Vefsíðan Kjarninn greindi frá því í morgun að fjármálaráðuneytið hefði með einum tölvupósti komið í veg fyrir að Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor yrði ráðinn ritstjóri norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review.
Nú eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því að af hverju það er ekki hægt að gefa Þorvaldi meðmæli fyrir starfi, hvort sem er heima eða erlendis – en látum það liggja milli hluta. Þeir sem reiðastir hafa orðið geta velt fyrir sér hvernig viðbrögð þeirra hefðu orðið ef fjármálaráðuneytið hefði með meðmælum sínum tryggt Hannesi H. Gissurarsyni, Ragnari Árnasyni eða Birgi Þór Runólfssyni virðulegt starf á erlendum vettvangi. Sjálfsagt hefði sami hópur orðið reiður, bara ekki á sömu forsendum.
Ein af þeim sem bar reiði sína á torg var Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hún ritaði færslu um málið á facebook, en ekki hvað, og sagði að það væri nákvæmlega svona sem Sjálfstæðisflokkurinn starfaði.
„Ef þú ert ekki með þeim í liði þá ertu of pólitískur. Þetta gerir það að verkum að meginþorri lögmanna, hagfræðinga og annarra sérfræðinga um ýmislegt er varðað getur stjórnarhætti veigra sér við að tjá sig,“ sagði Helga Vala enn fremur og bætti því við að Sjálfstæðisflokkurinn hikaði ekki við að reyna að hafa störf af heiðvirðu fólki. Ekki liggur fyrir hvort hún átti samt við Þorvald í því samhengi.
Þá bar svo við að vefsíðan Kjarninn, sem seint verður sögð höll undir Sjálfstæðisflokkinn, greindi frá því síðdegis að ákvörðunin hefði ekki verið borin undir ráðherra né aðra á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins. Með öðrum orðum, hvorki Bjarni Benediktsson né nokkuð af hans nánasta samstarfsfólki hafði nokkuð með það að gera hvort að Þorvaldi yrðu veitt meðmæli eða ekki.
Þetta upphlaup Helgu Völu var því skot út í loftið og í raun stendur ekki steinn yfir steini.
Allt er þetta þó fyrirsjáanlegt, enda hefur hinn mæti formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, sagt opinberlega að Helga Vala sé hvatvís. Einhver kynni að halda að sá einstaklingur sem vill láta taka sig alvarlega sem lögfræðingur, sem Helga Vala er, vilji síst af öllu láta kalla sig hvatvísan en svo er þó ekki í þessu tilviki því þannig hefur hún sjálf lýst sér. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum fengu í dag að kynnast því hvernig hvatvísi hennar virkar. Dæmi eru svo sem fleiri, eins og þegar hún vildi láta kyrrsetja allar eigur stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins fyrir síðustu áramót án þess að fyrirtækið væri þá í formlegri rannsókn.