Reykjavík endurheimti forystuhlutverk sitt sem höfuðborg

Eyþór Arnalds.

Eyþór Arnalds

Reykjavík er á tímamótum. Allt of lengi hefur borgin dregist aftur úr nágrannasveitarfélögum sínum sem hafa vaxið og dafnað. Borgin hefur fengið algera falleinkunn í flestum greinum. Þjónustukönnun Gallup er gerð fyrir öll helstu sveitarfélögin og eru íbúar spurðir hvernig þeim finnst þjónustan. Þetta er eina samræmda könnunin sem gerð er og gagnast hún vel fyrir þá sveitarstjórnarmenn sem vilja bæta þjónustu sína.

Nú ber svo við að Reykjavík er ekki bara lægst á öllum þeim sem sviðum sem skipta máli, heldur lang, lang, langneðst. Lesskilningur barna hefur ekki verið lakari í 12 ár. Skuldir borgarsjóðs hafa hækkað um milljarð á mánuði síðustu þrjú árin. Íbúða- og leiguverð hefur hækkað vegna skorts á byggingartækifærum í borginni. Færri íbúðir voru byggðar í Reykjavík á síðasta ári en í Mosfellsbæ. Engar atvinnulóðir eru til úthlutunar. Og leiguíbúðirnar 3.000 sem Dagur B. Eggertsson lofaði fyrir fjórum árum: Hvar eru þær? Svifryksmengun mælist hærri en í stórborgum enda eru götur sjaldan þrifnar. Tafatími í umferðinni hefur aukist um 26% á fjórum árum, enda er markvisst unnið að þrengingum auk þess sem borgin afþakkaði vegafé ríkisins síðustu fimm árin.

Björtu hliðarnar eru einkum þær að Reykjavík er eftirsótt ferðamannaborg, en það virðist vera að íbúarnir hafi gleymst í partíinu.

Þéttingarstefnan leiddi til fólksflótta úr Reykjavík

Það er gömul saga og ný að leiðin til heljar er stundum byggð á góðum ásetningi. Sumir segja helvíti vera fullt af góðum ásetningi en himnaríki góðum verkum. Núverandi meirihluti taldi sjálfsagt að þétting byggðar myndi stytta ferðatíma fólks. Fleiri myndu búa á sama stað og minna þyrfti að fara á milli.

Framkvæmdin misfórst hins vegar hrapallega og fáar íbúðir voru byggðar á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka. Á sama tíma og uppsöfnuð þörf var mikil svaf Reykjavík á verðinum, með þeim afleiðingum að íbúðaverð hækkaði hratt í borginni. Önnur sveitarfélög sýndu meiri fyrirhyggju og skipulögðu ný svæði til bygginga.

Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Árborg hafa vaxið hratt á síðustu árum en Reykjavík vex á hraða snigilsins undir 1% á ári.

Síðustu fimm ár hefur íbúum Reykjavíkur fjölgað um 4%. Á sama tíma hefur íbúum fjölgað um 11% í Kópavogi og Garðabæ, en heil 16% í Mosfellsbæ. Þéttingarstefnan skilaði allt öðru en að var stefnt. Fólk flutti annað. Í fyrsta sinn í lýðveldissögunni fjölgaði íbúum meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum: „Urbanisminn“ hopaði vegna þéttingarstefnu borgarinnar. Varla var það ætlunin. En svona geta góðar fyrirætlanir orðið að vondum útkomum.

Það er sagt að Sovétmenn hafi ákveðið að góð leið til að fá fólk til að eignast börn væri að gefa barnaföt. Það sem gerðist er að leigubílstjórar í Moskvu hættu að kaupa tvist og tuskur. Svona geta „góðar fyrirætlanir“ leitt okkur afvega. Það er líka athyglisvert að skoða samsetningu íbúa. Á síðasta ári fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 3.400 í Reykjavík en íslenskum ríkisborgurum fækkaði. Það er með eindæmum að á mesta hagvaxtarskeiði lýðveldisins skuli þróunin vera þessi í höfuðborg landsins. Við höfum ekki efni á að halda áfram á þessari vegferð lengur.

Umferðarteppa eins og í milljónaborg

Það er sérstök sveitarstjórn sem ekki vill fá fé frá ríkinu í vegi. Sérstakt samkomulag var gert árið 2012 um að veita skyldi vegafé ríkisins í almenningssamgöngur. Samningurinn var með mælanleg markmið um að hlutfall almenningssamgangna (strætó) skyldi fara úr 4% í 8% á tíu árum. Fimm árum síðar hafði hlutfallið farið úr 4% í … 4%.

Þrátt fyrir engan mælanlegan árangur (og marga ferðamenn þó í vögnunum) er áfram tekinn milljarður á ári af vegafé sem annars hefði farið í að bæta vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu. Þessi ákvörðun, ásamt því að þrengja að vegum með sérstökum aðgerðum, hefur þyngt umferðina gríðarlega. Í stað þess að takast á við þennan vanda með raunsæjum hætti hafa ráðamenn Reykjavíkur lagt upp með samfélagslega tilraun sem byggir á þeirri kenningu að færri bílastæði og færri akreinar leysi umferðarvandann.

Þessi tilraun hefur þegar afsannað kenninguna ítrekað en áfram er haldið á sömu braut. Það sem þarf er átak í samgöngumálum. Það þarf að fara í miklar endurbætur á vegakerfinu í Reykjavík. Ljósastýrðum gatnamótum þarf að fækka og tengingar eins og Sundabraut og Skerjabraut eiga að fá athygli á ný. Allt eru þetta mannanna verk og allt er þetta leysanlegt. Reykjavík á ekki skilið umferðarteppu á við Los Angeles. Við eigum að geta notið þess að hér búa ekki milljónir manna. Þessu þarf að snúa í góðu samstarfi við Vegagerðina. Það eru til skynsamlegar lausnir og fátt er arðbærara en bætt vegakerfi í þéttbýli.

Stjórnkerfi sem enginn skilur

Algengasta ráðið sem notað hefur verið í borgarstjórn síðustu fjögur árin er að skipa starfshóp. Þriðja hvern dag skipaði Dagur starfshóp. Á þremur árum tókst að setja á fót 351 starfshóp.

Og nú í febrúar var settur á nýr hópur: „Starfshópur um miðlæga stefnumótun.“ Í erindisbréfi starfshópsins segir um hlutverk hans:

„Hlutverk starfshópsins er að vinna að umbótum og samræmdri framkvæmd í stefnumótun og stefnuframkvæmd, einkum í miðlægri stjórnsýslu og miðlægri stefnumótun. Að fá bætta yfirsýn yfir þær miðlægu stefnur og stefnumarkandi skjöl sem eru fyrir hendi og tengingu við undirstefnur og áætlanir málaflokka. Jafnframt fá yfirsýn yfir þær aðferðir sem notaðar eru við miðlæga stefnumótun. Á grundvelli greiningarvinnu setji starfshópur fram viðmið um bestu framkvæmd við stefnumótun.“

Monty Python hefði ekki getað orðað þetta betur.

Umboðsmaður borgarbúa er eitt af mörgum embættum sem stofnuð hafa verið á síðustu árum. Þangað geta borgarbúar leitað og þá um leið trufla þeir ekki borgarfulltrúa eða borgarstjóra með kvabbi sínu. Aragrúi kvartana kemur á borð skrifstofu Umboðsmanns borgarbúa ár hvert. Þar sem Umboðsmaður hefur ekki úrskurðarvald skilar hann áliti eða frávísun til fólks sem leitar til embættisins. Umboðsmaður hefur þurft að leita til Reykjavíkurborgar um upplýsingar. Fram hefur komið að um 80 daga tekur fyrir Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar að svara spurningum Umboðsmanns.

Það má segja að kerfið finni þarna á eigin skinni það sem íbúar þurfa að búa við, enda er algengasta niðurlag fundargerða í borginni eitt orð; frestað.

Hvernig endurheimtum við forystuhlutverk Reykjavíkur?

Í vor, þann 26. maí næstkomandi, gefst íbúum tækifæri til að breyta um stefnu í borginni. Þá biður núverandi borgarstjóri um áframhaldandi umboð til 2022. Hann hefur stjórnað borginni óslitið í átta ár. Fyrst í samstarfi við Jón Gnarr og „Besta flokkinn“ en síðan með Bjartri framtíð, Pírötum og VG.

Kjósendur munu spyrja sig hvort umferðin hafi batnað eða versnað á síðustu fjórum árum. Þeir munu hugsa hvort húsnæðisverð hafi hækkað verulega og hvernig sé að leigja nú. Þá munu þeir velta fyrir sér árangri í skólamálum, skuldsetningu borgarsjóðs og hirðu borgarinnar.

Ef þeir eru sáttir við stöðu borgarinnar í þessum málaflokkum mun núverandi borgarstjóri sitja áfram. Ef þeir vilja gera betur og endurheimta forystuhlutverk Reykjavíkur hafa þeir einn kost: Sjálfstæðisflokkinn. Hann er eini flokkurinn sem hefur styrk og trúverðugleika til að takast á við þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað í borginni. X við D þýðir ekki bara líkur á stjórnarskiptum, heldur enn fremur og umfram allt; X við kjark til að taka til í kerfinu og leyfa fólki að eiga val. Að eiga val um búsetu. Að eiga val um fararmáta. Að eiga val í skólamálum. Forræðishyggja eða sjálfstæðisstefnan. Um það snúast þessar kosningar. Valkostirnir eru skýrir. Valið á að vera auðvelt.

Reykjavík þarf að vera raunhæfur valkostur fyrir ungt fólk. Reykjavík á að vera samkeppnishæf við þær bestu borgir sem við keppum við. Borgin á að vera nútímaleg, hagkvæm, umferðarvæn, öflug nýsköpunarborg og hrein.

Ég vil að Reykjavík sé fyrsti valkostur fyrir börnin mín þegar þau velja sér stað fyrir framhaldsnám eða störf. Ég vil að Reykjavík sé ekki bara fyrir ferðamenn, heldur fyrst og síðast fyrir íbúana. Ég vil að Reykjavík sé leiðandi á öllum sviðum. Borg sem býr nemendur undir framtíðina og þær miklu breytingar sem fram undan eru.

Þannig Reykjavík vil ég móta með þeim öfluga hópi sem prýðir D-listann í borgarstjórnarkosningunum í vor. Reykjavík getur verið frábær borg fyrir okkur öll, í öllum hverfum. Þannig Reykjavík vil ég sjá.

Höfundur er borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. 

  • Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.

 

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is