Hvers virði er stöðugleikinn?

Það er ágætt að hafa burði til að stöðva stefnumál sem koma frá vinstri, en það má ekki vera eina markmið hægri manna.

Þegar stofnað var til núverandi ríkisstjórnar­samstarfs töluðu allir formenn stjórnar­flokkanna um að þetta yrði ríkisstjórn stöðugleikans. Það var svo sem auðveld söluvara þegar verið var að teygja sig yfir hægri og vinstri ás stjórnmálanna, með Framsókn í eftirdragi, og þá sérstaklega í hita leiksins þá og þegar. Það má færa rök fyrir því að óróleiki hafi ríkt í íslenskum stjórnmálum eftir hið svokallaða hrun. Það fólk sem yfirleitt hefur kosið að vera reitt í lífinu fékk þá ástæðu til að láta reiði sína í ljós og margt af því leggur enn dag við nótt að lýsa reiðinni í garð náungans.

Það má líka færa rök fyrir því að vinstristjórnin sem sat á árunum 2009–2013 hafi ýtt undir óróleikann með því að taka ekki á þeim vandamálum sem þá voru augljós, t.d. skuldavanda heimila og fyrirtækja, heldur einbeita sér frekar að því að umbylta stjórnarskrá, sækja um aðild að ESB og koma bæði pólitískum andstæðingum og bankamönnum í fangelsi. Enginn var betur settur eftir fjögurra ára setu norrænu velferðarstjórnarinnar og kjósendur refsuðu fyrir það í kosningunum 2013.

***

Þá tók við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sú ríkisstjórn hafði skýrari markmið og gat forgangsraðað verkefnum í þágu heimila og fyrirtækja. Eini alvöru óróleikinn á þeim tíma var meðal biturra vinstrimanna sem létu reiði sína í ljós á samfélagsmiðlum á meðan eðlilegt fólk hélt áfram að lifa lífinu. Óróleikinn kom ekki að ráði inn í stjórnmálin á ný fyrr en Viðreisn og Björt framtíð tóku sæti í ríkisstjórn sem sprakk á tíu mánuðum. Þjóðin verðlaunaði það með því að þurrka Bjarta framtíð af þingi, sem og meginþorra Viðreisnar.

***

Það er aftur á móti rétt að það var kallað eftir auknum stöðugleika í stjórnmálunum og á þeim grunni var núverandi ríkisstjórn mynduð. Síðan þá hafa ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans flutt æfðar ræður um að þetta hafi verið eini alvöru möguleikinn á myndun ríkisstjórnar, að þetta sé fagleg stjórn, að traust ríki meðal leiðtoga flokkanna og þar fram eftir götunum.

Margt af þessu er rétt. Það má samt spyrja hvaða árangri það skilar til lengri tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera í stjórn með Vinstri grænum. Til að gæta sanngirni fékk stjórnin erfið verkefni í fangið á kjörtímabilinu, má þar helst nefna erfiðan aðdraganda að gerð kjarasamninga og síðan heimsfaraldur sem sett hefur líf allra annarra en þeirra sem starfa fyrir hið opinbera úr skorðum. Mörg ágætis mál voru afgreidd á kjörtímabilinu, s.s. þættir sem snúa að nýsköpun og þróun, skattalækkanir (þótt þær hefðu mátt vera fleiri), rödd Íslands fékk að heyrast í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi, tengslin við stór ríki voru styrkt og dómsmálaráðherra lagði í sínum verkum áherslu á aukið frelsi, einfaldara líf og betri þjónustu við almenning.

Það eru atriði sem skipta máli. Það tókst líka að stoppa vond mál og má þar helst nefna stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þar skipti þó öflug stjórnarandstaða Miðflokksins líka töluverðu máli.

Aftur á móti sat Sjálfstæðisflokkurinn hjá á meðan stigin voru stór og þung skref í áttina að aukinni ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins, sem hvort í senn felur í sér meiri sóun og verri þjónustu. Þá tókst skynsömu fólki á þinginu, þrátt fyrir mikinn þrýsting, að koma í veg fyrir stórtækar en misráðnar breytingar á stjórnarskrá.

***

Stöðugleiki er víðtækt hugtak sem túlka má með ólíkum hætti. Sumir halda því fram að núverandi stjórn sé í raun stjórn um stöðnun. Sú orðræða kemur helst frá forystufólki Viðreisnar sem hefur, eins og Bjarni Benediktsson hefur bent á, gert öll verstu stefnumál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að sínum; inngöngu Íslands í Evrópusambandið, vanhugsaðar breytingar á stjórnarskrá og umbyltingu sjávarútvegsins. Allir vita að Ísland er ekki á leið inn í Evrópusambandið, það er búið að færa sterk rök fyrir því af hverju það er vanhugsað að taka upp tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá og það mun hafa skaðleg áhrif á allt hagkerfið, og um leið lífsgæði okkar, ef tillögur Viðreisnar í sjávarútvegsmálum ganga eftir.

***

En aftur að stöðugleikanum. Það má ekki vera þannig að pólitískt umrót eða pólitískur slagur um ákveðin málefni séu túlkuð sem einhvers konar óstöðugleiki í stjórnmálum. Það að bera fram róttækar hugmyndir er ágætt ef hægt er að eiga um þær málefnalegar umræður. Það er líka eðlilegt, reyndar nauðsynlegt, að átök fari fram um hugsjónir.

Það er hætt við því að stjórnmálamenn, í nafni stöðugleikans, veigri sér við því að leggja fram pólitískar hugmyndir og láti embættismönnum eftir að semja lög og reglur í landinu, hvort sem er í ráðuneytum eða undirstofnunum. Það er í raun hættulegri þróun en að taka pólitískan slag um málefni. Það væri, svo dæmi sé tekið, slæm þróun ef allar hugmyndir embættismanna hjá Landlæknisembættinu fengju fram að ganga án pólitískrar umræðu. Að sama skapi er ólíklegt að starfsmenn Skattsins eða Fjármálaráðuneytisins beri hag skattgreiðenda fyrir brjósti þegar mótaðar eru stefnur um skatta og fjármál ríkisins. Það má einnig nefna að það væri vond þróun ef saksóknarar og dómarar fengju einir að móta lagasetningu um réttindi einstaklinga og fyrirtækja. Svona mætti lengi áfram telja.

***

Stjórnmálamenn eru kosnir til að stjórna landinu. Þeir geta ekki skýlt sér á bak við embættismenn í þeim tilgangi að ætla að forðast átök og viðhalda stöðugleika. Við sáum þetta gerast í þeim heimsfaraldri sem nú geisar og það er hætt við því að við munum sjá það gerast aftur við minna tilefni. Þá verða aldrei stigin skref í frelsisátt, og nógu fá eru þau nú fyrir.

Það gengur heldur ekki upp að stjórnmálamenn þegi þunnu hljóði þegar undirstofnanir ríkisins ganga fram með hörku gagnvart fólki og fyrirtækjum. Þar má sérstaklega nefna Samkeppniseftirlitið, sem ítrekað beitir valdi sínu af hrottaskap í garð fyrirtækja. Fáir stjórnmálamenn þora að tjá sig um þessa þróun, enda vita þeir að þeir munu fá gagnrýni fyrir. Í stað þess að taka slaginn og færa rök fyrir máli sínu – og vera tilbúnir að standa og falla með þeim rökum – kjósa þeir frekar að þegja.

Þá er eins gott að finna sér eitthvað annað að gera og leyfa bara embættismönnum að stjórna landinu.

***

Sjálfstæðisflokkurinn boðar nú, réttilega, að eina leiðin til að koma í veg fyrir að vinstri stjórn taki hér við völdum sé að tryggja það að Sjálfstæðisflokkurinn komi vel út úr kosningunum. Það er vissulega rétt og með hagkerfið í viðkvæmu stöðu hefur þjóðin í raun ekki efni á því að leiða vinstri stjórn til valda.

Stefnumál og áherslu Sjálfstæðisflokksins þurfa þó að vera einhverjar aðrar en þær að semja sig frá eða stoppa verstu málin frá Vinstri grænum. Ef að Sjálfstæðisflokkurinn sinnir ekki sínum eigin kjósendum þá fara þeir eitthvað annað – og reynslan á liðnum áratug hefur sýnt okkur að það er auðvelt að stofna nýjan stjórnmálaflokk.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.