Vinnusvik vandlætarans

Skjáskot af vef Kjarnans.

dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Ljósmynd: VB/BIG

Í hugleiðingu einni um fræðilegar falsanir og svik sparar Jón Ólafsson heimspekingur ekki stóru orðin: „Svikin, hvers kyns sem eru sögð vera, eru einfaldlega vinnusvik. Hvort sem um er að ræða vísindamenn á tilraunastofum sem búa til niðurstöður eða laga þær, höfund sem grautar heimildum sínum saman á óskipulegan hátt svo að hann veit á endanum ekki sjálfur hvað hann hefur skrifað og hvað er eftir aðra, loddara eða falsspámenn: Sviksemi er alltaf styttri leið að niðurstöðu en samviskusemi. Í stað þess að eyða jafnvel mestum hluta tíma síns í að prófa tilgátur og niðurstöður er því sem tiltækt er og virðist nokkurn veginn í lagi einfaldlega slengt fram.“1

Ég veit ekki um neinn íslenskan fræðimann, sem þessi lýsing á betur við um en Jón sjálfan. Hann hefur í skrifum sínum um kommúnistahreyfinguna íslensku oft valið „styttri leið að niðurstöðu en samviskusemi“, eins og hér skulu nefnd nokkur dæmi um.

Brellur Jóns Ólafssonar

Í árslok 2020 varð ritdómur eftir mig í Morgunblaðinu Jóni Ólafssyni tilefni til harðrar árásar á mig í Kjarnanum fyrir „geðvonsku, smásmygli og öfund“, þótt hann nefndi að vísu ekki eitt einasta dæmi um að ég færi rangt með.2 En hann sagði af mér sögu. Hann kvaðst hafa verið nemandi í Menntaskólanum í Hamrahlíð endur fyrir löngu, þegar ég hefði komið þangað til að andmæla sósíalisma. Ég hefði haft á reiðum höndum tilvitnanir í kenningasmiði marxismans og jafnvel nefnt blaðsíðutöl.

„Hins vegar vildi svo einkennilega til að þegar samviskusamir menntaskólanemar fóru að leita uppi tilvitnanirnar þá reyndist erfitt að finna þær. Það var ekki fyrr en löngu síðar að einhver benti mér á að hversu snjallt þetta mælskubragð væri – að nefna blaðsíðutöl út í loftið – því þannig fengju áheyrendur á tilfinninguna að ræðumaðurinn gjörþekkti textana sem hann vitnaði í eftir minni. Og þótt einhver færi að grufla í bókunum á eftir, þá breytast fyrstu hughrif ekki svo auðveldlega.“3

Svo vill til að ég man vel eftir þessu. Ég hafði vitnað í fræg ummæli Levs Trotskíjs í Byltingunni svikinni: „Í landi, þar sem ríkið er eini atvinnurekandinn, er stjórnarandstæðingurinn dæmdur til hægs hungurdauða.“ Sósíalistarnir á fundinum efuðust um að rétt væri eftir haft og nefndi ég þá blaðsíðutalið. Ástæðan var einföld. Nokkru áður hafði ég háð kappræðu við Halldór Guðmundsson, þá æstan trotskíista og síðar ráðsettan bókaútgefanda. Hann hafði efast um að Trotskíj hefði sagt þetta. Ég hafði haft þetta úr bók Friedrichs von Hayeks, Leiðinni til ánauðar, en þar hafði ekkert blaðsíðutal verið nefnt.4 Ég gerði mér þess vegna ferð á bókasafn, fór yfir bók Trotskíjs og fann tilvitnunina á blaðsíðu 283 í frumútgáfunni frá 1937.5 Þess vegna hafði ég nú blaðsíðutalið á reiðum höndum.

Hér er það ekki ég, heldur Jón, sem beitir mælskubragði. Ég nefni mörg önnur dæmi um brellur Jóns í svari mínu í Kjarnanum.6 Hann virðist lítt hafa þroskast frá því að hann sat fundinn í Norðurkjallaranum í Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir fjörutíu árum.

Firrur Jóns Ólafssonar

Firrur eru hugmyndir sem standast bersýnilega ekki; ganga þvert gegn þeim veruleika sem við höfum fyrir augunum eða gegn röklegri hugsun. Nokkrar slíkar firrur getur að líta í verkum Jóns Ólafssonar um sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar. Ein þeirra er að þeir 23 Íslendingar sem kommúnistaflokkurinn íslenski sendi á leyniskóla Kominterns, Alþjóðasambands kommúnistaflokka, í Moskvu árin 1929–1938 hafi ekki fengið neina teljandi hernaðarþjálfun.7 Rök Jóns fyrir þessu eru að engin gögn séu til um það. En sú ályktun er röng af tveimur ástæðum. Samkvæmt námskrám og frásögnum annarra hlutu allir nemendur í þessum skólum þjálfun í undirbúningi byltingar, þar á meðal í vopnaburði, skipulagningu götuóeirða, fölsun vegabréfa og annarra gagna, meðferð ólöglegs fjarskiptabúnaðar og notkun dulmáls. Þurft hefði sérstaka heimild um undanþágu íslensku nemendanna frá því námi til að rökstyðja ályktun Jóns.8 Í öðru lagi greindu nokkrir íslensku nemendanna einmitt frá því að þeir hefðu fengið þjálfun í vopnaburði, þar á meðal Andrés Straumland, Benjamín H.J. Eiríksson og Helgi Guðlaugsson.9 Tók einn nemandinn meira að segja þátt í borgarastríðinu á Spáni, Hallgrímur Hallgrímsson.10

Önnur firra Jóns er að haustið 1938 hafi Sósíalistaflokkurinn verið stofnaður í andstöðu við Komintern. Heimild hans er minnisblað sem einn starfsmaður Kominterns sendi yfirmanni sínum, þar sem hann lýsti efasemdum um stofnun flokksins.11 En þetta innanhússplagg jafngilti ekki neinni ákvörðun Kominterns. Allt bendir til þess að Komintern hafi látið sér vel líka stofnun Sósíalistaflokksins. Kommúnistaflokkar Danmerkur og Svíþjóðar sendu heillaóskaskeyti við stofnunina og ég fann í skjalasafni Sósíalistaflokksins bréf frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista í Moskvu til Æskulýðsfylkingarinnar, sem tók við af Sambandi ungra kommúnista, þar sem lýst er ánægju með stofnun fylkingarinnar og starfsskrá.12 Óhugsandi hefði verið að allt þetta hefði verið gert í andstöðu við Komintern, sem laut öflugu miðstjórnarvaldi. Engin merki neins ágreinings sjást heldur í samskiptum íslenskra sósíalista við hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu frá öndverðu. Um er að ræða augljósa ofályktun. Ein fjöður verður að fimm hænum.

Gloppur Jóns Ólafssonar

Brynjólfur Bjarnason (Billinn) og Hendrik Siemsen Ottósson (Sillinn) standa lengst til hægri á mynd af ungum fulltrúum á Komintern-þinginu 1920. Forseti Alþjóðasambands ungra kommúnista, Willi Münzenberg, situr fjórði frá hægri, en frá honum segir Halldór Laxness í Skáldatíma og Arthur Koestler í Guðinn sem brást. Hugo Sillén (sem Jón Ólafsson ruglaði saman við Sillann) stendur fimmti frá hægri. Stalín lét síðar myrða að minnsta kosti þrjá af þessum fulltrúum, þar á meðal Münzenberg, en Brynjólfur og Hendrik voru gallharðir kommúnistar til hinsta dags.

Það má kalla gloppur í verkum fræðimanna þegar þar vantar mikilvægar staðreyndir, ýmist af vangá eða vanþekkingu, svo að samhengi slitnar. Ein versta gloppan í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna er í frásögn hans af fundi Einars Olgeirssonar í Moskvu í október 1945 með Georgí Dímítrov, yfirmanni alþjóðadeildar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna (sem tók 1943 við af Komintern). Jón segir: „Ekki er ljóst af dagbókarfærslu Dimitrovs hvað þeim Einari fór á milli en þó hefur Einar rætt við hann um möguleika á viðskiptum landanna því að Dimitrov hefur skrifað hjá sér að Einar ætli sér næsta dag að hitta Anastas Mikojan, utanríkisviðskiptaráðherra.“13 En samkvæmt dagbók Dímítrovs sjálfs 25. október 1945 bað Einar „um ráð um afstöðu flokksins og ríkisstjórnarinnar til stofnunar bandarískra herstöðva (flugvalla o.s.frv.) til tjóns fyrir sjálfstæði Íslands, svo og um íslensk flokksmálefni“. Auðvitað hlutu þeir Dímítrov og Einar að ræða nýlega herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem var mál málanna á Íslandi, en ráðstjórnin í Moskvu var einnig líkleg til að láta sig hana miklu varða. Dagbókarfærsla Dímítrovs kom fram á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík 1998, ári áður en Jón gaf út bók sína, og vakti mikla athygli.14 Ég spurði Jón eitt sinn hvers vegna hann hefði ekki getið um þetta, og kvað hann það hafa verið einfalda yfirsjón. Hvort sem þetta var tilraun til blekkingar eða yfirsjón var þetta stór galli á bók hans, alvarleg gloppa.

Margar aðrar gloppur eru í verkum Jóns en hér nefni ég aðeins eina. Hann segir frá Veru Hertzsch, þýskum kommúnista, sem flust hafði til Moskvu og eignast barn með Benjamín H.J. Eiríkssyni, þegar hann var þar á leyniskóla. Hreinsanir Stalíns stóðu sem hæst í desember 1937, þegar hún skrifar í bréfi til Benjamíns: „Greve hefur líka verið handtekinn.“ Jón kveður ekki ljóst hver Greve væri.15 En Richard Greve var ritstjóri blaðsins sem Vera starfaði við, og mynd er af honum og æviágrip í einni þeirra bóka sem Jón vitnar í.16 Hann var handtekinn í nóvember 1937 og síðar tekinn af lífi.

Skekkjur Jóns Ólafssonar

Í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna er mikið um firrur, gloppur og villur. Þar er líka talsvert um skekkjur, en þær má kalla ástæðulausa ónákvæmni og ómarkvissa frásögn. Jón fer til dæmis iðulega rangt með nöfn bóka og manna. Ófriður í aðsigi eftir Þór Whitehead verður að Óveðri í aðsigi, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras breytist í Sólmyrkva í Eystrasaltslöndum, Haavard Langseth verður að Haavard Langeseth, Olav Vegheim að Olaf Vegheim og William Gallacher að William Callagher.17

Tímatal Jóns er einnig losaralegt. Hann segir að Langseth hafi komið til Íslands 1928 og 1929, en hann kom hvorugt það ár til Íslands, svo vitað sé, heldur árið 1930. Hann upplýsir að þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna hafi verið háð í mars 1956, en það stóð frá 14. til 24. febrúar.18 Jón fullyrðir að bréf frá Einari Olgeirssyni til Kominterns hafi verið sent snemma í ágúst 1938, en það er dagsett 21. ágúst.19 Jón staðhæfir að Finnland hafi fengið sjálfstæði 1918, en það gerðist í desember 1917.20 Þessi skekkja hefur slæðst inn í bók eftir Kjartan Ólafsson.21 Jón segir einnig að vetrarstríð Finna og Rússa hafi hafist haustið 1939, en það hófst um hávetur, í nóvemberlok 1939, eins og nafnið sýnir.

Meinlegasta skekkja Jóns er þegar hann skýrir frá bréfi sem sent var frá Íslandi til Stokkhólms í janúar 1921, en undir það er skrifað „Sillinn“. Jón dró þá ályktun að hér væri á ferð sænski kommúnistinn Hugo Sillén og væri athyglisvert hversu snemma erlendir kommúnistar létu sig varða hina íslensku hreyfingu!22 En bréfritarinn var auðvitað Hendrik S. Ottósson, sem gekk undir nafninu „Sillinn“ meðal vina sinna.23 Þessi skekkja hefur slæðst inn í bók eftir Þorleif Friðriksson.24

Jón reynir að gera lítið úr slíkum leiðréttingum og kvartar undan „smásmygli“ minni og „geðvonsku“. En flestar þessar villur eru ekki meinlausar prentvillur, heldur stafa þær af hirðuleysi. Jón nennir ekki að standa upp frá tölvu sinni og fletta upp í bókum.

Villur Jóns Ólafssonar

Íslenskir námsmenn á leyniskólum Kominterns í Moskvu með Einari Olgeirssyni 1931. Frá vinstri: Eyjólfur Árnason, Jens Figved, Einar, Andrés Straumland, Þóroddur Guðmundsson og Jafet Ottósson. Þeir hlutu þar þjálfun í vopnaburði, skipulagningu götuóeirða, dulmálssendingum og annarri byltingarstarfsemi. Sú þjálfun kom þeim að góðum notum í óeirðum og uppþotum á Íslandi, eins og Þór Whitehead rekur í Sovét-Íslandi: Óskalandinu.

Ég hef nefnt hér ýmsar brellur, firrur, gloppur og skekkjur í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Iðulega þjóna þær þeim tilgangi að gera lítið úr ofbeldiseðli hreyfingarinnar og tengslum við alræðisherrana í Mosku. En sumar villur Jóns virðast tilgangslausar. Hann segir til dæmis svo frá för Hendriks Ottóssonar og Brynjólfs Bjarnasonar á annað þing Kominterns 1920: „Ferðalangarnir þurftu að fara norður alla Svíþjóð og yfir landamæri Noregs til Rússlands. Þaðan svo aftur suður á bóginn, fyrst til Petrograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“25

En samkvæmt frásögn Hendriks, sem ástæðulaust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaupmannahöfn til Stokkhólms til að ná í gögn og farareyri hjá erindreka Kominterns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaupmannahafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Murmansk. Var þetta hin mesta svaðilför. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landamærum Noregs, því að þeir höfðu ekki fararleyfi þangað, og þaðan til Rússlands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þingsins í Pétursgarði, því að það hafði þá verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þingið og eru þess vegna ekki á skrá um þingfulltrúa, þótt þeir tækju fullan þátt í störfum þingsins.

Margar villur eru líka í frásögn Jóns af MÍR, Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, sem Jón kallar stundum ranglega Menningarsamband.26 Jón segir um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök enduðu með því að Kristinn E. Andrésson missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu.“27 Þessu var þveröfugt farið. Andstæðingar Kristins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu. Eftir að Sigurvin Össurarson, Adolf Petersen og fleiri menn úr Reykjavíkurdeild MÍR höfðu haustið 1958 upplýst rússneska erindreka um að þeir vissu af fjárhagslegum stuðningi Moskvumanna við MÍR varð órói í félaginu. Beittu forystumenn Sósíalistaflokksins sér fyrir því að Reykjavíkurdeild MÍR væri tekin úr höndum þessara manna á aðalfundi hennar 26. febrúar 1960. Þeim tókst ætlunarverk sitt. Varð Árni Böðvarsson formaður félagsdeildarinnar í stað Sigurvins, og annar bandamaður Kristins, Þorvaldur Þórarinsson, tók sæti í stjórninni. Einn þeirra manna sem felldir voru úr stjórn, Adolf Petersen, skrifaði um þetta í blöð.28 Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA-skýrslunni, sem Jón Ólafsson vitnar sjálfur í.29 Kristinn E. Andrésson og aðrir forystumenn Sósíalistaflokksins réðu alla tíð yfir sjálfum heildarsamtökunum, enda varð Kristinn forseti MÍR á eftir Halldóri Laxness 1968.

Vinnusvikin bitna á öðrum

Jón Ólafsson hefur valið sér það hlutverk hin síðari ár að vera einhvers konar siðapostuli yfir íslensku þjóðinni. Hér hef ég hins vegar tekið nokkur dæmi um óvönduð vinnubrögð hans á sviði þar sem ég þekki nokkuð til, eftir að hann réðist á mig fyrir „geðvonsku, smásmygli og öfund“.30 Í stað þess að sannreyna staðhæfingar er í verkum Jóns „því sem tiltækt er og virðist nokkurn veginn í lagi einfaldlega slengt fram“, svo að vísað sé til lýsingar hans sjálfs. En gallinn er sá að þessi losaralegu vinnubrögð, sem Jón myndi sjálfur kalla vinnusvik, bitna á þeim sem lesa verk hans í góðri trú. Villur frá honum slæðast inn í rit annarra. Fræg eru ummæli Árna Magnússonar handritasafnara: „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorir tveggju nokkuð að iðja.“31

Jón Ólafsson hefur svo sannarlega séð um að þeir sem skrifa um kommúnistahreyfinguna íslensku þurfa ekki að vera iðjulausir.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Tilvitnanir:

  1. Jón Ólafsson, Fölsuð fræði. Stuldur, svindl og uppspuni í vísindasamfélaginu, Ritið, 4. árg. 3. hefti (2004), bls. 106. 2. Hannes H. Gissurarson, Vaknað af draumi, Morgunblaðið 10. desember 2020. Ritdómurinn var um bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika (Reykjavík: Mál og menning, 2020). Jón tók upp þykkjuna fyrir Kjartan, þar sem hann hafði verið aðalyfirlesari hans. 3. Jón Ólafsson, Hver getur best gert upp við kommúnismann? Kjarninn 14. desember 2020. https://kjarninn.is/skodun/2020-12-14-hver-getur-best-gert-upp-vidkommunismann/ 4. Friedrich A. Hayek, The Road to Serfdom (London: Routledge & Kegan Paul, 1976 [1944]), bls. 89.
  2. Leon Trotsky, The Revolution Betrayed: What is the Soviet Union and Where is it Going? Þýð. Max Eastman (London: Faber & Faber, 1937). Byltingin svikin: Hvað eru Sovétríkin og hvert stefna þau? þýð. Erlingur Hansson (Reykjavík: Skrudda, 2020).
  3. Hannes H. Gissurarson, Brellur, firrur, gloppur, skekkjur og villur í verkum Jóns Ólafssonar, Kjarninn 14. febrúar 2021. https://kjarninn.is/skodun/2021-02-12-brellur-firrur-gloppur- skekkjur-og-villur-i-verkum-jons-olafssonar/
  4. Jón Ólafsson, Í læri hjá Komintern, Ný saga, 9. árg. (1997), bls. 4–15; Kæru félagar (Reykjavík: Mál og menning, 1999), bls. 52. Sbr. Hannes H. Gissurarson, Í þjálfunarbúðum byltingarmanna. Íslendingar í Lenínskólanum og Vesturskólanum í Moskvu, Þjóðmál, 4. árg. 4. hefti (2008), bls. 70–86.
  5. Þór Whitehead, Sovét-Ísland: Óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð, 1921–1946 (Reykjavík: Ugla, 2010), bls. 99 og áfram. Sbr. um hernaðarþjálfun í skólunum Niels Erik Rosenfeldt, Verdensrevolutionens generalstab. Komintern og det hemmelige apparat (København: Gads Forlag, 2011).
  6. Um Andrés Straumland: Þjóðskjalasafn. Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar. Einkasafn Andrésar Straumland. 01 1/3. Dagbók 1930. Um Benjamín Eiríksson: Hannes H. Gissurarson, Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða (Reykjavík: Bókafélagið, 1996), bls. 129. Um Helga Guðlaugsson: Ólafur Grímur Björnsson, Hallgrímur Hallgrímsson, Súlur 32. árg. 45. hefti (2006), 133. bls. Einnig hefur Þór Whitehead upplýst, Sovét-Ísland, bls. 98, að systir Þórodds Guðmundssonar hafi sagt sér að Þóroddur hafi fengið þjálfun í meðferð vopna. Sbr. einnig Hannes H. Gissurarson, Íslenskir kommúnistar 1918–1998 (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2011), bls. 60–65.
  7. Hallgrímur Hallgrímsson, Undir fána lýðveldisins: Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni (Reykjavík: Björn Bjarnason, 1941). Bókin var endurútgefin 2019 (Reykjavík: Una útgáfuhús) og sem hljóðbók.
  8. Jón Ólafsson, Komintern gegn klofningi, Saga, XLV. árg. 1. hefti (2007), bls. 93–111. Þór Whitehead svaraði honum, Eftir skilyrðum Kominterns. Stofnun Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins 1937–1938, Saga, XLVI. árg. 2. hefti (2008), bls. 17–55. Jón Ólafsson tók til andsvara, Raunveruleiki fortíðar og eitt minnisblað, Saga, XLVII. árg. 1. hefti (2009), bls. 149–161.
  9. Hannes H. Gissurarson, Var Komintern andvígt stofnun Sósíalistaflokksins? Stjórnmál og stjórnsýsla, 5. árg. 2. hefti (2009), bls. 57–65.
  10. Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 141.
  11. Nýjar upplýsingar um áhrif Kominterns á íslenska Sósíalistaflokkinn, Morgunblaðið 19. júní 1998.
  12. Jón Ólafsson, Appelsínur frá Abkasíu (Reykjavík: JPV, 2012), bls. 137. 16. Oleg Dehl, Verratene Ideale (Berlin: Trafo, 2000). Nafnið er stundum stafsett Grewe. Gloppa Jóns er því óskiljanlegri sem Halldór Guðmundsson hafði líka rætt um Greve í blaðagrein átta árum áður en bók Jóns kom út, Ár grimmdarinnar, Morgunblaðið 22. febrúar 2004.
  13. Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 330, 286, 38 og 340, 23 og 123, 125 og 334.
  14. S. r., bls. 38 og 340 og 175. 19. Jón Ólafsson, Komintern gegn klofningi, Saga (2007), bls. 107.
  15. Jón Ólafsson, Appelsínur frá Abkasíu, bls. 285.
  16. Kjartan Ólafsson, Draumar og veruleiki, bls. 201.
  17. Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 22.
  18. Snorri G. Bergsson, „Sillinn“ verður „Sillén“. Af kostulegum misskilningi fræðimanna, Þjóðmál, 1. árg. 2. hefti (2006), bls. 21–22.
  19. Þorleifur Friðriksson, Við brún nýs dags: Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906–1930 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, Efling – stéttarfélag og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2007), bls. 273.
  20. Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 15.
  21. S. r., bls. 181 og 340.
  22. S. r., bls. 185.
  23. Adolf Petersen, Engin skýrsla um fjárreiður MÍR síðustu 5–6 árin, Tíminn 28. október 1960.
  24. Rauða bókin: Leyniskýrslur SÍA (Reykjavík: Heimdallur, 1984 [1963]), bls. 126–127.
  25. Efni þetta er að mestu leyti tekið úr Fróðleiksmolum, sem ég skrifa vikulega í Morgunblaðið.
  26. Jón Helgason, Nokkur íslensk handrit frá 16. öld, Skírnir, 106. árg. (1932), bls. 143. Fært hér til nútímastafsetningar.