Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er að hugleiða framboð til forseta en hún virðist njóta töluverðs stuðnings samkvæmt könnun MMR fyrir Stundina. Þröstur er því að velta því fyrir sér hver taki við varaformennsku flokksins af Birni Val Gíslasyni sem augljóslega verður formaður þegar Katrín segir sig frá embættinu.
Ákveði Katrín að taka slaginn verður hún um leið að segja af sér formennsku í VG og að minnsta kosti gera tímabundið hlé á þingmennsku. Annað er varla við hæfi. Þetta þýðir að Björn Valur Gíslason, verður þingmaður að nýju og tekur um leið við formennsku í flokknum. Þröstur er sannfærður um að þetta gleðji Steingrím J. Sigfússon sérstaklega enda Björn Valur hans besti samherji og varðmaður.
Þá er autt sæti varaformann en Þröstur verður að viðurkenna að hann áttar sig ekki á því hvernig það verður skipað fram að næsta landsfundi flokksins sem verður ekki fyrr en á nýju ári. Alls sitja 11 mann í stjórn VG, formaður, varaformaður, ritari og gjaldkerfi ásamt sjö meðstjórnendum. Ekkert er að finna í lögum VG hver tekur við varaformennsku, nema þá að ritari virðist ganga næst formanni og varaformanni. Elín Oddný Sigurðardóttir er ritari.
Stjórn VG getur hins vegar ákveðið að halda aukalandsfund ef tilefni er til. Þröstur á ekki von á öðru en að þar sæki Björn Valur eftir því að fá „endurnýjað“ umboð sem formaður.