Fimmtándi íslenski stórmeistarinn og Íslandsbikarinn

Hjörvar Steinn Grétarsson tekur við sigurlaunum á Íslandsbikarnum.

Íslenskt skáklíf gengur áfallalausar fyrir sig en í flestum löndum, en segja má að alþjóðlegt mótahald hafi meira eða minna legið niðri í Covid. Það er helst í Austur- og Suður-Evrópu, þar sem hægt er að aka á milli landa og reglur eru greinilega ekki jafn strangar og hér, sem alþjóðleg skákmót hafa verið haldin.

Skáksambönd hafa þó haldið landsmót sín, sem hafa verið vel sótt og sterkari en í venjulegu árferði. Til stóð að Íslandsmótið í skák færi fram um páskana en því þurfti að fresta þegar fjórða bylgjan gerði vart við sig og fresta þurfti mótinu um óákveðinn tíma. Vonandi verður hægt að halda mótið í vor.

Evrópumót einstaklinga átti að vera hápunktur skáklífsins á Íslandi nú í vor en hefur verið frestað fram í ágúst/september. Þegar þetta er ritað er unnið að því að finna gott húsnæði fyrir mótið.

Það mót átti að gefa sæti á Heimsbikarmótið í Sotsjí í Rússlandi sem fram fer í júlí/ágúst. Þar sem ekki er raunhæft að standa fyrir mótinu í raunheimum stendur Skáksamband Evrópu fyrir Evrópu-netmóti þar sem sterkustu skákmenn Evrópu, sem ekki hafa þegar unnið sér inn rétt til þátttöku, keppa um sæti. Keppnin fer þannig fram að keppendur sama lands eru í sama rými undir eftirliti dómara og myndavéla. Mótið verður ekki reiknað til stiga. Þar má gera ráð fyrir mörgum af sterkustu skákmönnum landsins.

Alþjóða skáksambandið ákvað að gefa sterkari skáksamböndum heims kost á að að tilnefna einn skákmann á heimsbikarmótið. Ísland ákvað að fara þá leið að halda sérstakt mót – Íslandsbikarinn – sem Hjörvar Steinn Grétarsson vann. Guðmundur Kjartansson náði loksins 2.500 skákstigum og verður formlega útnefndur stórmeistari fljótlega.

Guðmundur náði fyrsta stórmeistaraáfanga sínum í Edinborg árið 2009, svo að hér er á enda 12 ára ferðalag! Þrautseigja Guðmundar hefur verið aðdáunarverð en margir hefðu án efa lagt árar í bát.

Guðmundur Kjartansson vann Margeir Pétursson í átta manna úrslitum.

Íslenskir stórmeistarar

Friðrik Ólafsson varð stórmeistari fyrstur Íslendinga. Íslensku stórmeistararnir fimmtán eru:

 1. Friðrik Ólafsson (1958)
 2. Guðmundur Sigurjónsson (1975)
 3. Helgi Ólafsson (1985)
 4. Jóhann Hjartarson (1985)
 5. Margeir Pétursson (1986)
 6. Jón L. Árnason (1986)
 7. Hannes Hlífar Stefánsson (1993)
 8. Helgi Áss Grétarsson (1994)
 9. Þröstur Þórhallsson (1996)
 10. Henrik Danielsen (2006)
 11. Héðinn Steingrímsson (2007)
 12. Stefán Kristjánsson (2011)
 13. Hjörvar Steinn Grétarsson (2013)
 14. Bragi Þorfinnsson (2018)
 15. Guðmundur Kjartansson (2021)

Lenka Ptácníková er stórmeistari kvenna. Það er skoðun sumra að rétt sé að telja Bobby Fischer í hópi íslenskra stórmeistara. Hann er þó yfirleitt ekki talinn með enda tefldi hann aldrei fyrir Íslands hönd og tefldi heldur aldrei opinberlega sem íslenskur ríkisborgari.

Hjörvar vann Íslandsbikarinn

Skáksambandið ákvað að halda sérkeppni um réttinn til að tefla á heimsbikarmótinu í skák. Átta af sterkustu skákmönnum landsins var boðin þátttaka og tefldu þeir í glæsilegum húsakynnum útibús Landsbankans í Austurstræti. Elstur keppenda var Margeir Pétursson, sextugur, en yngstur var hinn sautján ára Vignir Vatnar Stefánsson.

Teflt var eftir útsláttarfyrirkomulagi eins og á Heimsbikarmótinu. Fyrst voru tefldar tvær kappskákir. Ef jafnt var að þeim loknum var teflt til þrautar með skemmri umhugsunartíma. Hart var barist og engri af 14 kappskákum mótsins lauk með jafntefli.

Svo fór að Hjörvar Steinn Grétarsson vann sigur á mótinu og fær því keppnisrétt á heimsbikarmótinu í Sotsjí. Var sigur hans virkilega verðskuldaður því hann tefldi áberandi best allra keppenda. Lagði Hjörvar Íslandsmeistarann þrettánfalda, Hannes Hlífar Stefánsson, að velli á sannfærandi hátt í úrslitum, 2-0, og hlaut sjö vinninga í átta skákum.

Það var aðeins Guðmundur Kjartansson sem vann meistarann. Og það var heldur betur mikilvægur sigur – því um leið náði Guðmundur 2.500 skákstigum, sem tryggir honum stórmeistaratitilinn. Hjörvar vann svo Guðmund eftir atskákarframlengingu.

Afar athyglisvert atvik átti sér stað í fyrri skák Hannesar Hlífars og Helga Áss Grétarssonar. Hannes lék síðast 16…g4??

Helgi hugsaði sig um í 18 sekúndur og lék svo 17. Rd2?? og tapaði um síðir. 17. Dxe6+!! hefði hins vegar unnið skákina strax því svartur er mát eftir 17…fxe6 18. Bg6#. Fléttan fór um allan skákheim og þótti mörgum ótrúlegt að tveimur sterkum skákmönnum skyldi yfirsjást þetta þekkta þema. Helgi náði reyndar að vinna síðari skákina og knýja fram framlengingu, en þar hafði Hannes betur.

Í Covid-ástandinu hefur eðli málsins samkvæmt ekki verið mögulegt að hafa áhorfendur. Skáksambandið hefur því lagt meira í útsendingar. Skákvarpið hefur orðið til! Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson hafa þar staðið vaktina og lýst skákunum um leið og þær eru í gangi. Sambandið hefur fjárfest í myndavélum og þrífótum og geta nú áhorfendur heima í stofu fylgst með svipbrigðum keppenda á meðan á skákmótum stendur. Skákvarpið mun halda áfram eftir Covid og eflast áfram. Hefur það einnig verið notað á netviðburðum.

Björn Ívar og Ingvar Þór hafa staðið vaktina í Skákvarpinu.

Landsbankinn fær þakkir fyrir að ljá okkur sitt frábæra húsnæði undir mótið.

Áskorendamótið í Katrínarborg

Áður hefur verið fjallað um áskorendamótið í Katrínarborg sem slitið var í fyrra í miðju kafi en nú stefnir í að það verði klárað í apríl. Það verður fróðlegt að sjá hver verður áskorandi Magnúsar í heimsmeistaraeinvíginu sem fram fer í Dubai í nóvember/desember. Ian Nepomniachtchi og Maxime Vachier-Lagrave eru taldir líklegastir til afreka enda efstir. Ekki má þó vanmeta Fabiano Caruana, sem hefur vinningi minna og virðist vera næstbesti skákmaður heims í dag.

50 ára afmæli einvígis aldarinnar

Einvígi aldarinnar fór fram árið 1972. Á næsta ári verða því 50 ár liðin frá viðburðinum sem kom Íslandi heldur betur á heimskortið. Hugmyndir komu fram um að halda heimsmeistaraeinvígið hér árið 2022 en eins og hlutirnir hafa þróast verður ekkert heimsmeistaraeinvígi það ár.

Skáksambandið hefur sent menntamálaráðuneytinu erindi þar sem hugmyndir um mótahald á afmælisárinu eru tíundaðar. Vonandi skýrist það fyrr en ella hvernig haldið verður upp á þessi tímamót.

Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.