau vísindi í smáatriðum[3], en þær eru oft tormeltar og skal engan undra að þær séu lesnar af fáum. Í grunninn er málið samt einfalt: Nýprentaðir peningar gera ekki annað en að veita fyrstu eigendum þeirra aukinn kaupmátt á kostnað þeirra sem fá peningana síðar í hendurnar þegar verðlag hefur hækkað vegna rýrnandi kaupmáttar þeirra, og senda röng skilaboð í gegnum lækkandi vaxtastig um raunverulegt umfang sparnaðar í samfélaginu. Hverjir eru fyrstu notendur nýprentaðra peninga? Það er hið opinbera sem framleiðir þá, bankarnir og aðrir nátengdir hinni ríkisreknu peningaframleiðslu.

Nýprentað fé, sem eykur framboð af lánsfé og þrýstir vöxtum á því niður, sendir líka röng skilaboð en heppileg fyrir stjórnmálamenn í leit að byggingarkrönum. Skilaboðin frá hinum lágu vöxtum eru þau að mikill sparnaður sé í boði sem má fjárfesta fyrir núna og sem eigendur hans geta seinna nýtt sér til að kaupa viðkomandi fjárfestingu (t.d. nýja fasteign). Fjárfestar fara því út í framkvæmdir á röngum forsendum, því enginn slíkur sparnaður er í raun til. Peningarnir komu úr peningaprentvélunum og neytendur hafa úr engu að moða til að kaupa sig inn í hinar óþarfa fjárfestingar síðar meir. Bóla verður til sem springur þegar innistæðan fyrir henni reynist engin vera.

Markmið Seðlabanka Íslands er að helminga kaupmátt íslenskra króna í umferð á um einnar kynslóðar fresti, eða með orðum bankans:

„Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að halda verðlagi stöðugu og að jafnaði sem næst verðbólgumarkmiðinu sem er 2½%.“[4]

Þetta er stefna sem byggist á a.m.k. 100 ára gömlum hagfræðilegum misskilningi um að lág en stöðug verðbólga sé nauðsynleg til að framleiða hagnað og knýja þannig áfram stækkandi hagkerfi. Með því að svipta aldraða ævisparnaði sínum í hæfilegum skömmtum og halda launafólki í eilífu launataxtakapphlaupi við kaupmátt peninganna eru gölluð vísindi að leggja grunninn að skammtímahugsun, hvetja til eyðslu, draga úr sparnaði og setja alla viðskiptaútreikninga í eilíft uppnám (eða það sem heitir að leiðrétta fyrir síbreytilegri verðbólgu).

Andstæða verðbólgunnar, verðhjöðnun (almennt lækkandi verðlag), er reglulega rædd eins og einhvers konar ógn sem vofir yfir hagkerfinu ef ekkert er aðhafst. Þó gerist ekki annað í umhverfi verðhjöðnunar en að kaupmáttur almennings eykst, gjarnan vegna aukinnar framleiðni, á meðan framleiðendur halda áfram að keppast um neytendur. Ef tölvur eða bílar lækka um 5%  í verði, t.d. vegna harðnandi samkeppni framleiðenda og aukinnar framleiðslu, en annað verðlag stendur í stað birtast rauðar tölur verðhjöðnunar á Excel-skjölum seðlabankamanna og þeir blása til nýrrar peningaprentunar. Verðhjöðnun er samt eðlilegt ástand í umhverfi þar sem peningamagn helst nokkuð stöðugt á meðan tækniframfarir og fjárfesting eykur skilvirkni og framleiðslu. Að seðlabankamenn óttist hana er til merkis um að höfuð þeirra séu komin of nálægt tölvuskjánum og of fjarri raunveruleikanum. Um meintar ógnir verðhjöðnunar og um verðbólgu sem stjórntæki yfirvalda má fræðast miklu meira um í litlu kveri sem hér er með er bent á.[5]

Ríkisvaldið hvikar samt ekki frá stefnu sinni. Áratugum saman hefur því verið haldið fram að ríkisvaldið eitt geti staðið að útgáfu peninga og er þá eins og sögu slíkrar útgáfu sé skipulega sópað undir teppið.

Á Íslandi eru skuldir hins opinbera e.t.v. ekki fjármagnaðar beint með peningaprentun (með því að prenta peninga beinlínis til að borga af ríkisskuldabréfum) en peningaprentunarvaldið er samt nýtt í ýmsum tilgangi. Löng hefð er t.d. fyrir því að „fella gengið“ til að halda útflutningsfyrirtækjum á floti en á kostnað launþega, sparifjáreigenda og innflutningsaðila. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 varð íslenskt vinnuafl ódýrt á alþjóðlegan mælikvarða þegar krónan tók dýfu á meðan launataxtar stóðu í stað. Sparnaður margra varð sömuleiðis að engu á meðan skuldirnar ruku upp, en stór fyrirtæki með pólitísk tengsl rökuðu inn seðlum í erlendri mynt og borguðu laun í verðlitlum krónum.

En er þá ekkert til í því að hin opinbera peningaútgáfa og „[v]el mótuð peningastefna“ geti „stuðlað að aukinni hagsæld í landinu með því að tryggja stöðugt verðlag“ og á þann hátt „dregið úr efnahagssveiflum“?[4] Nei, í raun ekki. Ekki þarf hið opinbera að framleiða skó til að fólk labbi ekki berfætt eða ráði ekki við verðsveiflur af nýjum skófatnaði, t.d. í kjölfar innflutnings á þrjátíu gámum af skóm. Ekki þarf ríkisvaldið að flytja inn tannbursta til að tennur landsmanna haldist hreinar. Framleiðsla peninga er sérstök að því leyti að allir nota peninga en að öðru leyti ekki.

Framboð og eftirspurn eftir peningum, þ.e. framleiðsla og notkun þeirra, fylgir lögmálum sem hagfræðin hefur lýst fyrir löngu líkt og hún hefur fyrir hvern annan varning og þjónustu. Hins vegar nær ríkisvaldið góðu kverkataki á hagkerfinu öllu með því að einoka nákvæmlega peningaútgáfu. Með því móti getur ríkisvaldið ráðskast með nánast öll viðskipti allra en um leið valda ríkisafskiptin hér meiri skaða en víðast hvar annars staðar. Það væri vissulega vandamál að þurfa sætta sig við hinn eina sanna ríkistannbursta sem væri verðlagður af nefnd sérfræðinga á mánaðarfresti, en væri um leið yfirstíganlegt (t.d. með smygli eða heimaframleiðslu eða með því einfaldlega að sleppa því að nota tannbursta). En þegar löggjafinn beinlínis skikkar alla til að nota hina einu réttu ríkismynt og fylgist síðan vel með þéttum reglugerðafrumskógi svo enginn fari sér að voða með notkun annarra gjaldmiðla þá vandast málið fyrir þá í leit að öðrum valkostum.

Ríkisvaldið stundar tvöfalda aðferð til að fegra ríkiseinokun á peningaframleiðslu. Sú fyrri er blekking – sú fullyrðing að „stöðugt verðlag“ fáist með opinberum afskiptum, að verðbólga sé nauðsynleg fyrir heilbrigt hagkerfi, að einkaaðilar séu ekki hæfir til að framleiða peninga eða tryggja gæði þeirra, og að hagstjórn hins opinbera þurfi á peningaprentunarvaldinu að halda.

Hin síðari er tálsýnin: Að opinber peningaútgáfa leiði til betri lífskjara, að stöðugleiki og hagsæld sé afleiðing ríkiseinokunar á þessu sviði og að ríkispeningaframleiðslan forði fólki og fé frá hyldýpi efnahagssveifla.

Hvorki blekkingin né tálsýnin eiga samt að villa okkur sýn. Hagsæld verður ekki framleidd í peningaprentvélunum heldur með verðmætaskapandi vinnu, sparnaði, fjárfestingu og sem mestu frelsi til að elta tækifærin sem sífellt eru að myndast í síbreytilegum en um leið óvissum heimi. Íslenska ríkisvaldið þarf í raun hvorki að reka seðlabanka né halda úti lagabálkum um hvaða gjaldmiðla má nota og hvaða gjaldmiðlar eru ónothæfir. Ríkisvaldinu væri nær að einbeita sér að þeim verkefnum sem flestir telja mikilvægast að það sinni og láta af öðrum. Því væri alveg óhætt að leggja Seðlabanka Íslands niður og koma á frjálsum markaði í peningaútgáfu og –notkun, rétt eins og þeim sem gildir um súrsun hrútspunga og innflutning á tannburstum. Því fyrr því betra.


Heimildir:

[1] The General Theory of Employment, Interest and Money (1936) eftir hagfræðinginn John Maynard Keynes.

[2] Sjá sérstaklega The Failure of the “New Economics” (1959) eftir Henry Hazlitt.

[3] Sjá t.d. What Has Government Done to Our Money? (1963) eftir Murray N. Rothbard, og The Ethics of Money Production (2008) eftir Jörg Guido Hülsmann.

[4] Seðlabanki Íslands. Sótt 30. ágúst 2015 af http://www.sedlabanki.is/peningastefna/

[5] Deflation and Liberty (2008) eftir Jörg Guido Hülsmann. Aðgengileg á vef Mises Institute: https://mises.org/library/deflation-and-liberty-1.