Landbúnaður nýrra tíma og forystuhlutverk Sjálfstæðisflokksins

Nú eru alþingiskosningar í nánd. Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn mæti þar til leiks með vandaða, vel ígrundaða og framsækna stefnu í umhverfis- og landbúnaðarmálum. Með því getum við tekið forystu meðal þjóða á sama tíma og við styrkjum innlenda verðmætasköpun á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Svavar Halldórsson.

Grundvöllur þeirrar velmegunar sem Íslendingar búa við á 21. öldinni er nýting náttúruauðlinda með hugviti, dugnaði og athafnafrelsi. Ekki eru margar kynslóðir síðan landbúnaður var undirstaða búsetu í landinu. Sjávarútvegur tók svo yfir sem mikilvægasta atvinnugreinin og stórstígar framfarir þar komu þjóðinni inn í nútímann. Skynsamleg nýting orku og margvísleg nýsköpun í þjónustu, framleiðslu og skapandi greinum hefur svo bætt lífskjör okkar síðustu áratugi.

Lykillinn er farsæl stefna sem byggir á blöndu af djörfung og íhaldssemi, þar sem leiðarljósið er að öflugt atvinnulíf sé undirstaða velferðar og samhjálpar. Við mótun hennar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í lykilhlutverki, enda hefur hann frá upphafi verið forystuafl í íslensku þjóðlífi og hryggjarstykkið í innlendum stjórnmálum.

Samfara þessu mikla kapphlaupi atvinnugreinanna hefur líka orðið viðhorfsbreyting á ýmsum sviðum. Þetta hefur endurspeglast í áherslum Sjálfstæðisflokksins í einstökum málum sem hafa þróast í tímans rás, þótt grunnstef sjálfstæðisstefnunnar sé ávallt það sama. Sífellt aukinn áhugi er nú á umhverfismálum innan flokksins, sem er mjög í anda þess sem stofnendur og fyrstu forystumenn hans lögðu upp með fyrir nærri öld.

Úrelt viðhorf gamalla tíma

Breytingum síðustu áratuga hafa stjórnvöld um allan heim reynt að mæta með ýmsum hætti. Offramleiðslu og kjötfjöllum var sums staðar mætt með kvótakerfum og uppkaupum hins opinbera. Í öðrum tilfellum voru það beinir framleiðslustyrkir og tollar sem voru viðbragðið. Víðast er þó um að ræða blöndu af þessu öllu saman. Nú er svo komið að heimurinn er bundinn í viðamikið net alþjóðlegra samninga, bandalaga og regluverks sem myndar flókna umgjörð um landbúnað og viðskipti með landbúnaðarafurðir. En ný viðhorf hafa rutt sér til rúms á allra síðustu árum.

Þessi nýju viðhorf snúa að því að styðja við það sem smærra er í sniðum, gæta að menningarlega mikilvægum matarhefðum og líffræðilegum fjölbreytileika, leggja áherslu á fjölskyldubú, lífræna ræktun, umhverfismál og svo mætti áfram telja. Þessa nýju nálgun 21. aldarinnar mætti vel kalla hringrásarviðhorf. Áherslan er jöfnum höndum lögð á gæði, hreinleika, siðlega búskaparhætti og umhverfið. En verð er ekki ráðandi þáttur, þótt það sé vissulega eitt af því sem horft er til.

Eldri nálgunina, þar sem megináhersla er á lágt verð á matvælum, mætti að sama skapi kalla 20. aldar viðhorf, þótt þau séu enn ríkjandi víða. Þetta kerfi kristallast í trú á stórtæka framleiðslu eða verksmiðjubú, lágt verð, notkun á erfðabreyttum lífverum (GMO) og ýmsum efnum og í sumum tilfellum áherslu á einhliða niðurfellingu tolla. Því miður eru margir íslenskir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn enn fastir í þessum gömlu viðhorfum verksmiðjubúskapar. Þá skiptir engu máli hversu mjög þeir reyna að hylja sig klæðum frjálslyndis, alþjóðasamstarfs eða nútímalegra viðhorfa. Verksmiðjufnykurinn fer ekki milli mála.

Ný landbúnaðarstefna á forsendum umhverfismála

Þessir tveir meginstraumar takast á í allri matvælaframleiðslu og stefnumótun á Vesturlöndum. Hið sama gildir á Íslandi. En nánast hvert sem litið er í veröldinni, sérstaklega í Evrópu, sjáum við að hringrásarviðhorfið er smátt og smátt að hafa betur í baráttunni við sjónarmið verksmiðjubúskapar. Áhersla á umhverfismál, lífræna ræktun, sérstöðu og uppruna verður sífellt veigameiri í allri stefnumótun Evrópusambandsins í matvælaframleiðslu og landbúnaði.

Á Íslandi er líka kominn tími til að móta nýja landbúnaðarstefnu þar sem matvælaframleiðsla og umhverfismál eru tvinnuð saman. Slík stefna þarf að vera framsækin, háleit og raunhæf. Grundvallaratriðið ætti að vera að allur opinber stuðningur við landbúnað sé bundinn við mælikvarða umhverfis- og dýravelferðar. Þannig má greiða fyrir aukinni verðmætasköpun á grundvelli sjálfbærni, sérstöðu og velferðar. Umhverfið, bændur og neytendur munu njóta þessa.

Helstu þættir nýrrar umhverfis- og landbúnaðarstefnu ættu að lúta að kolefnisfótspori, eitur- og varnarefnanotkun, landnýtingu, endurvinnslu og dýravelferð. Gefa má bændum og framleiðendum nokkurra ára aðlögunartíma, en á endanum verði kerfið þannig að enginn matvælaframleiðandi fái nokkurs konar fyrirgreiðslu frá hinu opinbera án þess að það sé bundið skilyrðum sem tengjast umhverfismálum og dýravelferð.

Ísland gæti orðið leiðandi í lífrænni ræktun

Um þrjátíu ár eru síðan Danir settu sér ítarlega og metnaðarfullu stefnu um lífræna framleiðslu. Markið var sett á að verða í fremstu röð hvað varðar bæði framleiðslu og neyslu á lífrænum vörum. Nú er svo komið að Danmörk er í forystu í veröldinni í neyslu á lífrænt vottuðum matvörum og í fararbroddi í framleiðslu. Frændur okkar Svíar sigla þar á eftir en Íslendingar reka lestina af Norðurlandaþjóðunum samkvæmt nýlegri skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar, hvort sem er í neyslu eða framleiðslu.

Aðeins eitt og hálft prósent af ræktarlandi hérlendis er vottað sem lífrænt en meðaltal Norðurlandanna er um 14%. Samkvæmt nýjustu tölum er lífrænt vottað ræktarland í veröldinni komið vel yfir sjötíu milljónir hektara. Næstum helmingurinn er í Ástralíu. Til samanburðar er allt það land sem flokka mætti sem gott ræktarland á Íslandi rúm hálf milljón hektara. Lífrænt vottaðar vörur njóta vinsælda hjá neytendum vegna þess að þær eru almennt góðar, ekki síst fyrir umhverfið.

En verðið til framleiðenda er líka oft á tíðum talsvert hærra. Markaður fyrir lífrænt vottaðar afurðir vex líka hratt og var fyrir Covid kominn yfir sem nemur 13 þúsund milljörðum króna á heimsvísu. Til samanburðar er velta alls íslensks landbúnaðar á bilinu 60 til 70 milljarðar á ári. Stærsti markaður fyrir lífrænar afurðir í veröldinni er í Bandaríkjunum en í öðru og þriðja sæti eru Þýskaland og Frakkland. Þau tvö ríki þar sem neysla á lífrænum vörum er mest á hvern íbúa eru Danmörk og Sviss.

Breyttar aðstæður kalla á breytta nálgun

Aukin meðvitund um heilsu og heilbrigði gerði það að verkum að sala á lífrænum matvælum óx hraðar árið 2020 en nokkru sinni fyrr. Ekkert land í veröldinni þarf líklega að taka eins fá og stutt skref eins og Ísland til þess að verða forysturíki í lífrænni framleiðslu. Vart þarf að fjölyrða um hver hagurinn yrði af því, enda sýna öll tiltæk gögn að verðmæti lífrænnar framleiðslu er umtalsvert meira en sambærilegrar framleiðslu sem ekki hefur slíka vottun. Rannsóknir sýna að verðið getur verið 20% til 200% hærra, fyrir utan að mikill skortur er á lífrænt vottuðum matvörum á helstu mörkuðum og því varla erfitt að koma þeim í verð ef rétt er að verki staðið.

Ein af stóru ástæðum þess að lífræn framleiðsla á Íslandi er jafn lítil og raun ber vitni er sú að hér á landi hefur aldrei verið unnin nein alvöru stefnumótun á þessu sviði og opinber stuðningur við þennan búskap er í skötulíki. Íslendingar þyrftu ekki að finna upp hjólið til að ná forystu meðal þjóða á þessu sviði. Horfa mætti til Dana, Svía og Ástrala um fyrirmyndir og markmið.

Fyrrnefnd ríki hafa öll lagt mikinn metnað í að hjálpa bændum við að skipta yfir í lífræna ræktun, efla vitund neytenda með fræðslu og setja ákveðið hlutfall lífrænna afurða sem reglu í opinberum innkaupum. Evrópusambandið stefnir að því að 25% ræktarlands verði lífrænt vottuð árið 2030 en Danir stefna á 30%. Ísland gæti hæglega sett sér markmið um 40% á sama tímapunkti ef vilji væri fyrir hendi.

Velferðarsamningar í íslenskum landbúnaði

Á Íslandi eru tugir fyrirtækja sem flokka má sem afurðafyrirtæki í landbúnaði. Hér er átt við mjólkurbú og -framleiðslufyrirtæki, stór og smá sláturhús, kjötvinnslur, ullarfyrirtæki og svo mætti áfram telja. Undirritaður þekkir vel til margra þessara fyrirtækja og flest leggja þau mikla áherslu á fagmennsku og gæði. Sum þeirra hafa gengið á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum, eins og til að mynda Sölufélag garðyrkjumanna, sem hefur kolefnisjafnað allan flutning frá bónda í búð.

Sum þessara afurðafyrirtækja hafa sýnt umhverfisábyrgð á annan hátt. Sláturfélag Suðurlands var í forystu þeirra sem hættu að flytja inn fóðurbæti sem innihélt afurðir stórtæks eiturefnalandbúnaðar. Eftir að sauðfjárbændum tókst að fá í gegn bann við notkun á slíkum afurðum í sínum ranni hefur innflutningur á þeim dregist verulega saman. Nú er svo komið að réttast væri að setja blátt bann við notkuninni og undirstrika þar með enn betur hreinleika og sérstöðu íslensks landbúnaðar. Þannig myndi hið opinbera standa staðfastlega vörð um vörumerkið Ísland.

Nú færist í vöxt að erlendar afurðastöðvar geri sérstaka dýravelferðarsamninga við þá bændur sem þær eiga í viðskiptum við. Enn sem komið er þó aðeins eitt íslenskt afurðafyrirtæki sem gerir velferðarsamninga við alla sína bændur. Vel færi á því að slíkt yrði að meginreglu og forsendu opinbers stuðnings við búgreinar. Breytingar í þessa veru myndu bæta stöðu íslenskra bænda, sjávarútvegs og þjónustugreina sem skapa verðmæti úr hreinleika og ímynd Íslands. Þar með væru samkeppnishæfni, raunverulegt athafnafrelsi og tækifæri til verðmætasköpunar í íslensku atvinnulífi aukin til muna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur forystuhlutverk

Íslendingar munu aldrei geta unnið í alþjóðlegri samkeppni við ódýra matvælaframleiðslu í ríkjum þar sem eftirlit með efnanotkun er lítið og dýravelferð í skötulíki. En það er hins vegar ekki þar sem við eigum að keppa. Við eigum að skapa verðmæti úr okkar styrkleikum. Hér hefur verið rakið í mjög grófum dráttum hvernig ný landbúnaðarstefna á Íslandi gæti litið út. Meginatriðið er að hlúa að matvælagreinunum með því að tvinna saman matvælaframleiðslu og umhverfismál. Slík stefna er mjög í anda klassískrar sjálfstæðisstefnu en svarar um leið kalli tímans.

Verið væri að taka skref til aukinnar verðmætasköpunar og hreinleika en í burtu frá verksmiðjubúskap og eiturefnanotkun. Stefnan hvílir á þeirri trú að almenningur sé tilbúinn að styðja við bakið á bændum og íslenskri matvælaframleiðslu ef á móti séu gerðar skýrar kröfur á hendur bændum um að þeir fylgi ströngustu reglum um dýravelferð, hreinleika og umhverfismál.

Nú eru alþingiskosningar í nánd. Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn mæti þar til leiks með vandaða, vel ígrundaða og framsækna stefnu í umhverfis- og landbúnaðarmálum, á þeim nótum sem hér hefur verið rakið. Með því getum við tekið forystu meðal þjóða á sama tíma og við styrkjum innlenda verðmætasköpun á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt. Sjálfstæðisflokkurinn gæti með þessu náð enn betur til yngri aldurshópa, áhugafólks um umhverfið og þeirra sem telja að skynsamleg uppbygging innlendra atvinnuvega sé farsælt veganesti til framtíðar.

Stefna af þessu tagi er til þess fallin að ýta undir verðmætasköpun á grundvelli framtaks og athafnafrelsis, sem myndi með tíð og tíma draga verulega úr þörfinni fyrir opinberan stuðning við íslenskan landbúnað.

Höfundur er sérfræðingur í matarmenningu, stefnumótun og markaðsmálum.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.