Ritstjórnarbréf Þjóðmála
Þeir horfa hreyknir í linsur myndavélanna – nýbúnir að undirrita enn einn ívilnunarsamninginn. Þeir eru sannfærðir um að með samningnum hafi verið unnið gott verk, atvinnutækifærum fjölgað og styrkari stoðum rennt undir fjölbreytileika atvinn-ulífsins. En brosandi stjórnmálamennirnir eru hvorki fulltrúar skynsamlegrar langtímastefnu eða baráttumenn jafnræðis. Þeir eru varðmenn úreltrar hugmyndafræði fyrirgreiðslu og forréttinda sem eru óskilgetin afkvæmi klíkukapítalismans, sem fyrr eða síðar leiðir okkur til glötunar.
Þegar stjórnmálamenn telja nauðsynlegt að gerðir séu ívilnunarsamningar við valin fyrirtæki, eru þeir um leið að fella dóm yfir skattkerfinu og regluverkinu öllu sem hið opinbera hefur búið um atvinnulífið. Ívilnunarsamningur er yfirlýsing um að kerfið sé gallað – það örvi ekki frumkvæði einstaklinganna, dragi úr fjárfestingum og komi í veg fyrir að ný fyrirtæki geti komið undir sig fótunum.
Ívilnunarsamningar – forréttindi til útvalinna – eru fremur merki um sjúkt ástand en heilbrigt efnahagslíf. Verst er að með óréttlætinu hafa stjórnmálamenn komið sér undan því að skera upp kerfi sem þeir hafa sjálfir dæmt ónothæft með forréttindasamningum.
Kostnaðurinn af forréttindasamningunum er borinn af þúsundum lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem eigendurnir hafa sett allt sitt undir og aldrei óskað eftir sérréttindum af hálfu ríkisins – aðeins að jafnræði og sanngirni ríki. Eigendur þessara fyrirtækja hafa á undanförnum árum þurft að sætta sig við skattaumhverfi sem var sérstaklega hannað af Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Enginn hefur nokkru sinni boðið þeim ívilnun af neinu tagi en engu að síður veita þeir fleiri Íslendingum vinnu en nokkurt þeirra fyrirtækja sem hafa notið sérréttinda.
Lítil og meðalstór fyrirtæki eru burðarásar í íslensku efnahagslífi. Hvernig væri að stjórnmálamenn veittu þeim athygli í stað þess að láta útbúa enn einn sérréttindasamninginn?