Fimm viðvaranir til kjósenda

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á formanna- og flokksráðsfundi flokksins í lok ágúst þar sem flokkurinn lagði línurnar fyrir komandi kosningar. (Mynd: XD/HAG)

Fundum á alþingi lauk um miðjan júní án þess að nokkur niðurstaða fengist í stjórnarskrármálið. Það var eitt af málunum sem borið hefur hátt í stjórnmálaumræðunum í 12 ár. Ástæðan fyrir því að hvorki gengur né rekur í því er að Samfylkingin og Píratar eru enn þeirrar skoðunar að „nýja stjórnarskráin“ eigi að hafa forgang.

Afstaða þeirra breyttist ekki þótt Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur birti fyrir nokkru ritrýnda grein í Tímariti lögfræðinga þar sem hún bendir á skollaleikinn í stjórnarskrármálinu frá vorinu 2009 þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gerði það eitt af baráttumálum sínum. Ofríkisárátta Jóhönnu varð til þess að málið lenti í öngstræti. Þaðan hafa stuðningsmenn þess reynt að bjarga sér með alls kyns misheppnuðum brellum.

Hópur fólks sem lítur á sig sem meiri lýðræðissinna og betri Íslendinga en aðra hampar „nýju stjórnarskránni“ eins og einhverjum töfrasprota sem breyti þjóðfélaginu til betra horfs í einni svipan. Lýðskrum af því tagi er að jafnaði lítils virði en þegar það snýst um sjálfa stjórnskipanina er nauðsynlegt að kafað sé til botns og leitast við að skýra hvað þar er að finna. Þetta gerir Kristrún Heimisdóttir í ritgerð sinni. Hún er ómyrk í máli um blekkingarleikinn.

Viðbrögð áhugamanna um „nýju stjórnarskrána“ við grein Kristrúnar eru léttvæg þegar þeir leitast við að gera lítið úr fræðilegri greiningu hennar. Tilraunir til að draga efnistök Kristrúnar í efa mega sín lítils í ljósi fræðilegra krafna til ritrýndra greina í Tímariti lögfræðinga. Vegna lélegs efnislegs málstaðar vega talsmenn „nýju stjórnarskrárinnar“ að Kristrúnu í anda „slaufunarmenningarinnar“ (e. cancel culture). Aðferðin er að leitast við að útiloka andstæðing sinn frá þátttöku í opinberum umræðum og vara aðra við að taka mark á honum af einhverri ástæðu sem höfðar til „góða fólksins“ (e. woke people).

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. ágúst birtist grein í þessum slaufunardúr eftir einn talsmanna „nýju stjórnarskrárinnar“, Kristínu Ernu Arnardóttur, gjaldkera Stjórnarskrárfélagsins. Hún vegur persónulega og ómálefnalega að Kristrúnu.

Gjaldkeri Stjórnarskrárfélagsins segir að Kristrún megi ekki tjá sig um stjórnarskrármálið án þess að þess sé getið að hún sitji í stjórn útgerðarfyrirtækisins Brims! Fræðileg grein Kristrúnar sé „hræðsluáróður málpípu útgerðarinnar“. Það sé „erfitt að sjá hvernig stjórnarmaður í Brimi getur verið faglegur og hlutlaus í þessari umræðu,“ segir Kristín Erna, sem er virk í flokksstarfi Samfylkingarinnar án þess að getið sé um það í kynningu á henni í Morgunblaðinu.

II.

Sunnudag verslunarmannahelgarinnar, 1. ágúst 2021, birtist viðtal við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, í sjónvarpsfréttatíma ríkisins. Tilefni viðtalsins var að síðustu „stóru skoðanakannanir“ gæfu allar til kynna að í þingkosningunum 25. september 2021 yrði skipting þingsæta milli flokka í fjórða skipti í röð „ekki í samræmi við vilja almennings“. Einn eða fleiri stjórnarflokkanna fengi fleiri þingsæti en atkvæðaskiptingin segði til um. Leiðrétta mætti skekkju í kosningakerfinu með einfaldri lagasetningu en stjórnarflokkarnir hefðu staðið gegn tilraun stjórnarandstöðuflokka í þá átt.

Prófessorinn sagði „augljóst“ að kosningakerfið réði ekki við það að jafna þannig að flokkar fengju þingmenn í samræmi við fylgi sitt í landinu. Þetta hefði reyndar verið ljóst í mörg ár og gerst í kosningunum 2013, 2016 og 2017. Á ruv.is var fyrirsögnin á þessu samtali: Gætu grætt á gölluðu kosningakerfi fjórðu kosningarnar í röð. Gagnrýnisorðunum var beint að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki vegna úrslita fyrri kosninga. Ekki var minnst einu orði á að árið 1999 beittu flokkarnir sér fyrir stjórnarskrárbreytingu sem heimilaði að afnema þá vankanta sem prófessorinn nefndi með lögum í stað þess að breyta þyrfti stjórnarskránni.

Viðtalinu við prófessorinn var greinilega ætlað að skapa umræður í aðdraganda kosninganna 25. september og varpa skugga á framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sem varðmenn eigin hagsmuna og þar með óbreytts kerfis. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna (VG), sagði í fréttum 2. ágúst að mun lengri tíma þyrfti en gefinn var á þingi í vor til að ræða og ákveða breytingu á jöfnunarkerfinu.

Ólafur Þ. Harðarson og talsmenn stjórnarandstöðunnar gerðu lítið með þessi orð Bjarkeyjar. Í fremstu röð gagnrýnenda var píratinn Andrés Ingi Jónsson, sem var þingflokksbróðir Bjarkeyjar fram eftir vetri. Að sögn ruv.is 4. ágúst þótti Andrési Inga „einboðið“ að nýta tækifærið að laga ákvæðin um jöfnunarþingmennina við afgreiðslu þingsins á nýjum heildar-kosningalögum veturinn 2020/2021.

Alvara stjórnarandstöðunnar í því efni birtist á þann veg á þingi að 8. júní 2021 fluttu þrír þingmenn hennar breytingartillögu um jöfnunarþingmennina við lokaafgreiðslu kosningalagafrumvarpsins. Frumvarpið hafði verið til meðferðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis undir formennsku píratans Jóns Þórs Ólafssonar frá því í desember 2020. Það var samið af nefnd undir formennsku Bryndísar Hlöðversdóttur, þáverandi ríkissáttasemjara, sem taldi ákvæðið um jöfnuð milli flokka falla utan umboðs síns og hreyfði þess vegna ekki við því. Að sjálfsögðu skerti það ekki rétt þingmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að ræða málið í nefndinni, sem stjórnarandstaðan gerði þó ekki en flutti þess í stað sýndartillögu 8. júní sem vitað var að kæmi aldrei til umræðu, hvorki í nefndinni né þingsalnum, enda hlaut kosningalagafrumvarpið samþykki 12. júní 2021.

Eftir fréttaviðtalið við Ólaf Þ. Harðarson og viðbrögð Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur leyfði einn flutningsmanna breytingartillögunnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sér að nefna framtak sitt og þingmanna Pírata og Samfylkingar og segja á FB-síðu sinn 2. ágúst 2021 að þau hefðu fundið tíma til að flytja tillögu sína en „þingmenn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fundu hjá sér tíma til að mæta í atkvæðagreiðslu og fella þessa tillögu okkar“.

Í ljósi málavaxta sýna orð Þorbjargar Sigríðar ríka þörf til að koma höggi á pólitískan andstæðing með hálfsannleik. Allir sem þekkja til starfa alþingis vita að sýndartillaga eins og hún flutti um þetta mál var aðeins í þeim tilgangi að sverta aðra við hentugt tækifæri. Það kom með sjónvarpsviðtalinu við Ólaf Þ. Harðarson.

Prófessorinn sagði Steingrími J. Sigfússyni, forseta alþingis, flutningsmanni kosningalagafrumvarpsins, álit sitt á efni frumvarpsins í bréfi dagsettu 4. október 2020, tæpum tveimur mánuðum áður en það var lagt fram. Í bréfinu vék Ólafur Þ. að jöfnunarsætunum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin fékk bréfið í hendur í janúar 2021. Ekki liggur fyrir hvort Ólafur Þ. þrýsti á nefndarmenn að fara að ráðum sínum og huga að ákvæðinu um jöfnunarsætin þótt Bryndís Hlöðversdóttir og hópur hennar létu það ógert. Að því var ekki vikið í fréttaviðtalinu við hann.

Þetta inngrip prófessorsins í kosningabaráttuna varð til þess að úr háskólasamfélaginu bárust raddir um að þingmönnum væri hvorki treystandi til að breyta stjórnarskránni né kosningalögunum! Á skömmum tíma fjaraði hins vegar undan ásökunum Ólafs Þ. Harðarsonar í garð stjórnarflokkanna. Stjórnarandstaðan hefur einfaldlega enga stöðu til að gera orð hans að flokkspólitísku átakamáli fyrir kosningarnar.

III.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sendi frá sér tilkynningu 10. ágúst 2021 um að henni hefði tekist að ljúka 138 aðgerðum af 189 í stjórnarsáttmála sínum á kjörtímabilinu, eða um ¾ af þeim aðgerðum sem lá fyrir að ráðist yrði í á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar 1. desember 2017.

Þessu til staðfestingar sýndi forsætisráðherra blaðamönnum yfirlit þar sem einstök verkefni í stjórnarsáttmálanum voru nefnd og þess getið hvort þeim væri lokið eða enn í vinnslu. Sé listinn skoðaður á netinu er unnt að sannreyna stöðu viðkomandi máls með því að slá á línu um það á listanum. Þetta er nýstárleg og gegnsæ aðferð stjórnmálamanna til að sýna hvernig og hvort þeir standa við loforð sín.

Fréttin um þetta var jákvæð fyrir ríkisstjórnina og greip fréttastofa ríkisútvarpsins til mótvægisaðgerða 12. ágúst 2021 með samtali við Evu Heiðu Önnudóttur, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hún sagði nýnæmi að ríkisstjórn birti gröf og yfirlit yfir árangur sinn í lok kjörtímabils. Það þyrfti þó að taka yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar með fyrirvara enda ákveðinn freistnivandi til staðar þegar pólitíkusar dæmdu eigið ágæti.

Fréttakonan sagði prófessorinn á báðum áttum þegar Eva Heiða svaraði spurningu hennar um hvort birting upplýsinganna yki gegnsæi. Þessi skoðun fréttakonunnar er skrýtin og varla unnt að skilja Evu Heiðu á þann hátt að hún sé á báðum áttum þegar hún segir „að sjálfsögðu mjög gagnlegt“ að fá svona yfirlit.

Undir þessa skoðun prófessorsins skal tekið. Mikil vinna við upplýsingagjöf býr að baki því sem segir um hvern liðanna á lista ríkisstjórnarinnar. Hann er góð heimild fyrir þá sem vilja átta sig á stöðu einstakra mála í lok kjörtímabils. Að gera plaggið tortryggilegt af því að það kemur frá stjórnarráðinu er ómaklegt og órökstudd aðdróttun í garð þeirra sem tekið hafa saman upplýsingarnar.

IV.

Alþjóða matsfyrirtækin áunnu sér ekki traust með því sem þau sendu frá sér um stöðuna í fjármálakerfum hér og annars staðar fyrir hrunið haustið 2008. Þau starfa þó enn og föstudaginn 20. ágúst 2021 staðfesti Moody‘s A2-lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í innlendum og erlendum gjaldmiðli og sagði horfur áfram stöðugar hér á landi. Moody‘s verður ekki sakað um að láta freistingar stjórnmálamanna eða embættismanna í stjórnarráðinu ráða niðurstöðu sinni.

Moody‘s tilgreinir einkum þrjár meginástæður fyrir staðfestingu lánshæfismats ríkissjóðs:

  • Búist er við því að íslenska hagkerfið nái traustum bata með aðstoð sterkra og forvirkra stuðningsaðgerða stjórnvalda auk þess sem mikil fjárfesting og áframhaldandi bati í ferðaþjónustu styðji við hagvöxt á næstu árum;
  • Stofnanir hafi verið styrktar verulega og trúverðugleiki þeirra batnað merkjanlega á undanförnum árum;
  • Einsleitni og smæð hagkerfisins geri Ísland þó útsett fyrir sveiflum og sértækum áföllum. Ólíklegt sé að þetta breytist á næstu árum þrátt fyrir aðgerðir til að auka fjölbreytni hagkerfisins.

Til viðbótar við góðan efnahagsbata og traustar hagvaxtarhorfur telur Moody‘s að fyrri reynsla stjórnvalda af lækkun opinberra skulda auki traust og trúverðugleika á að það takist á næstu árum að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs á ný. Samdráttur efnahagsumsvifa hafi verið minni í fyrra en óttast var í upphafi, þar sem aðrar lykilgreinar en ferðaþjónusta reyndust þrautseigari.

Moody‘s telur ekki líklega atburðarás að efnahagsáfall leiddi til mikils og varanlegs tjóns fyrir ferðaþjónustuna eða verulegs fjármagnsútflæðis og veikti því ytri stöðu Íslands og ógnaði fjármálastöðugleika.

Ríkisstjórnin og þjóðin öll getur vel við þennan dóm óhlutdrægs alþjóðlegs matsfyrirtækis unað á tímamótum sem vonandi marka greiða leið frá þrengingum vegna COVID-19-faraldursins.

V.

Kosningabaráttan er þó háð í skugga faraldursins að þessu sinni. Smátt og smátt hefur verið slakað á reglum, boðum og bönnum. Allt er þó ekki enn úr sögunni. Sjálfstæðisflokkurinn varð til dæmis að fresta landsfundi sínum sem hafði verið boðaður lokahelgina í ágúst og efndi þess í stað til rafræns flokksráðsfundar.

Hér skal lýst eigin reynslu af opinberum fundum á tíma sóttvarnareglna. Í byrjun júní boðaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til funda um land allt til að ræða umræðuskjalið Ræktum Ísland! sem ég tók þátt í að semja og er nú orðið grunnur að fyrstu íslensku landbúnaðarstefnunni.

Fundirnir voru skipulagðir í samræmi við sóttvarnareglur. Tveggja metra bil var á milli sæta og í hverjum stól var blað og penni. Í upphafi fundar brýndi ráðherra fyrir fundarmönnum að bera grímur, framsögumenn einir þyrftu ekki að gera það. Þá bað hann viðkomandi um að skrá nafn, kennitölu og símanúmer á blaðið og skilja það eftir. Skylt væri að geyma þessar upplýsingar í tvær vikur til að auðvelda rakningu og viðvaranir reyndist einhver fundarmanna með pestina.

Allir tóku þessu sem sjálfsögðum hlut en eftir því sem leið á hringferðina varð betur ljóst að pestin var í mikilli rénun, allir skráðu nafn sitt samt á blöðin en þeim fækkaði sem settu upp grímur.

Nokkrum vikum síðar hefði orðið að breyta fundunum í fjarfundi og þeir þar með orðið allt annars eðlis. Þetta er ekki sagt til að hallmæla fjarfundum. Meira en 50 fundir við mótun landbúnaðarstefnunnar voru rafrænir. Eftir þá reynslu og þátttöku í fjarfundum yfir Atlantshafið er gagnsemi af því að nýta sér þessa tækni mikil að mínu mati. Fundir eru markvissir og skila sínu, sem skiptir mestu þótt milliliðalaus samskipti á staðnum gefi miðlun upplýsinga og skipti á skoðunum aukið gildi í mörgu tilliti.

Þeim sem hafa í nokkur ár vanist því að vinna við tölvuna heima hjá sér og eiga almennt mikil samskipti við aðra með tölvubréfum eða umræðum á Facebook er töluverð tilbreyting í því einu að nýta tæknina til þátttöku í fundum, nær og fjær. Þörfin fyrir staðbundið samneyti minnkar og getur orðið að truflun.

Nú þegar fjarar undan faraldrinum og það er unnt að koma á hann viðunandi böndum vakna spurningar um varanlegar breytingar á starfsháttum mikils fjölda fólks sem getur skilað góðum ef ekki betri árangri við störf heima eða annars staðar utan hefðbundinnar skrifstofu.

Þingfundir og fundir nefnda alþingis breyttu um svip vegna pestarinnar. Ef til vill verður reynslan af þeirri breytingu til þess að þingstörfin breytist varanlega að einhverju leyti. Almennt er skynsamlegt að nýta tækifærið þegar hefðbundin starfsemi tekur á sig nýjan svip vegna óvæntra og óviðráðanlegra atvika og fara í saumana á gömlum „verkferlum“ og leggja mat á hvort ekki sé ástæða til einhverra breytinga.

Mikið reynir á heilbrigðiskerfið við aðstæður eins og ríkt hafa. Í mínum huga er enginn vafi á því að ríkisrekstur á íslenska heilbrigðiskerfinu er allt of víðtækur og stendur því fyrir þrifum.

Í nágrannalöndum er leitast við að nýta ríkis- og markaðslausnir (e. public/private) við þróun og skipulag almanna- og grunnþjónustu. Hér ræður þetta sjónarmið ekki innan heilbrigðiskerfisins, eins og birtist til dæmis í því að samskiptadeild Landspítalans er sögð velta um 100 milljónum króna á ári, sem er í námunda við veltu sumra sjálfstæðra almannatengslafyrirtækja með tugi viðskiptavina og samanlagt mun fleiri verkefni en samskiptadeild spítalans.

Þetta er hættuleg og kostnaðarsöm þróun og verður enn meira á skjön við skynsamlega ráðstöfun á opinberum fjármunum eftir því sem rafræna fjarvinnutæknin ryður sér meira til rúms í heilbrigðisþjónustunni. Sé hætta á að stjórnmálamenn, sem þurfa þó að leita umboðs almennings, glími við freistnivanda við mat á eigin störfum er þessi vandi ekki minni hjá læknum sem stefna að því að vera óskeikulir í mati sínu og störfum.

Eftir bankahrunið var skrifuð mörg þúsund blaðsíðna opinber skýrsla um það sem gerðist. Á þeim grunni voru settar fram ábendingar um hvað betur mætti fara. Brýnt er að gerð sé úttekt á því hvernig gripið var á COVID-19-faraldrinum hér á landi til að læra megi af reynslunni. Raunar er það ríkur þáttur til að auka gildi almannavarna að slíkar úttektir séu gerðar og af þeim lært.

VI.

Með vísan til þess sem að ofan segir hafa kjósendur skýrt val í kosningunum 25. september 2021:

  • Skynsemi í stjórnarskrármálum í stað óðagots í anda „ný-stjórnarskrársinna“
  • Vönduð vinnubrögð við lagasetningu í stað sýndarmennsku
  • Árangur við framkvæmd stjórnarstefnu í stað uppnáms og lýðskrums
  • Öryggi í efnahags- og fjármálastjórn í stað óráðsíu Reykjavíkurstjórnar
  • Rikis- og markaðslausnir í almannaþjónustu í stað ofurtrúar á ríkisrekstri.