Óli Björn Kárason
Fulltrúar vinstri flokkanna sem mynda meirihluta borgarstjórnar boðuðu til málfundar síðastliðinn laugardag í Iðnó að frumkvæði Magnúsar Orra Schram, sem sækist eftir að verða formaður Samfylkingarinnar. Ræddir voru möguleikar til „samvinnu umbótaaflanna á næsta kjörtímabili,“ eins og sagði í fundarboði.
Reykvíkingar hafa kynnst „umbótaöflunum“ síðustu árin; gatnakerfið er í molum, fjárhagur borgarsjóðs ósjálfbær enda eytt um efni fram, skorið er niður hjá leik- og grunnskólum en ráðist í fjárfrek gæluverkefni, stjórnkerfið þanið út, þjónusta við eldri borgara skert, götur eru skítugar og borgin sóðaleg.
„Umbótaöflin“ í Reykjavík vilja víkka út samvinnuna og láta hana ná til landsins alls að loknum þingkosningum. Ríkisstjórn vinstri flokkanna er í undirbúningi, pökkuð inn í umbúðir hljómfagurra orða. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru líkur á að Reykjavíkur-módel Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar verði flutt inn í stjórnarráðið innan nokkurra missera.
Ný gerð af pólitík?
Í viðtali við mbl.is eftir fundinn í Iðnó var Magnús Orri bjartsýnn. Fundarmenn sagðir sammála um að mikil tækifæri væru í núverandi stöðu stjórnmálanna á Íslandi:
„Það eru öfl sem vilja nýja gerð af pólitík og nýjar áherslur í stjórn landsmála. Það er mikill áhugi á að reka nýja gerð af pólitík, segja skilið við þessa gömlu pólitík og reka framtíðarpólitík.“
Það er merkilegt hve sumir stjórnmálamenn eru gjarnir á að forðast málefni og að brjóta þau til mergjar eða takast á með rökræðum við þá sem eru annarrar skoðunar. Þeim fellur betur að nota klisjur og innantóma frasa; ný gerð af pólitík, framtíðarpólitík, samræðupólitík, heiðarlegri stjórnmál, lýðræðislegur farvegur og öðruvísi pólitík.
Orðskrúð veitir litla innsýn í hugsjónir eða fyrir hvað viðkomandi stjórnmálamaður eða -flokkur stendur. Aðeins sagan og reynslan gefur kjósendum möguleika á því að meta hvers megi vænta þegar og ef ríkisstjórn „umbótaaflanna“ tekur við völdum.
Í Reykjavík er alvarleg staða borgarsjóðs lítið áhyggjuefni þeirra sem boða „nýja pólitík“. „Tekjur hafa hækkað hægar en gjöldin,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um stöðu borgarsjóðs í viðtali við DV um miðjan október. Með svipuðu hugarfari verður tekist á við ríkisfjármálin. Vandinn verður alltaf skilgreindur þannig að nauðsynlegt sé að auka tekjur, þ.e. hækka skatta og álögur. Þetta vita borgarbúar og þetta upplifðu landsmenn í tíð síðustu ríkisstjórnar „umbótaaflanna“, sem hækkaði skatta jafnt á almennt launafólk sem á fyrirtæki. Á sama tíma var þjónusta skorin niður. Það eina sem kann að bjarga málunum tímabundið er traust og góð staða ríkissjóðs, en reynslan úr höfuðborginni sýnir að hægt er að klúðra góðri stöðu á stuttum tíma.
Kjánaskapur
Sú spurning er áleitin hvort „framtíðarpólitíkin“ felist í því að forðast fjölmiðla þegar leiðindamál koma upp. Borgarstjóri fór í felur þegar fjölmiðlar vildu upplýsingar um hvað ætti að gera til að lagfæra götur borgarinnar. Embættismaður var látinn svara. En að lokum náðu fjölmiðlar í borgarstjóra sem sagðist hafa sett sig í samband við „vegamálastjóra og bæjarstjórana á höfuðborgarsvæðinu“ og menn hefðu „miklar áhyggjur af stöðu gatnakerfisins“. Nokkrum vikum síðar hafði borgarstjórinn samband við fjölmiðla og lét þá vita að hann yrði á dekkjaverkstæði. Fjölmiðlar mættu, tóku myndir og hugguleg viðtöl við borgarstjórann í vinnugalla með loftpressulykil að vopni.
Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi ráðherra og samherji Dags B. Eggertssonar, gefur lítið fyrir þennan kjánaskap og skrifar á bloggsíðu sína:
„Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga. Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.“
Kaldhæðnislegt grín
Hin „nýja gerð“ af pólitík hefur birst í sölum Alþingis. Þar vinna þingmenn „umbótaaflanna“ sér inn prik með gífuryrðum og með því að fella dóma yfir andstæðingum, kalla þáverandi forsætisráðherra „frægasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar“ og saka 38 þingmenn stjórnarmeirihlutans um „valdarán“. Framtíðarpólitíkin hefur endaskipti á hlutunum og þingræðisreglan er hundsuð þegar það hentar.
Í þættinum Eyjan á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag lýsti Magnús Orri áðurnefndum fundi:
„Maður fann að fullt fullt af fólki úr ólíkum áttum, ekki alltaf sammála, en það var sammála um einhver grunngildi, einhverja nálgun og það var líka sammála um það að ef við erum ósammála þá förum við með deiluefnið í lýðræðislegan farveg, eins og til dæmis ESB-málið.“
Líklega var þetta kaldhæðnislegt grín hjá formannsefninu. Magnús Orri greiddi atkvæði gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu vinstri stjórnarinnar yrði sett í „lýðræðislegan farveg“ í júlí 2009. Þannig var almenningur aldrei spurður álits um hvort rétt væri að óska eftir aðild. Hið sama gerðist nokkrum mánuðum síðar. Þá tók Magnús Orri þátt í því að fella tillögu Péturs heitins Blöndal um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans.
Forseti Íslands – Ólafur Ragnar Grímsson – greip inn í atburðarásina og tryggði þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave í mars 2010. Liðlega 98% kjósenda höfnuðu fyrirætlun um ríkisábyrgð – aðeins 1,9% kjósenda studdu ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð. Í desember 2011 endurtók sagan sig. Um 60% höfnuðu nýjum Icesave-samningum. „Umbótaöflin“ í samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna töldu ekki ástæðu til að segja af sér og boða til kosninga, ekki frekar en þegar stjórnin missti þingmeirihluta. Þannig hefur „opnari pólitík“ og „meiri auðmýkt“, sem Magnús Orri talar fyrir, birst kjósendum á síðustu árum.
Lítt sannfærandi
Barátta Magnúsar Orra og samherja fyrir „heiðarlegri“ stjórnmálum er lítt sannfærandi í ljósi sögunnar. Magnús Orri sat í meirihluta þingmannanefndar sem vildi draga fjóra ráðherra fyrir Landsdóm, en hann vildi þó undanskilja ráðherra bankamála. Eftir hannaða atkvæðagreiðslu var niðurstaðan sú að Geir H. Haarde stóð einn frammi fyrir Landsdómi.
Síðar reyndi formannsframbjóðandinn að réttlæra ákæruna á hendur fyrrverandi forsætisráðherra og skrifaði í Fréttablaðið 14. maí 2011:
„Með því er ekki sagt fyrir um sekt eða sakleysi, enda er það landsdóms að komast að efnislegri niðurstöðu og ber ég fullt traust til þess að þar njóti Geir sanngjarnrar og réttlátrar málsmeðferðar og að málinu ljúki með efnislega réttri niðurstöðu.“
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 16. desember sama ár gekk Magnús Orri lengra og spurði hvort ekki væri farsælast fyrir Geir H. Haarde, væri hann saklaus, „að fá stimpil á það frá Landsdómi um að svo sé“.
Þannig er „heiðarlegri“ pólitík fólgin í því að hafa endaskipti á hlutunum og ganga gegn meginreglu réttarríkisins um að enginn sæti ákæru, nema því aðeins að meiri líkur en minni séu taldar á sakfellingu. Dómstólar eru ekki tilraunastofur eða afgreiðslustofnanir sem gefa „stimpla“.
Fundurinn í Iðnó síðasta laugardag kann að reynast fyrsta skrefið í samvinnu og jafnvel kosningabandalagi fjögurra stjórnarandstöðuflokka á Alþingi sem mynda einnig meirihluta í borgarstjórn. Þannig skýrast línurnar í íslenskum stjórnmálum, þótt kjósendur séu lítt fróðari um stefnu „umbótaaflanna“ sem hafa tileinkað sér frasa og fagurgala; umbúðastjórnmál án innihalds.