Tíu hlutir sem unnendur vindla þurfa að vita

Áhugafólk um vindla kaupir oft vindil og lætur hann bíða, líkt og gert er með vín, þar sem geymslan dreifir sýrustiginu í tóbakinu og gefur vindlinum blæbrigðaríkari persónuleika. Rétt er að taka fram að það er hægt að geyma vindil í áratugi í réttu hita- og rakastigi. Það er ekki hægt að ná vindli sem hefur ofþornað til baka í fullum gæðum.

Það er mikið ferli sem á sér stað áður en maður á þess kost að klippa, kveikja í og reykja uppáhaldsvindilinn sinn. Vindlaheimurinn er aftur á móti fullur af fjölbreyttum valkostum, stundum misvísandi skilaboðum og enn fleiri skoðunum um það hvað er góður vindill og hvað ekki. Allt þetta getur verið ruglingslegt, jafnvel fyrir áhugafólk um vindla. Bandaríska vindlatímaritið Cigar Aficionado hefur tekið saman tíu atriði sem allt áhugafólk um vindla ætti að kynna sér. Umfjöllunin hér byggir á úttekt blaðsins og er til þess fallin að gera upplifunina við vindlareykingar enn betri.

1. Vindlar eru náttúruleg vara sem krefst vandaðs handverks

Það er vinsælt að nota orð á borð við náttúrulegt og handverk, svo vinsælt að það er auðveldlega hægt að gengisfella hugtökin. Það er þó ekki tilvikið með vindla, því þeir eru hvort í senn handgerðir og náttúrulegir. Það má því með réttu nota hugtökin um þessa úrvalsvöru. Allir góðir vindlar eru gerðir úr einu hráefni, tóbaki, og engin efnafræðileg blöndun á sér stað. Í raun má segja að fáar neysluvörur séu jafn náttúrulegar, því engum bragðefnum er bætt við vindla. Þau bragðefni sem neytendur upplifa, sem og litur vindlanna, eru til komin með ólíkum ræktunarleiðum og lífrænu ferli. Vindlar innihalda engin rotvarnarefni og engin sætuefni, ólíkt því sem gerist með sígarettur og fjöldaframleidda smávindla.

Hvað handverkið varðar er ákveðin list fólgin í því að handvefja vindil. Það tekur fagmenn nokkur ár að ná réttum tökum á verkinu, enda er blöndun tóbaks álíka mikil list og hún er vísindi. Tóbak er háð duttlungum náttúrunnar og handverksmaðurinn þarf því að búa yfir eiginleikum til að vinna með ólíka afurð ár frá ári, rétt eins og við vandaða víngerð. Eins og vín eru sumir árgangar betri en aðrir en fagfólk í vindlagerð gerir þó það sem það getur til að tryggja jöfn gæði og samhæfingu. Eins og með aðrar handunnar vörur eru engin tveir vindlar nákvæmlega eins, og fínustu vindlarnir búa yfir náttúrlegri tjáningu á handverki framleiðandans og þess jarðvegs sem tóbakið var ræktað í.

2. Tvö hundruð snertingar

Það má ætla að áður en vindillinn lendir í vindlakassanum þínum hafi um 200 manns, jafnvel fleiri, komið að því að búa hann til. Þannig að í hvert skipti sem þú kveikir þér í vindli getur þú hugsað til þess að fjölmargir einstaklingar með fjölbreytta hæfileika og þekkingu á vörunni hafa lagt sitt af mörkum til þess að þú getir notið þeirrar upplifunar sem vindlareykingar færa.

Fyrst þarf að velja réttan jarðveg og planta fræjum (oftast í gróðurhúsi), sem síðan eru flutt út á akur þegar plantan er komin í rétta stærð. Laufin eru tínd af með höndunum og síðan hengd til þerris, þar sem þau síðan breyta um lit og verða brún. Þannig hefur fjöldi manns komið að gerðinni áður en tóbaksplantan fer frá þeim stað þar sem hún er ræktuð.

Tóbakinu er síðan pakkað niður og hrúgað upp fyrir gerjun. Þegar gerjun er lokið er tóbakinu í hrúgunni dreift á þurrkgrindur. Síðan er því pakkað aftur og geymt til öldrunar. Eftir nokkur ár er eldra tóbakið tekið upp aftur, þurrkað í sérstöku þokuherbergi og flokkað eftir lit. Þarna er enn meira handverk. Ytri umbúðablöðin eru í kjölfarið verkuð þar sem lífæðin er þurrkuð af laufinu. Það er oftast gert með berum höndum en stundum í vélum.

Þá kemur að því að vefja, en því fylgir vandað ferli þar sem verkamenn handleika rétt hlutfall af tóbakslaufum með tilliti til aldurs og gæða. Allt er þetta gert með berum höndum og felur í sér enn fleiri handtök. Samsetning vindilsins er mjög nákvæm og gefur hverri tegund sérstakan blæ.

Fullunnum vindlum er raðað eftir litasamkvæmni og síðan eru þeir sendir í sérstakt öldrunarherbergi. Að lokum er þeim pakkað og þeir sendir frá framleiðandanum. Þetta er í grunninn sú tímalína sem lýsir því hvernig vindlar verða til. Samhliða þessu ferli fara fram ýmsar gæðaprófanir og framleiðendur fylgja ólíkum vinnuferlum en allir eiga vindlarnir það sammerkt að vera unnir í höndunum. Að baki hverjum vindli er því gríðarlegur fjöldi af handtökum sem krefjast mikillar þekkingar á öllum stigum.

Tóbakslaufum er raðað í stórar hrúgur, sem í S-Ameríku kallast pilónes, þar sem þau gerjast. (Mynd: David Yellen)

3. Tóbak í gerjunarferli

Rétt eins og vín þarf tóbaksplantan að gerjast. Svokölluð örvunargerjun losar tóbakið við óæskilega eiginleika á borð við beiskju með samsetningu þrýstings, vatns, raka og náttúrulegs hita. Eina ástæðan fyrir því að tóbak fer í gegnum gerjun er sú að það gerir tóbakið bragðbetra, enda hefur gerjunarferlið áhrif á bragðið og lyktina af tóbakinu, tekur beiskjubragð úr því og býr til sætara bragð.

Gerjun er í raun frekar einföld. Eftir að tóbakinu hefur verið raðað í hlöðu til þerris er laufunum raðað í stóra hrúgur (sem í S-Ameríku kallast pilónes). Vatni er bætt við í skömmtum en þyngd hrúganna framleiðir þrýsting á meðan ensím- og örverudreifingin framleiðir hitann. Þetta ferli er kannað daglega og vel fylgst með hitastiginu. Á ákveðnum tímapunkti, þegar hitastigið er orðið nægilegt, er hrúgan tekin í sundur, henni snúið við og raðað aftur í hrúgu. Ferlið ræðst að einhverju leyti af stærð plantnanna. Tóbaksblöðin gerjast á mismunandi hraða en reynt er að gera hverja þrúgu eins einsleita og hægt er. Tilgangurinn er að breyta bragði tóbaksins á náttúrulegan hátt, breyta því úr hráu og bitru bragði í eitthvað sem hægt er að reykja. Það er oft sterkt eftirbragð af vangerjuðu tóbaki og það getur lyktað eins og ammoníak. Þessu ferli er ekki hægt að flýta eða sleppa og er það mikilvægt í heimi úrvalsvindla.

4. Aldur skiptir máli

Aldur tóbaksins skiptir miklu máli, bæði áður en vindillinn er framleiddur og eftir. Laufið eldist ekki aðeins áður en því er vafið í vindil, heldur er nýr vindill í flestum tilfellum sendur aftur í öldrunarherbergi þar sem rakastig hans jafnast. Áður hefur laufunum verið pakkað í þétta böggla þar sem náttúruleg efnaskipti draga fram æskilega eiginleika tóbaksins eins og hér hefur verið rakið. Líkt og í lífinu sjálfu gefur hærri aldur þroska og fágun og losar tóbakið við grænmetisbragð og lykt. Hið fullkomna bragð snýst ekki bara um það hvaða bragð maður finnur, heldur hvaða bragð maður finnur ekki. Ef tóbak bragðast eins og nýslegið gras eða hráar grænar baunir hefur tóbakið ekki fullþroskast fyrir notkun.

Það er líka ákveðin öldrun sem á sér stað hjá neytandanum sjálfum. Áhugafólk um vindla kaupir oft vindil og lætur hann bíða, líkt og gert er með vín, þar sem geymslan dreifir sýrustiginu í tóbakinu og gefur vindlinum blæbrigðaríkari persónuleika. Rétt er að taka fram að það er hægt að geyma vindil í áratugi í réttu hita- og rakastigi. Það er ekki hægt að ná vindli sem hefur ofþornað til baka í fullum gæðum.

5. Samsetning vindilsins

Vindill samanstendur af þremur meginþáttum: umbúðum, bindiefni og fylliefni. Umbúðirnar eru sýnilega ytra kápublaðið. Það er líka dýrasti hlutinn, þar sem þessi tóbakslauf þurfa að vera hrein í útliti og bragðmikil. Ef laufið er of bláæða, gróft í áferð eða með lýti er það ekki nýtt í umbúðir.

Bindiefnið getur verið kápublað sem ekki var talið nægilega gott til að vera umbúðir, er ekki jafn mjúkt viðkomu og þarf þess heldur ekki, þar sem það sést ekki. Bindiefnið heldur tóbakinu á réttum stað. Bruni bindiefnisins er mikilvægur, þar sem það hjálpar fylliefninu að brenna með jafnari hætti.

Það er síðan í fylliefninu sem hver framleiðandi getur leikið sér og látið sköpunargleðina ráða ferðinni. Fylliefnið má vera samsett úr tóbaki frá mismunandi svæðum – jafnvel mismunandi löndum – og fjölbreyttum tóbakstegundum til að fá fram ákveðið bragð, styrk og fjölbreytni. Líkt og með umbúðir og bindiefni er fylliefninu ætlað að brenna hægt og rólega.

Annar endi vindilsins er kallaður fótur, þar sem fylliefni er venjulega sýnilegt. Hinn endinn kallast höfuð og er oftast lokaður með loki, sem hjálpar til við að halda umbúðum á sínum stað. Það hvernig gengið er frá lokinu við höfuðið segir mikið til um hæfni þess sem vafði vindillinn. Því betur og fagurlega sem það er gert, því meiri eru hæfileikarnir.

Góð smíði er aftur á móti lykilatriði við gerð vindils. Vindill sem ekki brennur rétt mun skemma upplifunina og skemma bragðið, burtséð frá því hversu gott fylliefnið er.

Vindill samanstendur af þremur meginþáttum: umbúðum, bindiefni og fylliefni.

6. Að klippa og kveikja eins og fagmaður

Handvafðir vindlar eru ekki tilbúnir til notkunar, enda þarf að skera við höfuð þeirra með fínum hætti. Fólk kann að velja sér ólíka kveikjara og vindlaklippur en þó eru nokkrar algildar grundvallarreglur. Það má til dæmis ekki skera of mikið af höfðinu á vindlinum. Ef umbúðirnar losna við skurðinn er búið að klippa of mikið. Á betri vindlum er oftast þunn lína við lokið, kölluð öxl (e. shoulder), og það er ágætt að venja sig á það að klippa við þá línu – en alls ekki neðar.

Þegar um er að ræða torpedo- og pyramid-vindla, sem eru með mjórri höfuð en aðrir vindlar, þarf að gæta þess að klippa á réttum stað. Ástæðan fyrir mjórra höfði er bæði hagnýt og fagurfræðileg, þeir passa betur í munnvik og líta vel út. Það er flóknara að vefja þannig vindla og það krefst allt í senn þekkingar, reynslu og hæfni. Vinnan við þá vindla er meiri og þeir eru jafnframt dýrari. Það felst því mikil sóun í því að klippa þá á röngum stað, það minnkar gæðin og dregur úr upplifuninni – svona fyrir utan að það lítur ekki vel út. Ef maður sker hins vegar of lítið getur myndast tjara við höfuðið þar sem loftstreymið er of lítið, og það viljum við forðast. Maður finnur þó strax hvort maður hafi klippt of stutt, en það er betra að klippa of stutt en of mikið – því það má alltaf klippa aðeins meira.

Það má líkja því að kveikja í vindli við að grilla sykurpúða. Það þarf að gæta þess að halda snertingu logans í lágmarki en of mikil snerting getur ofhitað vindilinn og skemmt bragðið af honum. Ef kveikt er í vindli utandyra þarf að gæta þess að vindurinn gefi loganum ekki of mikið súrefni, því það mun líka hita vindilinn of mikið. Við skulum muna að við erum að kveikja í vindli sem þarf að brenna jafnt og þétt, ekki að reyna að búa til áramótabrennu.

7. Að reykja af yfirvegun

Vindlar eru til að njóta og það er engin ástæða til að flýta sér að klára vindil. Sumt fólk dregur of mikið af vindlinum, sem vissulega skemmir upplifunina. Taktu þér bara þinn tíma og njóttu þess að reykja vindilinn.

Ef maður dregur of mikið af vindlinum er hann einnig líklegur til að ofhitna. Þá missir hann bragðeiginleika sína og verður bitur. Það er erfitt, eiginlega ómögulegt, að ná bragðinu til baka jafnvel þó að maður hægi á reykingunum.

Vel vafinn vindill brennur jafnt og þétt og gefur frá sér réttu bragðeinkennin. Það gilda engar reglur um það hversu lengi vindill á að endast, en þumalputtareglan er sú að fimm tommu vindill (tæpir 13 cm) á að duga í að minnsta kosti 45 mínútur. Ef þú klárar slíkan vindil á tíu mínútum ertu að reykja hann eins og sígarettu, sem eru stór mistök. Það að draga létt á um 30 sekúndna fresti er við hæfi.

Svo er það hitt, að það að reykja vindilinn of hægt getur líka haft neikvæðar afleiðingar. Þá er hætt við því að loginn í vindlinum slökkni og það þarf að kveikja í honum aftur – jafnvel oftar en einu sinni. Það að þurfa að kveikja ítrekað í sama vindlinum getur líka skemmt bragðeinkenni hans og gert bragð hans biturt. Það er ekkert að því að þurfa af og til að kveikja aftur í vindli, en ekki ítrekað.

Það er líka ágætt að leyfa öskunni að hanga á vindlinum eins lengi og hægt er. Askan hefur hlutverki að gegna, hún jafnar hitann í vindlinum og lágmarkar snertingu logandi tóbaks við súrefni. Gæðavindlar eru samsettir úr heilum laufum, ekki niðurskornu tóbaki, og þau lauf eru þannig byggð að askan getur hangið lengur en þig grunar.

8. Veldu vindilinn vandlega

Það er ágætt að kynna sér styrkleika eða bragðeinkenni þegar kemur að vali á vindlum. Þú þarft ekki að þekkja hverja tóbakstegund til að taka upplýsta ákvörðun um val á vindli, en það er ágætt að kynna sér grundvallarþætti um vindilinn sem þú vilt kaupa.

Flestir fólk veit fyrir fram hvort það vill sterkan, meðalsterkan eða mildan vindil. Bragð og styrkleiki fara þó ekki alltaf saman. Það er til dæmis hægt að kjósa bragðmikinn vindil án þess að hann sé sterkur og öfugt. En rétt eins og sumir vilja sterkt kaffi í espresso-skotum vilja sumir sterka vindla. Grundvallarreglan er sú að dekkra tóbak er sterkara (þó ekki endilega bragðmeira), en litur tóbaksins ræðst allt í senn af ræktun, staðsetningu og meðhöndlun.

Það er því oftast hægt að meta styrkleika vindlanna út frá útliti þeirra, þá sérstaklega lit, en það er ekki algilt. Það er þó mjög auðvelt að nálgast þær upplýsingar sem þarf, flestir smásalar luma á þeim upplýsingum eða þær liggja fyrir á netinu.

9. Kúbverskir eru ekki endilega bestir

Áhugafólk hefur lengi – og mun áfram – deila um það hvaða vindlar eru bestir. Það er auðvitað engin leið til að ákvarða það, enda ræðst það af smekk hvers og eins.

Oftast snýr umræðan þó að því hvort kúbverskir vindlar séu bestir eða ekki. Sum vilja ekkert annað sjá, en öðrum kann að finnast kúbverskir vindlar ofmetnir. Það er alveg óhætt að halda því fram að kúbverskir vindlar séu frábærir, en þeir eru ekki einu vindlarnir sem sitja á þeim stalli. Fjölmargir vindlar frá Níkaragva, Dóminíska lýðveldinu og Hondúras skora hátt í einkunnagjöf áhugafólks um vindla og gefa þeim kúbversku oft ekkert eftir. Almennt eru þetta hágæðavindlar, hver með sínum hætti.

10. Verð og gæði

Það er ekki sjálfgefið að dýrari vindlar feli í sér meiri gæði. Í blindum prófunum skora ódýrari vindlar oft hærra en þeir dýrari, en rétt eins og með upprunalandið sem fjallað var um í síðasta punkti ræðst það af smekk hvers og eins.

Handvafinn vindill sem unninn er úr hágæðaefni, vandaðri ræktun og af reynslumiklu fólki á þó ekki að vera ódýr. Aftur á móti geta aðrir þættir haft áhrif á verð, bæði til lækkunar og hækkunar, svo sem hversu umfangsmikil tóbaksræktunin er á hverju svæði, svo tekið sé dæmi. Tóbaksplöntur eru ólíkar eftir svæðum og gæði þeirra eru mismikil. Að sama skapi vaxa tóbaksplöntur mishratt og gerjun þeirra getur verið mishröð. Það að geyma tóbaksplöntur lengi felur í sér kostnað og sá kostnaður leggst, eðlilega, á vöruna.

Það eru tilvik þar sem hátt verð vindla skýrist af öðrum og handahófskenndum þáttum, til dæmis þar sem búið er að upphefja tiltekna tegund með auglýsingum eða áhrifavöldum. Slíkt er illa séð af unnendum hágæðavindla. Það þurfa að vera löggildar ástæður fyrir háu verði vindla og þær ástæður eru oftast fyrir hendi. Útlit, brennsla, lykt og bragð geta haft áhrif en í langflestum tilvikum skýrist verð af framleiðsluþáttum eða aðferðum.

Að lokum

Eins og áður hefur komið fram er engin leið að ákveða fyrir aðra hvaða vindlategund er best. Besta leiðin til að finna uppáhaldsvindil sinn er að prófa nógu marga. Þeir sem ekki vilja verja fjármagni í slíkan leiðangur geta þó fljótt fundið vindil sem hentar þeim bæði með tilliti til upplifunar og verðs. Það er þó hægt að eyða fjármagni í margt annað og vitlausara en þessa miklu hágæðavöru sem felur í sér bæði slökun og góða upplifun.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála og áhugamaður um vindla.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.