Oft gætir misskilnings þegar fjallað er um Ísland í erlendum fjölmiðlum. Íslenskar mýtur verða að staðreyndum í umfjöllun fjölmiðla. Oftast er þetta eitthvað sem við hlæjum yfir og er í raun saklaust. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum fyrir mörgum árum sat ég eitt sinn með hópi fólks sem bar undir mig furðulega hluti sem það hafði heyrt um landið. Til að rugla enn meira í því tókst mér að sannfæra nokkra sessunauta mína um að sumir Íslendingar byggju í snjóhúsum með lyftum og ættu ísbirni sem gæludýr.
En það eru ekki allar mýtur svona fjarstæðukenndar né fyndnar. Ein af mýtunum sem lifa um Ísland er að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi helstu bankamenn verið fangelsaðir og í kjölfarið hafi efnahagur landsins verið endurreistur. Erlendir fjölmiðlar hafa m.a. spurt stjórnmálamenn að þessu og sumir halda að önnur ríki hafi átt að taka Ísland sér til fyrirmyndar í þessum efnum.
Hið rétta er að nú, þegar tíu ár eru liðin frá hruninu, eru enn mál að velkjast um í réttarkerfinu. Það er átakanlegt – og í raun sorglegt – að vita til þess að enn eigi eftir að rannsaka, rétta og dæma í nokkrum af hinum svokölluðu hrunmálum. Þetta þýðir að menn eiga enn eftir að fá dóma og mögulega sitja af sér fyrir atburði sem áttu sér stað fyrir meira en tíu árum.
Það sem er enn sorglegra er að vita til þess að það er engin bremsa á tilteknum ríkisstofnunum og ef fer sem horfir hefur síðasti áratugur skapað afar slæmt fordæmi fyrir framtíðina. Vonandi leikur engin þjóð þetta eftir.
***
Við höfum ítrekað horft á það hvernig stofnanir á borð við Sérstakan saksóknara (sem nú heitir Héraðssaksóknari), Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa farið fram með offorsi gagnvart einstaklingum. Það þarf heldur ekki lögfræðing til að lyfta brúnum yfir sumum af þeim dómum sem hafa fallið hér á landi undanfarin ár. Menn hafa verið ákærðir fyrir eitt en dæmdir fyrir annað, menn hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir brot á óskráðum reglum, dæmdir fyrir auðgunarbrot án þess að hafa sjálfir hagnast á hinum meintu brotum og svo virðist sem hægt sé að teygja hugtök um umboðssvik út í hið óendanlega til að fá fram „rétta“ niðurstöðu í sumum þessara mála. Við þessa upptalningu má bæta við málum eins og Samherjamálinu svokallaða. Öllum má vera ljóst að þar fór Seðlabankinn fram með mikilli hörku, án þess að það hafi haft nokkrar afleiðingar fyrir þá opinberu starfsmenn sem stjórnuðu þeim aðgerðum.
Menn tóku greinilega mikið mark á orðum Evu Joly, sem sagði á sínum tíma sagði að það þyrfti að berjast gegn hvítflibbaglæpum „með óhefðbundnum hætti“.
***
Fjallað hefur verið um nokkur af þessum málum í bókum á borð við Andersen-skjölin og Gjaldeyriseftirlitið auk þess sem nokkrir lögmenn hafa tjáð sig um það hversu hart opinberar eftirlitsstofnanir hafa gengið fram. Sjálfsagt verður skrifað miklu meira um þetta. Sagan verður vonandi, að lokum, hinn eini réttláti dómari í þessum málum.
***
Tíminn er stór þáttur í þessu öllu saman. Þegar embætti sérstaks saksóknara var sett á fót sáu menn líklega ekki fyrir sér að það væri enn að reka mál gegn starfsmönnum bankanna um áratug síðar. Menn sáu líklega heldur ekki fyrir að skattgreiðendur þyrftu að dæla milljörðum króna í refsigleðiverkefni og líkast til hefur engan grunað að í krafti embættisins myndu starfsmenn þess fara fram með því offorsi sem þeir gerðu.
Í byrjun þessa árs var dómtekið mál gegn nokkrum af fyrrverandi starfsmönnum Glitnis. Þar ávarpaði Jóhannes Baldursson, fv. forstöðumaður markaðsviðskipta Glitnis, réttinn og sagði;
„Ég og fjölskylda mín sitjum nú í djúpri lægð. Ég er algjörlega kominn á botninn. Ég er á fimmtugsaldri, eignalaus og veit ekkert hverju ég stend frammi fyrir. Mig langar að horfa til framtíðar en sú óvissa sem ég hef staðið frammi fyrir hefur komið í veg fyrir það. Því spyr ég, virðulegi dómur, má ég ekki einhvern tímann fá að horfa til framtíðar? Hef ég ekki þegar hlotið næga refsingu?“
Jóhannes lýsir þarna aðstöðu margra þeirra sem störfuðu í bönkunum fyrir hrun og lentu síðar í klóm sérstaks saksóknara. Það hversu langan tíma það hefur tekið að rannsaka sum þessara mála hefur aldrei verið talið sakborningum til tekna. Það er hins vegar gert í öðrum sakamálum
***
Spurning Jóhannesar á rétt á sér. Hvenær hafa menn hlotið næga refsingu? Vissulega fóru margir illa út úr hruninu og töpuðu þar fjármunum (m.a. hæstaréttardómarar sem hafa dæmt í þessum málum) og sjálfsagt eru margir enn reiðir fyrir því. Það er hægt að sýna því fullan skilning. En réttlætir það áratuga meðferð hrunmála fyrir dómstólum?
***
Það er rétt að taka fram að enginn mér nákominn hefur verið dæmdur í hinum svokölluðu hrunmálum, ég á engra persónulega hagsmuna að gæta og mér er ekki í nöp við réttarkerfið sjálft.
***
Helsta ástæðan fyrir því að hér er fjallað um þessi mál er að sem fyrr segir hefur þetta skapað slæm fordæmi fyrir framtíðina. Í dag er nóg fyrir embætti og stofnanir að gera húsleit, senda frá sér tilkynningu, handtaka einhvern eða einfaldlega segja í fjölmiðlaviðtali að einhver tiltekinn aðili sé mögulega sekur um eitthvað. Jafnvel þó svo að viðkomandi verði aldrei ákærður eða dæmdur gengur hann hins vegar stórskaddaður frá borði en hinn opinberi starfsmaður getur hallað sér aftur í stólnum og byrjað að undirbúa næsta mál.
Ætli Samherjamálið, svo dæmi sé tekið, hafi nokkurn tíma valdið seðlabankastjóra svefnleysi?
***
En að öllu skemmtilegri málum. Þegar Þjóðmál fóru í prentun var ekki ljóst hvort íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kæmist áfram upp úr riðlakeppninni í heimsmeistarakeppninni í Rússlandi. Hvað sem því líður er árangur landsliðsins magnaður og ljóst að mikil vinna síðustu ára er að skila sér.
Það besta við þetta allt saman er að upplifa þau augnablik þar sem íslenska þjóðin stendur saman. Það gerist æ sjaldnar og því þarf maður að njóta þeirra stunda. Við getum þó unnið markvisst að því að fjölga þeim stundum.
Á hinum pólitíska vettvangi er hægt að ræða meira um málefni og minna um fólkið sem þar kýs að starfa. Við getum rætt um það hvort við viljum hærri eða lægri skatta án þess að gruna þann sem tekur þátt í umræðunni um græsku.
Alveg eins og við eigum að geta grætt á daginn og grillað á kvöldin, þá eigum við líka að geta tekist á um málefni á daginn en búið saman í sátt og samlyndi þegar við grillum á kvöldin. Þannig fjölgum við stundunum sem vert er að njóta.
Áfram Ísland!
Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála.
_______________________
Ritstjórnarbréfið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.
Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is