Fögur fyrirheit, brostnar vonir

Sá eða sú sem í framtíðinni ætlar að stofna sinn eigin rekstur, hvort sem um er að ræða ráðgjöf eða það að opna kaffihús, þarf að búa við fyrirsjáanleg rekstrarskilyrði, hagkvæmt skattkerfi og skýrt regluverk. Ekkert af framangreindu er að finna þar sem vinstri menn fara með völd. (Mynd: VB/BIG)

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (Mynd: Þjóðmál/HAG)

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar má segja að hafi orðið ákveðin vinstribylgja aðallega meðal ungs fólks í hinum vestræna heimi. Hér á landi var hópur sem hvort í senn fyrirleit meinta heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og studdi um leið ráðstjórnarvaldið í Sovétríkjunum. Sumir úr þeim hópi vor reyndar ekki svo ákafir í hugmyndafræðinni en kusu samt að láta roðann í austri blinda sér sýn, horfðu framhjá kúguninni sem þar átti sér stað og reyndu að mála fagra mynd af miðstjórnarvaldi kommúnistaríkjanna.

Segja má að á þessum tíma hafi verið í tísku hjá ungu fólki að sýna valdinu andstöðu, óhlýðnast ríkisvaldinu, horfa með tortryggni til stórfyrirtækja og brjóta upp annað óáþreifanlegt, t.d. gamlar hefðir eða venjur. Þetta var uppreisnartími þar sem mikil gerjun átti sér stað, konur fóru í auknum mæli út á vinnumarkað, ástarmálin og fjölskyldumynstrin urðu frjálslyndari og yngri kynslóðin kærði sig ekki um að lifa eftir forskrift foreldra sinna. Krafan var friður og frelsi.

Ef niðurstöður kosninga hér á landi eru skoðaðar frá þeim tíma sem liðinn er þá bera þær þess engan veginn merki að vinstri stefna hafi ílengst með þeirri kynslóð sem lét í sér heyra og barðist gegn valdinu fyrir um 40–50 árum – kynslóð sem gjarnan er kölluð ´68 kynslóðin. Sjálfstæðisflokkurinn var, og er, stærsti flokkur landsins bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi, Íslendingar eru almennt hlynntir alþjóðaviðskiptum, vilja hógværa skattheimtu og frelsi til að ráða sínu eigin lífi. Með öðrum orðum kann fólk að meta hið frjálsa markaðshagkerfi sem er undirstaða þeirrar hagsældar sem við búum við í dag.

Hafi einhver verið í vafa fyrir 40–50 árum hvaða afleiðingar sósíalisminn hefur í för með sér er óhætt að segja að sá vafi sé naumast fyrir hendi í dag. Nú í haust eru 30 ár liðin frá því að Sovétríkin hrundu og tveimur árum áður féll Berlínarmúrinn. Raunar þarf ekki að fara svo langt aftur í tímann, því við þekkjum dæmi úr nútímanum frá Venesúela og ungt fólk, sem í dag fær upplýsingar með skjótari og skilvirkari hætti en foreldrar okkar gerðu, sér hvað er að gerast á Kúbu um þessar mundir.

Ný kynslóð en gömul viðhorf

Þrátt fyrir að afleiðingar sósíalismans ættu að vera öllum kunnar erum við enn að ræða um hann eins og um stefnu sé að ræða sem bætt geti líf okkar. Þetta á sér að hluta til eðlilegar skýringar. Í nýlegri könnun bresku hugveitunnar Institute of Economic Affairs (IEA) kemur fram að um 40% þeirra sem tilheyra hinni svokölluðu þúsaldarkynslóð horfa með jákvæðum hug til sósíalisma. Sambærilegur fjöldi trúir því að „kommúnisminn hefði mögulega virkað ef hann hefði verið útfærður betur“ eins og það var lagt fyrir þátttakendur. Mér er ekki kunnugt um að slík könnun hafi verið gerð hér á landi en ætla má ungt fólk á Íslandi og í Bretlandi hugsi með svipuðum hætti um þjóðfélagsmál. Þá hafa sambærilegar kannanir meðal ungs fólks í Bandaríkjunum leitt til sömu niðurstöðu, að margt ungt fólk hafi samúð með sjónarmiðum sósíalismans og tengi á vissan hátt við boðskap hans um jafnara samfélag. Í fyrrnefndri könnun IEA kemur fram að um 75% þátttakenda trúa því að loftslagsvandinn sé kapítalismanum að kenna og stór hluti þátttakenda kennir kapítalismanum um húsnæðisvanda ungs fólks. Um leið og fólk tengir hugtök á borð við samstöðu, samkennd, samúð og samvinnu við sósíalisma tengir það kapítalisma við hugtök eins og arðrán, ósanngirni, græðgi, ríkidæmi og stórfyrirtæki.

Sé þetta raunin er að vissu leyti eðlilegt að umræða um sósíalisma lifi í þjóðfélagsumræðunni. Við höfum fengið að kynnast þessu hér á landi og róttækir vinstrimenn hafa búið sér til pláss á sviðinu beggja vegna Atlantshafsins. Það verður ekki af sósíalistum tekið að þeir kunna að bera fram fögur fyrirheit um betra líf, þó að raunin sé að lokum allt önnur.

Þeir sem aðhyllast frjálst markaðshagkerfi ættu að hafa áhyggjur af þessum viðhorfum. Það er ekki nóg að halda að ungt fólk skoði allar hugmyndir með opnum hug en verði síðan skynsamari með aldrinum og fari þá að styðja hið frjálsa markaðshagkerfi. Lýðskrumið sem einkennir þá sem hæst tala fyrir sósíalisma nær ekki bara til ungs fólks heldur einnig til eldra fólks og rétt eins og ´68 kynslóðin mun þúsaldarkynslóðin vaxa úr grasi. Munurinn er þó sá að þúsaldarkynslóðin tengir ekki við hörmungar sósíalismans eins og sú eldri gerir og enn síður við Berlínarmúrinn eða Sovétríkin.

Engir jafnaðarmenn á Íslandi

Talsmenn sósíalisma nútímans vísa í samúð og samkennd þegar þau eru í rauninni að boða stærra ríkisvald og hærri skatta. Við sjáum þessa orðræðu nú í aðdraganda kosninga. Hún kemur ekki bara fram í málflutningi Sósíalistaflokksins heldur einnig í Samfylkingunni og að hluta til hjá flokkum eins og Viðreisn. Vissulega er undarlegt að upplifa það árið 2021 að frambjóðendur og kjörnir fulltrúar vinstriflokkanna séu í keppni um það hver sé lengra til vinstri og besta leiðin til að toppa þá baráttu sé að nota stór og gildishlaðin orð um fólk og fyrirtæki – og auðvitað pólitíska andstæðinga frá hægri.

Það heyrir til undantekninga að vinstriflokkar annars staðar á Norðurlöndunum tali með þessum hætti. Á Íslandi er ekki til neitt sem heitir jafnaðarmannaflokkur en á hinum Norðurlöndunum eru slíkir flokkar iðulega nokkuð stórir í fjölflokkakerfum þeirra landa. Jafnaðarmenn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð vilja sterkt og mikið ríkisvald og öflugt velferðarkerfi – en eru þó alla jafna fylgjandi frjálsu markaðshagkerfi, skilvirku atvinnulífi og frelsi einstaklingsins. Þeir átta sig á því að það er atvinnulífið og vinnandi fólk sem að lokum greiðir fyrir hið stóra ríkisvald og því þarf hvoru tveggja að fá að vaxa og dafna.

Á Íslandi byggir heimsmynd margra vinstrimanna, sem eru sem fyrr segir að metast um það hver sé lengst til vinstri, á tveimur meginþáttum. Annars vegar andúðinni á hægrimönnum og hinu frjálsa markaðshagkerfi, og hins vegar á rómantískri draumsýn um að hægt sé að bæta kjör fólks og auka samkennd með því að stækka ríkisvaldið og taka meira af vel stæðu fólki og fyrirtækjum. Allt hefur þetta verið reynt og ávallt mistekist.

Stærri kaka

En hver er kjarni málsins hvað þýðir þetta í raun og veru og hvers vegna er mikilvægt að varðveita hið frjálsa markaðshagkerfi?

Á Íslandi eru ekki mörg fyrirtæki sem telja má til stórfyrirtækja. Þau eru þó vissulega til staðar, sum eru skráð í Kauphöll og við fáum reglulega fréttir um stóra viðskiptasamninga og eftir tilvikum há laun stjórnenda. Staðreyndin er samt sú að meginþorri íslenskra fyrirtæki er lítil eða meðalstór fyrirtæki. Meira að segja flest sjávarútvegsfyrirtæki landsins, sem oftast er talað um með neikvæðum hætti, teljast meðalstór fyrirtæki. Miklu skiptir fyrir eigendur allra fyrirtækja að búa við stöðugleika og öryggi, hógværa skattheimtu og skýrt regluverk – en það skiptir ekki síður máli fyrir starfsmenn þeirra fyrirtækja og heimilin í landinu.

Við skulum taka dæmi af bakara sem ákveður að opna bakarí og kaffihús. Til þess þarf hann að eiga í miklum samskiptum við hið opinbera, fá viðeigandi leyfi til reksturs o.s.frv. Hann þarf að ráða til sín starfsfólk, greiða laun, tryggingagjald, framlag í lífeyrissjóð sem og önnur gjöld. Bakarinn þarf að fjármagna upphafið á rekstrinum, annaðhvort úr eigin vasa, með lánum eða þáttöku annarra fjárfesta sem eru tilbúnir að hætta eigin fjármunum í reksturinn. Ef illa gengur mun hver sá sem fjármagnaði upphafið tapa þeim fjármunum.

Samhliða þessu þarf bakarinn að vera vakandi fyrir verðlagningu og gæðum þeirra vara sem hann selur og þeirrar þjónustu sem hann veitir. Hann má vita að mögulega getur einhver gert það sama og hann gerir og veitt honum samkeppni. Standi hann ekki undir væntingum neytenda mun reksturinn líða undir lok. Hér er það almenningur sem fer með valdið og bakarinn er í þessu tilviki þjónn almennings en ekki öfugt.

Flestir átta sig á því að rekstur gengur ekki vel nema eigandinn sé vakinn og sofinn yfir honum og þá sérstaklega í byrjun. Ef reksturinn gengur vel getur bakarinn með tímanum keypt ný og betri tæki, stækkað bakaríið eða jafnvel opnað annað á nýjum stað, greitt starfsfólki hærri laun og ráðið fleira starfsfólk. Vonandi getur hann þá einnig greitt sjálfum sér arð fyrir þá áhættu og ómældu vinnu sem hann hefur innt af hendi.

Enginn er verr settur eftir að bakaríið opnar. Fyrir íbúa hverfisins hafa lífsgæðin aukist með auknu vali, ný störf verða til og bakarinn þarf að kaupa aðföng frá einhverju öðru fyrirtæki. Þá greiðir hann skatt til hins opinbera og hið sama gera bæði starfsfólkið og birgjarnir sem selja honum vörur. Þetta er sú hringrás hagkerfisins sem við viljum sjá, hringrás sem eykur lífsgæði og hagsæld og verður til þess að kakan stækkar eins og gjarnan er sagt.

Hagnaður er nauðsynlegur

Segjum sem svo að bakaríið gangi það vel að tilefni sé til að opna annað. Til þess þarf sama fjármagn og áður og bakarinn þarf að gera sambærilegar ráðstafanir, leggja fram eigið fjármagn í stækkunina, fá það að láni og gangast í ábyrgð fyrir því eða fá fjárfesta í lið með sér. Áfram heldur hringrásin og hagkerfið stækkar. Allir eru betur settir, bakarinn sjálfur, íbúar, starfsmenn og birgjar – og einnig hið opinbera.

Þessa dæmisögu má taka lengra og við getum ímyndað okkur að bakarinn opni 20 nýja staði um land allt. Það sem upphaflega var bakarí og kaffihús í tilteknu hverfi er nú orðið að kaffihúsakeðju. Jafnvel þótt reksturinn gangi vel og bakarinn sé orðinn vel stæður, jafnvel ríkur, er það enn þannig að enginn er verr settur í samfélaginu. Öðru nær.

Hægt er að heimfæra þetta dæmi á hvaða rekstur sem er. Allur rekstur þarf skýrar leikreglur frá hinu opinbera, fólk með hugsjónir og vilja til að leggja mikið á sig, hagkvæmt skattaumhverfi og síðast en ekki síst, hagnað. Hagnaðurinn ýtir undir nýsköpun, vöruþróun, bætta þjónustu, stærra hagkerfi, aukin lífsgæði og þannig mætti áfram telja. Taka má dæmi af fyrirtæki á borð við Marel. Ef ekki væri fyrir hagnað hefði fyrirtækið ekki burði til að verja þeim milljörðum króna sem það ver í nýsköpun og þróun á nýjum og betri tækjum – sem síðan leiða til þess að hægt er að framleiða matvæli með betri og skilvirkari hætti. Icelandair kaupir ekki nýrri og umhverfisvænni flugvélar nema fyrirtækið sé rekið með hagnaði og hið sama mætti segja um sjávarútvegsfyrirtæki sem þarf að endurnýja skipaflotann. Þetta á líka við um fyrirtæki sem starfa á vettvangi hugvits. Þar gilda sömu meginreglur og í tilfelli bakarans, þörf á fyrirsjáanleika í samskiptum við hið opinbera, hagkvæmt skattaumhverfi, fjármagn til vaxtar og svo framvegis.

Að vinna fyrir sjálfan sig

Sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi er frumkvöðlakynslóð sem upplifir miklar breytingar. Nýjar hugmyndir verða til, tækniþróun er hröð og ný störf skapast sem engan óraði fyrir að nokkurn tímann yrðu til. Við vitum ekki hvaða störf verða til í framtíðinni en við getum þó verið nokkuð viss um að það verða til störf sem við sjáum ekki fyrir í dag.

Stór hluti ungs fólks á sér þann draum að vera sinn eigin herra. Mörg munu stofna eigin fyrirtæki og hefja rekstur, jafnvel aðeins um eigin persónubundnu þjónustu. Sömu lögmál koma til með að gilda um slíkan rekstur og rekstur bakarans að því fráskildu að stofnkostnaðurinn kann að vera minni. Ef við tökum dæmi um einstakling sem stofnar ráðgjafarfyrirtæki um sjálfan sig er viðkomandi engu að síður að taka áhættu með heimilisreksturinn því það er ekki sjálfgefið að tekjurnar byrji strax að streyma inn. Öllum rekstri fylgir áhætta, ekki verður hjá því komist. Við getum gert þetta einfaldara með því að vera með skýrar leikreglur og gæta þess að hið opinbera umhverfi sé ekki of íþyngjandi.

Einhver þarf að borga

Krafan um öflugt velferðarkerfi á sér sterkan samhljóm meðal ungu kynslóðarinnar. Það er forsenda fyrir hinum falska söng sósíalista nútímans um betra samfélag. Til að standa undir örorkugreiðslum, fæðingarorlofi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi og öðrum mikilvægum innviðum þurfum við öflugt atvinnulíf sem rekið er með hagnaði.

Samfylkingin, sem er sem fyrr segir í keppni um róttækustu vinstri stefnuna, hefur meðal annars lagt fram hugmyndir um hærri fyrirtækjaskatt á stærri fyrirtæki. Slík skattheimta mun ekki færa hinu opinbera auknar tekjur heldur draga úr hvata fyrirtækja til að stækka, fjárfesta í nýjungum og bæta við sig starfsfólki. Þetta á sérstaklega við um lítil og meðalstór fyrirtæki.

Við eigum ekki að hafa áhyggjur af stórfyrirtækjum eða efnuðum einstaklingum heldur eigum við að einbeita okkur að því að byggja upp markaðshagkerfið og búa þannig um hnútana að sem flestir geti bætt hag sinn til muna, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Það er ekki samfélagslegt vandamál að bakarinn í dæminu hér á undan hagnist á vinnu sinni og fyrirtæki hans stækki. Slíkt gæti hann aldrei gert í niðurbrotnu hagkerfi sósíalismans – og þá verður það vandamál fyrir okkur öll. Sósíalisminn boðar fögur fyrirheit um betra líf en niðurstaðan verður ávallt sú sama, brostnar vonir.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherra.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.