Jón Magnússon
Leiðari Fréttablaðsins er oft athyglisverður einkum þar sem fyrrum borgarstjóri Jón Gnarr er í fleti fyrir aftan ritstjórana í stjórnunarstöðu á 365 miðlum.
Í leiðara blaðsins í dag er fjallað um hryllilegt ástand gatna í borginni, ástand sem aldrei hefur verið verra og kemst leiðarahöfundur að þeirri niðurstöðu að um sé að kenna eftirfarandi atriðum fyrst og fremst: 1.Nagladekk 2.Veðrið 3. Ferðamenn 4.Ríkið.
Nagladekk hafa verið við lýði í áratugi í Reykjavík og veðrið hefur iðulega verið ámóta erfitt fyrir göturnar. Þá verður ekki séð að ferðamennirnir spæni upp götur eða hvernig á að skýra bágt ástand gatna þar sem engin tengdur ferðamönnum fer um. Þá telur leiðarahöfundur að ríkið forgangsraði með röngum hætti og Vegagerðin standi sig ekki sem veghaldari.
Til að kóróna þessa makalausu ritsmíð leiðarahöfundar er tíundað að borgin hafi lagt aukið fé til viðgerðar gatna í borginni.
Niðurstaða leiðarahöfundar er því sú að þeir fjórir þættir sem fyrr eru nefndir séu orsakavaldur en stjórnendur Reykjavíkur hafi hins vegar staðið sig einstaklega vel.
Eitt sinn var borgartjóri í Reykjavík, sem hét Geir Hallgrímsson síðar formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann setti fram þá stefnu að malbika skyldi allar götur í Reykjavík. Vinstri menn hæddust að þessu og töluðu um ómerkilegt áróðursbragð því þetta væri ekki hægt. Vissulega hefðu þeir ekki getað gert það, en í borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar laust eftir miðja síðustu öld urðu vegir í Reykjavík malbikaðir og greiðfærir.
Um sama leitið og vegir í Reykjavík urðu greiðfærir og malbikaðir var Gambíu veitt sjálfstæði frá Bretum. Til voru nokkrir vegir í Gambíu sem Bretar höfðu malbikað. Síðan leið hálf öld og þeir sem koma til Gambíu gætu allt eins haldið að þeir væru að aka Hverfisgötuna í Reykjavík vegna þess að á malbikuðu vegunum í Gambíu eru álíka mörg göt í malbikinu og á Hverfisgötunni í miðbæ Reykjavíkur. Götin á götunum í Gambíu eru vegna þess að viðhald skortir. Það sama gildir í Reykjavík og gerði alla borgarstjóratíð Jóns Gnarr og nú Dags B.Eggertssonar og af sömu ástæðu eru göt á götum í Reykjavík og í Gambíu.
Í stað þess metnaðar og framsýni sem Geir Hallgrímsson sýndi og síðar Davíð Oddsson hafa setið við stjórnvölinn borgarstjórar sem hafa áhuga á að gera allt annað við göturnar í Reykjavík, en gera þær greiðfærar. Aldrei hefur það verið verra en síðustu tvö kjörtímabil.
En það er náttúrulega ferðamönnunum, veðrinu, nagladekkjunum og ríkinu að kenna en ekki borgarstjóranum núverandi eða fyrrverandi eftir því sem leiðari Fréttablaðsins segir.
Sjálfur Göbbels áróðursmálaráðherra Hitlers hefði ekki getað gert betur en leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag við að afvegaleiða umræðuna og afsaka þá sem ábyrgð bera á Holuhrauninu í Reykjavík.