Uppnám meðal bandamanna – Katrín stjórnar mildilega

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, birti þessa mynd á Instagram-síðu sinni á meðan fundur leiðtoga G7-ríkjanna fór fram í Kanada. Myndin fór í kjölfarið sem eldur í sinu um netið. Á myndinni má sjá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sitja með krosslagðar hendur og svo virðist sem aðrir þjóðarleiðtogar séu að segja honum til syndanna.

Pólitískt uppnám innan Evrópusambandsins magnaðist í byrjun júní þegar mynduð var ríkisstjórn tveggja uppnámsflokka á Ítalíu, Fimmstjörnuhreyfingarinnar (langt til vinstri) og Bandalagsins (langt til hægri). Andúðin á Evrópusambandinu sameinar flokkana. Að tilhlutan sambandsins var spillt fyrir stjórnarmynduninni á Ítalíu með andstöðu við einstaka ráðherra sem tilnefndir voru til setu í stjórninni. Forseti Ítalíu gerði tilraun til að skipa utanþingsstjórn eftir að hafa hafnað ráðherralista forsætisráðherraefnis flokkanna. Leiðtogar þeirra létu þetta ekki aftra sér heldur kynntu ný ráðherraefni og stjórnin komst á laggirnar. Síðan hefur efnahagsráðherra hennar sagt að Ítalir þarfnist evrunnar.

Ítalir voru meðal sex stofnþjóða Evrópusambandsins, stofnsáttmáli þess frá 1957 er kenndur við Róm. Ítalska hagkerfið er þriðja stærsta á evrusvæðinu. Nú segjast 56% Ítala ekki bera „neitt traust“ til stofnana ESB og aðeins 34% „lýsa trausti“ í þeirra garð.

Þegar þessi niðurstaða lá fyrir skrifaði Peter Foster, Evrópuritstjóri breska blaðsins The Daily Telegraph, grein í blað sitt um það hvers vegna „frjálslynd miðja“ ESB væri að splundrast andspænis sókn popúlista (hér nefndir uppnámsflokkar).

Hann segir að uppnámsflokkar stjórni nú Póllandi, Ungverjalandi og Ítalíu. Breytingin á Ítalíu skipti þó mestu því að hún komi innan frá. Árum saman hafi jaðarríki myndað eins konar ramma utan um samrunaríkin í hjarta Evrópu – Pólland og Ungverjaland í austri og Bretland í vestri – uppnámið á Ítalíu hitti Evrópu hins vegar beint í hjartastað.

Það sé ekki unnt að hafa reiði Ítala að engu. Ráðamenn í Brussel og Berlín geti ekki eins auðveldlega þröngvað Ítölum til hlýðni og Grikkjum. Þetta hafi meðal annars sést af því að ekki tókst að neyða forseta Ítalíu til að skipa utanþingsstjórn. Þá óttist ráðamenn ESB svo mjög greiðsluþrot Ítala vegna mikilla erlendra skulda þeirra að það styrki stöðu nýju ríkisstjórnarinnar.

Foster bendir á að Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Emmanuel Macron Frakklandsforseta hafi ekki tekist að stilla saman strengi um aðgerðir til að styrkja samstarfið á evrusvæðinu. Hún kjósi aðgát en hann eigi mikið undir að ná skjótum árangri.

„Vandamál á Ítalíu, Merkel veiklaðri á síðasta kjörtímabili sínu í Þýskalandi og Macron forseti sem þarf á skjótum árangri að halda til að halda dampi, þetta er miðjan sem verður sífellt að meiri mauk. Ef til vill dugar ekkert annað en allsherjar upplausn til að hrinda af stað breytingum.“

Þetta og brexit segir Foster að séu vissulega alvarleg úrlausnarefni hitt sé verra fyrir ESB að skuldakreppan og straumur flótta- og farandfólks til álfunnar hafi veikt trúna á sambandinu. Það birtist í úrslitum kosninga æ víðar, úrslitum sem falli ekki að vilja frjálslyndra, ráðandi afla í Evrópu. Þau viti ekki sitt rjúkandi ráð.

Við þessi orð Peters Fosters má bæta að finni Þjóðverjar og Frakkar ekki sameiginlega niðurstöðu á stærstu úrlausnarefnum ESB og evrusvæðisins eykst hætta á spennu og óstöðugleika í Evrópusambandinu.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kynnti fyrir einu ári stórhuga hugmyndir sínar um breytingar á yfirstjórn evrusvæðisins. Hann fór hefðbundna leið ESB-samþróunarsinna og boðaði aukinn samruna með sameiginlegum fjármálaráðherra og skuldaábyrgð.

Angela Merkel Þýskalandskanslari barðist fyrir ári til sigurs í þýskum þingkosningum. Stjórnarmyndunin tók síðan um hálft ár og það var ekki fyrr en sunnudaginn 3. júní 2018 sem hún brást við hugmyndum Macrons á opinberum vettvangi. Ári eftir að hann kynnti hugmyndir sínar sló hún einfaldlega á puttana á honum.

Við óvissu í evrumálum bætist svo spennan í útlendingamálum innan ESB og Þýskalands sérstaklega. Nýja ítalska stjórnin hefur brugðist af hörku gegn straumi ólöglegra innflytjenda. Samhljómur er í málflutningi ráðamanna í Róm og Vínarborg í þessum efnum og nú hafa ráðamenn Bæjarlands, syðsta sambandslands Þýskalands, vegið að Angelu Merkel á heimavelli í útlendingamálunum.

II.

Við allan innri vanda Evrópusambandsins bætist nú hættan á viðskiptastríði milli ríkja Evrópu og Bandaríkjanna fyrir utan að fríverslunarsamtökin í Norður-Ameríku, NAFTA, stefna í upplausn.

Hér að ofan segir Foster að ef til vill dugi „ekkert annað en allsherjar upplausn til að hrinda af stað breytingum“ innan ESB. Heimsbyggðin öll hefur kynnst því á 18 mánuðum hverju forseti breytinganna, Donald Trump, hefur fengið áorkað. Hvað sem um persónuna Trump má segja hefur honum tekist að koma hlutum á hreyfingu – mörgum boltum hefur verið kastað á loft. Nú síðast neitaði hann að standa að yfirlýsingu leiðtoga G7-ríkjanna af því að hann taldi Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, móðga sig eftir fund leiðtoganna 9. júní.

Enginn veit hvar boltar Trumps lenda en vissulega myndi það hressa upp á andrúmsloftið í Evrópu yrðu mál tekin fastari og markvissari tökum og ekki beitt stjórnarháttum sem einkennast af því að hóta eða skamma aðildarþjóðir fyrir hvernig þær greiða atkvæði í kosningum og beita sér gegn því að lýðræðislegrar ákvarðanir nái fram að ganga.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti var fyrr í sumar í opinberri heimsókn í Austurríki þar sem hann sýndi á sér annan svip en birtist með innlimun Krímskaga árið 2014 eða eiturefnaárásinni á Skripal-feðginin í Salisbury á Suður-Englandi í mars 2018. Brot Pútíns á alþjóðalögum árið 2014 gagnvart Úkraínu varð til þess að vestræn ríki ákváðu að grípa til refsiaðgerða og Skripal-árásin leiddi til brottreksturs fjölda rússneskra sendiráðsmanna frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá hafa Rússar einnig blandað sér í innri stjórnmál vestrænna ríkja á laumulegan hátt til að hafa áhrif í kosningabaráttu eða þegar hitamál eru á döfinni í almennum stjórnmála- og þjóðfélagsmálum.

Áður en Pútín hélt til Austurríkis sagði hann í sjónvarpsviðtali:

„Það er ekki markmið okkar að sundra nokkru eða nokkrum í Evrópu. Þvert á móti kjósum við að sjá sameinað og blómlegt Evrópusamband vegna þess að Evrópusambandið er stærsti samstarfsaðili okkar í viðskiptum og efnahagsmálum. Eftir því sem vandamálin magnast innan Evrópusambandsins eykst áhættan og óvissan hjá okkur.“

Undanfarin misseri hafa flokkar með pólitísk tengsl við flokk Pútíns í Rússlandi komist til valda í Grikklandi, Ungverjalandi, Austurríki og á Ítalíu. Hvort þetta leiðir til þess að losað verði um þvinganirnar gegn Rússum kemur í ljós. Fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi vorið 2017 fór Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, andstæðingur Emmanuels Macrons í heimsókn til Rússlands til að árétta tengsl sín við Pútín og flokk hans.

Þegar rætt er um afstöðuna til Rússlands vill Donald Trump skapa sér sérstöðu gagnvart bandamönnum sínum eins og á svo mörgum sviðum. Hann sagði til dæmis á leið til G7-fundarins í Kanada að hann teldi að Rússar ættu að sitja fundinn og fjölga ætti að nýju í G8. Hin ríkin féllust ekki á þetta sjónarmið. Að því skuli hafa verið hreyft sýnir enn og aftur að í alþjóðastjórnmálum er fátt í föstum skorðum.

III.

Flokkaflóran hér á landi er fjölbreytt um þessar mundir. Sextán flokkar buðu fram til borgarstjórnar í Reykjavík laugardaginn 26. maí 2018. Því má velta fyrir sér hvort einhver íslensku stjórnmálaflokkanna hafi tileinkað sér utanríkisstefnu í ætt við skoðanir uppnámsflokkanna í Evrópu – flokkanna sem leggja áherslu á að rækta flokksleg tengsl við Pútín og félaga.

Engin slík skoðun kom fram þegar fyrsta utanríkismálaskýrsla Guðlaugar Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra var til umræðu á alþingi 13. apríl 2018.

Í framsöguræðu sinni sagði ráherrann meðal annars:

„Eftir fall Sovétríkjanna var frekar tíðindalaust, ef svo mætti að orði komast, í öryggismálum í norðurhöfum og Norður- Evrópu, jafnvel svo að bandarísk stjórnvöld ákváðu að flytja varnarlið sitt á brott frá Íslandi. Nú eru aftur á móti óvissutímar í öryggismálum í Evrópu sem bregðast þarf markvisst við.

Efnavopnaárásin í enska bænum Salisbury í upphafi marsmánaðar er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar. Árásin hefur kallað á samstilltar aðgerðir Vesturlanda. Norðurlöndin, mörg samstarfsríki í Atlantshafsbandalaginu og ýmis aðildarríki Evrópusambandsins ákváðu að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum.

Ríkisstjórn Íslands ákvað, í samráði við utanríkismálanefnd, að taka þátt í þessum aðgerðum og hefur öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verið frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi á komandi sumri.“

Í skýrslu utanríkisráðherra segir einnig

„Sértækar og mjög afmarkaðar þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi í kjölfar átaka í Úkraínu og innlimunar á Krímskaga árið 2014 eru áfram í gildi, sem og gagnaðgerðir rússneskra stjórnvalda sem fela í sér mun víðtækara innflutningsbann á matvæli. Enda þótt hér ræði um veigamikil atriði, sem setja strik í reikninginn í samskiptum þjóðanna, hafa íslensk stjórnvöld leitast áfram við að stuðla að góðum samskiptum við Rússland, m.a. í svæðisbundnu samstarfi líkt og innan Norðurskautsráðsins.“

Þessi afstaða endurspeglar afstöðu allra þingflokka ef marka má sjónarmið sem kynnt voru í umræðunum um skýrslu ráðherrans á þingi.

Þarna er minnst á bannið sem Rússar settu á innflutning íslenskra matvæla. Var sambærilegt bann sett á fleiri Evrópulönd. Á það hefur verið bent með banninu útiloki Pútín rússneskan almenning frá erlendum matvælum sem hækkað hefðu um 43% vegna gengisfalls rúblunnar um það leyti sem hann greip til þessara ráðstafana. Hækkunin hefði valdið miklu meiri vandræðum innan Rússlands en samdráttur í gæðum og fjölbreytni með banni á innflutning.

Bannið við sölu á fiskafurðum geta Rússar helst nýtt sér til áhrifa í íslenskum stjórnmálum. Í umræðunum um skýrslu utanríkisráðherra á þingi vakti enginn máls á nauðsyn þess að gera ráðstafanir til að bæta tengslin við Rússa. Sjaldgæft er að raddir um það heyrist, þó öðru hverju í blaðagreinum. Þannig spurði Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, í grein í Morgunblaðinu 9. júní: „Er það að minnsta kosti ekki umræðunnar virði hér eins og í Þýskalandi, hvort við séum á réttri braut?“ með því að halda Rússum utan G7 og beita þá refsiaðgerðum.

Fyrsta skilyrði í umræðum um þetta eins og annað á heimavelli er að átta sig á inntaki málsins. Íslenski sendiherrann í Moskvu getur beitt sér fyrir sölu á hátæknibúnaði í þágu fiskveiða og fiskvinnslu til Rússlands. Að selja fisk þangað ræðst af afstöðu Pútíns – hann setti bannið og getur einn aflétt því.

Vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu hafa rússnesk stjórnvöld orðið að opna land sitt meira gagnvart öðrum þjóðum en áður. Verði varanleg stjórnmálaleg áhrif af mótinu ættu þau að leiða til opnari og frjálslegri samskipta við aðrar þjóðir – að Rússar skilji að þeir séu ekki umsetnir óvinaþjóðum sem vilji hirða af þeim land þeirra.

IV.

Stærstu tíðindin í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí 2018 voru fall meirihluta Samfylkingarinnar, VG, Bjartrar framtíðar og Pírata í Reykjavík. Samfylkingin, flokkur Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, missti 6% af fylgi sínu frá 2014.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í höfuðborginni í fyrsta sinn frá kosningunum 2006 með 30,8% atkvæða. Flokkurinn bætti við sig 5,1% frá kosningunum 2014.

Samfylking, VG, Píratar og Viðreisn mynduðu nýjan meirihluta í Reykjavík þriðjudaginn 12. júní. Viðreisn er þar í stað Bjartrar framtíðar en að loknum kosningum sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, að Viðreisn mundi selja sig dýrt í viðræðum um meirihluta í einstaka sveitarfélögum.

Viðreisn kom í stað Bjartrar framtíðar (BF) í Hafnarfirði og Kópavogi en BF sat þar í meirihluta með sjálfstæðismönnum á síðasta kjörtímabili. Í báðum bæjarfélögunum ákváðu sjálfstæðismenn að stofna nú til meirihluta með framsóknarmönnum. Annaðhvort hefur Viðreisn viljað selja sig of dýrt eða mönnum hugnast ekki samstarf við flokkinn í þessu kjördæmi þar sem Þorgerður Katrín sat á sínum tíma sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sjálf býr hún í Hafnarfirði.

Egill Helgason álitsgjafi hefur löngum haft tengsl inn í raðir ráðandi afla vinstri manna í borgarstjórn Reykjavíkur og studdi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á sínum tíma, þá Jón Gnarr og loks Dag B. Eggertsson. Hann sagði í pistli sínum á Eyjunni föstudaginn 8. júní:

„Þá er það spurningin um hver verður borgarstjóri. Sá kvittur hefur komist á kreik að Viðreisn hafi í krafti oddastöðu sinnar krafist þess að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði borgarstjóri. Það gæti orðið dálítið glæfraspil, einhverjum kynni jafnvel að finnast það bera vott um græðgi.“

Vissulega má kenna það við „græðgi“ að menn selji sig dýrt. Dagskipun formanns Viðreisnar til fótgönguliða sinna var hins vegar skýr. Borgarstjórastóllinn er hæsta verð fyrir myndun meirihluta í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson sagði að hann ætlaði sér borgarstjóraembættið og fékk það. Viðreisn sló af kröfunni og tók að sér að verða uppfyllingarefni í stað Bjartrar framtíðar sem orðin er að engu.

V.

Nú er lokið fyrsta þingi undir forsæti VG bæði í ríkisstjórn og á alþingi. Það hefur greitt fyrir þingstörfum að Steingrímur J. Sigfússon er forseti alþingis en ekki með hnefann á lofti í ræðustól fyrir framan forsetastólinn.

Samkomulag tókst um lok þingstarfa fimmtudaginn 7. júní. Það ræðst af afstöðu forsætisráðherra hverju sinni hvernig staðið er að þinglokum. Hvort látið sé reyna á afl meirihlutans til að knýja fram lyktir mála eða leitað samkomulags. Nú voru fyrstu þinglok undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Það er í anda alls stjórnarsamstarfsins að leitað var samkomulags á þingi.

Þegar það er kallaður veikleiki í stjórnmáladálkum Morgunblaðsins að samið sé um þinglokin endurspeglar það þá staðreynd að Davíð Oddsson, ritstjóri blaðsins, vildi ekki neina slíka samninga sem forsætisráðherra. Annað andrúmsloft ríkir í stjórnmálunum nú en þá. Katrín Jakobsdóttir færði skynsamleg og sannfærandi rök fyrir afstöðu sinni. Sama hafa forsætisráðherrar allra tíma að sjálfsögðu leitast við að gera.

Framganga Katrínar og málflutningur er meginstyrkur flokks hennar. Sé vegið að henni innan flokksins vegna forsætis hennar í ríkisstjórninni er ekki aðeins grafið undan trausti á stjórninni heldur undan VG-flokknum sjálfum.

Af vettvangi stjórnmálanna birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.