Lewis-taflmennirnir og Íslandskenningin – frá Madden til Margrétar hinnar högu

Lewis-taflmenn. (Mynd: The Trustees of the British Museum.)

Ljóðhúsa- eða Lewis-taflmennirnir eru frægustu taflmenn sögunnar. Taflmennirnir eru útskornir úr rostungstönnum og taldir vera frá 12. öld. Þeir eru nefndir eftir eyjunni Lewis, stærstu eyju Suðureyja sem liggja fyrir utan vesturströnd Skotlands (einnig nefndar Ytri-Hebrideseyjar). Þar fundust þeir árið 1831 í sandbreiðu í vík við þorpið Uig (Vík).

Nú eru 82 gripanna til sýnis á Breska þjóðminjasafninu í Lundúnum og 11 á Þjóðminjasafni Skotlands í Edinborg. Gripirnir hafa verið sýndir á söfnum víða um heim og árlega skoða milljónir manna þá. Eftirlíking af taflmönnunum var notuð í frægu atriði í kvikmyndinni Harry Potter og viskusteinninn. Lewis-taflmennirnir eru á meðal vinsælustu safngripa Breska þjóðminjasafnsins og eru ein af þjóðargersemum Breta.

Lewis-taflmennirnir eru mikilvægt tákn evrópskrar siðmenningar, eins og segir á heimasíðu Breska þjóðminjasafnsins. Þar kemur fram að þeir hafi líklega verið búnir til í Þrándheimi í Noregi á árunum 1150 til 1200, þegar Suðureyjar voru hluti af norska konungsríkinu. Hugsanlegt er að þeir hafi verið grafnir niður til geymslu áður en versla átti með þá í Dyflinni á Írlandi, sem var um aldir mikilvæg verslunarmiðstöð, stofnuð af víkingum árið 841. Taflmennirnir bera vitni um sterk menningar- og stjórnmálatengsl konungsríkja Bretlandseyja og Skandinavíu á miðöldum og vaxandi vinsældir skáklistarinnar í Evrópu á þessum tíma, en hún á uppruna sinn á Indlandi um 500 e. Krist.

Skák barst til hinnar kristnu Evrópu frá Persíu í gegnum hinn íslamska heim með Márum til Spánar. Í Evrópu var borðleikurinn lagaður að veruleika miðaldasamfélags Evrópu, en skák var þá tefld af valdastéttinni og æðstu lögum samfélagsins. Þetta má sjá í heitum taflmanna; kóngur, drottning, biskup, riddari, hrókur og peð. Athyglisvert er að í Lewis-taflmönnunum er hrókurinn manngerður sem stríðsmaður eða berserkur en er ekki kastali (e. castle) eða turn. Í nokkrum tungumálum, t.d. í norsku, heitir hann turn (n. tårn). Peðin minna á litlar vörður og eru hlutgerð, en þau hafa verið talin tákn fyrir þá lægst settu í miðaldasamfélaginu. Á norsku heitir peð bonde eða „bóndi“.

Alls fundust á eyjunni Lewis 93 gripir, þar af 78 taflmenn og 14 menn fyrir borðspil, sem gætu verið fyrir hnefatafl. Einnig fannst beltissylgja. Taflmennirnir eru 8 kóngar, 8 drottningar, 16 biskupar, 15 riddarar, 13 hrókar útskornir sem grimmir stríðsmenn en fjórir þeirra bíta í skjaldarrendur, og 19 peð. Slagar þetta upp í fjögur taflsett. Fjórir taflmenn eru úr hvaltönnum. Hingað til hafa menn verið sammála um að rostungstennurnar hafi komið frá Grænlandi, en þær hafa verið taldar uppspretta mikils auðs á miðöldum. Nýlegar uppgötvanir um séríslenskan rostungsstofn gætu breytt þeirri skoðun að rostungstennurnar séu grænlenskar og sannað íslenskan uppruna þeirra. Almennt er talið að uppruni taflmannanna sé í hinum norræna miðaldaheimi en hvar þeir voru skornir út hefur verið ráðgáta.

Íslandskenning Sir Frederic Madden 1832

Sir Frederic Madden (1801–1873), fornritafræðingur og sýningarstjóri Breska þjóðminjasafnsins, skrifaði fyrstu fræðigreinina um Lewis-taflmennina árið 1832, ári eftir að þeir fundust, og taldi ótvírætt að þeir væru frá Íslandi. (Mynd: The Trustees of the British Museum.)

Árið 1832, ári eftir að Lewis-taflmennirnir fundust, skrifaði Englendingurinn Sir Frederic Madden (1801–1873), fornritafræðingur og sýningarstjóri á Breska þjóðminjasafninu, grein í tímaritið Archaeologia sem ber nafnið „Historical Remarks on the introduction of the game of Chess into Europe, and on the ancient Chess-men discovered in the Isle of Lewis“. Í greininni, sem er 93 blaðsíður og stórmerkileg, færir Madden rök fyrir því að Lewis-taflmennirnir hafi verið skornir út á Íslandi um miðja tólftu öld. Áhugamenn um þessa merku taflmenn – og skáksögu Íslands – ættu að kynna sér þessa fróðlegu grein.

Madden byrjar grein sína á að hrekja með dæmum kenninguna um að skákin hafi fyrst komið til Evrópu frá Austurlöndum með fyrstu krossferðunum fyrir 1100, það hljóti að hafa verið fyrr. Síðan lýsir hann Lewis-taflmönnunum hverjum fyrir sig og styðst við teikningar. Um kóngana vísar hann til Grímnismála, sem eru eitt Eddukvæða, þar sem segir að Geirröður konungur hafi setið með sverð sitt á hné sínu og hlýtt á orð Óðins. Svipuð lýsing sé einnig í Þorsteins sögu Víkingssonar. Í umfjöllun um biskupana, sem eru í biskupsskrúða, bendir Madden m.a. á að biskup hafi frá fornu fari verið notað í íslensku um þessa taflmenn (í öðrum málum kallast þeir annað, t.d. í þýsku Läufer og í norsku løper, þ.e. ,hlaupari‘) og að það geti hjálpað við að ákvarða staðsetningu uppruna Lewis-taflmannanna. Einnig bendir hann á að þrír hrókanna (e. warders) bíta í skjaldarrendur. Madden telur mikilvægt að hrókarnir eru stríðsmenn, slíkt hafi ekki sést áður í Evrópu. Telur hann það styðja kenningu sína um uppruna taflmannanna á Íslandi. Vísar hann þar m.a. til bréfs sem franskur maður ritaði í Kaupmannahöfn árið 1644, þar sem segir að munurinn á taflmönnum Íslendinga og Frakka sé: „Okkar fífl (e. fools) séu hjá þeim biskupar, því að þeir telja að kirkjunnar menn eigi að vera staðsettir nálægt kóngum.“ Helsta einkenni íslenska þjóðveldisins (930–1262) var að það var án konungs og hirðar og hirðfífla. Biskupar voru hins vegar valdamiklir höfðingjar sem gegndu mikilvægu hlutverki. Madden vísar til orðsins hrókur sem eigi sér uppruna í forn persneska orðinu Rokh, og merkir ‚hetja‘. Segja má að Lewis-hrókurinn sé stríðshetja. Madden telur að sé þetta rétt hafi Íslendingar einir Evrópuþjóða varðveitt upprunalegt form þessa taflmanns.

Madden vísar til Króka-Refs sögu, Konungsskuggsjár og Arngríms lærða Jónssonar um verslun með rostungstennur og útskurð þeirra og styður það m.a. með tilvísun til norrænnar fornminjasögu erkibiskupsins í Uppsölum. Einnig vísar hann til Snorra Sturlusonar, Sverris sögu, Egils sögu, Njáls sögu, Völuspár og Gunnlaugs sögu ormstungu, svo að dæmi séu tekin. Madden fer einnig í yngri heimildir, frá 1562 (Blefken), 1627 og 1750, til að sýna fram á skákáhuga Íslendinga í aldanna rás.

Madden lýkur grein sinni með því að fullyrða að taflmennirnir hafi verið skornir út á Íslandi um miðja 12. öld með eftirfarandi orðum:

 „Here then I shall conclude these Remarks, which I fear have extended to too great a length, but which seemed requisite towards the fair illustration of these very curious chess-pieces. The material they are composed of, the peculiar forms of some of the figures, the costume, and the locality, all conspire to point towards the North as their birth-place; and when we find these circumstances corroborated by the testimonies of numerous writers in ancient and modern times, touching the existence of the game of Chess in Scandinavia, and the skill of the natives in caring similar figures – we cannot, I imagine, from all the evidence, hesitate in assenting to the proposition I have endeavoured to establish, viz. that the chess-men before us were executed in Iceland about the middle of the twelfth century.“

Afdrif Íslandskenningar Madden

Bandaríski rithöfundurinn Nancy Marie Brown segir að Íslandskenning Madden hafi verið viðurkennd fram til 1874, þegar skáksagnfræðingurinn Antonius Van der Linde gerði lítið úr kenningu Madden um að Ísland hafi getað framleitt á miðöldum eitthvað sem nálgaðist fágun Lewis-taflmannanna og hafði hann að spotti að Íslendingar væru of vanþróaðir m.a.s. til að tefla skák. Sama skoðun kemur fram hjá forstöðumanni miðaldafræðistofnunar St. Andrews-háskóla í Skotlandi í viðtali við New York Times árið 2010, er hann segir m.a. „Iceland was a bit of a scrappy place full of farmers“.

Bandaríski fræðimaðurinn Willard Fiske (1831–1904) skrifaði bókina „Chess in Iceland“, sem kom út að honum látnum árið 1905. Í formála segir Fiske að hann muni í öðru bindi fjalla um útskorna taflmenn, sem séu á söfnum í Skandinavíu og Englandi, og almennt séu taldir vera frá Íslandi. Hann gagnrýnir einnig Van der Linde fyrir þekkingarleysi sitt á Íslandi. Bók Fiske er heimild í bók H. J. R. Murray (1866–1955), A History of Chess, sem kom út árið 1913 og er hún enn í dag talin ein mikilvægasta heimildin um sögu skákarinnar. Murray telur einnig að uppruni taflmannanna sé á Íslandi og vísar, eins og Madden, sérstaklega til hrókanna sem stríðsmanna, sem gefi vísbendingu um íslenskt handverk.

Listsagnfræðingar hafa verið hliðhollari Þrándheimskenningunni. Hún var styrkt mjög á árunum 1965–1999 með rannsóknum norskra list- og fornleifafræðinga á rómverskum höggmyndum. Árið 1990 töldu tveir þrándheimskir fornleifafræðingar að skissa af drottningu sem fannst í kirkjurústum í Þrándheimi væri af Lewis-taflmanni. Brown telur Noregskenninguna hafa fyrst og fremst verið styrkta með endurtekningu – því sem einn fræðimaður hefur kallað snjóboltaáhrifin. Er tekið undir þá skoðun hér.

Í grein Madden um Lewis-taflmennina er Ísland rauði þráðurinn og nefnir hann Ísland, Íslendinga eða íslenskt þar samtals 43 sinnum. Þrátt fyrir þetta má auðveldlega finna greinar á netinu þar sem fjallað er um skrif Madden og Lewis-taflmennina án þess að einu orði sé minnst á Ísland. Dæmi um það er grein frá 2012 um Madden og taflmennina (Madden Moves) eftir James Robinson, sýningarstjóra síðmiðaldasafns Breska þjóðminjasafnsins, í tilefni sýningar hins virta Metropolitan-safns í New York á Lewis-taflmönnunum (The Game of Kings – 15. nóvember 2011 til 22. apríl 2012). Greinin er á vef safnsins.

Þrándheimskenningunni er haldið á lofti af söfnum, erlendum fræðimönnum og fjölmiðlum. Þar er ekki minnst einu orði á að uppruni Lewis-taflmannanna gæti verið á Íslandi. Afdrif Íslandskenningarinnar um uppruna Lewis-taflmannanna er verðugt rannsóknarefni.

Þrándheimskenningin um uppruna Lewis-taflmannanna

Ríkjandi kenning er að Lewis-taflmennirnir séu líklega búnir til í Þrándheimi í Noregi. Er þetta skoðun Breska þjóðminjasafnsins og Þjóðminjasafns Skotlands og sú sem ætíð er haldið fram í fjölmiðlum.

Brown segir að söfnin sem eigi taflmennina séu hér áhrifamest og hefur rakið þróun umfjöllunar Breska þjóðminjasafnsins á uppruna Lewis-taflmannanna, sem hún segir að styðji Noregskenninguna af fullum krafti án þess að gera sér grein fyrir því. Þróun þessarar söguskoðunar hafi verið á þá leið að árið 1978 lýsti safnið taflmönnunum sem „skandinavískum“. Árið 1997 var þeim lýst sem „skandinavískum, en sérstaklega norskum“ og árið 2008 voru þeir „líklega búnir til í Noregi“.

Segja má að Þrándheimskenningin byggist á eftirfarandi rökum:

 • Efnahagslegar forsendur. Ríkt fólk hafi búið í Þrándheimi sem hafi getað greitt handverksmönnum fyrir hágæða útskurð.
 • Teikningar af Þrándheimsdrottningunni. Brot úr grip úr rostungstönn sem fannst í Þrándheimi um 1880 var fyrst talið vera úr líkneski af Maríu mey. Árið 1990 var þetta talið vera Lewis-taflmaður, byggt á teikningu, en gripurinn sjálfur týndist.
 • Útskurð í svipuðum stíl er að finna í Niðarósdómkirkjunni.
 • Við fornleifauppgröft í Þrándheimi hafa fundist skildir með svipuðu lagi og Lewis-taflmennirnir bera.
 • Kóngstaflmaður í svipuðum stíl hafi fundist á eyjunni Hitra við minni Þrándheimsfjarðar.

Kenningin er byggð á því að Þrándheimur var á miðöldum valdamiðstöð í Noregi með erkibiskupsstóll frá 1153 og tilheyrandi miðaldaefnahag kirkjulegs valdaseturs, sem ríkti yfir Noregi og eyjunum í vestri; Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Orkneyjum, Suðureyjum og Mön, sem voru of vanþróuð menningarsamfélög til að stunda útskurð á rostungstönnum. Rostungstennur hafi verið dýrar. Taflmennirnir hafi einungis getað verið skornir út þar sem ríkidæmi var til staðar líkt og við erkibiskupsembætti, sem gæti greitt fyrir hráefnið og handverkið. Rök gegn því að taflmennirnir hafi verið skornir út á Íslandi séu að þar hafi verið fátækt og kunnáttuleysi. Þessi rök standast ekki, t.d. í ljósi sagnaritunar Íslendinga á sama tíma.

Margrét hin haga (1150-1220) bjó í Skálholti. Teikningin er eftir Svölu Sóleygu Jónsdóttur, myndlistarkonu.

Skrif um að Lewis-taflmennirnir séu upprunnir í Þrándheimi byggja á því að þeir hafi verið skornir út á vinnustofu (e. workshop) sem búið hafi yfir ákveðinni verkþekkingu og efnahagslegum forsendum til að bera uppi útskurð sem handverksiðnað og fjöldaframleiðslu taflmanna. Þessi skoðun stenst varla. Taflmenn voru á miðöldum skornir út á fleiri en einum stað á Norðurlöndunum, líklega bæði á Íslandi og í Þrándheimi og jafnvel einnig á Grænlandi og þá af hæfileikaríkum einstaklingum. Einstaklingar búa yfir hæfileikum, ekki vinnustofur. Líklegt er að fleiri en einn hagleiksmaður hafi skorið út Lewis-taflmennina, og fræðimenn telja að þeir hafi verið a.m.k. fjórir. Vitað er um einn slíkan á Íslandi, Margréti hina högu í Skálholti. Líklegt er að rostungstennur hafi verið unnar á eða nálægt þeim stað sem þær komu frá.

Helgi Guðmundsson bendir á að samkvæmt Króka-Refs sögu, sem er frá 14. öld, hafi bæði hráefni og unninn varningur komið frá Grænlandi. Helgi telur að kenningin að Lewis-taflmennirnir séu norsk smíð sé ágiskun.

Íslandskenningin endurvakin árið 2010

Árið 2010 settu tveir skákáhugamenn, Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og Einar S. Einarsson, fv. framkvæmdastjóri VISA Ísland, fram þá skoðun að Lewis-taflmennirnir hefðu verið skornir út á Íslandi. Þessi kenning kom af stað mikilli umræðu um uppruna taflmannanna og vakti hörð viðbrögð. Eftir að hafa verið hundsaðir bæði af Breska þjóðminjasafninu og því skoska tókst þeim að fá umfjöllun um kenninguna í bandaríska stórblaðinu New York Times og ná þannig athygli annarra fjölmiðla.

Guðmundur G. Þórarinsson skrifaði bók á ensku sem heitir „The Enigma of the Lewis Chessmen – The Icelandic Theory“ og kom hún út vorið 2014. Þar setur hann fram skoðun sína á ítarlegan hátt. Guðmundur styður hana með tilvísun til eftirfarandi atriða:

 1. Orðið „biskup“ hefur aldrei verið notað um taflmenn í Noregi. Það kemur aðeins fyrir í íslensku og ensku. Heimildir sýna að orðið „biskup“ var notað á Íslandi um 1300 og á Englandi seint á 15. öld.
 2. Riddararnir eru flestir á hestum sem virðast íslenskir bæði að stærð og höfuðlagi. Því má bæta við að hlutföllin eru ekki ólík því að maður sitji á íslenskum hesti. Brown hefur bent á þetta atriði.
 3. Hrókarnir eru berserkir. Þeir eru nefndir í íslenskum samtímabókum en voru ekki þekktir í norskum ritum.
 4. Útskurðar- og skreytilist var þróuð á Íslandi á þessum tíma. Vitað er að íslenskir biskupar sendu úr landi gjafir sem voru útskorin listaverk úr rostungstönnum.
 5. Íslendingar námu Grænland og hafði Ísland sterk tengsl við Grænland á þessum tíma. Heimildir lýsa skipum biskupa sem komu með vörur frá Grænlandi til Íslands á þessum tíma.
 6. Skip frá Íslandi, sem flutti Lewis-taflmennina, kann að hafa beðið skipbrot við Lewis-eyju á leið til Dyflinnar. Íslendingar seldu hluta útflutnings síns á Írlandi, því í Noregi var þeim gert að greiða toll. Þess má geta að Björgvin hafði einokun á útflutningi vara úr Norðurvegi.
 7. Tilgáta fræðimanna er að Oddaverjar hafi skrifað Orkneyingasögu, sem er saga Orkneyingajarla. Vinátta var milli Páls Jónssonar Skálholtsbiskups og Orkneyjajarls á þessum tíma og samskipti. Sögur eru af því að þeir hafi skipst á gjöfum. Ekki er langt á milli Norðureyja (Hjaltlands- og Orkneyja) og Suðureyja, sem Lewis-eyja er hluti af.
 8. Ein hugmynd er að Lewis-taflmennirnir hafi verið skornir út að beiðni Páls biskups í Skálholti af Margréti hinni högu, útskurðarmeistara sem segir frá í Páls sögu biskups, einni af biskupasögunum.

Gagnrýni á Íslandskenningu Guðmundar G. Þórarinssonar

Hinn 8. september 2010 birti New York Times grein um kenningar Guðmundar og Einars sem heitir „Reopening History of Storied Norse Chessmen“. Þar er viðtal við dr. Alex Woolf, forstöðumann miðaldafræðistofnunar St. Andrews-háskóla í Skotlandi, sem sagði m.a. eftirfarandi: „A hell of a lot of walrus ivory went into making those chessmen, and Iceland was a bit of a scrappy place full of farmers.“ Hann sagði einnig að taflmennirnir væru stórkostleg listaverk og bætir við: You don’t get the Metropolitan Museum of Art in Iowa.“ Spyrja má hver sé þekking St. Andrews-háskóla á íslensku miðaldasamfélagi og handritum Íslendinga. Sú skoðun að Lewis-taflmennirnir séu ekki skornir út á Íslandi byggist hér á ákveðnum fordómum. Var landið sem ritaði sögur Noregskonunga of vanþróað til að búa yfir útskurðarþekkingu til að skera út hina litlu Lewis-taflmenn úr rostungstönnum sem komu líklega annaðhvort frá Íslandi eða Grænlandi?

Á miðöldum voru Íslendingar ekki lítilvæg smáþjóð í samanburði við Norðmenn, en menningar- og stjórnmálaleg tengsl á milli landanna voru þá mjög náin, sbr. Gamli sáttmáli 1262. Um 1100 var fólksfjöldi á Íslandi líklega um fimmti til sjöundi hluti af fólksfjölda í Noregi; nú er hann um sextándi hluti.

Norðmaðurinn Morten Lilleøren, skákmaður og skáksöguáhugamaður, hefur gagnrýnt Íslandskenninguna. Lilleøren var árið 2018 heiðraður með gullmerki Norska skáksambandsins (NSF) fyrir að varðveita og gera norska skáksögu aðgengilega.

Lilleøren telur að það að tengja Lewis-taflmennina við Ísland miðalda sé í besta falli rómantísk hugmynd sem sé algjörlega grafið undan með því að máta kenninguna við þekktar og samþykktar sögulegar staðreyndir. Lilleøren skýtur hér langt yfir markið og er málflutningur hans mjög einhliða. Frá upphafi er ljóst hvert markmið hans er og það er að sýna fram á að Lewis-taflmennirnir séu upprunnir í Þrándheimi en ekki á Íslandi.

Grein Lilleøren „Hva var det som gjorde at Trondheim ble koblet sammen med Isle of Lewis brikkene?“ birtist á heimasíðu Sjakkhistorisk forum 14. desember 2016. Greinin byrjar á umfjöllun um Þrándheim og Íslandskenningu Frederic Madden frá 1832, sbr. eftirfarandi:

„Trondheim har ikke alltid vært ansett som stedet der Lewisbrikkene ble laget. Da den første rapporten om brikkene ble offentliggjort, gjorde Frederic Madden en analogislutning, der han utledet Lewisbrikkenes form ut fra sjakkbrikkenes navn på forskjellige språk. Siden de eneste betegnelsene han fant som samsvarte, var de islandske, kom han til den slutning at de var laget på Island (Madden 1832). Det gikk etter hvert opp for arkeologene at noe ikke stemte med den opprinnelige ideen om Island, men oppfatningene endret seg ikke over natta.

Det er først i nyere tid at Trondheim kom i fokus. Det kunne ha skjedd hundre år før:“

Lilleøren vitnar hér til Madden á villandi og yfirborðslegan hátt og minnist ekki einu orði á skrif skáksagnfræðingsins Van der Linde frá 1874, sem fyrstur gagnrýndi Íslandskenningu Madden.

Lilleøren og Guðmundur G. Þórarinsson áttu í harðri ritdeilu á skákvefnum Chessbase.com, sem kallar hana íslensk-norska stríðið um uppruna Lewis-taflmannanna. Hún er hörðust í grein Lilleøren „The Lewis Chessmen on a Fantasy Iceland“ frá 2. desember 2011. Grein Lilleøren „The Lewis Chessmen were never anywhere near Iceland!“, ódagsett, gengur að út á að hrekja kenningu Guðmundar. Hér er eingöngu stiklað á stóru um efni þeirrar greinar en að öðru leyti er vísað til hennar í heild.

Í greininni vísar Lilleøren til skissu af svokallaðri Þrándheimsdrottningu, sem raka fyrir þrándheimskum uppruna taflmannanna. Vísar hann þar til skrifa McLees og Ekroll frá árinu 1990, þar sem segir m.a. eftirfarandi:

„There can be no doubt that the Trondheim queen derives from the same workshop which produced the Lewis pieces.“

Þetta er langsótt, svo ekki sé meira sagt, en dæmi hver fyrir sig.

Lilleøren minnist í greininni á bókina „Chess Masterpieces: One Thousand Years of Extraordinary Chess Sets“, þar sem Garrí Kasparov ritar formála, og tekur fram eftirfarandi: „Unfortunately the work is partly spoiled because it perpetuates the arguments of Thorarinsson (Dean and Brady, 2010, p. 39–40)“.

Lilleøren kveðst vera sammála Guðmundi um eitt atriði. Það sé varðandi náin tengsl Íslands og Grænlands, en bætir um leið við að bæði Norðmenn og Íslendingar hafi ferðast til Grænlands. Lilleøren vísar hér hvorki til heimilda né færir rök fyrir því að Norðmenn hafi ferðast til Grænlands. Í greininni „The Lewis Chessmen on a Fantasy Iceland“ minnist hann á skipsleysi Íslendinga á seinni hluta 12. aldar og að um árið 1200 hafi Íslendingar ekki átt nein hafskip. Einnig að engar heimildir séu fyrir komum íslenskra skipa til Suðureyja á tímabilinu 1150–1260, þegar svæðið var undir stjórn Norðmanna. Jafnframt að tengsl Íslands og Írlands hafi verið í lágmarki eða ekki til staðar. Hér má benda á að í Gamla sáttmála frá 1262 skuldbatt Noregskonungur sig til þess að halda uppi siglingum til Íslands – og skyldu ekki færri en sex skip koma til Íslands frá Noregi árlega með nauðsynjavarning. Staðreyndin er þó sú að Íslendingar gátu auðvitað flutt varning eins og taflmenn frá Íslandi til Suðureyja með skipum frá Noregi. Þau þurftu ekki að vera íslensk. Viðskipti innan norska konungsríkisins voru ekki niðurgreidd, það var ekki þannig sem Björgvin auðgaðist á útflutningseinokun sinni.

Lilleøren vísar í grein sinni til áðurnefnds dr. Alex Woolfs. Athyglisvert er að í neðanmálsgrein 8 minnist Lilleøren á ofangreind ummæli dr. Woolfs um að Ísland hafi verið vanþróaður (e. scrappy) staður fullur af bændum. Hann kvartar yfir því að ummælin hafi ekki haft nægjanleg áhrif, þar sem blaðamaður NYT hafi falið þau inn í áðurnefndri blaðagrein. Áróðursgildi ummælanna hefði sem sagt getað verið mun meira.

Í lok greinarinnar segir Lilleøren að einfaldlega þurfi að skoða verslunarleiðina og tíundina (skatt) frá Grænlandi til Noregs. Hann minnist ekki á að verslun hafi verið á milli Grænlands og Íslands og Suðureyja og Írlands.

Umfjöllun um rostungstennur og tanntafl í fornsögum
― Skrif Helga Guðmundssonar prófessors í bókinni Um haf innan

Helgi Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifaði um taflmennina frá Lewis í bók sinni Um haf innan sem kom út árið 1997.

Hjá Helga kemur fram að í Grænlendinga þætti í Flateyjarbók, sem er gamall, e.t.v. frá 12. öld, sé talað um „tannvǫru mikla og svǫrð“ og tvisvar sé þar talað um að Noregskonungum hafi verið gefinn hvítabjörn. Það voru þeir Sigurður Jórsalafari Magnússon (f. 1090 – d. 1130) og Haraldur gilli Magnússon (f. 1103 – d. 1136), sem ríkti frá 1130. Á meðal þeirra kaupmanna á Grænlandi sem þar er talað um, e.t.v. um 1133, sé Hermundur Koðránsson í Kalmanstungu og á Gilsbakka (e.t.v. um 1107–1197). Sonur hans Ketill var þjónustumaður Páls biskups Jónssonar í Skálholti um 1211.

Helgi segir að í Eiríks sögu rauða, sem var rituð eftir 1263, segi að Leifur heppni hafi siglt frá Grænlandi og orðið sæhafa til Suðureyja og gefi þar Þórgunnu hinni írsku, barnsmóður sinni, m.a. tannbelti. Það bendi til þess að grænlensk tannbelti hafi verið þekkt og eftirsótt á ritunartímanum. Í Króka-Refs sögu, sem er ung, frá 14. öld, og tengd Breiðafirði, er nefndur ýmis grænlenskur varningur, hvítabirnir, tanntafl gert af miklum hagleik og var bæði hnefatafl og skáktafl, rostungshaus með tönnum, svörður, tönn eða tannvara og skinnavara, fimm tugir fálka og fimmtán hvítir. Þarna sé bæði gert ráð fyrir hráefni og unnum varningi.

Helgi spyr hvort eitthvað verði vart við þetta vestan hafs, þ.e. á Bretlandseyjum, og hvort hægt sé að rekja feril slíks varnings.

Þorkell rostungur Kolbeinsson, kaupmaður úr Orkneyjum, var á Íslandi um 1202–1206 samkvæmt Sturlunga sögu. Rostungar voru ekki við Orkneyjar. Þess vegna sé auknefnið rostungur óvænt á Orkneyingi. Í Orkahaugi, Maeshowe, í Orkneyjum er rist mynd af rostungi, talin frá 12. öld. Sú mynd geti bent til verslunar með rostungstennur.

Helgi fjallar um taflmennina frá Lewis og fund þeirra á Vestur-Lewis, Ljóðhúsum, í Suðureyjum. Það hafi verið í Uig, Vík, skammt fyrir norðan Mangersta, Mangarastaði, og Islivig, kannske Íslendingavík, árið 1831. Helgi tekur fram að taflmennirnir hafi oft verið taldir norsk smíði. Það sé ágiskun. Fullt eins sennilegt sé að þeir hafi verið skornir út einhvers staðar á leiðinni frá aðalveiðisvæði rostunga í Norðursetu á Grænlandi til Suðureyja, kannske á Grænlandi eða Íslandi. Í Króka-Refs sögu er gert ráð fyrir að Grænlendingar hafi smíðað töfl, og þar sé nefnt bæði hneftafl og skáktafl, og í Eiríks sögu rauða er talað um tannbelti. Unnin vara var dýrari en hráefnið.

Árið 1832 mátti enn greina að sumir taflmannanna frá Lewis hefðu verið litaðir með rauðum lit, „a dark-red or beet root colour“. Þá höfðu taflmennirnir legið sex eða sjö aldir í jörðu. Liturinn hafi því verið endingargóður. Það minni á annað. Árið 1266 braut Grænlandsfar á Hítarnesi við norðanverðan Faxaflóa. Í heimild frá um 1600 segir að þar reki enn upp hvala- og rostungstennur með málrúnamarki rauðu. Þær tennur hafi legið á fjórðu öld í sjó. Af því megi sjá að Grænlendingar hafi kunnað að búa til rauðan lit, sem var afar endingargóður. Spyrja megi hvort svona litur hafi verið búinn til víða. Svar við því fáist ekki og verði ekki sannað að taflmennirnir sem fundust á Lewis hafi verið litaðir með grænlenskum lit. En það geti verið.

Helgi nefnir að norræn tökuorð í írsku séu fá og þau tengist einkum siglingum og kaupmennsku. Meðal þeirra sé rosmael, rasmoel, í írskum texta sagt merkja ‚selur‘, komið úr rosmhvalr‚ ‘rostungur‘. Rostungar voru ekki við Írland og orðið hlýtur að vera komið í írsku vegna þess að rostungstennur og reipi úr rostungshúð, svarðreipi, hafi verið verslunarvara norrænna manna þar. Við uppgröft í Dyflinni hafa fundist hauskúpa úr rostungi og munir gerðir úr rostungstönn, talið frá 11. öld. Spyrja megi hvers vegna hauskúpa úr rostungi var flutt til Dyflinnar.

Sagan af Margréti hinni högu frá Skálholti
– Bók Nancy Marie Brown um leyndardóm frægustu taflmanna heims og konuna sem bjó þá til

Bókin Ivory Vikings eftir Nancy Marie Brown kom út árið 2015.

Bandaríski rithöfundurinn Nancy Marie Brown, sem hefur ritað bækur um víkinga, skrifaði bók sem kom út árið 2015 og heitir „Ivory Vikings: The Mystery of the Most Famous Chessmen in the World and the Woman who made them“. Í bókinni kemur fram að Margrét hin haga í Skálholti hafi getað skorið Lewis-taflmennina út.

Margrét hin haga (1150–1220), sem var gift Þóri presti sem aðstoðaði Pál biskup Jónsson (1155–1211), mun hafa gert biskupsstaf úr rostungstönn svo haglega, að enginn maður hafði fyrr séð jafnvel gerðan á Íslandi. Segir svo í Páls sögu biskups sem rituð var skömmu eftir dauða hans og er ein af biskupasögum íslenskra fornrita. Páll biskup í Skálholti frá 1195 sendi staf þennan til erkibiskupsins í Niðarósi.

Ástæða bókarskrifanna er mjög athyglisverð og Íslendingum til eftirbreytni. Í umfjöllun tímaritsins The Economist um bókina kemur fram að Brown hafi verið brugðið við þá lítilsvirðingu sem Íslandi miðalda var sýnd með orðunum „a scrappy place full of farmers“. Þessu viðhorfi hafi hún viljað breyta og niðurstaðan hafi verið bókin Ivory Vikings.

Segja má að Brown sé eins konar Arngrímur lærði okkar tíma í umfjöllun um þetta áhugaverða og mikilvæga mál. Bók Brown er saga íslensks samfélags á miðöldum, samskipta höfðingja og biskupa á Íslandi við Evrópu og rökstuðningur og greining á Íslandskenningunni um uppruna Lewis-taflmannanna. Í bókinni reynir Brown að leysa ráðgátuna um uppruna Lewis-taflmannanna með því að tengja Íslendingasögurnar við nútíma fornleifafræði, listasögu, rannsóknir og sögu borðspila og kynnir Margréti hina högu til sögunnar. Um leið er kynnt 400 ára saga yfirráða víkinga á Norður-Atlantshafi og aðliggjandi landa og þannig er saga Lewis-taflmannanna tengd efnahagslegum drifkrafti vestursiglinga víkinga.

Siglunes-taflmaðurinn, úr ýsubeini og berserkur, fannst við fornleifauppgröft á Siglunesi við Siglufjörð árið 2011. (Mynd: Fornleifastofnun Íslands.)

Brown færir í bókinni sannfærandi rök fyrir Íslandskenningunni. Hún færir einnig rök gegn Þrándheimskenningunni og segir að Lewis-taflmennirnir gætu þá allt eins hafa verið skornir út á vinnustofu í Lundi í Svíþjóð, sem var aðsetur erkibiskups allra Norðurlandanna 1103–1153, þar á meðal eyjanna í vestri: Íslands, Grænlands, Færeyja, Norðureyja (Orkneyja, Hjaltlandseyja) Suðureyja og Manar. Brown bendir á að til að sanna Íslandskenninguna um að Margrét hin haga hafi skorið út Lewis-taflmennina með óyggjandi hætti þurfi nýjan fornleifagröft í Skálholti. Hún vísar einnig til Siglunes-taflmannsins, sem fannst árið 2011 og er úr ýsubeini. Hann er talinn frá 1104–1300 og lítur út eins og berserkur. Hann og aðrir taflmenn sem fundist hafa sýni að á Íslandi hafi fólk verið að skera út taflmenn á sama tíma og Lewis-taflmennirnir voru skornir út.

Skrif Brown á heimasíðu sinni og víðar um Íslandskenninguna og Lewis-taflmennina eru fróðleg. Það er m.a. fyrirlestur hennar í Fiske-safninu í Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki frá nóvember 2015 sem haldinn var í tengslum við útgáfu bókar hennar.

Athyglisverður er sá punktur Brown að gagnrýnendur hinnar endurvöktu Íslandskenningar Guðmundar G. Þórarinssonar þekki ekki nægjanlega til sögu Íslands og Noregs á 12. og 13. öld. Þeir hafi t.d. ekki þekkt hinn áhrifamikla Pál biskup Jónsson í Skálholti (1155–1211). Hún spyr af hverju ættu þeir að gera það? Frumtextinn sé á íslensku og sé ekki allur til á ensku en þær þýðingar sem eru til séu afgreiddar sem skáldskapur.

Brown bendir á að Guðmundur G. Þórarinsson hafi með kenningu sinni og þátttöku í alþjóðlegri umræðu um uppruna Lewis-taflmannanna byggt á skoðunum Madden og Murray en bætt við innsæi íslenskra fræðimanna sem skrifað hafa á íslensku. Þessir fræðimenn hafi ekki tekið þátt í hinni alþjóðlegu umræðu um uppruna Lewis-taflmannanna. Vísar hún þar til listfræðingsins Beru Nordal, fornleifafræðingsins Kristjáns Eldjárns og annarra fornleifafræðinga, sem og sagnfræðinganna Helga Guðmundssonar og Helga Þorlákssonar. Þetta leiðir hugann að þátttöku eða þátttökuleysi íslenskra fræðimanna, og raunar stjórnvalda einnig, um uppruna Lewis-taflmannanna á alþjóðlegum vettvangi í gegnum tíðina.

Lokaorð

Bandaríska stórblaðið New York Times birti grein í september 2010 um Lewis-taflmennina. Þar kemur fram að spurningin um uppruna þeirra gæti virst fræðileg, jafnvel léttvæg. En fræðimenn segja að hönnun þeirra, hvernig þeir voru búnir til, hver bjó þá til og af hverju þeir voru gerðir gefi mikilvægar vísbendingar um sögu og þróun norðurslóða Evrópu.

Í kynningu á bók Guðmundar G. Þórarinssonar, „The Enigma of the Lewis Chessmen – The Icelandic Theory“, segir Einar S. Einarsson að reynist kenning Guðmundar um íslenskan uppruna Lewis-taflmannanna rétt muni hún varpa nýju ljósi á menningu og handmennt landsmanna okkar að fornu og breyta Íslandssögunni. Forfeður okkar voru ekki einungis framúrskarandi sögumenn, skáld og sagnaritarar – sem alkunna er – heldur einnig afburða lista- og hagleiksmenn á heimsvísu.

Frændur okkar Norðmenn hafa verið duglegir að láta sig málið varða með góðum árangri. Þrándheimskenningin byggist í grunninn á því að Ísland hafi verið of vanþróað til að þekking á útskurði úr rostungstönnum gæti þrifist þar. Sú handverksþekking gæti aðeins þrifist í valdamiðstöð kirkjunnar í hinum vesturnorræna miðaldaheimi. Þessi sviðsmynd dregur upp mun veikari mynd af Íslandi og vesturnorrænni menningu á miðöldum en efni standa til. Íslensku handritin sanna það. Fallast verður á það með Brown að áhrif Þrándheimskenningarinnar byggist á endurtekningu og svokölluðum snjóboltaáhrifum.

Af hverju hafa íslenskir fræðimenn ekki tekið þátt í umræðunni um uppruna Lewis-taflmannanna á alþjóðlegum vettvangi? Skiptir kannski ekki máli hvort uppruni Lewis-taflmanna er á Íslandi eða ekki?

Fyrri spurningunni er mikilvægt að svara. Segja má að uppruni Lewis-taflmannanna snerti alþjóðlega menningarpólitík og stjórnvöld geta ekki frekar en þegar handritin eiga í hlut látið eins og ekkert sé. Lewis-taflmennirnir eru, eins og áður sagði, mikilvægt tákn evrópskar siðmenningar og stolt Breska þjóðminjasafnsins. Uppruni þeirra skiptir miklu máli.

Auðvelt er að svara síðari spurningunni og spyrja á móti hvort það skipti máli að handritin – þjóðargersemar Íslendinga – hafi verið skrifaðar á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar, t.d. í Noregi. Þessu er auðsvarað.

Þetta snýst líka um viðhorf. Í Skeifunni fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands er stytta af Sæmundi á selnum eftir Ásmund Sveinsson, sem sýnir Sæmund reiða Saltarann (Davíðssálma) til höggs á haus selsins (skrattans). Sæmundur fróði Sigfússon (1056–1133) var goðorðsmaður og prestur í Odda og helsti fræðimaður og áhrifamaður sinnar tíðar. Líklega fyrsti Íslendingurinn sem sótti sér menntun erlendis. Öll rit hans eru glötuð en vitað er að hann skrifaði um sögu Noregskonunga. Um menntun Sæmundar eru fáar heimildir. Í munnmælasögum sem skrifaðar voru niður á 17. öld segir að það sé „mál manna að Sæmundur fróði hafi numið fjölkynngi eður svartra rúna list utanlands, þar sem almennilega er nafnkenndur Svartiskóli.“ Ekki er vitað hvar Svartiskóli var en ekki var það Sorbonne í París. Eiginlegur háskóli var hvorki til í París né annars staðar í Evrópu á þessum tíma, svo að Sæmundur hefur ekki stundað nám í háskóla. Styttan af Sæmundi fróða á selnum er táknmynd. En fyrir hvað? Fyrsta Íslendinginn sem nam fræði erlendis og gerðist fræði- og valdsmaður? Virðing Íslendinga fyrir erlendum fræðimönnum er óumdeilanleg og stundum brosleg í samfélagsumræðunni. Það er merki um mikilvægi og alvarleika máls á Íslandi þegar valdamenn vísa til þess að erlendir sérfræðingar hafi skoðað það. En hvað með íslensk fræði og íslenska fræðimenn?

Athyglisvert er að helstu talsmenn Íslandskenningarinnar um uppruna Lewis-taflmannanna hafa verið ensku fræðimennirnir Sir Frederic Madden og H.J.R. Murray og bandarísku fræðimennirnir Willard Fiske og Nancy Marie Brown. Íslensku skákáhugamennirnir Guðmundur G. Þórarinsson og Einar S. Einarsson endurvöktu hana árið 2010 og hafa tekið þátt í alþjóðlegri umræðu um uppruna þessara merku taflmanna. Hvar hafa íslenskir fræðimenn verið í þessari alþjóðlegu umræðu? Kannski er kominn tími á að í Skeifunni rísi einnig styttur af Arngrími lærða Jónssyni og Snorra Sturlusyni eftir íslenska myndhöggvara sem tákn mikilvægra viðhorfa innan íslenskra fræða. Saga Íslandskenningarinnar um uppruna Lewis-taflmannanna, sem kallaðir hafa verið mikilvægt tákn evrópskar siðmenningar, virðist benda til þess.

__________________________________

Höfundur er lögfræðingur LL.M.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Heimildarskrá má nálgast í prentútgáfu ritsins. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.