„Mannfórn virðist vera eina lausnin sem þingflokkur Samfylkingarinnar ætlar að bjóða kjósendum upp á,“ skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri í leiðara DV en hún var lengi innanbúðarkona í Samfylkingunni. Kolbrún segir að almenningi virðist standa „nokkuð á sama um flokkinn“ sem hafi glatað erindi sínu:
„Ein af ástæðunum er sú að mál sem flokkurinn lagði alla áherslu á, aðild að Evrópusambandinu, er ekki lengur fýsilegur kostur. Samfylkingin var aldrei með plan B og þegar aðalbaráttumálið var ekki lengur raunhæft þá missti forystan móðinn. Óvinsældir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru síðan draugur sem fylgt hefur Samfylkingunni og henni hefur ekki tekist að kveða hann niður.“
Kolbrún segir að stjórnmálaflokkur sem ítrekað sé í fréttum vegna „bræðravíga og átaka“ sé ekki líklegur til að laða að sér fylgi. Í þingflokki Samfylkingarinnar sé hver höndin upp á móti annarri og „engu er líkara en þar séu menn í keppni um það hverjum takist best að spila sóló“:
„Eitt af því fáa sem þessir þingmenn geta komið sér saman um er að best sé að losna við formanninn. Þar er stóll sem ýmsir gætu hugsað sér að setjast í.
Mannfórn virðist vera eina lausnin sem þingflokkur Samfylkingarinnar ætlar að bjóða kjósendum upp á. Slíka fórn reyndi Björt framtíð með engum árangri. Það er fjarska ólíklegt að betur takist til hjá Samfylkingunni.“
Í leiðaranum segir Kolbrún að þingmönnum væri nær að líta í eigin barm – þeir hafi setið lengi á þingi og „þreytu- og úrillskumerki“ séu á þeim. „Það er eins og þeir hafi ekkert lengur að segja,“ skrifar Kolbrún sem heldur því um leið fram að Samfylkingin þurfi „nýja og öfluga stefnu og sannfærandi talsmenn sem koma erindi flokksins til skila þannig að eftir sé tekið“:
„Fólk þarf að finna að Samfylkingin vilji breyta samfélaginu til hins betra og muni auka jöfnuð komist hún til valda.
Innan Samfylkingar geta menn vonað að þegar nær dragi kosningum muni fylgi Pírata dala og hluti af því leita í samfylkingarfarveginn. En af hverju ættu kjósendur að styðja flokk sem alræmdur er fyrir innanflokksátök? Ef þingmenn stjórnmálaflokks stunda reglulega grimmileg bræðravíg er þeim þá treystandi til að koma sér saman um málefni sem varða almannahag? Og er slíku fólki treystandi til að stjórna landinu af ábyrgð og festu? Þetta er spurning sem kjósendur munu svara. Niðurstaðan gæti orðið ansi óþægileg fyrir Samfylkinguna.“
Leiðarinn er í anda þess sem Kolbrún Bergþórsdóttir hefur skrifað um Samfylkinguna á síðustu árum. Í Morgunblaðspistli 24. janúar 2013 hélt hún því fram að nýr formaður þurfi að vera framsýnn og hófsamur og „ekki tölta sama veg og Jóhanna Sigurðardóttir”. Þegar þetta var skrifað voru samfylkingar að velja eftirmann Jóhönnu Sigurðardóttur. Kolbrún var sannfærð um nauðsyn þess að Samfylkingin kæmi fram með nýjar áherslur ef flokkurinn ætlaði sér að eiga erindi við landsmenn. Flokkurinn hafi verið á furðulegri leið í samstarfi við Vinstri græna:
„Flokkurinn ætti að leggjast í naflaskoðun á starfsemi sinni því honum hefur ekki tekist að heilla fólk til sín heldur hrökklast það frá honum og hyggst gefa litla útibúinu atkvæði sitt. Hér er greinilega ekki allt með felldu. Getur ekki verið að flokksforysta Samfylkingar hafi tekið alltof snarpa vinstri beygju í samstarfi við Vinstri græna? Flokkurinn virðist ekki rúma hófsamt miðjufólk og litið er á hægrikrata sem ógnvalda og óvini. Ekki nema von að fækki í flokknum.“
Kolbrún hafði lengi varað við þeirri vinstri sveiflu sem orðin var á Samfylkingunni, þar sem gamalgrónir kratar úr Alþýðuflokknum væru ekki lengur velkomnir. Í Morgunblaðspistli, sem birtist 2. ágúst 2012, hélt Kolbrún því fram að hægri-kratar væru ekki í Samfylkingunni. Helstu talsmenn flokksins séu með paranoju gagnvart Sjálfstæðisflokknum en lofi afturhaldið í Vinstri-grænum. Samfylkingin fylgi því gamalli alþýðubandalagsstefnu.
Kolbrún var sannfærð um að forystumenn Samfylkingarinnar stundi sína „vinstrisinnuðu pólitík af offorsi” og boði að „Sjálfstæðisflokkurinn sé flokka verstur”:
„Brýnt er fyrir fólki að það verði að halda vöku sinni því það jafngildi þjóðarógæfu að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda. Er þetta nú ekki fullmikil paranoja þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn er hófsamur borgaralegur flokkur án öfga? Talsmenn Samfylkingar bera svo mikið lof á afturhaldið í Vinstri-grænum og óska eftir áframhaldandi stjórnarsamstarfi við þann flokk. Sennilega vegna þess að Vinstri-grænum er helst talið treystandi til að halda áfram skörulegri baráttu gegn atvinnurekendum – það er að segja hinu illa auðvaldi sem að vísu skaffar fólki vinnu en gerist sekt um að reka fyrirtæki sín með hagnaði. Menn sem efnast á atvinnurekstri eiga ekki upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn [ríkisstjórn Samfylkingar og VG, innsk. Þjóðmál]. Þeir þykja afar tortryggilegir og líklegt efni í fjárglæframenn.”
Kolbrún hélt áfram:
„Þegar forystumenn Samfylkingar opna munninn streyma upp úr þeim gamlar lummur, sem eru eins og samdar á flokkskontór Vinstri-grænna. Það er svo að segja ekkert í þessu aumlega ríkisstjórnarsamsulli sem minnir á framsýna pólitík. Samt vilja þingmenn Samfylkingar endilega endurnýja stjórnarsamstarfið.”
En kannski var örlítil von því Kolbrún útilokaði ekki með öllu að í þingflokki Samfylkingarinnar gæti hægri-krati verið í felum:
„Kannski væri ráð að þessi einstaklingur yrði háværari svo hægri-kratarnir sem flúðu Samfylkinguna gætu bent á hann og sagt: „Já sko, það er einn réttlátur meðal þeirra!””