„Ég hef mikla trú á þjóðinni“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Þjóðmál/HAG)

Dr. Ásgeir Jónsson hefur staðið í ströngu í þau tvö ár sem hann hefur gegnt embætti seðlabankastjóra. Í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála fer Ásgeir yfir stöðu efnahagsmála, útlitið fram undan, mögulegt brotthvarf verðtryggingar af íslenskum heimilum, fjárfestingu í innviðum og fleira. Þá svarar hann spurningum um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og umdeild ummæli sín um hagsmunahópa frá því í vor. Viðtalið er hér birt í heild sinni.

 

Nú eru tvö ár liðin frá því að Ásgeir, sem þá hafði verið deildarforseti við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2015, var skipaður seðlabankastjóri. Hann hafði aðeins gegnt embættinu í um hálft ár þegar kórónuveirufaraldurinn fór að gera vart við sig og síðan þá hefur bankinn, eins og aðrir mikilvægir þættir í stjórnkerfinu, staðið í ströngu. Langtímaáhrifin af aðgerðum ríkisins, þar með talið Seðlabankans, eiga eftir að koma í ljós en væntanlega eru margir sammála um að glíma við skammtímaáhrifin hafi að mestu leyti tekist vel þó að efnahagslega höggið hafi verið þungt.

„Staðan í dag er nokkuð góð þó svo að faraldurinn hafi verið kostnaðarsamur fyrir þjóðina,“ segir Ásgeir spurður um mat sitt á stöðunni í dag.

„Það hefur falist mikill kostnaður í ýmsum sóttvarnarráðstöfunum og auðvitað í gífurlegu tekjutapi ferðaþjónustunnar yfir þennan tíma. Það tap þarf að gera upp á einhverjum tímapunkti.“

Hann segir þó að efnahagskerfið hafi styrkst og mögulega munum við sjá jákvæð langtímaáhrif.

„Ferðaþjónustan var orðin of fyrirferðarmikil í efnahagslífinu og við vorum búin að verðleggja okkur út af markaðnum bæði hvað varðar verð á þjónustu hér innanlands sem og með mikilli hækkun á gengi krónunnar,“ segir Ásgeir og tekur fram að þessi þróun hafi átt sér stað fyrir fall Wow air vorið 2019.

„Við höfum nú tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustuna og leggja áherslu á virðisauka í stað vaxtar. Þessir erfiðleikar munu óefað leiða til hagræðingar og endurskipulagningar innan greinarinnar sem mun skila sér með góðum rekstrartölum á næstu árum. Ég sé því ekki endilega fyrir mér að innlendir aðilar muni fjárfesta mikið meira í ferðaþjónustu. Á sama tíma hafa efnahagsaðgerðir Seðlabankans, lágir vextir og hagstætt gengi krónunnar síðustu 18 mánuði, skapað sóknarfæri í öðrum greinum. Mér finnst viðskiptaheimurinn hérlendis vera farinn að horfa fram yfir ferðaþjónustuna og að öðrum tækifærum, sem sannarlega eru mörg. Bankarnir eru nú í mjög sterkri stöðu til þess að fjármagna nýja sókn í atvinnumálum landsmanna.“

Þá segir Ásgeir að vegna þess hve vel hafi tekist til við að mæta áfallinu vegna farsóttarinnar hafi tiltrúin styrkst á kerfinu í heild.

„Fjárfestar treysta krónunni mun betur og traust til Seðlabankans hefur aukist umtalsvert. Það er aukið traust á efnahagsstefnunni og það á líka við um ríkisfjármálastefnuna, þar ríkir meiri trúverðugleiki,“ segir Ásgeir.

„Efnahagsaðgerðirnar hafa gefið hlutabréfamarkaðnum byr undir báða vængi – þar sem mjög mikið eigið fé hefur orðið til á þessum 18 mánuðum. Það er mjög jákvætt að sjá hversu mikil þátttaka almennings hefur verið í nýlegum hlutafjárútboðum og vonandi munum við áfram sjá líflegan markað með breiðri þátttöku fjárfesta. Markaður sem eingöngu er stjórnað af lífeyrissjóðum sem vilja helst kaupa og halda er mjög leiðinlegur. Markaðsviðskipti eru í eðli sínu skoðanaskipti og markaðir virka best ef margar ólíkar skoðanir koma fram hjá ólíkum tegundum fjárfesta.“

Ásgeir segir þó að Seðlabankinn og ríkissjóður geti ekki báðir verið á fullu gasi að keyra hagkerfið áfram.

„Það er mikilvægt að næsta ríkisstjórn hugi að því að draga ríkisfjármálahvatann til baka og hætta hallarekstri. Að hluta til er það að gerast sjálfkrafa með vaxandi efnahagsbata og minnkandi atvinnuleysi. Ég er hér ekki endilega að taka afstöðu til þess í hvað ríkið eyðir peningum heldur að hvetja til að það sé ekki rekið með halla í þeim tilgangi að örva hagkerfið þegar teikn eru á lofti um viðsnúning í efnahagslífinu,“ segir Ásgeir.

„Það mun koma í bakið á okkur ef ríkissjóður heldur áfram að eyða á sama tíma og atvinnulífið er að sækja í sig veðrið og nýir sprotar eru að skjóta upp kollinum. Þá er okkur í Seðlabankanum nauðugur sá kostur að hækka vexti til þess að hægja á einkageiranum. Það hefur komið í ljós að peningastefna Seðlabankans var að virka mun betur en við sjálf gerðum okkur grein fyrir. Við vorum búin að setja upp áætlun um að kaupa ríkisskuldabréf í svokallaðri magnbundinni íhlutun, en höfum ekki þurft á því að halda. Lækkun stýrivaxta hefur reynst nægur hvati. Það er enginn vafi í mínum huga að við munum sjá mun hraðari atvinnusköpun á næstu árum – ef Seðlabankanum er gert kleift að viðhalda hagstæðu rekstrarumhverfi samhliða verðstöðugleika.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Þjóðmál/HAG)

Verðtryggingin kann að hverfa sjálfkrafa

Það er engin leið að sjá fyrir hvenær lífið kemst í eðlilegt horft eftir faraldurinn og væntanlega ræðst það nokkuð af því hversu hörðum sóttvarnaraðgerðum við ætlum að fylgja og hversu lengi. Fram undan eru þó kjaraviðræður á vinnumarkaði og niðurstaða þeirra samninga er minna fyrirsjáanleg en sá faraldur sem nú er vonandi brátt að baki. Spurður um horfurnar fyrir komandi kjaraviðræður segir Ásgeir að Íslendingar eigi langa sögu af því að hafa talið sig verðskulda mun hærri launahækkanir en þekkist erlendis í þeim ríkjum sem við viljum helst bera okkur saman við.

„Það þarf þó að hafa í huga að enginn mannlegur máttur getur komið í veg fyrir verðbólgu sem verður til með kjarasamningum sem eru umfram þau efni sem eru til staðar,“ segir Ásgeir.

Við náðum góðum árangri með Lífskjarasamningnum en hefur það skilað sér í aukinni tilfinningu almennings fyrir því hvort og þá hversu mikil innistæða er fyrir launahækkunum?

„Það er erfitt að segja en ég tel þó að tilfinning almennings fyrir verðbólgu hafi aukist eftir um áratug af verðstöðugleika,“ segir Ásgeir.

„Við sjáum bara þá hröðu færslu fólks yfir í óverðtryggð lán samhliða lækkandi vöxtum. Það mun gera fólk mjög meðvitað um vaxtabreytingar og verðbólgu. Einn helsti ókosturinn við hin svokölluðu Íslandslán, sem eru þau verðtryggðu 40 ára lán sem við þekkjum vel, er að greiðslubyrðin er alltaf stöðug að raunvirði. Fólk pirraði sig, eðlilega, á því þegar höfuðstóllinn hækkaði sífellt þótt það væri alltaf að greiða afborganir af lánunum, sem stafaði af því að verðbólgan færðist sjálfkrafa á höfuðstólinn. Skilningur og umræða um verðbólgu hefur tekið miklum framförum en það er þó ljóst að samkvæmt lögum verður Seðlabankinn að bregðast við verðlagshækkunum. Það til að mynda verðum við að gera ef kjarasamningar leiða til verðbólgu.“

Ásgeir tekur þó fram að Seðlabankinn hafi fjölbreyttari tæki en áður til að eiga við verðbólgu.

„Með sameiningu við Fjármálaeftirlitið og nýrri löggjöf um fjármálastöðugleika fengum við ekki aðeins fleiri tæki heldur möguleika til þess að samhæfa beitingu þeirra. Við getum því farið í aðrar aðgerðir samhliða vaxtahækkunum. Þær gætu falist í því að beita efnahagsreikningi Seðlabankans til þess að stjórna lausafé í umferð eða gjaldeyrisinngripum, eða fjármálastöðugleikaaðgerðum með því að takmarka veðsetningu svo dæmi sé tekið.“

Nú eru lífeyrissjóðirnir fyrirferðarmiklir í íslensku hagkerfi og lífeyrisskuldbindingarnar verðtryggðar. Mun það verða til þess að viðhalda verðtryggingu eða er hún, verðtryggingin, sjálf á leiðinni út?

„Verðtryggingin kom upphaflega til af því að við vorum ekki að ráða við efnahagsmálin. Verðbólgan var allt of há og þetta var eina leiðin fyrir fólk til að fá lán til lengri tíma,“ segir Ásgeir.

„Það er rétt sem þú segir að lífeyrissjóðirnir eru með verðtryggðar lífeyrisskuldbindingar og það skiptir þá því máli að fá verðtryggðar eignir á móti. Þær eignir hafa um langt skeið verið í formi lána til íslenskra heimila. Ef okkur heppnast að halda verðstöðugleika er verðtryggingin á leiðinni út – í það minnsta af íslenskum heimilum. Í mörgum löndum eru verðtryggðir markaðir og bæði fyrirtækja- og ríkisskuldabréf eru gefin út með verðtryggingu enda mjög hagstæð kjör á þeim. Ég sé enga ástæðu til að banna verðtryggingu en ef Seðlabankinn getur staðið við markmið sitt um verðstöðugleika mun verðtrygging á lánum heimilanna hverfa sjálfkrafa.“

Höfum lært af sögunni

Ef við horfum til lengri tíma og burtséð frá Covid-faraldrinum, erum við þá með nægilega gott hagkerfi til að viðhalda miklum lífsgæðum hér á landi?

„Já, við erum í raun með allt sem við þurfum og höfum mikil tækifæri til að gera enn betur. Það eina sem við þurfum að gera er að fara ekki fram úr okkur, sem hefur stundum reynst erfitt,“ segir Ásgeir.

„Við eigum að forðast það að endurtaka leikinn með því að fara út í of mikla skuldsetningu, gírun á fjármálamarkaði, gera kjarasamninga sem við ráðum ekki við að efna eða keyra ríkisútgjöld á fullt. Við eigum að hafa lært af þessu.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Þjóðmál/HAG)

Höfum við lært af sögunni?

„Íslendingar eru fæddir sagnfræðingar – þó að áhuginn brjótist út á misjöfnum tíma yfir æviskeiðið. Það er stundum sagt að við séum þjóð sem gleymir engu en lærir ekki neitt,“ segir Ásgeir og hlær.

„Ég tel þó að við höfum lært mjög mikið af síðustu árum og áratugum og ég tel að þjóðin hafi allt önnur viðmið en áður. Fólk er að hugsa hlutina betur, hvernig það stendur að fasteignakaupum eða annarri skuldsetningu og fjárfestingu. Við bjuggum lengi við vanþróaðan fjármálamarkað og af einhverjum undarlegum ástæðum var heimilishagfræði ekki kennd í skólum. Fjármálalæsi er þó að aukast.“

Hann segir þó að fyrir utan allar auðlindir landsins, sem eru mjög miklar og færa okkur mikil tækifæri, sé mikill frumkvöðlakraftur í þjóðinni.

„Allir Íslendingar eru með einhver plön og svo vöðum við oft áfram án þess að hugsa allt fyrir fram. Oft virkar það. Þannig að ég hef mikla trú á þjóðinni og okkur tekst alltaf að finna út úr málunum á endanum – að redda hlutum. Ef ég horfi bara til Seðlabankans, þá er það markmið okkar að tryggja stöðugleika, gera gjaldeyrismarkaðinn öruggan og fyrirsjáanlegan. Þá getur fólk varið tíma sínum og orku í að hugsa um eitthvað annað en gengisþróun krónunnar. Tíma fyrirtækja, sérstaklega minni fyrirtækja, er illa varið í að velta fyrir sér gjaldeyrisspákaupmennsku.“

Gjaldeyrismarkaðurinn hefur ekki verið stöðugur í sögulegu tilliti en á sama tíma eiga fyrirtækin mikið undir því að geta haft einhvern fyrirsjáanleika. Má gera ráð fyrir því að það breytist í komandi framtíð?

„Það er rétt en enginn gjaldmiðill er fyrirsjáanlegur og þeir sveiflast allir,“ segir Ásgeir.

„Seðlabankinn er þó að ná árangri ef enginn er að hugsa til hans. Peningastefnan er velferðarstefna og það er gríðarlegur ábati sem við getum fært heimilum og fyrirtækjum í þessu landi ef okkur tekst að viðhalda verðstöðugleika, til dæmis lágum vöxtum, stöðugri tekjum, stöðugra gengi og því að fólk geti hugsað um eitthvað annað en peningastefnuna. Seðlabankinn ræður þessu þó ekki einn. Það eru þrír armar í kerfinu, ríkissjóður, vinnumarkaðurinn og síðan Seðlabankinn. Þessir þrír armar þurfa að vinna saman.“

Þú nefnir vinnumarkaðinn. Þegar maður hlustar á forkólfa launþegahreyfinganna bera ummæli þeirra og hegðun það ekki með sér að þau hafi lært mikið af sögunni. Hvernig horfir það við þér?

„Ég þekki verkalýðspólitík vel því ég byrjaði sjálfur minn feril á því að starfa fyrir Guðmund Jaka í Dagsbrún. Hann hafði lært af reynslunni og það var algjört lykilatriði fyrir Þjóðarsáttina að fá Dagsbrún með,“ segir Ásgeir.

„Það er oft þannig að þessir leiðtogar reyna að skapa sér stöðu fyrir komandi samningaviðræður með digrum yfirlýsingum. Það er alveg eðlilegt. Kjarabarátta er barátta sem þarf að heyja, meðal annars í gegnum fjölmiðla, og þá er eðlilegt að fólk reyni að skapa sér stöðu.“

Ásgeir nefnir í því samhengi að Seðlabankinn þurfi að vinna með stjórnmálunum og að hann sé mjög meðvitaður um það fullveldisvald sem bankinn hefur fengið frá þinginu.

„Rétturinn til þess að prenta peninga er fullveldisréttur þjóðarinnar. Ég er mjög meðvitaður um það að þetta eru völd sem að þarf að fara vel með, enda berum við í Seðlabankanum mikla ábyrgð,“ segir hann.

En er eðlilegt að ókjörnir embættismenn hafi svo mikil völd?

„Því má alltaf velta fyrir sér. Ég er ekki kjörinn fulltrúi en þigg umboð, tímabundið umboð frá forsætisráðherra. Ég er mjög auðmjúkur gagnvart pólitísku valdi því að lokum er það þjóðin sem ræður og hún kýs sína fulltrúa,“ segir Ásgeir.

„Margir hagfræðingar, líkt og aðrir sérfræðingar, eiga erfitt með að sýna auðmýkt því þeir telja sig oft vita mun betur en stjórnmálamennirnir. En stjórnmálamennirnir endurspegla þjóðina – og að lokum er það þjóðarviljinn sem ræður. Peningastefnan getur aldrei orðið einkamál hagfræðinga. Það er ekki hægt að reka hana nema í sátt við þjóðina. Ég sjálfur er alltaf mjög minnugur þess.“

Þurfum að fjárfesta í innviðum

Ef við víkjum aftur að framtíðinni, þá vitum við ekki hvaða störf verða til eftir 5–10 ár en getum þó nokkurn veginn séð fyrir hvaða störf verða ekki til enda er sú þróun hafin. Er þetta eitthvað sem Seðlabankinn er að horfa til, til dæmis hættuna af auknu atvinnuleysi eða óarðbærum störfum?

„Það hafa margir reynt og misheppnast herfilega í því að geta séð út hvaða atvinnugreinar verða ráðandi í framtíðinni. Ég hef sjálfur þó nokkrar áhyggjur af menntamálum, þá sérstaklega verk- og tæknimenntun, sem á undir högg að sækja á meðan við höfum lagt mikla áherslu á bóknám,“ segir Ásgeir.

„Við erum að sjá of mikið af ungu fólki fara á mis við menntun, meira en þekkist í öðrum Norðurlandaríkjum. Þetta á sérstaklega við um unga karlmenn. Það er ákveðin tímasprengja og mun valda ekki bara þeim, heldur okkur öllum, vandamálum í framtíðinni. Hlutfall háskólamenntaðra af hverjum árgangi er svipað hér og í hinum Norðurlandaríkjunum og að mörgu leyti eru háskólarnir okkar mjög góðir. En það hentar ekki öllum að fara þessa leið. Of mikil áhersla á bóknám mun einnig skapa vanda fyrir atvinnulífið því það vantar, og mun vanta, tæknimenntað fólk. Það getur enginn séð fyrir hvaða greinar munu vaxa en það eru að öllum líkindum greinar sem eru tengdar auðlindunum okkar og að öðru leyti eru það tækni og hugvit. Hvorki ríkið né Seðlabankinn munu stýra því en við getum gert okkar besta til að tryggja aðstæðurnar þannig að frumkvöðlar geti athafnað sig.“

Ásgeir nefnir að margir seðlabankar hafi hvatt ríkissjóði sína til að fjárfesta í innviðum í breiðum skilningi, til dæmis í samgöngum og fjarskiptum en einnig í menntainnviðum. Það muni skila sér síðar meir.

„Lykilatriði er að við höldum unga fólkinu á landinu – og það getum við aðeins gert með því að skapa ný tækifæri. Svo lengi sem unga fólkið vill vera hérna á þessari eyju er eitthvað stórkostlegt að fara að gerast í atvinnulífinu hjá okkur,“ segir Ásgeir.

„Við eigum þó eftir að sjá frekari breytingar á vinnumarkaði – vinnuævin er að lengjast og verða fjölbreyttari. Þau sem nú eru að koma á vinnumarkaðinn ættu mögulega að gera ráð fyrir því að eiga tvo til þrjá starfsferla um ævina. Það að setja fólk á eftirlaun eins snemma eins og nú þekkist er algjör sóun. Gamla 95 ára reglan og lágur eftirlaunaaldur er þvæla. Það á frekar að styðja við fólk þannig að það geti eignast annan starfsferil. Við getum tekið kennara sem dæmi. Kennsla er mjög erfið og slítandi starf og það eru líkur á því að fólk vilji gera eitthvað annað eftir 20 ár í kennslustofu. Við eigum að hjálpa því fólki að finna sér eitthvað annað að gera. Þetta er að breytast jafnt og þétt og sú þróun heldur áfram.“

Þú hvattir til þess að ráðist yrði í gerð Sundabrautar en fékkst gagnrýni fyrir frá meirihlutanum í borginni.

„Já, það er rétt, en Sundabrautin er svo augljós framkvæmd og felur í sér mikið hagræði. Þetta er græn framkvæmd sem mun spara útblástur, minnka ferðatíma og umferðarálag og það kemur mér á óvart að fólk sé neikvætt út í svo mikilvæga samgöngubót,“ segir Ásgeir.

„Við sem þjóð höfum þó alltaf verið hikandi við stórar og dýrar framkvæmdir sem krefjast mikillar samhæfingar. Það má nefna höfnina í Reykjavík, sem var ekki byggð fyrr en 1915, en í áratugi á undan höfðu menn verið að bera hluti fram og til baka. Knud Zimsen lýsti því einnig sem borgarstjóri að þegar verkamenn voru að grafa fyrir vatnsveitu urðu þeir fyrir aðkasti frá borgurum sem töldu að það væri verið að sóa almannafé í einhverja vitleysu. Hvalfjarðargöngin eru annað dæmi. Lífeyrissjóður verkfræðinga neitaði að taka þátt í skuldabréfaútboði vegna þeirra og stór hópur fólks ætlaði sér aldrei að fara í gegnum göngin. Við erum enn að rífast um það hvar þjóðarspítalinn á að vera og þannig mætti áfram telja.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Þjóðmál/HAG)

Eðlileg hagsmunabarátta

Þá að allt öðru. Það er ekki hjá komist að spyrja Ásgeir um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans, en saga þess er þyrnum stráð eins og rakið hefur verið hér á síðum Þjóðmála. Það tók langan tíma að leggja eftirlitið niður eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin en eftir situr sviðin jörð og ógróin sár þeirra sem urðu fyrir barðinu á því. Það er þó rétt að ítreka að búið var að leggja gjaldeyriseftirlitið niður þegar Ásgeir var skipaður þó að hann hafi fengið nokkur af eldri málunum í fangið. Ásgeir segir að gjaldeyrishöftin og síðan eftirlit með framfylgd þeirra hafi verið algert neyðarbrauð á sínum tíma og ólíklegt sé að sambærileg gjaldeyrishöft verði sett á aftur.

„Það er mjög erfitt að banna viðskipti sem eru í eðli sínu ekkert annað en eðlileg og lögleg. Gjaldeyrishöftin skiluðu þó þeim árangri að okkur tókst að loka kröfuhafana inni og þeir þurftu að lokum að semja við okkur og gefa eftir innlendar eignir til þess að geta náð til erlendra eigna slitabúanna. Mér sýnist margar litlar gular hænur tilbúnar að taka þakkir fyrir að hafa bakað það brauð. Að sama skapi bjuggu höftin til ákveðinn stöðugleika á þeim tíma sem við vorum að endurskipuleggja fjármálakerfið og koma aftur skikki á hagkerfið,“ segir Ásgeir.

„En höftin voru valdbeiting sem gekk gegn almennum réttindum og var aðeins hægt að réttlæta með þeirri sérstöku og alvarlegu efnahagsstöðu sem við stóðum þá frammi fyrir. Ég er mjög meðvitaður um það. Ég get ekki tjáð mig um einstaka mál sem mig grunar að þú ætlir að spyrja mig um, en ég get þó sagt að ef svo ólíklega vildi til að það yrðu aftur sett gjaldeyrishöft myndi sameining við Fjármálaeftirlitið gera okkur mun betur í stakk búin að takast á við nýjan haftatíma þar sem við höfum nú mun betri yfirsýn yfir fjármálakerfið. Sameiningin gefur okkur nú mun betra tækifæri til þess að takast á við peningaþvætti, svo dæmi sé tekið. Ég ítreka þó að það stendur ekki til að setja á höft, enda búum við yfir öflugum gjaldeyrisforða sem hægt er að beita eftir þörfum. Raunar er það svo að síðustu leifar haftanna voru afnumdar með setningu nýrra gjaldeyrislaga nú í vor – sem var virkilega ánægjuleg.“

Ef við víkjum að nýlegra máli, þá vakti það athygli þegar þú sagðir í blaðaviðtali snemma í vor að landinu væri stjórnað af hagsmunaaðilum. Fólk túlkaði þau orð þín með ólíkum hætti og það er svo sem óþarfi að rekja það nánar, enda útskýrðir þú síðar hvað þú ættir við. Það má hins vegar velta því upp, er ekki að hluta til eðlilegt þegar við erum með aðila á vinnumarkaði, bæði launþegahreyfingar og atvinnurekendur, umsvifamikla lífeyrissjóði og fleiri aðila, að tekist sé á um ólíka hagsmuni?

„Jú, það er það. Til að gera langa sögu stutta má rifja upp að Danir neituðu að afhenda okkur völd þegar við stóðum í sjálfstæðisbaráttu og kusu þess í stað að stýra öllu frá Kaupmannahöfn, sem leiddi til þess að við komum okkur ekki upp stjórnsýslu fyrr en seint og um síðir,“ segir Ásgeir.

„Aftur á móti komust stjórnmálin hér á flug í sjálfstæðisbaráttunni. Sumir halda því þá fram að stjórnmálamennirnir hafi mætt á undan og að þeir hafi sett kerfi þar sem stjórnun landsins er skipt á milli kjörinna fulltrúa og síðan hagsmunahópa. Það þekkjum við enn í dag. Það er í það minnsta svo að íslenska hefðin byggist upp á samráði við hagsmunahópa – sem oft getur verið mjög jákvæð. Við höfum náð þjóðfélagssátt um mikilvæg málefni. Þannig má nefna það mikla afrek Bjarna Benediktssonar eldri þegar Viðreisnarstjórnin náði sátt við verkalýðshreyfinguna um uppbyggingu lífeyriskerfisins, byggingu Breiðholtsins og fleira.“

Ásgeir bætir því við að hann treysti sér vel til að takast á við þessa ólíku og fjölbreyttu hagsmunahópa og það hafi ekki mátt skilja orð hans í viðtalinu þannig að hann væri að vorkenna sjálfum sér. Starfsemi hagsmunahópa sé einnig eðlilegur hluti af samfélaginu – upp að vissu marki.

„Það er meiriháttar mál að lenda upp á kant við þá og ég veit að ég er að fara að gera það á einhverjum tímapunkti, hvort sem það eru öflugir fjármálamenn, atvinnugreinar eða verkalýðshreyfingin, sem eru allt hagsmunahópar sem hafa mikil áhrif,“ segir Ásgeir.

„Allir hagsmunahópar hafa gild sjónarmið og þau sjónarmið munu alltaf koma fram með einum eða öðrum hætti í þjóðfélagsumræðunni. Ég er alveg tilbúinn að eiga við þá samtal, finna sameiginlega hagsmuni og eftir tilvikum takast á við þá. Þannig er þetta bara. Ég er skipaður seðlabankastjóri til fimm ára, búinn með tvö ár af þeim. Hvort ég fæ skipun aftur á eftir að koma í ljós en ég er ekki að fara að starfa í Seðlabankanum ævina á enda. Þetta er aðeins tímabundið verkefni fyrir mig. Hvað sem því líður er ég ekki að fara að beygja mig undir pólitískan þrýsting eða aðra hagsmunahópa.“

Skrif um nútímann þurfa að bíða

Ásgeir gaf í fyrra út bókina Uppreisn Jóns Arasonar, sem segir frá ævi og baráttu Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi, í kringum siðaskiptin og dauða hans árið 1550. Þá hefur Ásgeir verið duglegur að skrifa styttri pistla á Facebook-síðu sína sem flestir fjalla um hagsögu landnámsáranna. Þeir pistlar hafa vakið verðskuldaða athygli og oft hafa skapast áhugaverðar og skemmtilegar umræður á síðu Ásgeirs í kjölfar þeirra. En þá blasir við spurningin, mun Ásgeir áfram gefa sér tíma til að skrifa?

„Mig langar til þess að skrifa fleiri bækur, en þetta er nú meira áhugamál í augnablikinu. Ég hef rýnt mikið í söguna og hagsagan er það eina sem ég get skrifað um núna án þess að lenda í miklum vandræðum. Þúsund ára gamlar sögur hafa engin áhrif á markaðinn í dag,“ segir Ásgeir og hlær.

„Ég hef á liðnum árum lesið Landnámu aftur og aftur. Þá hef ég rýnt í þróun þess hvernig landnámið átti sér stað, hvernig menn tengjast, af hverju menn settust að á ákveðnum stöðum, af hverju þeir færðu sig og svo framvegis. Það er gaman að rýna í söguna og þetta er að mínu mati áhugavert. Það má taka dæmi af Ketil-Birni gamla, sem nam mikið land í Árnessýslu. Hann varð í kjölfarið ríkasti maður landsins – sem án efa stafaði af því að hann seldi sneiðar úr landnámi sínu. Síðan má nefna Ingólf Arnarson. Eftir að hafa numið Reykjanesið og meira til – væntanlega til þess að stunda veiðar í upphafi – lenti hann í miklum vandræðum með að verja landnámssvæði sitt og varð að sannfæra frændur sína, sem voru víða um land, um að flytja á suðvesturhornið og bjó sér þannig til bandamenn. Þegar maður les á milli línanna er hægt að sjá mjög áhugaverða þróun í landnámssögunni. Síðan verða skrif um nútímann að bíða betri tíma.“

Þú starfaðir sem deildarforseti við hagfræðideild HÍ þegar þú varst skipaður seðlabankastjóri og hafðir þá kennt í 15 ár við deildina samhliða öðrum störfum. Saknar þú þess að kenna?

Já, ég sakna þess stundum. Mér finnst gaman að kenna og halda fyrirlestra fyrir ungt fólk,“ segir Ásgeir.

„Ég hefði gjarnan viljað halda fyrirlestra fyrir ungt fólk með reglubundnum hætti, líka til að heyra hvað það hefur að segja. Ungt fólk hefur mikið til málanna að leggja og þyrstir einnig í frekari fróðleik – það er ákaflega hvetjandi að vera í félagsskap með vormönnum Íslands.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Þjóðmál/HAG)