Berlínarmúrinn í bíómyndum

Í ágúst 1961 vöknuðu Berlínarbúar við það að búið var að reisa gaddavírsgirðingu á milli Austur- og Vestur-Berlínar og samhliða hófst bygging Berlínarmúrsins. Kommúnistaleiðtogunum tókst þannig að loka fyrir flóttamannaleiðir frá austri til vesturs. Brandenborgarhliðið endaði austan megin við skiptinguna og því þurfti að taka kvikmyndaatriði sem gerast áttu við múrinn upp annars staðar í heiminum. (Mynd: USC News)

Fyrir 60 árum reis upp ein helsta táknmynd kalda stríðsins, Berlínarmúrinn. Að seinni heimsstyrjöldinni lokinni lá Evrópa í molum. Bandamenn sem börðust saman í stríðinu gegn nasistum stóðu frammi fyrir því að þurfa að standa saman að uppbyggingu Evrópu. Fljótlega kom í ljós að þeir voru ekki á sama máli um hvernig staðið skyldi að uppbyggingunni. Kalda stríðið fór af stað í kjölfarið og Berlín varð þar að miðpunkti.

8. maí 1945 gáfust Þjóðverjar upp og var ákveðið að Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Sovétríkin skiptu Þýskalandi sín á milli þar sem hver og ein þjóð hefði sitt svæði til yfirráða. Inni í miðjum austurhluta þess svæðis sem Sovétríkin réðu yfir var Berlín og var samþykkt að skipta borgina á milli þessara fjögurra ríkja með sama hætti.

Operation Rose

20. október 1946 voru haldnar kosningar í Þýskalandi þar sem Kommúnistaflokkurinn fékk einungis 20% atkvæða. Í kjölfarið fóru Sovétríkin að taka enn harðar á sínum svæðum í Þýskalandi og þá sérstaklega í Berlín. Í janúar 1947 tóku Bandaríkin og Bretland fyrstu skrefin í átt að sameiningu Vestur-Þýskalands, en það hindraði Sovétríkin frá því að teygja áhrifasvæði sitt lengra inn í Vestur-Evrópu. Sovétríkin fóru að líta á sameiningu Vestur-Þýskalands sem nýja þýska ógn. Til að koma í veg fyrir það juku Sovétríkin þrýsting á Berlín og byrjuðu í mars 1948 að hindra umferð vesturveldanna til borgarinnar. 24. júní komu Sovétríkin á samgöngubanni á allri umferð til og frá Vestur-Berlín, en án samgangna myndu Berlínarbúar svelta. Vesturveldin settu upp loftbrú og flugu með matvæli og birgðir til Berlínar. Eftir ellefu mánuði var samgöngubanninu í Berlín aflétt þann 12. maí 1949.

Árið 1949 var endanlega gengið frá skiptingu Þýskalands. 23. maí var Vestur-Þýskaland stofnað og í kjölfarið stofnuðu Sovétríkin Austur-Þýskaland þann 7. október sama ár. Lýstu Sovétríkin því yfir um leið að sá hluti Berlínar sem var á þeirra svæði væri höfuðborg Austur-Þýskalands. Járntjaldið, sem Winston Churchill notaði sem táknmynd yfir skiptingu Evrópu í vestur og austur, hafði nú skipt Þýskalandi í þessi tvö svæði. Mörg sem bjuggu í Austur-Berlín fóru til vinnu í Vestur-Berlín, þar sem atvinna og laun voru talsvert betri en þar sem þau bjuggu. Efnahagsleg skilyrði í Austur-Þýskalandi voru erfið og niðurdrepandi. Hundruð þúsunda Austur-Þjóðverja tóku upp á því að flýja til vesturs og var Vestur-Berlín það svæði sem fólk flúði til og sótti um hæli. Margt hæfileikafólk flúði frá Austur-Þýskalandi og var Berlín orðin að stóru gati í Járntjaldinu. Að lokum gerðist það 13. ágúst 1961 að Berlínarbúar vöknuðu við það að búið var að reisa gaddavírsgirðingu á milli Austur- og Vestur-Berlínar. Austur-Þjóðverjar höfðu reist girðingu í skjóli myrkurs og náði girðingin hringinn í kringum Vestur-Berlín. Þegar líða tók á var reistur múr sem varð tákn fyrir tvískipta borg. Operation Rose hafði heppnast fullkomlega og kommúnistaleiðtogunum hafði tekist að loka fyrir flóttamannaleiðir frá austri til vesturs. Vesturveldin ákváðu að beita ekki hervaldi til þess að múrinn yrði rifinn, múr var betri en stríð.

Kaldastríðsmyndir

Margar kvikmyndir hafa verið gerðar um kalda stríðið, enda stóð það yfir í um 45 ár. Á þeim 28 árum sem Berlínarmúrinn var uppi voru gerðar u.þ.b. 50 kvikmyndir þar sem hann kemur við sögu. Margar kvikmyndir um Berlínarmúrinn hafa verið gerðar eftir að múrinn féll en hér verða bara skoðaðar þær kvikmyndir sem komu fram þegar Berlínarmúrinn var uppi og hvað var að gerast í Berlín á sama tíma.

Gamanmyndin One, Two, Three í leikstjórn Billy Wilder kom út árið 1961. Aðalhlutverkið var í höndum James Cagney og lék hann yfirmann útibús Coca-Cola fyrirtækisins í Vestur-Berlín sem er að reyna að hasla sér völl í Austur-Evrópu og koma Coca-Cola á markað þar. Kvikmyndatökur fóru fram í Berlín á tímabilinu júní til september árið 1961. Kvikmyndin var enn í framleiðslu þegar Berlínarmúrinn fór upp og voru þau í miðri töku við Brandenborgarhliðið, en það endaði austan megin við skiptinguna. Varð þetta til þess að afganginn af tökunum þurfti að klára í München, þar sem sviðsmynd af neðri hluta Brandenborgarhliðsins var byggð. Kvikmyndin var frumsýnd í desember 1961 og gekk ekki vel í kvikmyndahúsum, þar sem áhorfendur voru ekki í skapi til að sjá gamanmynd sem gerðist í Berlín, vitandi um það sem átti sér stað þar á sama tíma. Þótt múrinn væri kominn upp hélt fólk áfram að reyna að flýja til vesturs vitandi að það gæti verið handtekið eða skotið. Margar flóttatilraunir voru reyndar og voru u.þ.b. 3.000 manns handtekin og 13 létust frá því að múrinn fór upp og til loka árs 1961. Flest voru handtekin við að reyna að flýja fótgangandi, eða um 73%.

Undirgöng

Sú aðferð sem varð hvað mest notuð og heppnaðist best var að útvega fólki fölsuð skilríki. En sú aðferð sem var hvað minnst áhrifarík og tók hvað mestan tíma að framkvæma var að byggja göng undir Berlínarmúrinn. Það voru grafin yfir 70 göng en einungis 19 þeirra skiluðu einhverjum árangri. Áætlað er að um 300 manns hafi flúið þá leið. Tvenn af þessum göngum skiluðu góðum árangri, Tunnel 57 og Tunnel 29, en númerin tákna þann fjölda fólks sem flúði í gegnum göngin.

Í maí 1962 hófu átta ungir menn að grafa göng sem urðu seinna meir þekkt sem Tunnel 29. Eftir nokkrar vikur voru þeir komnir í vandræði með að fjármagna þau tæki og tól sem þyrfti til verksins. Í júní gerðu þeir samkomulag við NBC-sjónvarpsstöðina að fá borgað 12.500 dollara (um 100.000 dollara á gengi dagsins í dag) gegn því að NBC fengi að fylgja þeim eftir og taka upp þegar þeir væru að grafa göngin. Þeir notuðu fjármagnið m.a. til að setja upp rafmagn, símalínu og járnbrautarteina í göngin. Alls tók 41 manns þátt í þessum greftri sumarið 1962 og þegar göngin voru loks tilbúin í september voru þau um 135 metra löng og tók um 8–12 mínútur að skríða í gegnum þau. Mikil vinna fór í þessi göng sem átti að þjónusta í langan tíma en sprunga í vatnslögn leiddi til þess að einungis tókst að nota göngin í tvo daga áður en þau fylltist af vatni. NBC náði myndefnum af flóttafólkinu að koma út vestanmegin og var þessi heimildarmynd sýnd í sjónvarpi vestanhafs 10. desember 1962. Rétt undir helmingurinn af fjármagninu frá NBC fór í verkfæri fyrir göngin, restin fór til tveggja aðila sem sáu um að skipuleggja verkið. Með þeirri athygli sem fylgdi sýningunni á heimildarmyndinni fóru fleiri að sjá hagnað í því að hjálpa fólki að flýja til vesturs. Tunnel 57, sem voru uppgötvuð í október 1964 af Stasi-liðum var líklega síðasta flóttaleiðin sem fólk þurfti ekki að borga fyrir.

Hér má sjá skjáskot úr heimildarmynd bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC um flótta fólks í gegnum Tunnel 29. NBC hafði gert samkomulag við nokkra unga menn í Austur-Berlín um að fjármagna gerð ganganna og gera heimildarmynd um flóttann. Myndin var sýnd vestanhafs í desember 1962.

Checkpoint Charlie

Mission: Impossible kvikmyndirnar með Tom Cruise í aðalhlutverki leyniþjónustumanns hafa verið að birtast á sjónarsviðinu síðan 1996. Áður en þetta urðu vinsælar kvikmyndum var Mission: Impossible sjónvarpsþættir sem voru sýndir á árunum 1966–1973 og 1988–1990. Í þætti sem var sýndur í október 1967 var bankastjóri í Austur-Berlín að svíkja af fólki aleiguna gegn því að hann hjálpaði því að komast yfir til Vestur-Berlínar. Þóttist hann hafa grafið undirgöng sem byrjuðu í bankahvelfingunni en í raun var þetta bara dauðagildra. Í desember 1988 var svo annar þáttur sýndur sem var lauslega byggður á þessum þætti. Þá er það læknir sem er að taka gjald fyrir að hjálpa fólki að komast til Vestur-Berlínar með því að láta það fara í gegnum svæði við Berlínarmúrinn sem er ekki vaktað. Í raun er hann í samstarfi við öryggisverðina og leiðir fólk í gildru þar sem það verður annaðhvort handtekið eða drepið.

Njósnari hennar hátignar, James Bond, birtist fyrst á hvíta tjaldinu árið 1962 í myndinni Dr. No. Í gegnum hinar ýmsu Bond-myndir sem fylgdu í kjölfarið kom kalda stríðið fyrir í söguþræðinum. Það var samt ekki fyrr en í þrettándu Bond-myndinni að Berlínarmúrinn kom við sögu, en það var í Octopussy sem kom út árið 1983. Myndin fjallar um sovéskan hershöfðingja sem ætlar að sprengja upp bandaríska herstöð í Vestur-Þýskalandi með því að láta líta út fyrir að bandarísk kjarnorkusprengja hafi óvart sprungið innan herstöðvarinnar. Myndi það leiða til þess að Bandaríkjaher þyrfti að yfirgefa Evrópu og Sovétmenn gætu þá hafið innrás í landsvæði í Vestur-Evrópu. Í einu atriði fer Bond yfir til Austur-Berlínar með því að fara í gegnum landamærastöð sem kallast Checkpoint Charlie. Þessi landamærastöð var á svæði Bandaríkjanna og kom oft fyrir í öðrum kvikmyndum.

Árið 1965 kom út myndin The Spy Who Came in from the Cold og var sú mynd byggð á samnefndri metsölubók sem kom út árið 1963. Rithöfundurinn starfaði hjá bresku leyniþjónustunni þegar hann skrifaði bókina og var hann einmitt staðsettur í Berlín. Richard Burton leikur breskan njósnara, Alec Leamas, sem er sendur til Austur-Þýskalands undir því yfirskini að hann sé að flýja en í raun er hann að dreifa villandi upplýsingum. Myndin hefst við Checkpoint Charlie, þar sem Leamas er að bíða eftir að uppljóstrari í austri komi til hans yfir landamærin. Allt fer á versta veg og uppljóstrarinn er skotinn til bana. Hermenn í vestri geta ekki varið hann, þar sem þeir eru ekki sjálfir að verða fyrir skotum og reglan var sú að ekki mátti aðstoða neinn við flótta fyrr en hann er kominn yfir línuna til Vestur-Berlín. Var þetta atriði tekið upp í kvikmyndaveri á Írlandi þar sem byggð var eftirlíking af Checkpoint Charlie.

Ári síðar kom út myndin Funeral in Berlin og skartaði hún Michael Caine í aðalhlutverki sem Harry Palmer, starfsmaður hjá bresku leyniþjónustunni. Þessi mynd er líka byggð á bók og voru reyndar fjórar kvikmyndir gerðar upp úr bókum um Harry Palmer. Funeral in Berlin var önnur myndin sem kom út og fjallar um sovéskan leyniþjónustumann sem vill flýja til vesturs og biður Harry Palmer um aðstoð. Í upphafi myndarinnar er verkamaður í Austur-Berlín að störfum við Berlínarmúrinn. Hann flýr yfir til Vestur-Berlínar með hjálp byggingarkrana. Það er skotið á hann við flóttatilraunina en hún heppnast hjá honum. Á þessum tíma voru fyrirmælin hjá landamæravörðum í Austur-Berlín að skjóta á alla sem reyndu að flýja. Landamæraverðir gátu lent í fangelsi fyrir að skjóta ekki á þá sem reyndu að flýja og þeir sem tókst að stöðva flóttamann fengu kauphækkun og verðlaunapening. Myndin var að miklu leyti tekin upp í Berlín. Það gekk aftur á móti ekki vel að taka upp atriðið við Checkpoint Charlie. Hermenn í Austur-Berlín trufluðu myndatökuna með því að halda á speglum og láta varpa sólargeislum á kvikmyndatökuvélina. Neyddist leikstjórinn til að taka þetta atriði upp með því að staðsetja kvikmyndatökuvélina í talsverðri fjarlægð svo að hermenn yrðu ekki varir við að verið væri að taka upp þegar Harry Palmer er að ganga í gegnum Checkpoint Charlie.

Árið 1965 kom út myndin The Spy Who Came in from the Cold og var sú mynd byggð á samnefndri metsölubók sem kom út árið 1963. Rithöfundurinn starfaði hjá bresku leyniþjónustunni þegar hann skrifaði bókina og var hann einmitt staðsettur í Berlín. Richard Burton leikur breskan njósnara, Alec Leamas, sem er sendur til Austur-Þýskalands undir því yfirskini að hann sé að flýja en í raun er hann að dreifa villandi upplýsingum.

Berlínarmúrinn byrjar að hrynja

Alfred Hitchcock leikstýrði myndinni Torn Curtain sem kom út árið 1966. Fékk hann í aðalhlutverkin tvær af stærstu kvikmyndastjörnum þess tíma, Paul Newman og Julie Andrews. Myndin fjallar um bandarískan kjarnorkufræðing sem er sendur í leynilegan leiðangur til Austur-Berlínar undir því yfirskini að hann sé að flýja til Austur-Evrópu vegna þess að Bandaríkjastjórn vill ekki fjármagna rannsóknir hans á varnarvopni gegn kjarnorkuvopnum. Í rauninni er markmið hans að hafa uppi á austurþýskum vísindamanni og reyna að komast yfir leynilegar upplýsingar frá honum. Á þessum tíma áttu bæði Bandaríkin og Sovétríkin það mikið af kjarnorkuvopnum að þau gátu tortímt hvort öðru.

Þýska kvikmyndin Der Himmel über Berlin (titill á ensku: Wings of Desire) kom út árið 1987 og fjallar um engla sem vaka yfir Berlín og aðstoða fólk. Einn af englunum verður ástfanginn af konu sem starfar í sirkus og vill hann verða dauðlegur svo að hann geti komist í sambandi við hana. Það koma oft fyrir skot af englunum að labba meðfram og í gegnum Berlínarmúrinn en undir lok Berlínarmúrsins fór fólk að fara í kringum múrinn til að komast til vesturs. Í maí 1989 byrjuðu Ungverjar að fjarlægja gaddavírsgirðingar sem skildu að Ungverjaland og Austurríki. Austur-Þjóðverjar hófu í kjölfarið að fara í „frí“ til Ungverjalands og enduðu svo í Austurríki, þar sem þeim hafði tekist að komast til Vestur-Evrópu. 9. nóvember 1989 gerðist svo hið óumflýjanlega að Berlínarmúrinn opnaðist og Austur-Berlínarbúar flykktust óhindrað til Vestur-Berlínar. Í kjölfarið var byrjað að rífa Berlínarmúrinn, en hann var um 155 km langur og um 3,6 m á hæð. Áætlað er að á bilinu 86 til 227 manns hafi látist á flótta við Berlínarmúrinn. Innan við ár eftir fall Berlínarmúrsins sameinaðist Austur- og Vestur-Þýskaland hinn 3. október 1990.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.