Að morgni dags þann 25. maí 1929 vöknuðu Íslendingar á björtum vordegi og lásu fréttir úr dagblöðum. Morgunblaðið greindi frá erlendum fregnum sem bárust undurhratt með þá nýrri tækni símskeyta, Knútur Zimsen var með orðsendingu um útsvarsmál, vinnudeila var á Siglufirði og á baksíðu var frétt um að tekist hefði með herkjum að nota þráðlausa talstöð í skipi við Ísland. Þá yrði rafmagnið tekið af Reykjavík í átta tíma vegna viðhalds og þótti eðlilegt. Auglýsingar snúa að bökunarvörum, fatnaði, leiksýningum og matvöruverslunum. Tilboð á eggjum í Drífanda.
Það var ekki fyrr en næsta dag að fluttar voru fréttir af stofnun Sjálfstæðisflokksins enda prentvélin aðeins ræst daglega.
Hvað hefur breyst?
Síðan eru liðin 90 ár. Maí er enn bjartur vormánuður, Morgunblaðið kemur enn út, símskeyti heita nú smáskilaboð, enn er deilt um útsvarsmál, verkföll eru boðuð og allir nota þráðlausar talstöðvar sem í dag heita símar. Rafmagnið er að vísu orðið stöðugt en skömmtun á heitu vatni var boðuð fyrir skömmu í Reykjavík. Enn eru auglýstar bökunarvörur og smásölufyrirtæki eiga flestar auglýsingar í fjölmiðlum. Egg eru sjaldan á tilboði og fást líklega ekki í Drífanda – en það má alltaf láta Bónus eða Hagkaup duga og verð þeirra hefur snarlækkað. Fréttir af nýjum stjórnmálaflokki berast nú samstundis enda prentvélin komin í vasa hvers manns – snjallsíminn.
Allt hefur breyst
Sumir gætu sagt að allt hefði breyst á þessum 90 árum. Stjórnmálaflokkar væru börn síns tíma og ættu ekkert erindi í nútímann. Nú væri tæknin allsráðandi og nútímafólk hefði ekki áhuga á því að taka sér stöðu með flokkum eða stjórnmálastefnum. Það væri ekki lengur slagur kommúnisma við frjálshyggju, stjórnmál væru gamaldags og hugmyndir skiptu ekki lengur máli.
Einhver tæki þá undir og segði að ungt fólk hefði ekki áhuga á stjórnmálum, það væri nóg um afþreyingu og að vandamálin væru svo breytt að gamalt tal um frjálst atvinnulíf og persónufrelsi væru tímaskekkja. Sitt sýnist hverjum og kannski væri það strámaður sem héldi öðru eins fram. En í þágu umræðunnar, hefur allt breyst?
Ekkert hefur breyst
Í heimi hugmyndanna, sem eru kjarni stjórnmálanna, hefur í raun ekkert breyst. Enn er tekist á um hlut ríkisins í lífi einstaklinga og rekstri fyrirtækja.
Skal stefnt að frjálsu atvinnulífi eða ríkisreknu? Skal stefnt að opnum landamærum eða lokuðum? Á að hefta innflutning til þess að vernda hóp framleiðenda á kostnað þeirra sem vilja kaupa vörurnar eða heimila frjáls viðskipti? Á duglegur einstaklingur að geta hafið rekstur innan dagsins eða eftir þrjú ár þegar hann hefur sótt um öll leyfin? Á forréttindahópur að njóta lögverndar eða eiga allir að fá að spreyta sig? Á ríkisnefndin sem allt telur sig vita að taka ákvörðun eða einstaklingarnir sem meta stöðuna hver fyrir sig?
Ekkert er sjálfsagt
Þessar spurningar, og ótal aðrar, eru eins lifandi og mest má vera. Það er sama hvar gripið er niður í dagblöðum fortíðar, eða netmiðlum nútímans, þar er tekist á um þessi efni. Sjónarmiðin eru ætíð þau sömu og njóta mismunandi stuðnings eftir tíðaranda.
Stundum eykst frelsið hröðum skrefum, þegar slíkar hugmyndir njóta brautargengis, en þess á milli eru tekin skref aftur á bak með auknum afskiptum ríkisins og heftandi lögum og reglugerðum sem hindra fólk í því að leita hamingjunnar á eigin forsendum.
Nýir tímar daglega
Það gerist eitthvað nýtt í heiminum á hverjum degi. Ný tæki og forrit opna óteljandi möguleika. Verð lækkar stöðugt vegna tækniframfara og lífsgæði hafa farið batnandi á Íslandi dag frá degi undanfarin 90 ár.
Eru þá ekki nýjar áskoranir á hverjum degi þar sem kynslóð morgundagsins tilkynnir um breyttar þarfir og breytta stöðu í stjórnmálum? Eflaust. En alltaf er svarið það sama. Á ríkið að leysa það eða einstaklingurinn? Er hinn nýi kjósandi áhugasamari um að ríkið ákveði örlög sín eða hann sjálfur? Ætlar hann að reka fyrirtæki til að selja nýjungar til nýja fólksins og ef svo er – vill hann hafa til þess fullt frelsi?
Annað sem er ekki síður athyglisvert er að sá sem stendur föstum fótum á góðri stefnu þarf ekki að takast á við nýja tíma með sérstökum hætti. Það er fólkið á hverjum tíma sem sér um útfærsluna. Stefnan er einföld og lýtur að frelsi. Hvað þarf að athuga, hvar þarf að sækja fram, hvaða rökræður þarf að vinna – þetta er dagsverk þeirra sem koma að Sjálfstæðisflokknum.
Ný frétt daglega
Þótt 90 ár séu að baki eru nýjar fréttir alltaf nýjar og áhugaverðar. Nútíminn er í vandræðum vegna offramboðs frétta og skemmtiefnis en fortíðin var í vandræðum vegna skorts í þeim efnum. Það er því ekki skrýtið að einföld sýn á nútímann sé sú að stjórnmálin séu í skugganum af skemmtiefni og ótal málum sem seint munu teljast þjóðþrifamál. Út frá þessu reynir svo einhver að alhæfa um áhugaleysi kynslóðanna og dauða hugmyndanna.
Fátt er þó eins fjarri sanni. Það sést best á því þegar stór mál eru til umfjöllunar í stjórnmálum. Þá er lækkað í tónlistinni og athyglinni beint að kjarna málsins. Þá reynir á – ríkið eða einstaklingurinn? Helsi eða frelsi.
Nýr Sjálfstæðisflokkur daglega
Veruleiki nýjunganna veldur því að endurnýjun í stjórnmálaflokkum sem helga sig tímalausum hugmyndum er stöðug. Einsmálsflokkar koma og fara. Skrumflokkar koma og fara. En hugmyndir eru komnar til að vera. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn sérstöðu sem tryggir honum daglega endurnýjun fylgjenda, flokksmanna, forystumanna og áhugasamra ungmenna sem velta fyrir sér hvernig best sé að kjósa með nýfenginn kosningaréttinn.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eru fjölmennustu samkomur landsins þar sem unnið er lýðræðislega að mótun stefnu sem felur í sér útfærslu á ótal atriðum í takt við grunnhugmyndir flokksins. Þar er tekist á og breytist stefna í ýmsum málum á milli funda.
Tíðarandinn situr fundinn rétt eins og frelsisandinn og sannast þar að allir eru velkomnir á landsfund. Unga fólkið heldur sig við frelsið og þrátt fyrir bölsýni þeirra sem telja stjórnmál úrelt er það unga fólkið sem hefur hæst og tekur slaginn um bætta framtíð.
Sé horft á höfðatölu ungmenna í stjórnmálahreyfingum virðist Sjálfstæðisflokkurinn, þrátt fyrir háan aldur, vera vinsælasti vettvangur unga fólksins með allar nýjungarnar til þess að koma að mótun stefnu fyrir land og þjóð sem lögð er fyrir kjósendur.
Tímalaus stefna
Til marks um styrk hugmynda í Sjálfstæðisflokknum er gott að grípa niður í fyrstu stefnumál flokksins sem kynnt voru í Morgunblaðinu daginn eftir stofndag flokksins fyrir 90 árum, þar sem sagði að flokkurinn ætlaði sér að gera tvennt, annars vegar að tryggja að Ísland tæki „að fullu sín mál í sínar eigin hendur“ og hins vegar að bæta úr innanlandsmálum á „grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum“.
Þannig var það sagt fyrir 90 árum. Hvað gæti átt betur við nú árið 2019 en grunnstef um sjálfsstjórn í utanríkismálum og einstaklingsog atvinnufrelsi innanlands?
Þessi einfaldi og sterki vegvísir Sjálfstæðisflokksins hefur staðið af sér veður og vind lengur en nokkur annar.
Gott lífshlaup
90 ár eru fljót að líða. Sá sem fæddist 25. mars 1929 er mögulega enn lifandi og gæti allt eins mætt á næsta landsfund og lagt þar orð í belg. Hann gæti hafa mætt á sinn fyrsta stjórnmálafund sem unglingur þar sem engin voru snjalltækin heldur haldnir málfundir. Hann heillaðist af hugmyndinni um frelsið, tækifærin og að geta elt hamingjuna á eigin forsendum. Stuðningurinn hélt svo áfram í gegnum öll hans æviskeið, þrátt fyrir síbreytilega sérhagsmuni unglings, námsmanns, einstaklings, launþega, fyrirtækjaeiganda, fasteignaeiganda, fjölskyldumanns eða eldri borgara.
Á hverju einasta stigi gat hann sagt; ég vil frekar taka þessa ákvörðun er varðar mitt líf en embættismaður sem ég hef aldrei hitt. Þegar hugmyndir eru sterkar og höfða til hjartans geta þær fylgt fólki í gegnum lífið. Eitt sinn var sagt að grunngildi Sjálfstæðisflokksins væru um margt eins og fjöllin – þau standa stöðug áratugum saman, taka á sig vind dag hvern en bjóða alltaf hverjum sem koma vill að leggja með sér á brattann og berjast fyrir betri tíð. Þegar það svo tekst og upp er komið er útsýnið gott. Eitt er víst, að fáar stefnur hafa haldið gildi sínu betur en sjálfstæðisstefnan á þeim 90 árum sem að baki eru.
Næstu 90 ár
Það má ljóst vera af því sem að framan segir að næstu 90 ár eru í senn óviss og spennandi en um leið fyrirséð. Barátta hugmyndanna heldur áfram þótt tískan breytist, leiðtogar komi og fari, fylgi fari upp og niður og nýjasta tækið sé alltaf margfalt merkilegra en það síðasta.
Hvað verður í fjölmiðlum ársins 2109 er erfitt að sjá fyrir sér. Ef eitthvað er að marka síðustu 90 ár verður þar fjallað um tíðindi frá öðrum löndum, skattamál, kjaramál og nýjustu tækni. Smásalar reyna að ná athygli lesenda með vörum sínum og vonandi verður áfram tilboð á eggjum einhvers staðar.
Úrslitaspurningin
Það má lengi spá í spilin og velta fyrir sér fortíð og framtíð. Hvað sem verður er eitt þó víst. Árið 2109 mun einhver leggja til að ríkið taki að sér verkefni í stað einkaaðila, einhver mun telja rétt að meira verði tekið af einstaklingum og fyrirtækjum til að fjármagna gæluverkefni, einhver mun biðja stjórnmálamenn um að vernda sig gegn samkeppni og enn annar mun leggja til að einhverjum verði bannað að leita hamingjunnar af því að það samræmist ekki tískunni, trúnni eða viðteknum venjum. Hver á þá að standa vörð um atvinnu- og einstaklingsfrelsi? Vonandi Sjálfstæðisflokkurinn.
Höfundur er aðstoðarmaður ráðherra og var formaður SUS á árunum 2015-2017.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019, undir greinaflokk um Sjálfstæðisflokk framtíðarinnar, sem birtur er í tilefni 90 ára afmæli flokksins . Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.