„Óvissa er viðvarandi ástand,“ sagði góður maður við mig um daginn. Hans skoðun er að þetta orð sé stórkostlega ofnotað, sérstaklega í efnahagslegu samhengi, og jafnvel meira en tískuorðið fordæmalaust sem við höfum svo oft heyrt síðastliðið ár. Kannski má samt segja að fram undan sé fordæmalaus óvissa. Kosningar í heimsfaraldri, tíu framboð mætt til leiks og allt útlit fyrir að engin leið sé til að mynda stjórn með færri en þremur flokkum ef stjórnin er mynduð til hægri, en ekki færri en fimm flokka stjórn ef hún er mynduð til vinstri.
Það verður talsverð vinna fyrir kjósendur að fara í gegnum bólgna loforðalista, sem fela í sér afar misjafnar áherslur en þó oft einhvers konar loforð um betri hag fyrir alla. Velferð er flokkunum hugleikin, en stundum vantar eitthvað upp á samhengið við verðmætasköpunina sem þarf að vera til staðar til að standa undir velferðinni.
Vinnuveitendur og stjórnendur eru líka kjósendur og Viðskiptaráð Íslands ákvað í ágúst að spyrja aðildarfélaga sína, sem eru einmitt úr þeim hópi, hvaða áskoranir þeir væru helst að fást við í rekstri og hvaða áherslur þeir vildu sjá hjá næstu ríkisstjórn.
Launakostnaður, mönnun og vinnumarkaðsmál, samskipti við eftirlitsstofnanir, gengisstöðugleiki, flókið regluverk og reglu- og skattbyrði sem skerða samkeppnishæfni, auk íþyngjandi sóttvarnaaðgerða, eru stjórnendum ofarlega í huga þegar spurt er um áskoranir í rekstri. Þegar kemur að væntingum til ríkisstjórnar koma eðlilega sömu atriði að einhverju leyti upp, en líka fyrirferð ríkisins, sem virðist vera fæstum flokkum sem nú eru í framboði sérstaklega hugleikin.
Atvinnulífið þarf rými til að vaxa
Hið opinbera er frekt á fólk og fjármuni. Tæplega þrjátíu prósent vinnuaflsins vinna hjá ríki og sveitarfélögum og ríkið eitt ráðstafar um það bil þriðju hverri krónu sem er varið hér á landi. Ríkið skapar ekki þau verðmæti, heldur verða þau að meginstefnu til á einkamarkaði, sem stendur undir þeirri velferð sem Íslendingar eiga að venjast. Það er því mikið hagsmunamál allra að atvinnulífið fái rými til að vaxa og þróast, búa til ný tækifæri, sækja á ný mið og skapa fleiri verðmæt störf sem hvetja okkur sem samfélag til að ná lengra.
Hluti þessa rýmis getur skapast með því að endurskipuleggja ríkisreksturinn. Að skilgreina verkefni betur, ákveða hvar er markaðsbrestur þannig að ríkið þurfi að láta til sín taka og hvar einkaaðilar geta lagt gott til. Draga úr umfangi ríkisins með því að losa það úr samkeppnisrekstri, beita samvinnuleið við fjármögnun og framkvæmdir, útvista verkefnum eins og samskiptamálum, forritun og ýmissi stoðþjónustu, fjölga rekstrarformum sem víðast og auka þannig fjölbreytni og gæði. Einkarekstur, sem orðið hefur hálfgert bannorð í munni ýmissa stjórnmálamanna, er ekki sérhagsmunamál atvinnurekenda. Einkarekstur varðar almannahagsmuni, enda snýst hann um að fara betur með fjármuni og gefa fólki val, ekki einungis um það hvar það sækir sér þjónustu, heldur einnig um vinnustað.
Það hefur, því miður, verið talsverð stemning fyrir því undanfarið að skauta umræðu og reyna sem mest að mynda gjá á milli vinnuveitenda og launafólks, almannaþjónustu og einkarekstrar. En þegar öllu er á botninn hvolft getur ekkert án hins verið. Eins og svo oft hefur verið sagt undanfarin misseri: Við erum öll í þessu saman.
Sátt á vinnumarkaði
Hlutur launþega í verðmætasköpuninni er líklega hvergi meiri en hér á landi. Það ætti því ekki að koma á óvart að launakostnaður sé það einstaka atriði sem oftast kemur fram í könnuninni þegar spurt er um áskoranir í rekstri. Þar leggjast á eitt miklar launahækkanir síðustu ára og launatengd gjöld sem vega einnig þungt. Þótt tryggingjagjald hafi lækkað verulega frá því að það var hæst eftir bankahrunið er það enn hátt og þegar aðildarfélagar eru spurðir hvaða skattar séu mest íþyngjandi fyrir reksturinn nefnir um helmingur svarenda tryggingjagjaldið. Hærra mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð er líka gagnrýnt, en það er afleiðing jöfnunar lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og launafólks á almennum markaði.
Lengi vel var horft til þess að almenni markaðurinn borgaði hærri laun, en opinberir starfsmenn nytu meira starfsöryggis og betri lífeyrisréttinda. Þegar hugmyndir um jöfnun voru kynntar voru markmiðin meðal annars þau að breytingin væri grundvallarþáttur í nýju vinnumarkaðslíkani og með henni væri hægt að skapa aðstæður fyrir betra flæði starfsfólks á milli markaðanna. Það var yfirlýst stefna stéttarfélaga opinberra starfsmanna og viðsemjenda þeirra að laun á opinberum markaði yrðu samkeppnishæf við almenna markaðinn. Það hefur gengið eftir, því laun opinberra starfsmanna hafa hækkað verulega, en þeir halda líka starfsöryggi sínu og í meginatriðum lífeyrisréttindum þótt nú sé ávinnslan aldurstengd – og hið opinbera er á ýmsum sviðum orðið enn erfiðari keppinautur um vinnuafl en áður.
Í umfjöllun um vinnumarkaðinn í stefnuyfirlýsingu sinni sögðu núverandi stjórnarflokkar – réttilega – að sátt á vinnumarkaði væri nauðsynleg forsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi og skapa þannig efnahagsleg skilyrði til lægra vaxtastigs og bættra lífskjara. Vel má færa rök fyrir því að lífskjarasamningurinn hafi þjónað þessu hlutverki, en launaþátturinn hefur lagst misþungt á atvinnugreinar. Mannaflsfrekur rekstur í lágframleiðnigreinum, sem treystir meðal annars á ófaglært starfsfólk, hefur þannig hlutfallslega tekið á sig meiri hækkanir en t.d. fyrirtæki með sérfræðinga sem voru fyrir yfir meðallaunum. Mörgum þykir því sáttin dýru verði keypt.
Lífskjarasamningurinn byggðist á þeim forsendum að fram undan væri samfellt hagvaxtarskeið sem gerði fyrirtækjum kleift að standa undir launahækkunum. Auðvitað sá enginn heimsfaraldur fyrir en staðan er eigi að síður sú að verðmætin sem vera áttu til skiptanna urðu ekki til. Samt sem áður var ákveðið að virkja ekki uppsagnarákvæði samningsins síðastliðið haust, heldur treysta á að aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við áhrifum faraldursins á atvinnulífið myndu milda áhrifin af þeim rúmlega 40 milljarða hækkunum sem þá voru fram undan.
Staðreyndin er sú að vinnuveitendum er mikilvægt að halda sem mestri sátt á vinnumarkaði og hafa sýnt til þess vilja í verki. En það þarf tvo til og auglýsingar um að nóg sé til og órökstuddar yfirlýsingar verkalýðsleiðtoga um að hlutfallslega hafi launakostnaður lækkað eru í besta falli skrýtin skilaboð inn í síðasta ár lífskjarasamningsins, ekki síst þegar horft er til átján mánaða í heimsfaraldri sem hafa reynt verulega á þolrifin.
Næsta ríkisstjórn þarf að stíga varlega til jarðar, bæði sem stjórn stærsta vinnuveitanda landsins og í þeim hagstjórnarákvörðunum sem hún tekur, því eins og komið verður að síðar er stöðugleiki í víðu samhengi mikilvægur fyrir rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja.
Dýrar samkeppnishindranir
Ýmis þau atriði sem stjórnendur nefna í könnuninni falla undir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Þar er launakostnaður efst á blaði, eins og þegar er fram komið, en einnig annar kostnaður sem til dæmis verður til vegna reglubyrði, og þar vænta stjórnendur breytinga. Á óskalista þeirra eru t.d. lipurri samskipti við eftirlitsstofnanir, að þær leggi áherslu á að leiðbeina fyrirtækjum, að málsmeðferðartími verði styttur og leyfisveitingarferli einfölduð.
Tal um einföldun regluverks er ekki innantómt og það má hrósa úttekt sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fékk OECD til að gera í fyrra á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Út úr henni kom að í þessum tveimur greinum væri að finna tæplega 700 mögulegar samkeppnishindranir og lagðar voru til yfir 400 breytingar á lögum og reglugerðum til úrbóta. Það væri vel til fundið að næsta ríkisstjórn léti gera slíkt samkeppnismat á fleiri geirum með það að markmiði að ryðja úr vegi óþarfa hindrunum. Hvatinn ætti að vera skýr, enda mat Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ávinninginn af tillögum OECD á um 1% af VLF, eða um 30 milljarða króna á ári.
Trúverðug stefna um stöðugleika
Þrátt fyrir ákall um ýmsar breytingar á umhverfi fyrirtækja er langtímahugsun og stöðugleiki ofarlega í huga þeirra sem reka fyrirtæki á Íslandi. Þar inn í spilar vaxtastig, verð- og gengisstöðugleiki. Þar sem ríkið ráðstafar um þriðju hverri krónu sem er varið hér á landi og er stærsti vinnuveitandi landsins leikur það lykilhlutverk í að stuðla að verðstöðugleika og bróður hans gengisstöðugleika. Samkvæmt lögum er það hlutverk Seðlabankans en það blasir við að hann einn getur ekki stuðlað að verðstöðugleika, enda gæti það t.d. leitt til hærri vaxta en ella.
Verð- og gengisstöðugleiki eykur velferð, gerir íslensk fyrirtæki sterkari í alþjóðlegri samkeppni og gagnast ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna. Því þarf markmið um að stuðla að þessu að vera mjög ofarlega á forgangslista næstu ríkisstjórnar. Þar er mikilvægast að ríkisfjármálin, einkum afkoma ríkissjóðs og aðkoma ríkisins að kjarasamningum, stuðli að þessum markmiðum.
Á síðustu árum hefur mikið áunnist í þessum efnum. Eigi að síður eru blikur á lofti, þar sem verðbólga hefur undanfarið verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og mælist nú sú mesta á Norðurlöndunum og gengisstöðugleiki er iðulega minni hérlendis. Þá hafa launahækkanir verið með ósjálfbærum takti síðustu misseri, leiddar áfram af 18% launahækkunum opinberra starfsmanna frá upphafi heimsfaraldursins. Ekki eru horfur á að það breytist í bráð, en Seðlabankinn spáir að launakostnaður á framleidda einingu hækki árlega um 5% á næstu tveimur árum. Til lengdar þurfa þær hækkanir hins vegar að vera við verðbólgumarkmið, 2,5%.
Næsta ríkisstjórn þarf því ekki einungis að hafa markmið um stöðugleika í forgrunni heldur trúverðuga stefnu um hvernig honum verður náð.
Að lifa með veirunni
Sóttvarnaaðgerðir koma oft fyrir í svörum stjórnenda þegar spurt er um áskoranir í rekstri. Þegar spurt er út í hvaða takmarkanir séu mest íþyngjandi nefna flestir sóttkví. Kostnaður og óhagræði fyrirtækja vegna fjarveru starfsmanna í sóttkví leggst ofan á launakostnað sem þegar er hár, auk þess sem fyrirtæki hafa þurft að breyta ýmsu í starfsemi sinni til að lágmarka tjón ef einhver smitast. Þótt fjöldatakmarkanir séu við 200 eða 500 manns skipta mun minni fyrirtæki sér upp í hólf og reyna að takmarka samskipti starfsmanna á vinnustað, sem reynir á bæði skipulag og starfsmannaanda og getur komið niður á framleiðni.
Fram til þessa hafa fyrirtækin litið á þetta sem tímabundið verkefni, átak til að bregðast við lítt þekktri veiru og afleiðingum hennar, en þegar yfirvöld tala um viðvarandi ástand til margra ára renna tvær grímur á stjórnendur með fullbólusetta starfsmenn. Síðustu vikur hefur því orðið háværari spurningin um það hvers vegna ekki sé slakað á kröfum hér á landi í sama mæli og gert hefur verið í nágrannalöndum. Það er því ljóst að nýrrar ríkisstjórnar bíður að marka stefnu til langs tíma um það hvernig eigi að lifa með veirunni, þar sem tekið er tillit til fleiri sjónarmiða en sóttvarnahagsmuna.
Allt fyrir alla
Það eru stór verkefni fram undan og niðurstaða kosninganna mun skipta miklu fyrir þá stefnu sem þjóðin tekur út úr faraldrinum. Næsta ríkisstjórn þarf að halda áfram á þeirri braut stöðugleika og styrkrar hagstjórnar sem mörkuð hefur verið. Flokkarnir sem mynda slíka ríkisstjórn eru líklegir til að setja fram ábyrga og hófsama stefnuskrá, í stað þess að reyna að ná athygli með flugeldasýningum, loforðum um ókeypis peninga og nýja stjórnarskrá sem leysir allan vanda.
Stundum er sagt að kjósendur fái þá stjórn sem þeir eiga skilið. Á móti má segja að kjósendur eigi skilið að fá skýr og trúverðug skilaboð þannig að þeir viti hvað raunverulega felist í loforðum flokkanna sem sækjast eftir atkvæði þeirra. Það er samt yfirleitt góð regla að gera ráð fyrir að ef eitthvað lítur út fyrir að vera of gott til að vera satt er það venjulega raunin. Og að ef hægt væri að gera allt fyrir alla í einu og eiga fyrir því væri örugglega einhver búinn að því. Fyrir löngu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
—
Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.