Meistari töfrabragðanna reynir fyrir sér í töfraheimi kvikmyndanna

Erik Weisz, sem síðar kallaði sig Harry Houdini, fæddist 24. mars 1874 í Búdapest í Ungverjalandi. Hann er af mörgum talinn mesti töframaður allra tíma. (Mynd APIC/Getty Images)

Hvaða nöfn koma upp ef spurt er hver er mesti töframaður allra tíma? Vissulega væri hægt að nefna marga, svo sem David Copperfield, Penn & Teller, Siegfried & Roy og David Blaine.

Í flestum tilvikum kemur upp nafnið Harry Houdini. Hann var mikill sjónhverfingarmaður en var líka hvað þekktastur fyrir að geta sloppið úr hvaða fjötrum sem er. Orðabók Oxford hefur meira að segja sett inn nafn hans til að vísa til manns eða dýrs sem virðist geta sloppið úr öllum aðstæðum. Saga Houdinis hefur ratað í kvikmynd, en árið 1953 lék Tony Curtis hann í myndinni Houdini. Önnur mynd með sama nafni kom út árið 2014 á History Channel þar sem Adrien Brody lék Houdini. Í mörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum kemur nafn Houdinis fram og má þar nefna CSI, The X-Files, The Big Bang Theory, The Simpsons, Last Action Hero, Contraband og Now You See Me 2.

Harry Houdini

Houdini ásamt konu sinni, Wilhelmina Beatrice Rahner, sem kölluð var Bess.

Erik Weisz fæddist 24. mars 1874 í Búdapest í Ungverjalandi. Fjögurra ára fluttist hann og fjölskyldan hans til Bandaríkjanna og fékk hann þá nafnið Ehrich Weiss. Þegar hann var níu ára byrjaði hann að vinna í sirkus og sextán ára las hann bók eftir franskan töframann sem hét Robert-Houdin. Hann var svo heillaður af því sem hann las að hann ákvað að verða töframaður eins og hann. Ehrich Weiss vissi að hann þyrfti flott sviðslistanafn. Fjölskyldan hans kallaði hann oft Ehri, sem hljómaði eins og Harry, en það var stytting á Ehrich. Þegar Harry svo ákvað eftirnafnið vildi hann kenna sig við þann töframann sem hafði hvað mest áhrif á líf hans, Robert-Houdin. Einn af vinum Harry sagði honum að ef bætt væri við „i“ í lokin á nafninu þýddi það á frönsku „alveg eins og“ sú persóna. Þannig að Harry ákvað að vera eins og Robert-Houdin og kallaði sig Harry Houdini.

Handjárnakóngurinn

Harry Houdini.

Á upphafsárum sínum sýndi hann aðallega spilagaldra en líka loftfimleika þegar hann vann í sirkusnum. Þegar Harry var tvítugur hitti hann konu sem söng og dansaði. Hún hét Wilhelmina Beatrice Rahner og var kölluð Bess. Þau urðu strax ástfangin og giftu sig eftir nokkurra vikna samband. Harry fékk Bess til að vera með sér í töfraatriðunum og gekk atriði þeirra undir nafninu The Houdinis. Fyrstu fimm árin reyndu þau mikið að koma sér á framfæri og sýndu hvar sem þau komust að. Það var ekki fyrr en 1899 sem stóra tækifærið kom, þegar leikhúseigandinn Martin Beck sá eitt af atriðum Houdinis þar sem hann sleppur úr handjárnum. Beck bókaði Houdini í stóra sýningarsali og sagði honum að sleppa öllum töfrabrögðum og einblína á atriðið þar sem hann reyndi að sleppa úr handjárnum. Þetta varð svo vinsælt að Houdini var fljótlega farinn að sýna í öllum stærri sýningarsölum í Bandaríkjunum og fór í framhaldinu í sýningarferðir um Evrópu. Hann varð svo þekktur fyrir þetta atriði að hann hlaut viðurnefnið „handjárnakóngurinn“. Ef einhver glæpamaður slapp úr prísund vísuðu dagblöðin til hans sem Houdinis eða að hann hefði „framkvæmt Houdini“ þegar hann slapp úr fangelsi.

Allt gert fyrir frægðina

Houdini þróaði fleiri atriði sem reyndu á hæfileika hans að sleppa úr erfiðum fjötrum, eins og köðlum, keðjum, spennitreyjum, kössum, peningaskápum og fangelsum. Hann þróaði líka atriði þar sem hann slapp úr læstu keri sem var sökkt í vatn. Hann var á þessum tíma einn af launahæstu skemmtikröftum í heimi. Að degi til hélt hann sýningar utandyra þar sem hann hékk meðal annars fram af byggingu fastur í spennitreyju og losaði sig úr henni fyrir framan mannfjöldann sem hafði safnast saman. Hann reyndi oftast að gera þetta nálægt skrifstofum dagblaða svo hann fengi ókeypis umfjöllun fyrir sýningar sínar um kvöldið. Eitt af vinsælum útiatriðum hans var að stökkva fram af brú handjárnaður og losa sig úr járnunum meðan hann var á kafi. Houdini ákvað að nýta sér þessi atriði til fulls og á árunum 1907–1909 réð hann kvikmyndatökumenn til að taka upp þessi flóttaatriði. Þessar kvikmyndir voru sýndar áhorfendum á leiksýningum áður en Houdini steig svo fram á svið til að sýna brögð sín.

Þöglu kvikmyndirnar heilla

Houdini las í einni bóka Robert-Houdin að töframaður væri ekki aðeins einhver sem framkvæmdi töfrabrögð, heldur væri hann leikari sem léki mann með yfirnáttúrulega krafta. Þegar Houdini var að byrja feril sinn sem töframaður sótti hann leiklistarnámskeið. Kvikmyndir komu fyrst fram á sjónarsviðið í desember 1895 og árið 1901 lék Houdini í tíu mínútna stuttmynd sem var framleidd af Pathé í Frakklandi. Myndin hét Wonderful Adventures of the Famous Houdini in Paris og framkvæmdi Houdini í henni brögð sín að sleppa úr spennitreyju og fangelsi. Árið 1915 var honum boðið aðalhlutverk í myndinni 20.000 Leagues Under the Sea eftir vísindaskáldsögu Jules Verne. Ekkert varð þó úr því að hann léki í myndinni, þar sem hann krafðist of hárra launa. Í byrjun árs 1917 komst Houdini að samkomulagi um að leika í kvikmynd sem gerðist um borð í kafbáti en þegar nokkrar vikur voru í tökur var hætt við gerð myndarinnar. Ástæðan var sú að í apríl 1917 lýstu Bandaríkjamenn yfir stríði á hendur Þýskalandi og hófu þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni, sem þá hafði staðið yfir í næstum þrjú ár. Houdini lagði sitt af mörkum fyrir stríðsrekstur Bandaríkjanna og hélt ókeypis sýningar fyrir hermenn. Á meðan stríðið varði vann Houdini að handriti að mynd sem átti að heita The Marvelous Adventures of Houdini. Þar átti hann að leika aðalsöguhetjuna, sem eltist við smyglara. Sumarið 1917 reyndi Houdini að koma kvikmyndinni af stað en stríðið í Evrópu hamlaði verkinu. Hann tók aðeins upp eitt atriði fyrir myndina, þar sem hann er bundinn og stekkur fram af bryggju út í sjó.

Leikhússviðið víkur fyrir hvíta tjaldinu

Kvikmyndin The Master Mystery var sýnd í fimmtán hlutum á árunum 1918–1919. Hver hluti var um 25–35 mínútur.

Houdini gafst ekki upp á að leika í kvikmynd og tækifærið kom loks þegar hann hitti kvikmyndaframleiðandann B.A. Rolfe. Þeir tóku hugmyndir upp úr kvikmyndahandriti Houdinis og bjuggu til kvikmyndaröð í fimmtán hlutum sem kallaðist The Master Mystery og kom út á árunum 1918–1919. Í myndinni leikur Houdini leyniþjónustumanninn Quentin Locke, sem starfar hjá dómsmálaráðuneytinu við að rannsaka glæpasamtök. Hver hluti var um 25–35 mínútur að lengd og endaði á atriði þar sem Quentin Locke var í vanda staddur. Næsti hluti var sýndur að viku liðinni og byrjaði á stuttum texta þar sem því var lýst sem gerðist í síðasta þætti áður en sagan hélt áfram. Margt af því sem Houdini var látinn lenda í var tekið úr sviðsatriðum hans í gegnum árin, eins og að leysa sig úr köðlum, handjárnum, spennitreyju, fangelsi og úr kassa sem var hent í sjóinn. Eitt af því magnaðasta við þessa kvikmyndaröð var að hún kynnti til sögunnar vélmenni í kvikmynd. Houdini lagði sig allan fram við gerð myndanna og fékk m.a. sjö sinnum glóðarauga og braut vinstri úlnliðinn. Það borgaði sig, þar sem myndaröðin varð gífurlega vinsæl og þegar sýningar hófust í New York og Boston þurfti að vísa þúsundum frá sem vildu sjá hana.

Í kvikmyndinni The Grim Game, sem kom út árið 1919, var tekið upp atriði í háloftunum þar sem karakter Houdini átti að láta sig síga úr kaðli á milli tveggja flugvéla. Við tökur á atriðinu rákust flugvélarnar saman og hröpuðu. Myndbrotið er aðgengilegt á YouTube og má sjá skjáskot af því hér fyrir ofan. Ef vel er að gáð sést áhættuleikari Houdinis hanga í kaðlinum til vinstri við vélarnar. Það merkilega er þó að allir lifðu þennan atburð af og myndbrotið var notað í kvikmyndinni sjálfri.

Kvikmyndaáhorfendur vildu sjá meira af Houdini á hvíta tjaldinu og hann sá fram á að geta hagnast vel á kvikmyndaleik. Næsta verk var fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, The Grim Game, sem kom út árið 1919. Houdini lék blaðamanninn Harvey Hanford, sem er hrifinn af konu að nafni Mary. Kvikmyndin notast við mörg atriði sem Houdini var frægur fyrir, eins og að losa sig úr handjárnum, aflæsa hurð, sleppa úr fangelsi og losa sig úr spennitreyju á meðan hann hangir fram af byggingu. Eitt æsilegasta atriðið í myndinni gerist í lokin þegar Hanford stekkur upp í flugvél og eltir morðingja sem hefur tekið Mary í gíslingu í annarri flugvél. Hanford lætur sig síga niður úr kaðli yfir í hina flugvélina, en við tökur á þessu atriði rákust flugvélarnar saman og hröpuðu. Sem betur fer lifðu allir af en kvikmyndatökumennirnir í þriðju flugvélinni náðu flugslysinu á filmu og var það notað í kvikmyndinni. Kvikmyndin varð mjög vinsæl og var þetta atriði notað óspart við að auglýsa hana.

Næsta kvikmynd kom út árið 1920 og hét Terror Island. Þar lék Houdini uppfinningamanninn Harry Harper, sem smíðaði kafbát til að nota við fjársjóðsleit. Í upphafi myndarinnar er tekið fram að Houdini hafi framkvæmt sjálfur öll þessi atriði sem hann var frægur fyrir, einkum í vatni, en Houdini gat haldið niðri í sér andanum mínútum saman. Myndin gekk ekki eins vel og Houdini hafði vonast til og hann var ekki ánægður hvernig hún var klippt til. Þetta leiddi til þess að árið 1921 stofnaði Houdini sitt eigið kvikmyndafyrirtæki, Houdini Picture Corporation.

Kvikmyndaferlinum lýkur

Í kvikmyndinni The Man from Beyond, sem kom út árið 1922, bjargar karakter Houdini konu frá því að falla niður Niagarafossa í mögnuðu lokaatriði. Myndin sjálf naut þó ekki mikilla vinsælda enda var söguþráður hennar ruglingslegur.

Næsta kvikmynd á dagskrá var The Man from Beyond, sem kom út árið 1922. Houdini skrifaði handritið að myndinni þar sem hann lék Howard Hillary, mann sem hefur legið frosinn í íshellu í hundrað ár. Tveir heimskautafarar finna hann og losa hann úr íshellunni. Þeir fara með hann í siðmenninguna en segja honum ekki að hann hafi verið frá í hundrað ár. Hillary fer að leita að kærustunni sinni og heldur að kona sem lítur út eins og hún sé sú manneskja. Kvikmyndin var mjög ruglingsleg og það vantaði í hana meiri hasar og það sem Houdini var þekktur fyrir. Þó var eitt atriði þar sem hann er bundinn og læstur í klefa en nær að sleppa út. Lokaatriðið er magnað, þar sem hann bjargar konunni frá því að falla niður Niagara-fossa. Houdini auglýsti myndina eins mikið og hann gat en hún naut ekki vinsælda.

Houdini fór strax í næsta verkefni, sem varð síðasta kvikmynd hans. Sú mynd hét Haldane of the Secret Service og kom út árið 1923. Þar lék hann leyniþjónustumanninn Heath Haldane, sem vinnur hjá dómsmálaráðuneytinu við að koma upp um peningafalsara. Kona leitar aðstoðar hans og áður en hann veit af er hann farinn að eltast við peningafalsara um New York, Glasgow, London og París. Nánast engin af þeim brögðum sem hann var þekktur fyrir komu fyrir í myndinni. Í hasaratriði í lokin var hann bundinn við mylluhjól og það látið snúast þar til það losnaði. Houdini fór undir vatnið en náði að losa sig úr böndunum. Þessi kvikmynd gekk mjög illa í sýningu og Houdini tapaði miklum fjármunum á henni. Allar kvikmyndir sem voru á teikniborðinu voru settar til hliðar og kvikmyndafyrirtæki hans var leyst upp. Hann hafði jafnframt fjárfest í fyrirtæki sem framleiddi kvikmyndafilmur en það hafði ekki gengið vel og tapaði hann líka miklum fjármunum þar. Houdini hafði litið á kvikmyndaferilinn sem leið til að þéna mikla peninga án þess að þurfa að sýna á sviði á nánast hverju einasta kvöldi. Hann var 49 ára gamall þegar síðasta kvikmynd hans kom út og hann fann að líkamlegt þrek til að framkvæma þau atriði þar sem hann losar sig úr hinum ýmsu fjötrum var farið að gefa eftir. Þegar kvikmyndaferlinum lauk höfðu kvikmyndir hans þó gert hann enn frægari og hann gat þar af leiðandi fengið enn hærri upphæðir fyrir að koma fram á sviði. Houdini lést 31. október 1926, þremur árum eftir að síðasta kvikmynd hans kom út.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.