Þrjár bækur um ritskoðun og málfrelsi á netinu

Fyrir um aldarfjórðungi tók stór hluti almennings að nota vefinn til að sækja afþreyingu, taka þátt í skoðanaskiptum og eiga ýmis viðskipti. Fram yfir aldamót álitu flestir sem tjáðu sig um efnið að þessi nýi vettvangur yrði frjáls og laus við ritskoðun. Yfir umræðunni sveif andi frjálshyggju og stjórnleysis. Þegar John Perry Barlow birti Sjálfstæðisyfirlýsingu netheima (A Declaration of the Independence of Cyberspace) árið 1996 virtist hún ekki aðeins stefnuyfirlýsing heldur líka raunsönn lýsing á nýjum veruleika. Þessi yfirlýsing hófst á orðunum:

Ríkisstjórnir hins iðnvædda heims, þið leiðu tröll af holdi og stáli. Ég kem úr netheimum, hinum nýju heimkynnum hugans. Í nafni framtíðarinnar bið ég ykkur sem tilheyrið fortíðinni að láta okkur í friði. Þið eruð ekki velkomnar meðal okkar. Fullveldi ykkar nær ekki þangað sem við komum saman.[1]

Í lok yfirlýsingarinnar lætur höfundur í ljós þá ósk að siðmenning netheima færi okkur meiri mannúð og meira réttlæti en ríkisvaldið hefur gert. Netið var ekki ein stofnun heldur fjöldi netþjóna og smærri tölvuneta vítt og breitt um heiminn og svo virtist sem engin leið væri fyrir nokkra stjórn að banna birtingu efnis án þess að ná heimsyfirráðum. Efni sem var eytt í einu landi var aðgengilegt á vefsetrum annars staðar og notendur tengdust yfir landamæri.

Nú eru breyttir tímar. Fólk sem birtir efni á vefnum sætir eftirliti og afskiptum í vaxandi mæli. Umskiptin urðu mest fyrir um áratug. Fyrst í stað vakti þessi ritskoðun litla athygli og fáir vissu mikið um hana. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að fræðimenn hafa reynt að átta sig á henni. Hér á eftir verður sagt frá þremur bókum sem allar komu út árið 2019 og innhalda nýfengna vitneskju um eftirlit sem menn hugðu ómögulegt í árdaga netsins.

Vissulega er enn erfitt fyrir ríki að útiloka efni algerlega þannig að íbúar þeirra hafi engan aðgang að því. Hér er Kína þó undantekning þar sem stjórnvöld fylgjast með öllum nettengingum yfir landamærin. Annars staðar hafa stjórnvöld líka þróað leiðir til að ráða því að nokkru marki hverju er miðlað á netinu og eru ýmsar staðbundnar takmarkanir á því hvað kemur upp við leit á vefnum. Ef marka má síðustu bókina sem hér verður sagt frá hefur YouTube til dæmis útilokað að efni sem inniheldur gagnrýnið umtal um konung Taílands sé aðgengilegt þar í landi.

Sarah T. Roberts: Á bak við skjáinn

Behind the Screen: Content Moderation in the Shadows of Social Media
Höfundur: Sarah T. Roberts
Útgefandi: Yale University Press, 2019
280 bls.

Sarah T. Roberts er upplýsinga- og bókasafnsfræðingur við Kaliforníuháskóla. Bók hennar, Behind the Screen: Content Moderation in the Shadows of Social Media (Á bak við skjáinn: Hömlur á birtingu efnis í skugga samfélagsmiðla), fjallar um fólkið sem ritskoðar samfélagsmiðla og efnisveitur á netinu. Roberts byggir á átta ára rannsóknarvinnu þar sem hún ræddi við fjölda einstaklinga í þessari lítt þekktu og lítt sýnilegu starfsgrein. Textinn fjallar einkum um kjör þeirra og vinnu. Við rannsókn sína ferðaðist hún um heiminn og leitaði þetta fólk uppi. Margt af því býr í löndum þar sem laun eru lág, er ráðið tímabundið gegnum starfsmannaleigur eða undirverktaka og vinnur heima án mikilla samskipta við aðra í sömu starfsgrein.

Þegar Roberts hóf rannsókn sína árið 2010 hafði hún notað netið í 20 ár og verið virk í samræðum um upplýsingatækni, en aldrei heyrt um þessa lágstétt netheimanna. Sama gilti um vini hennar og samstarfsmenn ­sem töldu sig allt vita um netmiðla. Þau höfðu gert ráð fyrir að hugbúnaður eyddi mesta óhroðanum af vefjum eins og YouTube og Facebook með sjálfvirkum hætti. Veruleikinn sem lýst er í bókinni er allt annar. Verkafólk situr við og leggur mat á hverju skuli eytt.

Efnið sem þetta fólk fær til skoðunar berst hratt upp á skjái þess og það fær í mörgum tilvikum aðeins nokkrar sekúndur til að ákveða hvað skuli áfram vera sýnilegt. Mest er þetta eitthvað sem notendur Facebook, Instagram, Youtube eða annarra miðla hafa kvartað undan eða hugbúnaðurinn merkt sem athugavert. Nokkuð af því, eins og barnaklám, er ólöglegt um allan heim; sumt er bannað samkvæmt notendaskilmálum einstakra vefsetra og samskiptamiðla; annað, eins og til dæmis áróður fyrir kynþáttafordómum og nektarmyndir, er bannað í sumum löndum en ekki öðrum.

Þessi vinna fer, segir Roberts, afar illa með fólk. Það er ekki hollt að hafa daglangt fyrir augum hratt streymi mynda af hryðjuverkum, hernaði, limlestingum, nauðgunum, morðum og alls konar meðferð á börnum og fullorðnum, mönnum og málleysingjum, sem er ógeðslegri en orð fá lýst. Þessi iðja væri nógu erfið þó að fólkið fengi stuðning og handleiðslu en flest af því á ekki kost á neinu slíku.

Það gefur augaleið að ritskoðun sem er framkvæmd með þeim aðferðum sem Roberts lýsir er misjafnlega vönduð. Sumt efni sem er andstyggð að horfa á getur haft ótvírætt fréttagildi, eins og til dæmis myndir af hernaði. Hatursáróður og hvatning til glæpa og hryðjuverka getur líka verið á rósamáli sem flest verkafólk í öðrum löndum botnar ekkert í. Það þarf að vinna hratt og magnið er gríðarlegt. Árið 2018 hlóðu notendur YouTube til dæmis upp um 450 klukkustundum af kvikmyndum á hverri mínútu, svo það tæki vel yfir 200 milljónir klukkustunda að spila allt efnið sem barst á árinu. Fyrirtækið eyddi jafnóðum því sem það taldi ekki birtingarhæft.

David Kaye: Málrófslögreglan

Speech Police: The Global Struggle to Govern the Internet
Höfundur: David Kaye
Útgefandi: Columbia Global Reports, 2019
140 bls.

David Kaye er prófessor í lögfræði við Kaliforníuháskóla og starfar fyrir Sameinuðu þjóðirnar sem sérfræðingur um skoðana- og tjáningarfrelsi. Bók hans Speech Police: The Global Struggle to Govern the Internet (Málrófslögreglan: Alþjóðleg átök um yfirráð á netinu) fjallar um ritskoðun netsins frá allt öðru sjónarhorni en bók Roberts, þar sem Kaye beinir athyglinni að því hvernig samspil ríkisvalds og stórfyrirtækja á borð við Facebook og Google þrengir að tjáningarfrelsi almennings.

Í árdaga netsins, fyrir daga stóru samfélagsmiðlanna og efnisveitanna, var stór hluti þess efnis sem fékk mesta athygli blogg og póstar sem enginn hafði neina samræmda stjórn á þótt eigendur flestra léna hefðu einhverja gát á því hvað birtist. Risafyrirtæki nútímans, eins og Facebook og Google, eru annars eðlis með skrifræði og eftirlit. Stjórn þeirra á birtingu efnis er í senn samofin öflun upplýsinga um notendur, sem eru helsta söluvara þeirra, og viðleitni til að þóknast valdhöfum og stærstu kaupendum.

Kaye ræðir ýmis dæmi um þetta og fjallar meðal annars nokkuð ítarlega um þýska löggjöf frá 2017 sem heitir Netzwerkdurchsetzungsgesetz. Þessi lög krefjast þess að efnisveitur fjarlægi áróður fyrir nasisma og fleira efni sem er ólöglegt í Þýskalandi. En þau láta fyrirtækjunum eftir alla framkvæmdina. Fyrir vikið eru Facebook og Google tekin að sinna hlutverki dómstóla og meta hvað má birta, ekki aðeins samkvæmt reglum fyrirtækjanna heldur líka samkvæmt þýskum lögum. Til þess að forðast sektardóma í Þýskalandi fjarlægja fyrirtækin því allt sem gæti stangast á við þýsk lög en það eru engar sektir við að ganga of langt og fjarlægja efni sem er löglegt. Þessu fylgir sú hætta að fyrirtækin fari offari í ritskoðun og eyði til að mynda háði og ádeilum sem eru hluti af lýðræðislegum skoðanaskiptum.

Í tengslum við umræðu um tilraunir stjórnvalda í nokkrum Evrópuríkjum til að þrýsta á stóru samskiptamiðlana og fá þá til að auka ritskoðun á efni sem inniheldur hatursáróður eða árásir á friðhelgi einkalífs bendir Kaye á að ríki sem hafi ekki eins frjálslyndar hefðir gangi á lagið og reyni að fá sömu fyrirtæki til að þagga niður í stjórnarandstæðingum og hugsjónafólki. Yfirvöld í Tyrklandi hafa til dæmis krafist þess að Twitter hindri bæði að tíst sé gegn Erdogan og að kröfur um sjálfstætt ríki Kúrda berist um landið.

Í bókinni rökstyður Kaye að í reynd sé orðin til málrófslögregla sem starfi utan við þær skorður sem venjulegri valdstjórn eru settar af stjórnarskrá, lögum og mannréttindum. Stórfyrirtæki eru komin með dómsvald um hvað fólk getur látið frá sér fara á þeim hluta almannavettvangsins sem samskiptamiðlarnir eru – og þetta er stækkandi vettvangur sem skiptir fólk sífellt meira máli, enda eru samskiptamiðlar að ganga af hefðbundnum fjölmiðlum dauðum með því að draga til sín stærri og stærri hluta af auglýsingatekjum.

Kaye mælir með því að fyrirtækin setji sér sjálf reglur sem tryggi tjáningarfrelsi betur en núverandi skipan, þar sem þau láti um of undan kröfum um að gera ritskoðunina sífellt strangari. Hann mælir með því að nýju reglurnar verði byggðar á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og hugað verði að leiðum til að eyða versta óhroðanum af vefnum með minni skerðingu á tjáningarfrelsi almennings. Hann bendir á að verði nýtt regluverk rökstutt með vísun í alþjóðlega samninga um mannréttindi verði auðveldara fyrir samskiptamiðla og efnisveitur að standa gegn kröfum stjórnvalda um harðari ritskoðun heldur en þegar ekki er hægt að vísa í neitt nema notendaskilmála sem fyrirtækin geta hagað að vild sinni. Vísun í mannréttindi gerir þeim að minnsta kosti mögulegt að svara stjórnvöldum, sem krefjast þess að efni sé eytt, með því að vísa til réttinda sem sömu stjórnvöld hafa sjálf samþykkt að verja.

Nicolas Suzor: Lögleysa

Lawless: The Secret Rules That Govern our Digital Lives
Höfundur: Nicolas Suzor
Útgefandi: Cambridge University Press, 2019
215 bls.

Nicolas Suzor er prófessor við lagadeild Tækniháskólans í Queensland í Ástralíu. Bók hans Lawless: The Secret Rules That Govern Our Digital Lives (Lögleysa: Þær leyndu reglur sem stjórna stafrænni tilveru okkar) er um margt lík bók Davids Kaye. Þeir hafa báðir áhyggjur af því hvernig samspil stjórnvalda og stórfyrirtækja þrengir að tjáningarfrelsi almennings og báðir telja að huga þurfi betur að vernd mannréttinda í netheimum.

Líkt og Kaye ræðir Suzor ýmis dæmi um ritskoðun á seinni árum og er sú umræða ekki einskorðuð við stærstu leitarvélar, samskiptavefi og efnisveitur. Eitt dæmi sem hann ræðir er vefurinn The Daily Stormer, sem stofnaður var í Bandaríkjunum árið 2013 og hét eftir blaði sem nefndist Der Stürmer og var málgagn þýska nasistaflokksins frá 1923 til loka seinni heimsstyrjaldar. Þessi vefur birti einkum áróður fyrir kynþáttafordómum og skoðunum af svipuðu tagi og nasistar héldu fram. Honum var í reynd lokað árið 2017, ekki af stjórnvöldum í Bandaríkjunum, heldur af fyrirtækjum sem voru ráðandi í netheimum í krafti þess að skrá lén og annast efnisleit. Eftir þetta færðist efni The Daily Stormer að hluta til yfir á svarta netið, þ.e. þann hluta vefjarins sem finnst ekki í leitarvélum og verður aðeins lesinn gegnum vafra á borð við Tor sem eru gerðir til að vafra um þessa myrku ranghala netheimanna.[2] Suzor ber síst í bætifláka fyrir The Daily Stormer en bendir á að ákvörðunin um að loka þessum vef hafi ekki verið tekin af dómara, heldur af stjórnendum fyrirtækja sem skrá lén og miðla efni. Hvort sem þetta er vond stjórn eða góð er ljóst að hún fer fram án lýðræðislegs umboðs og að mestu utan við lög og rétt.

Suzor skýrir vel ýmis lögfræðileg atriði sem skipta máli til skilnings á því hvernig eftirliti og ritskoðun á netinu er háttað og ræðir meðal annars sérstöðu bandarísks réttar, enda eru flestir stærstu samskiptamiðlarnir og efnisveiturnar með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum (ef frá eru talin fyrirtæki sem starfa eingöngu í Kína). Fyrsti viðaukinn við bandarísku stjórnarskrána bannar ríkisvaldinu þar í landi að setja skorður við áróðri af því tagi sem The Daily Stormer dreifði. Löggjöf í Bandaríkjunum fríar efnisveitur líka ábyrgð á því sem notendur birta og almennt ber þeim ekki skylda til að fjarlægja ólöglegt efni sem einstaklingar hlaða upp. Frá þessu eru þó undantekningar, sem varða einkum barnaklám og birtingu sem brýtur gegn höfundarrétti. Þetta þýðir að fyrirtæki eins og YouTube eða Facebook fást í fæstum tilvikum dæmd fyrir bandarískum dómstólum þótt notendur hlaði upp efni sem er ólöglegt eða ósiðlegt. Ritskoðun sem þau beita er því ekki einkum til þess að forðast að vera kærð í heimalandi sínu heldur til þess að halda tiltrú, virðingu og vinsældum. Þau myndu fæla frá sér notendur ef dælt væri inn í stórum stíl efni sem flestum þætti viðbjóðslegt.

Einn kafli bókarinnar inniheldur umfjöllun um hvernig netið hefur mótast af hugverkarétti og áhrifum fyrirtækja sem eiga útgáfurétt á kvikmyndum, tónlist og fleira efni. Þar segir frá því hvernig hluti af dómsvaldi í málum sem varða hugverkarétt var á tímabili fluttur til netþjónustufyrirtækja. Sum þeirra lokuðu netaðgangi heimila þar sem fram fór ólöglegt niðurhal. Fólk lenti jafnvel í því að vera ranglega sakað um slíkt niðurhal og læst úti. Slíkar refsingar voru, segir Suzor, langt umfram það sem alvarleiki brotanna gaf tilefni til, enda nær vonlaust að lifa lífinu án netsambands þegar samskipti við stjórnvöld, banka og alls konar þjónustufyrirtæki eru nær eingöngu á netinu. Nú er svona refsingum víðast hvar hætt en netið er samt enn að miklu leyti háð stjórn sem er ekki í anda réttarríkisins.

Hin seinni ár hafa fyrirtæki sem veita almenningi aðgang að netinu stækkað og víða er fákeppni á markaði. Þetta á ekki aðeins við um efnisveitur og samskiptamiðla, heldur líka fyrirtæki sem annast skráningu léna og selja tengingar. (Hér á landi eru t.d. flestir tengdir gegnum Símann eða Vodafone.) Suzor varar við því hvernig þessi fyrirtæki hafa víða sjálfdæmi um ritskoðun og aðgangsstýringar og þurfa aldrei að standa reikningsskap á ráðsmennsku sinni. Hann segir að almenningur þurfi tryggingu fyrir því að málefnaleg rök ráði ferð þegar efni er fjarlægt og líka einhverja möguleika á að áfrýja ákvörðunum um að fjarlægja efni. Til að þetta verði að veruleika, segir hann, þarf að finna nýjar leiðir til að tryggja rétt fólks á netinu.

Það þarf, segir Suzor, bæði að skilgreina verkferla sem takmarka hvernig hægt er að setja reglur og framfylgja þeim og samkomulag um hvert efnislegt innihald slíkra reglna má vera. Slíkt samkomulag ætti að minnka hættuna á að frelsi notenda til að tjá sig sé skert með ranglátum hætti. Hann gerir sér fulla grein fyrir að uppi eru misjafnar skoðanir um hvað er nauðsynlegt í þessum efnum en telur samt, líkt og Kaye, að samkomulag sem styddist við alþjóðlega samninga um mannréttindi yrði skref í rétta átt.

Eins og er, segir hann, eru teknar milljónir ákvarðana um ritskoðun í hverri viku. Óhjákvæmilega eru sumar þeirra hrein og klár mistök eða byggðar á misskilningi en þeir sem fyrir þeim verða eiga engan rétt. Sem dæmi má taka að ef Facebook lokar aðgangi geta eigendur fyrirtækisins einfaldlega neitað að svara ef beðið er um skýringar. Þeir eiga vettvanginn og mega ráða yfir honum. Stjórnvöld víða um heim nýta sér þessar heimildir fyrirtækjanna og beita þau þrýstingi, stundum eftir óformlegum leiðum, til að hefta útbreiðslu á efni umfram það sem þau gætu gert með því að nota lög sín og dómstóla. Í Bandaríkjunum geta stjórnvöld til dæmis ekki bannað WikiLeaks að birta efni en ríkisvaldinu hefur samt tekist að fá kortafyrirtæki og banka til að neita að miðla greiðslum til WikiLeaks. Því hefur líka tekist að fá fyrirtæki sem halda við innviðum netsins til að afskrá lén WikiLeaks og hætta að dreifa WikiLeaks-appi. Fyrirtækin eiga erfitt með að standa gegn þrýstingi frá ríkisvaldinu, meðal annars vegna þess að almennir notendur hafa lítinn rétt; það er aldrei refsivert að eyða efni frá almennum notanda en oft kostnaðarsamt að standa uppi í hárinu á yfirvöldum.

Bók Suzor er ákall um að fyrirtæki og samfélög sameinist um það sem helsti upphafsmaður vefjarins, Tim Barners-Lee, kallaði Magna Carta fyrir vefinn þegar hann hélt upp á aldarfjórðungs afmæli þessa hugarfósturs síns árið 2014. Suzor ræðir efnið frá ýmsum hliðum og bendir á að mörg lagaleg og stjórnspekileg vandamál séu óleyst. Hann hefur ekki trú á að löggjöf einstakra ríkja dugi og segir að stjórnarskrá eða Magna Carta fyrir netið, sem tryggi rétt almennings, verði að styðjast við víðtækt samkomulag og samstarf félagasamtaka, fyrirtækja og stjórnvalda. Líkt og Kaye telur Suzor að slíkt samkomulag ætti að taka mið af alþjóðlegum samningum um mannréttindi en hann viðurkennir að þeir séu einkum hugsaðir til að verja fólk gegn yfirgangi ríkisvaldsins og enn sé margt óljóst um hvernig slíkir samningar geti virkað í landamæralausum netheimum. Það er líka, segir Suzor, óraunhæft að hefðbundið dómsvald geti séð um að fjarlægja efni sem þarf að fjarlægja af netinu. Dómstólar vinna of hægt og málarekstur fyrir þeim er of dýr þegar magnið er jafn yfirgengilegt og raun ber vitni.

Leynilegar vinnureglur og réttleysi almennings

Þótt bækurnar þrjár sem hér hefur verið sagt frá gagnrýni réttleysi almennings á netinu mælir engin þeirra með því að stórar efnisveitur og samskiptavefir hætti alveg að eyða óæskilegu efni. Draumurinn sem John Perry Barlow lýsti í Sjálfstæðisyfirlýsingu netheima gerði ráð fyrir að til yrðu ótal vefsetur og að allir gætu fundið sér viðmælendur og flakkað milli ólíkra staða í þessari staðleysu sem hann nefndi „Cyberspace“. Á sumum þeirra yrði kannski tóm mannvonska en fólk gæti einfaldlega forðast þá. Veruleiki nútímans er að fáeinir vefir eins og Facebook og YouTube fá mesta athygli og ef ekki er stöðugt hreinsað til á þeim fyllast þeir af hatri og illsku. Þetta hefur gerst og ef til vill er ljótasta dæmið frá síðustu árum hvatningar til ofsókna gegn Róhingjum í Búrma sem bárust eins og eldur í sinu um Facebook og áttu sinn þátt í því að fjöldi fólks var myrtur og mörg hundruð þúsund manns þurftu að flýja land.

Þörfin fyrir ritskoðun liggur að nokkru í byggingu og gerð vefja eins og Facebook sem virka eins og tilfinningamagnarar. Það hversu hratt og víða efni berst veltur á því hvað margir bregðast við því og má þá einu gilda hvort viðbrögðin eru einhvers konar velþóknun eða vanþóknun. Stöðuuppfærslur fá því oft og iðulega útbreiðslu í krafti þess eins að vekja hneykslun og gremju.

Hvað annars konar vefi varðar, svo sem blogg og fréttablöð, er þörfin fyrir ritskoðun meira álitamál. Ég býst við að flestir telji rétt að yfirvöld beiti lögreglu og dómstólum gegn þeim sem dreifa barnaklámi, hefndarklámi og hvatningum til glæpa og hryðjuverka. Sumt sem túlka má sem róg, árásir á friðhelgi einkalífs, hatursorðræðu, falsfréttir, hindurvitni, klám, guðlast og áróður fyrir skoðunum sem taldar eru skaðlegar lendir óhjákvæmilega á gráu svæði þar sem deildar meiningar eru um hvað skuli liðið.

Við getum deilt um hverjar reglurnar eigi að vera en samt tekið undir flest sem þau Roberts, Kaye og Suzor segja um þá ritskoðun sem viðgengst og hvernig hún er til hliðar við lög og rétt. Einkum þykir mér umhugsunarefni atriði sem er sameiginlegt í málflutningi þeirra þriggja. Þetta er leyndin sem hvílir yfir ritskoðuninni og reglunum sem hún fylgir. Roberts gerir gleggsta grein fyrir þessu og Kaye og Suzor vísa báðir í rannsóknir hennar. Meðal þess sem hún segir um efnið er að fyrirtækin vilji ekki birta reglurnar sem unnið er eftir og það sé sumpart af ótta við að menn sem hafi áhuga á að birta eitthvað illt eða vafasamt læri að dansa á línunni. Þess vegna er starfsfólk sem fjarlægir efni oft látið undirrita samning um að þegja um starf sitt.

Ferðafrelsi telst til mannréttinda. Það útilokar ekki að ferðabann eigi stundum rétt á sér, til dæmis vegna sóttvarna. Það útilokar heldur ekki að sumir ferðamöguleikar, eins og geimferðir, standi aðeins fáum til boða. En hvað ef fáein fyrirtæki ættu flesta vegi, brýr, hafnir og flugvelli og leyfðu sumum að fara þar um en sumum ekki og það án þess að gefa upp hvaða reglum þau fylgdu? Hvað ef þau lægju líka undir ámæli um að taka við fyrirmælum frá valdhöfum sem vildu að óvinir sínir kæmust seint og illa leiðar sinnar? Ég held að þá þætti okkur ástæða til að hafa áhyggjur af ferðafrelsinu og teldum það klént svar að segja að þeir sem ekki fengju aðgang að samgöngumannvirkjum gætu sem best farið fótgangandi yfir móa og mýrar eins og fólk gerði fyrr á árum. Bækurnar þrjár sem hér hefur verið sagt frá orða svipaðar áhyggjur af tjáningarfrelsi í heimi þar sem almannavettvangurinn er að mestu í eigu fárra fyrirtækja. Þær vekja áleitnar spurningar um hvernig hægt sé að tryggja borgaraleg réttindi í netheimum, réttindi sem skipta okkur meira og meira máli og við þurfum að hafa, ekki aðeins sem borgarar í eigin landi heldur líka sem jafningjar í heimkynnum hugans.

Höfundur er heimspekingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Tilvitnanir:
[1] Sótt og þýtt af https://www.eff.org/cyberspace-independence
[2] Þeim sem vilja vandaða umfjöllun um svarta netið bendi ég á bókina The Dark Net: Inside the Digital Underworld eftir Jamie Bartlett (útg. Melville House, 2015).