Ásgeir Jónsson: Vextir munu hækka ef ríkissjóður heldur áfram að eyða

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Þjóðmál/HAG)

„Staðan í dag er nokkuð góð þó svo að faraldurinn hafi verið kostnaðarsamur fyrir þjóðina,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála þegar hann er spurður um mat sitt á stöðunni í dag. Hann hafði aðeins gegnt embættinu í um hálft ár þegar kórónuveirufaraldurinn fór að gera vart við sig og síðan þá hefur bankinn, eins og aðrir mikilvægir þættir í stjórnkerfinu, staðið í ströngu. Langtímaáhrifin af aðgerðum ríkisins, þar með talið Seðlabankans, eiga eftir að koma í ljós en væntanlega eru margir sammála um að glíma við skammtímaáhrifin hafi að mestu leyti tekist vel þó að efnahagslega höggið hafi verið þungt.

„Það hefur falist mikill kostnaður í ýmsum sóttvarnarráðstöfunum og auðvitað í gífurlegu tekjutapi ferðaþjónustunnar yfir þennan tíma. Það tap þarf að gera upp á einhverjum tímapunkti,“ segir Ásgeir.

Hann segir þó að efnahagskerfið hafi styrkst og mögulega munum við sjá jákvæð langtímaáhrif.

„Ferðaþjónustan var orðin of fyrirferðarmikil í efnahagslífinu og við vorum búin að verðleggja okkur út af markaðnum bæði hvað varðar verð á þjónustu hér innanlands sem og með mikilli hækkun á gengi krónunnar,“ segir Ásgeir og tekur fram að þessi þróun hafi átt sér stað fyrir fall Wow air vorið 2019.

„Við höfum nú tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustuna og leggja áherslu á virðisauka í stað vaxtar. Þessir erfiðleikar munu óefað leiða til hagræðingar og endurskipulagningar innan greinarinnar sem mun skila sér með góðum rekstrartölum á næstu árum. Ég sé því ekki endilega fyrir mér að innlendir aðilar muni fjárfesta mikið meira í ferðaþjónustu. Á sama tíma hafa efnahagsaðgerðir Seðlabankans, lágir vextir og hagstætt gengi krónunnar síðustu 18 mánuði, skapað sóknarfæri í öðrum greinum. Mér finnst viðskiptaheimurinn hérlendis vera farinn að horfa fram yfir ferðaþjónustuna og að öðrum tækifærum, sem sannarlega eru mörg. Bankarnir eru nú í mjög sterkri stöðu til þess að fjármagna nýja sókn í atvinnumálum landsmanna.“

Þá segir Ásgeir að vegna þess hve vel hafi tekist til við að mæta áfallinu vegna farsóttarinnar hafi tiltrúin styrkst á kerfinu í heild.

„Fjárfestar treysta krónunni mun betur og traust til Seðlabankans hefur aukist umtalsvert. Það er aukið traust á efnahagsstefnunni og það á líka við um ríkisfjármálastefnuna, þar ríkir meiri trúverðugleiki,“ segir Ásgeir.

„Efnahagsaðgerðirnar hafa gefið hlutabréfamarkaðnum byr undir báða vængi – þar sem mjög mikið eigið fé hefur orðið til á þessum 18 mánuðum. Það er mjög jákvætt að sjá hversu mikil þátttaka almennings hefur verið í nýlegum hlutafjárútboðum og vonandi munum við áfram sjá líflegan markað með breiðri þátttöku fjárfesta. Markaður sem eingöngu er stjórnað af lífeyrissjóðum sem vilja helst kaupa og halda er mjög leiðinlegur. Markaðsviðskipti eru í eðli sínu skoðanaskipti og markaðir virka best ef margar ólíkar skoðanir koma fram hjá ólíkum tegundum fjárfesta.“

Ásgeir segir þó að Seðlabankinn og ríkissjóður geti ekki báðir verið á fullu gasi að keyra hagkerfið áfram.

„Það er mikilvægt að næsta ríkisstjórn hugi að því að draga ríkisfjármálahvatann til baka og hætta hallarekstri. Að hluta til er það að gerast sjálfkrafa með vaxandi efnahagsbata og minnkandi atvinnuleysi. Ég er hér ekki endilega að taka afstöðu til þess í hvað ríkið eyðir peningum heldur að hvetja til að það sé ekki rekið með halla í þeim tilgangi að örva hagkerfið þegar teikn eru á lofti um viðsnúning í efnahagslífinu,“ segir Ásgeir.

„Það mun koma í bakið á okkur ef ríkissjóður heldur áfram að eyða á sama tíma og atvinnulífið er að sækja í sig veðrið og nýir sprotar eru að skjóta upp kollinum. Þá er okkur í Seðlabankanum nauðugur sá kostur að hækka vexti til þess að hægja á einkageiranum. Það hefur komið í ljós að peningastefna Seðlabankans var að virka mun betur en við sjálf gerðum okkur grein fyrir. Við vorum búin að setja upp áætlun um að kaupa ríkisskuldabréf í svokallaðri magnbundinni íhlutun, en höfum ekki þurft á því að halda. Lækkun stýrivaxta hefur reynst nægur hvati. Það er enginn vafi í mínum huga að við munum sjá mun hraðari atvinnusköpun á næstu árum – ef Seðlabankanum er gert kleift að viðhalda hagstæðu rekstrarumhverfi samhliða verðstöðugleika.“

Í viðtali við Þjóðmál fer Ásgeir yfir stöðu efnahagsmála, útlitið fram undan, mögulegt brotthvarf verðtryggingar af íslenskum heimilum, fjárfestingu í innviðum og fleira. Þá svarar hann spurningum um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og umdeild ummæli sín um hagsmunahópa frá því í vor.

Viðtalið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.