Sjálfstæðisflokkur í sigti – uppnám í Efstaleiti

Forysta Sjálfstæðisflokksins nýkjörin á landsfundi flokksins 2018, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Bjarni Benediktsson. Síðan þá er Áslaug Arna orðin dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson hefur leyst hana af hólmi sem ritari flokksins.

Í frumvarpi sem forsætisráðherra lagði fram á þingi 25. mars 2021 fyrir hönd allra stjórnmálaflokka er gert ráð fyrir að „auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga“ sé merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni. Þessu skilyrði ber að fullnægja frá þeim degi sem „kjördagur hefur formlega verið auglýstur“.

Ákvæðinu er beint gegn „nafnlausum auglýsingum í aðdraganda kosninga“. Í greinargerð segir að þessar auglýsingar hafi „birst á sérstökum síðum á samskiptamiðlum sem virðist haldið úti af hulduaðilum án þess að ljóst sé hvort þeir tengist beint stjórnmálasamtökum eða hvort þeim sé haldið úti af öðrum aðilum“. Útbreiðsla rangra og misvísandi upplýsinga hafi „vakið fólk víða um heim til umhugsunar um þær leiðir sem unnt er að fara til að stemma stigu við þeim“. Þá segir að röngum og misvísandi upplýsingum sé gjarnan beitt til þess „að afvegaleiða almenning sem svo getur haft áhrif á stefnumótun sem snýst á sveig með almenningsálitinu í mikilvægum málum“. Þá sé útbreiðsla slíkra upplýsinga til þess fallin að ýta undir öfgaskoðanir og vantraust á stofnunum samfélagsins.

Takmarkanir í ákvæðinu ganga að mati frumvarpshöfunda „ekki lengra en nauðsynlegt er og heimilt skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar“. Þá telja þeir að inngripið sé í samræmi við kröfur sem leiði af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun á 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í þessu samhengi.

Hér er tekið á vandamáli sem er hluti af átökum við fjölþátta ógnir og upplýsingaóreiðu. Verði frumvarp forsætisráðherra til að stuðla að upplýstari umræðu við kjósendur er það vissulega skref í rétta átt.

Vandi stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka gagnvart óvæginni eða upploginni gagnrýni er þó ekki leystur með þessu. Nafngreindir einstaklingar ganga óhikað fram fyrir skjöldu og halda fram rakalausum ávirðingum í hefðbundnum fjölmiðlum, svo að ekki sé minnst á samfélagsmiðla. Sé fundið að framgöngu til dæmis þingmanna eða fjölmiðlamanna og þeir taldir hafa brotið gegn eigin siðareglum sæta reglurnar og siðanefndirnar frekar gagnrýni en hinir brotlegu.

Hér verða nefnd tvö dæmi, annars vegar um villandi fullyrðingar undir nafni í blaðagrein og hins vegar um aðför að reglum og siðanefnd vegna úrskurðar um fjölmiðlamann.

II.

Grein Guðjóns Smára Agnarssonar birtist í Morgunblaðinu 30. mars 2021. Þar telur hann til ýmsar ástæður fyrir því að hann geti ekki lengur kosið Sjálfstæðisflokkinn en gefur sér um leið rangar forsendur.

Almennur óhróður um Sjálfstæðisflokkinn og forystu einkennir stjórnmálabaráttu samtímans. Guðjón Smári Agnarsson, sem kynnti sig sem viðskiptafræðing á eftirlaunum, skrifaði grein í þá veru í Morgunblaðið 30. mars 2021. Höfundur sagðist hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn meira og minna frá því að hann var rúmlega tvítugur fram að bankahruni en hann gæti það ekki lengur.

Fyrsta ástæðan er aðgerðir flokksins í kreppunni vegna Covid-19-faraldursins. Höfundi blöskrar óhemjumikil skuldsetning ríkissjóðs og ótrúlegar takmarkanir á atvinnufrelsi fólks. Önnur ástæðan er umskipti á afstöðu flokksins gagnvart því að orkumál skuli vera utan við áhrifavald Evrópusambandsins, sem hafi verið ein aðalforsenda þess að margir flokksmenn sættust á aðild að EES. Þriðja ástæðan er hvernig reyndum þingmönnum er haldið frá ráðherraembættum og þeim hreinlega ýtt út í horn og óreyndir þingmenn með ókunnar skoðanir eru hafnir til valda.

Að þessar þrjár ástæður valdi því að Guðjón Smári treysti sér ekki til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn er vægast sagt undarlegt.

Skoðun hans á árangri efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherra, stangast ekki aðeins á við sjónarmið meirihluta þjóðarinnar samkvæmt könnunum heldur einnig mat hagfræðinga, eins og kom til dæmis skýrt fram í Kastljósi sjónvarpsins 30. mars 2021, sama dag og grein Guðjóns Smára birtist.

Þar sagði Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor stóru myndina þá að 90% af hagkerfinu væru í lagi og kaupmáttur hefði aldrei verið meiri. Þá væru hér atvinnugreinar sem aldrei hefðu gengið betur, til dæmis verslun með föt og sala á öðru sem Íslendingar væru vanir að sækja til útlanda en keyptu nú innanlands. Vel hefði tekist að standa vörð um stærsta hluta hagkerfisins.

Þá sýnir könnun sem Gallup gerði fyrir fjármálaog efnahagsráðuneytið og birt var í byrjun apríl 2021 að mikil ánægja mælist með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 og meirihluti fyrirtækja telur sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll næstu mánuði. Mun fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks heldur en fækkun.

Þegar Guðjón Smári segir að orkumál utan við „áhrifavald“ ESB hafi verið „ein aðalforsenda þess“ að margir sjálfstæðismenn sættust á aðild að EES fyrir um 30 árum er um hugarburð að ræða. Orkumál bar ekki hátt í umræðum um EES-aðildina. Þau hafa verið hluti samningsins frá upphafi. Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um innleiðingu þriðja orkupakkans frá 1. apríl 2019 segir að fyrsti orkupakkinn hafi orðið hluti EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 26. nóvember 1999 og leitt til setningar raforkulaga, nr. 65/2003. Þar með skyldi vinnsla og sala raforku rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli. Samhliða því voru settar reglur um starfsemi fyrirtækja sem önnuðust flutning og dreifingu raforku í því skyni að stuðla að samkeppni og vernda hagsmuni neytenda. Um leið og lögin tóku gildi tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðar ESB. Um þetta urðu engar deilur hér á þessum árum.

Guðjón Smári setur fullyrðingu sína fram án nokkurra efnislegra raka en á líklega við ágreining og umræður um þriðja orkupakkann á árinu 2019. Þar hefur afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins verið afflutt og jafnvel gefið til kynna að alþingi hafi gengið á svig við stjórnlögin með því að álykta um gildistöku þriðja orkupakkans, sem er lögmæt aðferð og stjórnarskrárbundin við afgreiðslu þjóðréttarsamninga sem kalla ekki á lagabreytingar. Upphlaupinu vegna þriðja orkupakkans var fjarstýrt frá Noregi og nú er því síðan haldið fram að komist hæstiréttur Noregs að þeirri niðurstöðu að norska þjóðþingið hefði átt að afgreiða þriðja orkupakkann á annan veg en það gerði sé það áfall fyrir fullveldi Íslands.

Þriðja ástæðan um reyndu þingmennina og ráðherrasætin er óútskýrð og erfitt að ráða í hana.

III.

Guðjón Smári segist ekki hafa getað kosið Sjálfstæðisflokkinn „á landsvísu“ frá því að Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður hans í mars 2009. Í grein sinni segir hann:

„Það er geymt en ekki gleymt að hann hélt því fram í Fréttablaðinu fyrir u.þ.b. 15 árum að hann væri þeirrar skoðunar að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið.“

Það hefði verið æskilegt að fá nánari útlistun frá Guðjóni Smára á því hvaða grein frá árinu 2006 það er sem honum er svona minnisstæð. Bjarni var formaður allsherjarnefndar alþingis á þessu ári. Á sviði utanríkismála bar brottför varnarliðsins hæst á því ári.

Sérnefnd allra flokka vann hins vegar að úttekt á þróun EES-samstarfsins. Hún skilaði áliti fyrir kosningar vorið 2007 og sameinaðist um ágæti samstarfsins. Þingmenn Samfylkingar og Framsóknarflokks gáfu þó til kynna í sérálitum að líta bæri hýru auga til ESB og nánara samstarfs við það en felst í EES-aðildinni.

Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2009 en í byrjun þess árs komst flokkurinn að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að sækja um aðild að ESB. Bjarni hefði aldrei verið kjörinn flokksformaður vildi hann ESB-aðild.

Í grein í Morgunblaðinu 3. apríl 2021 segir Bjarni Benediktsson:

„Leiðin til vaxtar og fleiri starfa getur aldrei verið grundvölluð að því að stækka ríkisreksturinn eða flækja landinu í aðildarviðræður við ESB.“

Þetta er skýr afstaða í samtímanum en Guðjón Smári er með hugann við einhverja grein frá því um 2006 þegar hann gerir upp hug sinn á árinu 2021.

Afstaðan sem þarna kemur fram til ríkisrekstursins ætti að minnka áhyggjur Guðjóns Smára sem lýsa sér í þessum orðum hans:

„Mér virðist að hann sé að breytast í krataflokk. Kannski heldur forysta flokksins að þeir nái inn krötunum sem gengu út og stofnuðu Viðreisn.“

Guðjón Smári býsnast yfir því að sjálfstæðismenn hafi ekki gengið úr ríkisstjórn vegna þess að keypt var bóluefni í samvinnu við ESB. Hann telur of harkalega gripið til sóttvarna um það leyti sem grein hans birtist, þegar greinst höfðu þrjú smit utan sóttkvíar, og spyr: „Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í því að loka atvinnufyrirtækjum einn ganginn enn?“ Á hinn vænginn var á þessum tíma í lok mars 2021 svo sótt að Sjálfstæðisflokknum fyrir að einstakir ráðherrar og þingmenn hans töluðu af of miklu kæruleysi um aðgerðir gegn veirunni. Í þessu efni verður spurt að leikslokum.

„Þó að veiran komi frá Kína þurfa aðgerðir Íslendinga gegn veirunni ekki að vera í kommúnískum anda,“ segir Guðjón Smári, trúr málefnalegri röksemdafærslu sinni, og lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Þegar ég fer á rakarastofuna skynja ég að fólk gerir sér enga grein fyrir vandanum. Ætli þessir nýju 19. aldar foringjar í ASÍ og verkalýðsfélögunum sem eru að verða verðbólgufélög á ný komi ekki aftur með ýktar kröfur og verkföll innan fárra missera? Þeir munu gera það ef fólk er ekki upplýst um raunverulega stöðu. Það sást í nýlegum kosningum í Verðbólgufélagi verslunarmanna.“

IV.

Þegar grein Guðjóns Smára Agnarssonar er brotin til mergjar stendur lesandinn eftir í nokkrum vanda. Hún hefst sem reiðilestur í garð Sjálfstæðisflokksins vegna ímyndana höfundar án nokkurra málefnalegra raka. Þá beinast spjótin að ríkisstjórninni vegna kommúnískra lausna á veiruvandanum. Loks fá verkalýðsforingjar sinn skammt vegna verðbólgudrauma.

Spyrja má: Tekur einhver mark á svona skrifum? Svarið er já og er þá vísað til þess að grein Guðjóns Smára var gerð að sérstöku fréttaefni á vefnum eyjan.is þar sem hún er endursögð sama dag og hún birtist undir fyrirsögninni: Guðjón segir frá því hvers vegna hann yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn – Sakar Bjarna um að vilja ganga í ESB.

Blaðamaður Eyjunnar segir svo í skýringu sinni að Guðjón Smári saki ekki aðeins Bjarna Benediktsson um daður við ESB heldur einnig Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, þótt hann sé hvergi nefndur til sögunnar.

Í athugasemd við greinina á eyjan.is segir Halldór Halldórsson: „Á meðan ég var í Sjálfstæðisflokknum sá ég marga, eins og þennan Guðjón; sem smellpassa núna í Miðflokkinn undir Sigmundi!“

Hvar í flokki skyldi Halldór vera núna?

V.

Þeir sem til þekkja vissu að allt færi á annan endann innan dyra í ríkisútvarpinu (RÚV) og sérstaklega fréttastofu þess eftir að úrskurður siðanefndar RÚV birtist 26. mars 2021 með þeirri niðurstöðu að Helgi Seljan fréttamaður hefði brotið „alvarlega“ gegn eftirfarandi grein siðareglna RÚV:

„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“

Tilefni niðurstöðu siðanefndarinnar var að útgerðarfyrirtækið Samherji kærði 1. september 2020 ellefu starfsmenn ríkisútvarpsins til siðanefndar RÚV vegna ummæla þeirra um málefni fyrirtækisins á samfélagsmiðlum frá nóvember 2019 til ágúst 2020. Taldi Samherji að með færslunum hefðu starfsmennirnir gerst brotlegir við siðareglur RÚV, sem kveða á um að fréttamenn taki ekki opinberlega afstöðu til umdeildra mála.

Í kærunni voru nefnd: Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan, fréttamenn sem báðir unnu að umfjöllun Kveiks um Samherja, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri, Sigmar Guðmundsson dagskrárgerðarmaður, Snærós Sindradóttir verkefnastjóri og fréttamennirnir Freyr Gígja Gunnarsson, Lára Ómarsdóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir og Tryggvi Aðalbjörnsson.

Þegar kæran barst RÚV var engin siðanefnd RÚV að störfum. Hún hafði sagt af sér nokkru áður. Hér skal saga þess ekki rakin en Stefán Eiríksson útvarpsstjóri skipaði nýtt fólk í siðanefndina á skömmum tíma eftir móttöku kærunnar.

Þau Gunnar Þór Pétursson, Sigrún Stefánsdóttir og Páll Rafnar Þorsteinsson skipa siðanefnd RÚV sem birti úrskurð sinn í lok mars þess efnis að Helgi Seljan fréttamaður hefði brotið „alvarlega“ gegn reglunum.

Gunnar Þór Pétursson, lagaprófessor í Háskólanum í Reykjavík, sem starfað hefur sem deildarstjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), var skipaður af útvarpsstjóra án tilnefningar. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefndu Sigrúnu Stefánsdóttur, fyrrverandi fréttamann hjá RÚV. Páll Rafnar Þorsteinsson, verkefnastjóri Siðfræðistofnunar HÍ, var tilnefndur af henni. Páll Rafnar var fréttamaður á RÚV og aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir Viðreisn.

Siðanefndin vísaði málum 10 starfsmanna RÚV frá í löngum úrskurði en taldi Helga Seljan brotlegan við siðareglurnar eins og áður sagði.

Við svo búið tóku samstarfsmenn Helga og ýmsir álitsgjafar, honum hliðhollir, að hallmæla úrskurði nefndarinnar og siðareglunum sem henni ber að túlka. Látið var í veðri vaka að brot Helga væri marklaust af því að reglurnar væru marklausar. Yfirstjórn RÚV sagði niðurstöðuna ekki hafa áhrif á stöðu Helga innan RÚV. Útvarpsstjóri boðaði endurskoðun á siðareglunum, væntanlega til að auka svigrúm fréttamanna RÚV til að láta að sér kveða á samfélagsmiðlum.

Tim Davie varð forstjóri BBC, breska ríkisútvarpsins, haustið 2020. Tveimur dögum eftir að hann tók til starfa ávarpaði hann starfsmenn og sagði að stjörnur BBC sem hefðu áhuga á að taka þátt í flokkadráttum (e. partisan campaigns) á samfélagsmiðlum ættu ekki að starfa fyrir útvarpsstöðina. Hann varaði einnig við pólitískri hlutdrægni (e. political bias) og sagði að þeir starfsmenn sem virtu ekki reglur um óhlutdrægni ættu ekki heima meðal starfsmanna BBC.

Stefán Eiríksson fer þá í allt aðra átt en Tim Davie, sem varð forstjóri BBC, breska ríkisútvarpsins, 1. september 2020 og ávarpaði starfsmenn BBC í fyrsta sinn fimmtudaginn 3. september 2020. Þar sagði hann að stjörnur BBC sem hefðu áhuga á að taka þátt í flokkadráttum (e. partisan campaigns) á samfélagsmiðlum ættu ekki að starfa fyrir útvarpsstöðina.

Hann varaði einnig við pólitískri hlutdrægni (e. political bias) og sagði að þeir starfsmenn sem virtu ekki reglur um óhlutdrægni ættu ekki heima meðal starfsmanna BBC. Þá sagði Davie: „Viljið þið verða skoðanamyndandi dálkahöfundar eða baráttumenn málstaðar á samfélagsmiðlum ber að virða slíka ákvörðun en þá eigið þið ekki að starfa hjá BBC.“

Í Efstaleiti telja menn líklega að Davie hafi látið þessi orð falla af því að hann sé óvinveittur fjölmiðlastjörnunum sem líta á sig sem ómissandi þjóðfélagsafl og verði því að skína alls staðar. Davie var ekki að hugsa um þetta fólk heldur BBC og trúverðugleika útvarpsstöðvarinnar, lykilinn að því að hún njóti þess sjálfstæðis sem hún gerir sem ríkisfjölmiðill, fjármagnaður af almenningi.

VI.

Sagan um tilurð gildandi siðareglna RÚV er lýsandi fyrir kröfu starfsmanna um að farið sé að vilja þeirra í einu og öllu innan ríkismiðilsins.

Óðinn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri RÚV, var höfundur siðareglna RÚV sem Magnús Geir Þórðarson, þáv. útvarpsstjóri, ýtti til hliðar og leiddi Margrét Magnúsdóttir skrifstofustjóri starf þeirra sem sömdu siðareglurnar sem nú gilda. Í umræðum um brot Helga Seljans sagði Óðinn á Facebook:

„Gömlu reglurnar voru fínar (ekki hlutlaust mat) en Magnús Geir ruddi þeim burt fyrir þessa þvælu, maður úr leikhúsi sem þekkti ekki eða skyldi blaðamennskustarf og hlutverk fjölmiðla – leit aðallega á þá sem kynningartæki leiklistar.“

Jakob Bjarnar, blaðamaður á visir.is, skrifar um tilurð siðareglnanna á vefsíðuna 29. mars 2021. Hann segir:

„Vísir hefur undir höndum fundarboð Margrétar Magnúsdóttur til allra á RÚV. „Siðareglur og fundur með starfshópi“ frá 27 nóvember 2015. „Það verður fundur á mánudaginn kl. 10:00 í betri stofunni og starfsfólk er hvatt til þess að mæta á fundinn og ræða nánar drögin að siðareglunum og koma á framfæri athugasemdum til starfshópsins.“ […]

Starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem Vísir hefur rætt við, benda á að fundarboðið sé klukkan 10, þegar fréttamenn funda, og fáir af fréttastofunni hafi verið á þessum fundi. Reglurnar hafi aldrei verið bornar upp til samþykktar. Í umræðu á Facebook segir Óðinn Jónsson: „Þetta er óbærilegt rugl – en því miður alveg viðbúið. Af hverju ekki að segja eins og er: Reglur Magnúsar Geirs, sem flestir létu óátaldar.“ Og spurður hvort starfsfólk RÚV hafi samþykkt siðareglurnar á einhverjum tímapunkti segir Óðinn; „ég held að leikhússtjórinn hafi bara kynnt þær.““

Jón Ólafsson, prófessor og stjórnarmaður í stjórn Ríkisútvarpsins, segir á Facebook-síðu Þorvaldar Sverrissonar heimspekings:

„Þetta snýst ekki um [siða]nefndina, hvort sem vinna hennar er fullkomin eða ófullkomin heldur um reglurnar, sérstaklega eina málsgrein þeirra. Og tilfellið er (því miður) að það eru starfsmenn [RÚV] sem eiga þessar reglur með húð og hári. Starfsmannafélagið stóð að því að setja reglurnar 2015- 2016 þegar fyrsti þjónustusamningurinn var gerður við menntamálaráðuneytið (sbr. innganginn: „Í þeim tilgangi að stuðla að faglegum vinnubrögðum, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka traust setur starfsfólk Ríkisútvarpsins sér siðareglur. Að auki gilda nákvæmari reglur um tiltekna þætti í starfseminni, s.s. vinnslu fréttaefnis o.fl.““

Þorvaldur Sverrisson svarar þessari athugasemd Jóns og segir:

„Það ber öllum starfsmönnum RÚV saman um að þetta sé einfaldlega ekki satt. En breytir ekki því að það er siðferðilega ámælisvert að setjast í nefnd sem starfar eftir siðferðilega ótækum reglum, sama hvaðan þær koma. Fyrir utan blessað fúskið“

Jón Ólafsson svarar:

„Úr því að þú ert búinn að spyrja þá alla er ég hræddur um að minnið sé eitthvað að svíkja. Ég man þetta vel, því einhver bað mig að gefa álit á reglunum á sínum tíma og þá fannst mér einmitt furðulegast af öllu, að starfsmenn hefðu forgöngu um siðareglur þar sem sumum þeirra væri beinlínis bannað að tjá sig um tiltekin mál. Reyndar, ef þú lest reglurnar vel, eða regluna, sérðu kannski að siðanefnd sem væri þannig innstillt hefði getað haldið því fram að fleiri en Helgi hefðu gerst brotlegir. Þessi málsgrein hefur verið tifandi tímasprengja í mörg ár. svo einfalt er það.“

Ingvi Kristinn Jónsson hittir naglann á höfuðið þegar hann segir í athugasemd á Facebook-síðu Þorvalds Sverrissonar:

„Snýst þetta ekki um að fréttamaður sem fjallar faglega um mál sé ekki að básúna sínar persónulegu skoðanir á því máli út og suður? Faglegheit og trúverðugleiki fjúka um leið út um gluggann. Þetta afhjúpar enn og aftur Fílabeinsturninn í opinberum rekstri. Vangeta, vanhæfni og andvirði.“

Málið snýst að lokum um hvernig RÚV ætlar að varðveita trúverðugleika sinn. Til þess eru siðareglur settar, að þeir sem eiga samskipti við þann sem býr við siðareglur beri til hans traust vegna þess að hann virði reglurnar. Að málsvarar þess sem gerðist brotlegur keppist við að hallmæla þeim sem túlka reglurnar eða láti eins og þær hafi verið settar með einhverjum bellibrögðum er ekki traustvekjandi frekar en allar yfirlýsingar stjórnenda og starfsmanna RÚV um að það eina sem gera beri eftir brot á reglunum sé að breyta þeim!

Sannast nú enn að árinni kennir illur ræðari.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.