Er styttri vinnuvika raunhæf?

Styttri
Höfundur:
Alex Soojung-Kim Pang
Þýðandi:
Sara Lind Guðbergsdóttir
Útgefandi: Edda útgáfa
Reykjavík, 2021
277 bls.
Bókin heitir á frummálinu Shorter: Work
Better, Smarter, and Less og kom út árið 2020

STYTTRI er um margt athyglisverð bók þar sem höfundurinn fjallar um þróun í fjölmörgum fyrirtækjum til styttri vinnutíma. Hann vill kalla það hreyfingu og markmið hans er að kynna okkur hana og sýna okkur hvernig við getum orðið hluti af henni. Fyrirtækin sem kynnt eru til leiks í bókinni hafa ýmist stytt vinnuvikuna um heilan dag eða stytt hvern vinnudag t.d. í sex tíma.

Viðfangsefnið sjálft, stytting vinnuvikunnar, hefur verið með okkur frá ómunatíð. Fara má allt aftur til Móse, sem flutti okkur þau fyrirmæli í boðorðunum tíu að halda skyldi hvíldardaginn heilagan og segja má að þar með hafi sex daga vinnuvika verið innleidd. Vinnuvikan hefur svo styst nokkuð síðan eins og við þekkjum.

En viðfangsefni bókarinnar og þau vandamál sem verið er að reyna að leysa hafa reyndar meiri skírskotun til lögmáls Parkinsons, sem hann setti fram upp úr miðri síðustu öld. Það gengur í stuttu máli út á að vinna taki þann tíma sem henni er úthlutað. Ef starfsmönnum er úthlutað átta tímum á dag fimm daga í viku til að vinna verkefni sín nota þeir allan þann tíma. Enda er oft ekki vel séð að fólk stökkvi burt af vinnustaðnum jafnvel þótt verkefnum dagsins sé lokið.

Í bókinni er rætt um hvernig hvert fyrirtækið af öðru glímir við að koma öllum verkefnunum fyrir á styttri tíma, annaðhvort á fjórum dögum í stað fimm eða á sex tímum daglega í stað átta. Alltaf þarf að endurskoða vinnuferla og finna hvar verið er að sóa tíma viðkomandi starfsfólks eða samstarfsfólks eða trufla störf þess að nauðsynjalausu.

Alex Soojung-Kim Pang er höfundur bókarinnar Styttri (e. Shorter). Hann hefur rannsakað fjölda fyrirtækja og stofnana víða um heim sem ráðist hafa í að stytta vinnuvikuna. Hann er einnig höfundur bókarinnar Rest, sem kom út 2016 og varð metsölubók.

Ómarkvissir og ónauðsynlegir fundir verða t.d. fyrir barðinu á umbótum af þessu tagi. Enn fremur eru tekin dæmi af veitingastöðum sem ákveða að hafa opið aðeins fjóra daga vikunnar til þess að létta álagi af starfsfólki og minnka starfsmannaveltu.

Grunnhugmyndin gengur alltaf út á að heildartekjur starfsfólks séu ekki skertar þrátt fyrir styttri vinnutíma, þannig að framleiðniaukningin sem næst með því að framkvæma það sama á styttri tíma skilar sér rækilega til starfsfólks. Fyrirtækin hafa ekki bara út úr þessu ánægðara starfsfólk og minni starfsmannaveltu heldur getur ýmis kostnaður lækkað sem tengist því að hafa opið.

Sara Lind Guðbergsdóttir lögfræðingur þýddi bókina á íslensku. Hún hefur setið í samninganefnd ríkisins fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra og komið að samningu ákvæða um styttingu vinnuvikunnar á opinberum markaði hér á landi. (Mynd: MBL/Kristinn Magnússon)

Styrkur bókarinnar felst í öllum þeim dæmum sem sett eru fram og sögum sem sagðar eru af því hvernig fólk fór að því að leysa málin. Venjulega var tekin ákvörðun um tilraunaverkefni að frumkvæði yfirmanna en starfsfólk þurfti að finna út nákvæmlega hvernig hægt væri að innleiða nýja ferla og vinnustaðamenningu til að láta dæmið ganga upp. Síðan var að loknu tilraunatímabili tekin ákvörðun um varanlega breytingu. Þarna er margt mjög nýtilegt að finna og skemmtilegt að sjá að fyrirtækjum hefur tekist að koma svona breytingum í gegn.

Höfundurinn reynir að fella vinnu að breytingum í ferli hönnunarhugsunar en mér finnst ekki sannfærandi hvernig hann gerir það. Mér finnst það ekki bæta neinu við skilaboðin í bókinni, því að sögurnar og dæmin standa fyrir sínu. Hvert og eitt tilfelli sérsníður viðkomandi fyrirtæki að þeim aðstæðum sem það býr við.

Þýðingin er lipur og texti bókarinnar auðlesinn þótt finna megi stöku hnökra.

STYTTRI er bók sem er tvímælalaust áhugavert að lesa og um að gera fyrir stjórnendur sem telja fyrirtæki sín hafa orðið Parkinsonslögmálinu að bráð að kynna sér hvernig hægt er að brjótast út úr stöðnun og leiðindum.

Höfundur er hagfræðingur.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.