Í huga margra er tíminn aldrei réttur. Það er ekki hægt að lækka skatta vegna þess að þensla er of mikil eða aðstæður svo erfiðar að ríkissjóður hefur ekki „efni“ á því að missa tekjur. Ekki er hægt að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum samfélagsins – í samgöngum, heilbrigðisþjónustu eða menntakerfinu – vegna stöðunnar. Þenslan er annaðhvort of mikil eða bolmagn ríkissjóðs ekki nægjanlegt vegna þungbærrar stöðu efnahagsmála. Úrtölumenn láta alltaf til sín taka. Tíminn er aldrei réttur enda glasið hálftómt.
Eins og við var að búast hafa úrtölumennirnir látið í sér heyra vegna áforma um að selja hluta af eignum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í fjárlögum yfirstandandi árs er heimild til að selja allt að 30% hlut ríkisins í Landsbankanum. Aðstæður eru ekki réttar, dregið er í efa að íslenski hlutabréfamarkaðurinn ráði við kaup á svo stórum hlut og ekki bætir úr skák ef selja á Íslandsbanka – sem ríkið eignaðist sem hluta af stöðugleikaframlagi kröfuhafa bankanna – á næstu árum.
Úrtölumennirnir eiga það flestir ef ekki allir sameiginlegt að vera í hjarta sínu á móti því að ríkisbankar séu seldir. Þeir vilja að ríkið leiki stórt hlutverk á fjármálamarkaði og eru sannfærðir um að ríkið eigi að vasast í rekstri og þá ekki síst banka. Röksemdirnar eru sveipaðar fallegum umbúðum. Breyta skal Landsbankanum í samfélagsbanka og engu er líkara en þar með verði hægt að reka fjármálastofnun í tómarúmi þar sem vextir ráðast af allt öðru en efnahagslegum aðstæðum, verði miklu lægri en annars. Í efnahagslegu tómarúmi er samfélagsbankinn rekinn með hverfandi vaxtamun og góðum hagnaði, sem skilar miklum arðgreiðslum í ríkissjóð.
Ríkisrekstrarsinnar finna alltaf rök gegn því að ríkið dragi úr umsvifum sínum í atvinnulífinu. Hér gildir það sama og um skattheimtumennina sem aldrei sjá möguleika á því að lofa einstaklingum að halda meiru eftir af sjálfsaflafé sínu.
Mikil virðisaukning
Líkt og ríkissjóður urðu einstaklingar og fyrirtæki fyrir miklum búsifjum þegar viðskiptabankarnir féllu í október 2008. Ríkissjóður lagði fram verulega fjármuni til að endurreisa bankana. Fátt kemur í veg fyrir að ríkissjóður endurheimti þá fjármuni og gott betur.
Þrennt skipti mestu. Í fyrsta lagi neyðarlögin sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde beitti sér fyrir. Í öðru lagi var komið í veg fyrir að Icesave-skuldir Landsbankans yrðu þjóðnýttar – lagðar á ríkissjóð og þar með skattgreiðendur. Og í þriðja lagi einörð og árangursrík stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gagnvart þrotabúum bankanna.
Afkoma bankanna þriggja, Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka, hefur verið með miklum ágætum á síðustu árum. Stór hluti hagnaðarins hefur verið vegna endurmats á eignum – lánum og yfirteknum eignum. Góð afkoma endurspeglast í sterkri eiginfjárstöðu.
Eigið fé bankanna nam alls 620 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs á síðasta ári. Frá árslokum 2009 hafði eigið fé því hækkað um liðlega 280 milljarða króna.
Almenningur njóti ávinnings
Það er ekki aðeins eðlilegt heldur sanngjarnt að einstaklingar – heimilin – fái að njóta með beinum hætti þess virðisauka sem hefur myndast innan veggja bankanna frá endurreisn þeirra. Þetta verður best gert með því að ríkið afhendi hlutabréf í bönkunum.
Hugmyndin er ekki ný. Á landsfundi í október síðastliðnum velti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, upp þeim möguleika að ríkið afhendi almenningi 5% hlut í bönkum. Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar benti Hreinn Loftsson, þáverandi formaður einkavæðingarnefndar, á þann möguleika að ríkið framseldi almenningi öll hlutabréf í Búnaðarbankanum.
Í ljósi þess mikla virðisauka sem orðið hefur innan veggja bankanna og hve vel tókst til við uppgjör þrotabúanna og stöðugleikaframlags þeirra er ljóst að svigrúmið til að láta almenning njóta ávaxtanna með beinum hætti er meira en áður var talið.
Hér er lagt til að á næstu þremur árum (frá 2017 til 2019) verði alls 12% hlutafjár í öllum bönkunum þremur afhent skattgreiðendum og fjölskyldum þeirra. Hvert verðmætið er á eftir að koma í ljós en sem hlutfall af eigin fé er um að ræða liðlega 74 milljarða króna. Það er hægt að líta á þessa fjármuni sem beinar endurheimtur heimilanna vegna áfalla síðustu ára.
Það er í takt við grunntón í stefnu Sjálfstæðisflokksins að senda landsmönnum beinan hlut í bönkunum. Slíkt rennir stoðum undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga, styrkir hlutabréfamarkaðinn, eykur aðhald að mikilvægum stofnunum samfélagsins og eykur tiltrú á fjármálakerfið.
Hverjir, hvernig og hversu mikið?
Aðferðafræðin er einföld. Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa haft skattalega heimilisfesti hér á landi síðustu þrjú árin og börn þeirra fá afhent 4% á ári frá og með 2017. Alls 12%. Samkvæmt vef Hagstofunnar voru íslenskir ríkisborgarar 306 þúsund í lok liðins árs, en ekki munu allir vera með skattalega heimilisfesti hér á landi. Hlutur hvers og eins verður alls liðlega 243 þúsund krónur eða 973 þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
Eðlilegt er að settar verði ákveðnar kvaðir á hlutabréfin. Þannig verði viðkomandi að eiga bréfin í 3-5 ár, en þó sé heimilt að selja þau ef keypt eru önnur skráð hlutabréf fyrir sömu fjárhæð. Að öðrum kosti verður söluverðið skattlagt sem launatekjur. Eldri borgarar gætu hins vegar selt hlutabréfin hvenær sem er eftir að farið er á eftirlaun og á söluverðmætið ekki að skerða ellilífeyrisgreiðslur.
Aukið aðhald
Þegar almenningur hefur rétt til þess að sækja hluthafafundi, leggja þar fram spurningar fyrir stjórn og helstu stjórnendur í krafti eignarhlutar, verður aðhaldið meira en áður. Bankarnir verða ekki líkt og lokaður klúbbur nokkurra útvalinna einstaklinga eða andlistlausa fjárfesta, heldur opinn vettvangur almennings til að láta til sín taka og hafa áhrif.
Það er mikilvægt að efla traust á íslensku fjármálakerfi. Bein þátttaka borgaranna er mikilvæg en einnig skiptir miklu að tortryggni vegna fortíðar verði eytt. Engu skiptir hvort um er að ræða einkavæðingu bankanna fyrir og um síðustu aldamót eða síðari einkavæðinguna þegar kröfuhafar eignuðust Íslandsbanka og Arion banka. Með sama hætti er nauðsynlegt að öll spil um skuldauppgjör fyrirtækja og einstaklinga verði löð á borðið.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram ítarlega fyrirspurn um hvernig staðið hafi verið að skuldauppgjöri einstaklinga, félaga og fyrirtækja við fjármálastofnanir í meirihlutaeigu ríkisins. Þingmaðurinn vill að upplýst verði eftir hvaða skriflegum reglum hafi verið farið, hvernig þær reglur hafi verið settar og hvernig tryggt hafi verið að „jafnræðisreglu væri fylgt þannig að allir skuldarar nytu jafnræðis og sanngirni við uppgjör skulda sinna, hvort heldur með beinum afskriftum, lengingu lána eða með öðrum hætti“.
Öllum ætti að vera ljós nauðsyn þess að þær upplýsingar sem Jón Gunnarsson óskar eftir verði gerðar aðgengilegar. Þótt fyrirspurnin nái aðeins til fjármálastofnana í meirihlutaeigu ríkisins hljóta önnur fyrirtæki á fjármálamarkaði að sjá sér hag í að veita sömu upplýsingar.
Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir úrtölumenn munu leggjast gegn því að einstaklingar eignist milliliðalaust hlut í bönkunum. Enda yrði stigið stórt skref í að gera Íslendinga að kapítalistum og styrkari stoðum skotið undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna. Þeir eru til sem virðast ekki vilja hugsa þá hugsun til enda.