Hópur áhrifafólks innan vinstri flokkanna hefur boðað til fundar á laugardag til að ræða „möguleika til samvinnu umbótaaflanna á næsta kjörtímabili,“ eins og segir í fundarboði. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup eru flokkarnir með um 63% fylgi.
Fundurinn verður í Iðnó og undir stjórn Magnúsar Orra Schram, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, en hann sækist eftir formennsku í flokknum sem heldur landsfund í júní næstkomandi. Málshefjendur eru:
- Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og borgarstjóri.
- Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.
- Ilmur Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar.
- Margrét Tryggvadóttir fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar.
- Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður Vinstri grænna.
Á fundinum er meðal annars ætlað að leita svara við spurningum um hvort grundvöllur sé fyrir samvinnu flokkana og hver næstu skref geti verið.
Á undanförnum mánuðum hafa miklar umræður átt sér stað meðal vinstri manna um samvinnu í komandi kosningum – jafnvel kosningabandalag. Egill Helgason veltir því fyrir sér hversu langt stjórnarandstöðuflokkarnir eigi „að ganga í að bræða sig saman fyrir kosningar“:
„Í uppnáminu vegna Panamaskjala birtust þau oft saman, forystufólk stjórnarandstöðunnar, fjögur saman, líkt og heild.“
Þessi nána samvinna, sem Egill bendir á, hefur ekki skilað flokkunum miklum árangri – aðeins Vinstri grænir njóta samvinnunnar. Fylgi flokksins, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, hefur aukist verulega og er nú tæp 20%. Á sama tíma nær Samfylkingin ekki vopnum sínum og tvísýnt er um að Björt framtíð nái manni inn á þing.
Þátttaka Helga Hrafns Gunnarsson, hefur vakið athygli en margir túlka hana sem enn eina staðfestingu á að Píratar hafi markað sér fastan bás meðal vinstri flokkanna.
Nýjasta könnun Gallup (7.-12. apríl) leiðir í ljós að Píratar eru að missa fylgi og hefur stuðningur við flokkinn ekki verið minni í eitt ár, sé miðað við þjóðarpúls Gallups. Í mars á liðnu ári var stuðningur við Pírata 21,7% en var kominn í liðlega 30% mánuði síðar. Allar götur síðan hefur fylgið verið yfir 30% og mest liðlega 36%. Meðalfylgi flokksins síðustu 12 mánuði fyrir nýjustu könnun Gallup er tæplega 34%.