Ástríðustjórnmálamaðurinn Ólöf Nordal

Ólöf Nordal var alltaf með það á hreinu hvert grunnhlutverk stjórnmálamanna væri: Að auka hagsæld heimilanna. Allt annað mætti bíða. (Mynd: VB/HAG)

Ólöf Nordal leit á það sem hugsjón að vera í stjórnmálum. „Maður gerir það af mikilli innri þrá og þarf að geta einbeitt sér að því,“ sagði Ólöf í viðtali við Morgunblaðið í september 2012. Þá hafði hún ákveðið að draga sig í hlé enda voru þá aðstæður breyttar hjá fjölskyldunni. En hún sneri aftur á sviðið nokkrum árum síðar. Ólöf var í mörgu óvenjulegur stjórnmálamaður og fannst skemmtilegast að „tengja saman ólík sjónarmið, líka hinna yngri og eldri“. Hafði unun af því að umgangast fólk, naut þess að ræða ólík sjónarmið og kunni þá list að hlusta og rökræða. Ólöf leit á það sem skyldu sína að ýta undir skoðanaskipti og var sannfærð um að Sjálfstæðisflokknum vegnaði best þegar almennir flokksmenn væru virkir í starfi og tækju þátt í stefnumótun.

Það voru forréttindi að standa við hlið Ólafar Nordal á sviði stjórnmála, eiga hana að traustum vin. Í flestu vorum við samstiga og viðhorf okkar til stjórnmála eru reist á sama grunni. Það birti alltaf yfir þegar Ólöf mætti til leiks. Enginn gat staðist góðlegt og á stundum kímilegt brosið sem náði til augnanna. Hjartahlý og rökföst, hreinskiptin og falslaus.

Djúpstæð sannfæring Ólafar í stjórnmálum var byggð á bjargi – trúnni á einstaklinginn og réttlátt samfélag samhjálpar og náungakærleiks. Hún var ástríðustjórnmálamaður, laus við yfirlæti og tilgerð. Þess vegna naut hún trúnaðar og trausts langt út fyrir raðir okkar sjálfstæðismanna.

Skaplaus var Ólöf ekki. Hún var föst fyrir þegar nauðsyn bar en tók tillit til annarra sjónarmiða. Hún kunni þá list að hlusta og fór ekki í manngreinarálit. Var fljót að greina aðalatriði, festist ekki í aukaatriðum. Þar naut hún leiftrandi gáfna og góðrar þekkingar á íslensku þjóðlífi, sögu og menningu.

Ólöf Nordal hafði ekki áhuga á að safna í kringum sig jábræðrum eða -systrum. Hún sóttist eftir rökræðum og að komið væri hreint fram. Hún var óhrædd við að leita sér ráða og aðstoðar, ólíkt mörgum öðrum sem hæstu tindana klífa. Það var henni eðlislægt að treysta fólki og fela því verkefni.

Hvað er pólitísk sýn?

Í júlí 2008 velti Ólöf því fyrir sér hvað það merkti að hafa pólitíska sýn. Í pistli í Morgunblaðinu spurði hún:

„Er það pólitísk sýn að hafa skoðanir á hverju því dægurmáli sem fram kemur vegna þess að þannig kemst nafnið í blöðin eða viðkomandi fær nokkur prik í einhverri kaffistofunni?

Eða er það pólitísk sýn að hugsa um einfaldar skyndilausnir á flóknum vanda í stað þess að horfast í augu við að hlutirnir taka oft langan tíma, mun lengri en eitt til tvö kjörtímabil?“

Svarið lá í augum uppi: Nei, þannig gæti það ekki verið. Í huga Ólafar varð pólitísk sýn og pólitískt erindi að snúast um allt annað og meira en dægurmál og skyndilausnir. Pólitísk sýn snýst um grundvallarafstöðu fólks til þess hvernig þjóðfélagið á að þróast. Hún snýst um að hafa hæfileika og áhuga á því að ímynda sér þjóðfélagið og heiminn eftir langan tíma og þar með skýra hugsun um hvernig hagsmunum einstaklingsins og þjóðar verði best fyrir komið. Ná að horfa upp úr dægurþrasinu en um leið skynja samtímann og skapa umgjörð um framtíðina. Ólöf vildi stórsókn í menntun þjóðarinnar þannig að nýsköpun og frjó hugsun gæti orðið að liði í mikilvægum verkefnum. Og Ólöf hélt áfram:

„Við verðum líka að gera okkur grein fyrir stöðu okkar í heiminum, hvar við getum lagt okkar af mörkum og hvað við viljum að aðrar þjóðir viti og skilji um okkur sjálf. Við þurfum að skapa tekjur til þess að búa þjóðina sem best undir framtíðina og þær tekjur ættu að koma úr frjóum jarðvegi hvers einstaklings í landinu. Við eigum að stilla okkur saman og bera virðingu fyrir þeim verkefnum sem hvert okkar sinnir. Grunnurinn að allri framþróun hlýtur því að vera í menntun þjóðarinnar til skemmri og lengri tíma og enn og aftur, skilningur á því að menntun og rannsóknir er fjárfesting sem við munum njóta arðs af eftir nokkurn tíma.

Pólitísk sýn snýst um leiðir til að skapa samfélag þar sem hver og einn vex og dafnar á þann hátt sem hæfileikar hans leyfa.“

Í huga Ólafar átti pólitík fyrst og fremst að snúast um grundvallarafstöðu til þess hvernig við vildum sjá þjóðfélagið þróast.

Að eiga erindi

Nokkrum árum síðar sagði Ólöf í blaðaviðtali: „Ef við höfum ekkert fram að færa, þá leggjum við upp í tilgangslausa ferð. Ef okkur tekst að koma því á framfæri, sem við viljum berjast fyrir, þá eigum við erindi.“

Skilaboðunum var örugglega beint sérstaklega til samherjanna í Sjálfstæðisflokknum. Í viðtali skömmu eftir að hafa verið kjörin varaformaður 2010 minnti Ólöf á að hún hefði talað fyrir að „við í Sjálfstæðisflokknum“ næðum saman:

„Við þurfum að vera saman í sveit til þess að ná árangri og þá þurfa menn að fara í þá vinnu sem bíður okkar, m.a. að efla grasrótina, samtöl við flokksmenn; samtöl við flokksmenn í Reykjavík, samtöl við flokksmenn úti á landi og samtöl flokksmanna milli landshluta. Það er það verkefni sem mér finnst hvað mest spennandi í þessu varaformannsstarfi að efla sveit sjálfstæðismanna til þess að vinna málstað okkar fylgi. Þar er mikið og spennandi verk, við skulum ekkert gleyma því.“

Síðar bætti Ólöf við:

„Við í Sjálfstæðisflokknum eins og aðrir stjórnmálamenn eigum bara við þann vanda að stríða í dag, að menn vantreysta stjórnmálamönnum og trúa ekki orðum þeirra og treysta. Við þær aðstæður og raunar alltaf verðum við að fara í málefnin sjálf og reyna að endurvinna traust með verkum. Það þýðir ekkert að fela sig á bak við neitt annað.“

Ólöf var sannfærð um mikilvægi þess að sjálfstæðismenn hæfu merki flokksins á loft og fylktu sér þar undir. „Þá er ég ekki að tala um einhvern látbragðsleik,“ bætti hún við, „heldur raunverulega að setja okkar stefnu fram með öllu sem því fylgir. Því fylgir ákveðin hefð hvernig landsfundir eru haldnir og í þær hefðir vil ég halda,“ sagði Ólöf en benti á að nauðsynlegt væri að þróa og bæta fundinn, ekki síst til að virkja alla fundarmenn í málefnastarfi.

„Allt er þetta hluti af því að tefla Sjálfstæðisflokknum fram í heild sinni, sögu, stefnu og hefðum. Það eigum við sjálfstæðismenn alls ekki að hræðast. Við megum ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara frjálslyndur flokkur, hann er líka íhaldssamur flokkur og vill vera það.“

Rúmum tveimur árum síðar ítrekaði hún þessi orð sín í viðtali:

 „Til þess að almenningur öðlist trú og traust á Sjálfstæðisflokknum þurfum við að koma fram með skýra framtíðarsýn og raunverulegar leiðir að því marki. Það lýtur bæði að heimilunum í landinu og einnig Íslandi í hinu stóra samhengi. Efnahagsmálin eru auðvitað grunnurinn. Það þarf að vinda ofan af hallarekstrinum og skuldsetningu ríkissjóðs og svo þarf að ýta undir fjárfestingar. Þótt menn sjái jákvæð teikn á sjóndeildarhringnum, þá er atvinnufjárfesting óviðunandi og hún er nauðsynleg ef viðhalda á hagvexti til lengri tíma. Það er ekki um annað að ræða en að skapa atvinnu og lækka álögur á fólk. Það hljómar einfalt, en þetta er veruleikinn sem blasir við.“

Hvað þarf ríkið að sjá um?

Þótt þessi orð hafi fallið við aðrar aðstæður, þegar enn var glímt við efnahagslegar afleiðingar af falli bankanna, er margt sem á vel við í dag þegar nauðsynlegt er að blasa til uppbyggingar eftir Covid-heimsfaraldurinn. Ólöf minnti á að huga yrði að því hvernig menn vildu haga ríkisrekstrinum – þau orð eiga einnig vel við í dag:

„Þar þarf að fara yfir hvaða verkefnum ríkið á að sinna yfirleitt – hver eru grunnverkefnin. Í stað þess að líta á útgjaldaliðina eins og þeir eru núna og skera flatt og ómarkvisst niður, þá ættum við að líta á ríkisreksturinn í heild sinni og spyrja: Hvað þarf ríkið að sjá um? Ef verkefnin eru þess eðlis að aðrir en ríkið geti sinnt þeim, af hverju eru þá ekki sköpuð skilyrði til þess? Ég held það væri hollt að fara í gegnum þá umræðu.“

Í huga Ólafar skipti miklu fyrir landsmenn að ríkisreksturinn væri í lagi á hverjum tíma:

„Þegar allt er þanið þar, þá fækkar krónunum í buddunni hjá hverjum og einum. Svo þarf að endurskoða samhengið milli ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Álögur hafa hækkað látlaust á almenning, ekki bara hjá ríkinu heldur líka sveitarfélögum. Menn sjá ekki fyrir endann á þessu. Það þarf að tryggja meiri heildarsýn og samþættingu en við höfum gert.

Á sama tíma þurfum við að líta til atvinnuvegafjárfestinga, bæði til lengri og skemmri tíma. Við höfum byggt á auðlindanýtingu, en um leið og við gerum það, þá þurfum við líka að byggja á íslensku hugviti. Ég held að í öllum aðgerðum þurfum við að huga sérstaklega að fjöreggi okkar, sem er rannsóknir og menntun, því það er það sem við ætlum að lifa á hér á til framtíðar.“

Ólöf gaf aldrei eftir þegar kom að grunnhugmyndum sjálfstæðisstefnunnar, jafnvel ekki þegar mest gaf á bátinn hjá Sjálfstæðisflokknum fyrstu misserin eftir fall bankanna. Í júní 2010 skrifaði Ólöf:

„Grunnstef Sjálfstæðisflokksins hefur ávallt verið frelsi einstaklingsins og réttur hans til athafna. Í þeim orðum felst jafnframt ákall um ábyrgð hans á gjörðum sínum og því samfélagi sem við viljum byggja hér upp.“

Ólöf taldi nauðsynlegt að flokkurinn brygðist við þeirri gagnrýni sem kjósendur hefðu haft uppi í tvennum kosningum, þingkosningum árið áður og í sveitarstjórnarkosningum þá um vorið.

Eitt mikilvægasta verkefni nútímans

Á grunni sannfæringarinnar um rétt einstaklingsins til athafna taldi Ólöf nauðsynlegt að stíga stærri skref en gert hefði verið til að auka atvinnuþátttöku þeirra sem eldri væru án þess að áunnin réttindi skertust. Í blaðagrein í júlí 2008 lagði hún áherslu á að auka sveigjanleika „alls kerfisins þannig að val sé fyrir hendi fyrir hvern og einn“. Það væru hagsmunir þjóðfélagsins að eldri borgarar tækju þátt í atvinnulífinu.

Kerfisbreytingar voru gerðar á almannatryggingum eldri borgara í samræmi við endurskoðun sem Pétur heitinn Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi. Hér verða þær breytingar ekki raktar en með þeim var komið mjög til móts við þau sjónarmið sem Ólöf setti fram í greininni. Hitt sýnist mér ljóst að hún hafi talið að um áfanga hafi verið að ræða og frekari breytingar væru nauðsynlegar, eða eins og hún skrifaði:

„Þessi hópur, eldri borgarar, er eitt mikilvægasta pólitíska verkefni nútímans, ef svo má að orði komast. Við höfum reynt að byggja upp velferðarkerfi hér á Íslandi sem heldur utan um þarfir þeirra sem eldri eru en um leið höfum við tekið skref í þá átt að auðvelda eldri Íslendingum að halda áfram á vinnumarkaði, ef þeir svo kjósa. Grundvallarhugsunin á að vera sú, að hver maður geti haft val um það hvernig hann vill haga lífi sínu. Þótt margt hafi áunnist í því efni, er afar margt sem betur má fara og að þeim verkum þarf að vinna.“

Í huga Ólafar eiga aukið val og meiri sveigjanleiki að vera grunnstefin í almannatryggingum, „þannig að kerfið vinni fyrir okkur en ekki við fyrir það“. Rauði þráðurinn í hugmyndafræði Ólafar var að „kerfið“ væri til fyrir einstaklinginn og í þjónustu hans. Í hennar huga átti ríkið að vera verkfæri einstaklinganna í viðleitni þeirra til að bæta lífskjörin og tryggja öllum mannlega reisn.

Beint lýðræði

„Mér sýnist vaxandi krafa um að við höfum sjálf meira um það að segja hvernig ákvarðanir eru teknar,“ skrifaði Ólöf. Þannig gætu kjósendur annars vegar treyst því að stjórnmálaflokkur stæði við það sem sagt væri og hins vegar gætu kjósendur haft beinni áhrif á mikilvæg mál:

„Nú virðast kjósendur taka sáralítið mark á því sem flokkarnir halda fram, enda hafa því miður verið fjöldamörg dæmi um það að margt breytist frá kosningastefnuskrá að gjörðum í ríkisstjórn. Eitt er að ná samkomulagi milli flokka um ólík sjónarmið – annað er að hverfa frá stefnumörkun sem mönnum hefur þótt mikilvæg og til framfara horfa. Við sjálfstæðismenn þekkjum því miður of mörg mál sem síendurtekið hafa verið samþykkt á landsfundi en aldrei komist í forgang ríkisstjórna. Vissulega er það svo, að ríkisstjórnir þurfa oft að bregðast við óvæntum atburðum í samfélaginu.“

Ólöf var sannfærð um að Íslendingar væru fullfærir um að meta sjálfir mikilvægi mála, alveg eins og þeir væru fullfærir um að ákveða hvaða straumar og stefnur ættu að vera ráðandi í stjórnun landsins. Hún var hlynnt því að taka upp beint lýðræði en taldi að til að það væri hægt yrði að byrja á því að smíða skýrar og agaðar reglur um hvernig standa skyldi að málum. Að öðrum kosti yrði öll rökræða fálmkennd og lítt til þess fallin að leiða okkur áfram á farsælli braut.

„Það er í takt við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins að gera beint lýðræði að virkum þætti í ákvarðanatöku í þjóðmálum,“ skrifaði Ólöf og bætti við: „Flokkur sem setur traust sitt á einstaklinginn og frelsi hans til athafna hlýtur jafnframt að virða vilja einstaklingsins til að ráða málum sínum sjálfur. Þar á meðal að taka virkan þátt í meiri háttar ákvörðunum í þjóðfélaginu.“

Allt annað má bíða

Auðvitað er útilokað að gefa heildstæða mynd af stjórnmálakonunni Ólöfu Nordal í stuttri grein en vonandi eru lesendur a.m.k. einhverju nær um hvaða jarðvegi hugmyndir hennar voru sprottnar úr. Hún tók sér varðstöðu með frelsinu, með eignaréttinum, með frjálsu framtaki. Hún hafði ástríðu fyrir listum og menningu og skildi mikilvægi þeirra fyrir þjóðina, eða eins og hún komst að orði í blaðagrein í desember 2008, þegar brotsjóir gengu yfir íslenskt efnahagslíf:

„Það fyrsta sem menn virðast skera niður þegar þrengir að eru verk á sviði menningar og lista.

Obbinn af menningarstarfi landsmanna lendir í erfiðum fjárhagsvanda og tilhneigingin er sú, að láta þessa starfsemi mæta afgangi. Þar er ég alveg ósammála. Alveg eins og menntun og nýsköpun er grundvallaratriði í uppgangi landsins er frumleiki og frjó hugsun íslenskra listamanna nauðsynleg á þrengingatímum. Úr slíku getur orðið til gerjun sem við höfum ekki hugmynd um hvert leiðir okkur. Ég held að stjórnvöld þurfi að velta fyrir sér hvernig þau geti ýtt undir slíka gerjun og menningarstarf og listsköpun á þessum tímum.“

Ólöf var alltaf með það á hreinu hvert grunnhlutverk stjórnmálamanna væri: Að auka hagsæld heimilanna. Allt annað mætti bíða. Forgangurinn var skýr í hennar huga:

„Við þurfum að fjárfesta í ungu kynslóðinni sem mun erfa landið. Sú fjárfesting mun skila sér margfalt til baka. Við þurfum að gefa fólki von um að hagur þess fari batnandi.“

Og Ólöf bætti við:

„Við þurfum að lækka hér skatta og álögur og við þurfum að búa þannig í haginn að fólk sjái hag sínum betur borgið í því að búa áfram á Íslandi.“

Þessi skilaboð eiga vel við í dag.

Ólöf Nordal fæddist 3. desember 1966. Hún var kjörin á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2007 en gaf kost á sér í Reykjavík í kosningunum 2009. Hún gaf ekki kost á sér fyrir alþingiskosningarnar 2013 en var oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í alþingiskosningunum 2016. Ólöf var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2010 og gegndi embættinu til ársins 2013. Hún var aftur kjörin varaformaður flokksins árið 2015. Árið 2014 tók hún við embætti innanríkisráðherra, sem hún gegndi til 11. janúar 2017. Faðir Ólafar var dr. Jóhannes Nordal, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands, og móðir hennar var Dóra Nordal, píanóleikari og húsmóðir. Eiginmaður Ólafar var Tómas Már Sigurðsson forstjóri. Þau eignuðust fjögur börn. Ólöf útskrifaðist frá MR 1986, lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1994 og MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2002. Hún varð deildarstjóri í samgönguráðuneytinu 1996, hóf störf hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999 og sinnti samhliða stundakennslu í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst 1999–2002. Ólöf var deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Bifrastar 2001–2002. Hún var yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002–2004, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004–2005 og framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005–2006. Ólöf var formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2013–2014 og stjórnarformaður SPES, hjálparsamtaka vegna byggingar barnaþorpa í Afríku. Ólöf lést 8. febrúar árið 2017, rétt liðlega fimmtug. (Mynd: Svanhildur Hólm Valsdóttir).

Höfundur er alþingismaður.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.