Ísland til bjargar evrunni – um þingsályktunartillögu Viðreisnar um „gagnkvæmar gengisvarnir“ Íslands og ESB

Í lok mars lagði þingflokkur Viðreisnar fram tvær þingsályktunartillögur. Önnur vakti töluverða athygli, enda töldu margir að um aprílgabb væri að ræða. Þar var lagt til að fulltrúar stjórnvalda færu til Brussel og tækju upp þráðinn um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þetta gerðist sama dag og bann ESB við Cocoa Puffs var kynnt við litla hrifningu landsmanna.

Örn Arnarson.

Skemmtanagildi hinnar tillögunnar er ekki síðra. Hún kveður á um að Alþingi feli ríkisstjórninni að óska eftir viðræðum við ráðherraráð ESB um samstarf í gjaldeyrismálum og „gagnkvæmar gengisvarnir“.

Hugtakið „gagnkvæmar gengisvarnir“ vekur athygli í þessu samhengi. Þingmenn Viðreisnar leggja sem sagt til að íslensk stjórnvöld bjóðist til þess að verja gengi evrunnar á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum gegn því að Evrópski seðlabankinn geri slíkt hið sama þegar kemur að íslensku krónunni.

Fordæmalaus leið

Látum það liggja milli hluta hvað Seðlabanki Íslands hefur fram að færa þegar kemur að gengisvörnum evrunnar á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum. Tillagan er fyrst og fremst lögð fram til að kynna þá tálsýn að óútfærð aukaaðild að gengissamstarfi ESB (e. European Rate Mechanism – ERM2) sem væri jafnframt án allra fordæma feli í sér að Evrópski seðlabankinn yrði skuldbundinn til að tryggja gengisstöðugleika krónu á móti helstu gjaldmiðlum. Það er seðlabanka þeirra ríkja sem fá aðild að ERM2 – sem er einhvers konar forstofa þar sem beðið er á meðan ríki undirbúa upptöku evrunnar – að tryggja að viðkomandi gjaldmiðill sveiflist eingöngu innan fyrir fram ákveðinna vikmarka gagnvart evru og undir hagstjórn hvers ríkis hvernig tekst til í þeim efnum. Enda grefur það undan meginmarkmiðum ERM2 ef Evrópski seðlabankinn axlar byrðarnar í þessum efnum.

Sem kunnugt er þurfa ríki að uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði til þess að geta tekið upp evru í kjölfar aðildar að ESB. Þau kveða á um að ársverðbólga sé ekki meiri en 1,5% yfir meðalverðbólgu þeirra þriggja aðildarríkja sem búa við minnsta verðbólgu og að langtímavextir séu ekki hærri en 2% yfir meðalvöxtum þeirra ríkja sem standa best hvað verðstöðugleika varðar. Auk þess má fjárlagahalli ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu og skuldir hins opinbera ekki meiri en 60% af landsframleiðslu. Samhliða þessu þurfa væntanleg evruríki að hafa tekið þátt í ERM2 í að minnsta kosti tvö ár án þess að rjúfa umsamin gengisvikmörk eða fella miðgengi gagnvart evrunni.

Lán en ekki óútfylltur tékki

Eftir að aðildarríki ESB gengur í ERM2 eru ákvarðanir í gengismálum tvíhliða samkomulag milli viðkomandi ríkis og Evrópska seðlabankans. Það felur meðal annars í sér ákvörðun miðgengis viðkomandi gjaldmiðils – krónunnar í tilfelli Íslands – gagnvart evru og svo aðkomu Evrópska seðlabankans að stuðningi við vikmörkin gagnvart miðgenginu. Stuðningur Evrópska seðlabankans er tvíþættur: Í fyrsta lagi snýr hann að stuðningi við gjaldmiðilinn innan vikmarkanna og í öðru lagi sjálfvirkum og ótakmörkuðum stuðningi við að verja vikmörkin sjálf. Þau eru +/-15% gagnvart miðgenginu en flest ríki sem hafa gengið inn í ERM2 hafa kosið mun þrengri mörk, að minnsta kosti óformlega, enda felur það í sér raunhæfari aðlögun hagkerfisins að evrusvæðinu.

Samkvæmt reglum ESB felst stuðningurinn í veitingu ádráttarlínu til skamms tíma (e. very short term financing facility), eða til þriggja mánaða. Það er að segja í skammtímaláni til þess að verja mörkin með inngripum. Þegar um er að ræða inngrip til þess að verja gjaldmiðilinn innan vikmarkanna er þak á upphæðinni sem hægt er að draga á. Hins vegar er ádrátturinn sjálfvirkur og ótakmarkaður þegar reynir á sjálf vikmörkin en auðvitað má öllum vera ljóst að ríki hvers seðlabanki getur ekki varið sveiflur gjaldmiðils upp á 15% til eða frá gegn evru er víðs fjarri því að geta viðhaldið þeim stöðugleika sem allar útfærslur fastgengisstefnu kalla á. Trúverðugleiki peningastefnunnar hverfur um leið og reynir á þau vikmörk.

Í greinargerð sem birt var á heimasíðu utanríkisráðuneytisins í kjölfar rýnifundar í Brussel um efnahags- og peningamál á meðan aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins stóðu enn yfir kom meðal annars fram að miðað við það þak sem ríki í ERM2 hafa samið um til þessa sé hægt að gera ráð fyrir að Seðlabankinn gæti fengið 30 milljarða, eða 2% af landsframleiðslu, í ádrátt til þess að verja krónuna innan vikmarkanna. Landsframleiðslan hefur vaxið hratt síðan þá en það breytir auðvitað ekki því að sá stuðningur frá Evrópska seðlabankanum sem raunhæft væri að semja um yrði fyrst og fremst táknrænn, hvort sem íslenska ríkið sæti við borðið sem aðildarríki sem stefndi að upptöku evru eða þá að fjarlæg hugmynd Viðreisnar um einhvers konar aukaaðild yrði að veruleika. Við þetta má bæta því að gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands er það mikill að enn óraunhæfara er að ætla að hægt væri að ná einhverjum sérsamningi við ráðamenn í Brussel í þessum efnum.

Fastgengi undir fölsku flaggi

Í raun og veru er þingflokkur Viðreisnar að leggja það til undir rós að tekin verði upp fastgengisstefna hér á landi. Flokkurinn hefur áður viðrað slíkar hugmyndir en þær ekki fallið í frjóan jarðveg. Rétt er að minna á að íslensk stjórnvöld hafa áður gert tilraunir til fastgengisstefnu sem hafa endað illa, svo vægt sé til orða tekið.

Nú kunna að vera ágæt hagfræðileg rök fyrir því að ríki reki fastgengisstefnu, rétt eins og það eru rök fyrir því að ríki látið gengið fljóta og einbeiti sér fyrst og fremst að því að halda verðbólgu í skefjum eins og núverandi peningamálastefna kveður á um. En gera verður þá kröfu til þeirra sem mæla fyrir fastgengisstefnu að þeir geri grein fyrir því á hvaða gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum þeir telja æskilegt að negla fastgengið við. Það er grundvallarspurning sem svara verður áður en frekari rök fyrir þessari skoðun eru viðruð. Reyndar hvílir einnig á þeim sem mæla fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evrunnar í framhaldinu skylda að svara þessari spurningu. Þessu áttuðu íslenskir embættismenn sig á þegar aðildarviðræðurnar stóðu enn yfir, en í áðurnefndri greinargerð segir:

Innganga í evru á ósjálfbæru gengi getur leitt til óstöðugleika og fjárhagsvandamála seinna meir eins og reynslan hefur sýnt. Því er mikilvægt að vandað gagnkvæmt mat á inngönguskilyrðum fari fram fyrir inngöngu í ERM II.“

Stjórnmálaflokkar á borð við systurflokkana Viðreisn og Samfylkingu verða að gera grein fyrir áherslum sínum hvað þennan þátt varðar. Umræður um breytingu á núverandi peningamálastefnu sem miða að því að færa hana nær fastgengisstefnu – hvort sem er með aðild að ESB eða öðrum útfærslum – geta ekki verið gagnlegar nema þessari grundvallarspurningu sé svarað. Svarið við henni skiptir grundvallarmáli fyrir afkomu fyrirtækja eftir því hvort þau starfa í útflutningi eða innlendri þjónustu og mun það ávallt leiða til meiriháttar breytinga á samsetningu íslensks efnahagslífs. Ef til vill mun þá koma í ljós að munurinn á Samfylkingunni og Viðreisn felst í því á hvaða gengi gagnvart evru flokkarnir vilja festa krónuna til frambúðar.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.