Atvinna – vöxtur – velferð

Fjórða iðnbyltingin er hafin og viðbrögð okkar gagnvart nýjum áskorunum sem henni fylgja þurfa að taka mið af því. Leiðin til áframhaldandi vaxtar þarf því að grundvallast á hugviti og betra skipulagi.

Atvinna

Jóhann Friðrik Friðriksson.

Við verjum um einum þriðja af lífi okkar í vinnu. Atvinna okkar skilgreinir okkur í samfélaginu þó svo að öllum sé ljóst að við erum mun meira en bara vinnan okkar. Atvinna á að skapa okkur skilyrði til þess að búa okkur og fjölskyldum okkar góð lífsskilyrði. Segja má að atvinna sé grundvöllurinn fyrir bæði framförum og velferð. Við greiðum skatta af því sem við framleiðum með vinnu okkar og þannig byggjum við grunn undir það velferðarkerfi sem við viljum öll búa við. Velferðarkerfið er samtrygging okkar, jafnar leikinn og í fullkomnum heimi aðstoða allir þá sem höllum fæti standa. Án vinnuframlags okkar skapast ekki sá arður sem drífur hagkerfið áfram.

Á Íslandi hefur atvinnuþátttaka verið ein sú hæsta í heiminum. Samkvæmt OECD er atvinnuþátttaka þeirra sem eru á vinnualdri 77% hér á landi en til samanburðar er atvinnuþátttaka í Bandaríkjunum um 69%, 74,4% í Noregi og 75,4% í Þýskalandi. Samdrátturinn vegna heimsfaraldursins kom þungt niður á vinnandi fólki. Í apríl 2020 voru 17,8% vinnubærra Íslendinga atvinnulaus eða á hlutabótum. Í september 2020 stóð atvinnuleysi á heimasvæði mínu, Suðurnesjum, í hæstu hæðum og var komið vel yfir 20%.

Á þeim tíma lagði ég til við félags og barnamálaráðherra hugmyndir að veigameira inngripi ríkisins til þess að skapa störf. Tillagan sneri fyrst og fremst að áhyggjum mínum af afleiðingum atvinnuleysis sem eru til lengri tíma, ekki aðeins fjárhagslegar, heldur ekki síður andlegar og félagslegar.

Hugmyndin gekk út á að Vinnumálastofnun rýmkaði verulega skilyrði fyrir þríhliða ráðningarsamningum þannig að atvinnurekendur sem þó hefðu tækifæri til þess að skapa störf fengju stuðning vegna ráðninga sem jafngilti fullum atvinnuleysisbótum. Tryggja þyrfti skilyrði sem gæfu ekki tækifæri á undirboðum á vinnumarkaði og laun yrðu að taka mið af kjarasamningsbundnum launum. Ég vildi ganga lengra en þeir vinnustaðasamningar sem Vinnumálastofnun hafði enn heimild til þess að gera og komu til í efnahagshruninu. Fyrsta reglugerðarbreytingin í þessa átt var mjög til bóta, en með henni varð hægt að gera starfssamninga við starfsmenn sem höfðu verið skemur en 12 mánuði á atvinnuleysisskrá á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi beit sem mest. Veigameiri og öflugri útfærsla á þessum hugmyndum var svo kynnt í mars undir nafninu Hefjum störf. Tilgangurinn var að koma sem flestum inn á vinnumarkað og tryggja þannig öfluga viðspyrnu út úr kreppu faraldursins.

Vöxtur

Gríðarlegur kraftur hefur einkennt íslenskt hagkerfi á undanförnum árum ef frá er talið áfallið sem fylgdi Covid. Margar ástæður eru að baki þeim hagvexti en einnig hafa ytri aðstæður verið hagfelldar. Stöðugleikaframlög, afnám hafta og meira jafnvægi á sviði stjórnmála hefur eflaust haft jákvæð áhrif og von landsmanna um meira jafnvægi og frekari samvinnu skilað auknum kaupmætti og lægri vöxtum. Ferðaþjónustan, skapandi greinar, nýsköpun og uppsöfnuð þörf á uppbyggingu hins opinberra eftir hrun kallaði bæði á erlent vinnuafl og veitti fjölbreyttari tækifæri til hagvaxtar. Flestir geta þó verið sammála um að frekari fjölbreytni sé þörf og betri umgjörð þurfi til þess að örva nýsköpun og leggja nýjum fyrirtækjum lið við að komast á legg. Tæknibyltingin, stór skref í starfrænni þjónustu og störf án staðsetningar munu breyta vinnumarkaðnum svo um munar og hefur sú breyting þegar hafið innreið sína.

Fjórða iðnbyltingin er hafin og viðbrögð okkar gagnvart nýjum áskorunum sem henni fylgja þurfa að taka mið af því. Leiðin til áframhaldandi vaxtar þarf því að grundvallast á hugviti og betra skipulagi. Við þurfum að nýta tímann í vinnunni mun betur, leggja meiri áherslu á gæði vinnuumhverfisins, auka sveigjanleika og hverfa frá úreltum gildum um að meiri vinna sé alltaf ávísun á meiri framleiðni og hærri laun. Við þurfum með öðrum orðum að vinna skynsamlega en ekki endilega fleiri vinnustundir. Tónninn fyrir það sem koma skal var sleginn í Lífskjarasamningum þar sem lagt var í þá vegferð að stytta vinnuvikuna. Margt má gagnrýna í því ferli og er það efni í aðra grein. En það jákvæða sem fylgdi styttingunni sneri að aukinni vitund fólks um vinnutíma og samspil vinnu og einkalífs. Skrefið fékk launafólk og atvinnurekendur til þess að hugsa um ráðningarsambandið og skyldur beggja aðila og kallaði á aukið samtal um eðli og þjónustustig vinnunnar. Fáar þjóðir eru í eins mikilli kjöraðstöðu til þess að nýta breytingar á vinnumarkaði sér í hag. Þjóðin er vel menntuð og hræðslan við að störf gufi upp án þess að ný komi í staðinn er óþörf. Sömu áhyggjur hafa verið viðraðar í gegnum söguna og þær hrakspár hafa ekki raungerst. Engar forsendur eru fyrir því að stafrænn heimur hamli framþróun og vexti íslenska hagkerfisins ef rétt er á spilunum haldið.

Velferð

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafa verið gerðir um 5.500 ráðningarsamningar í tengslum við átakið Hefjum störf og er stærstur hluti þeirra ráðninga hjá fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði. Um þriðjungur allra atvinnuleitenda sem ráðnir hafa verið í hverjum mánuði nýtur því góðs af atvinnuátakinu. Hröð lækkun atvinnuleysis er klárlega batamerki en vaxandi áhyggjur af langtímaatvinnuleysi þeirra sem eftir sitja eru á rökum reistar. Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, hafa bæði flaggað stöðunni að undanförnu. Í frétt RÚV um málið kom fram hjá Drífu mikilvægi þess að forðast þá stöðu sem blasti við í kjölfar efnahagshrunsins þar sem stór hópur rataði hvorki á vinnumarkað né á skólabekk. Í máli Halldórs kom fram að augljóst misræmi væri til staðar á atvinnumarkaði sem sannarlega væri áhyggjuefni. Mörg fyrirtæki ættu í erfiðleikum með að manna stöður en á sama tíma væri fjöldi manns enn atvinnulaus. Halldór kallaði eftir umræðu, ekki aðeins meðal aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera heldur einnig meðal almennings á Íslandi. Fyrir Covid voru um 2.000 manns á Íslandi skilgreind sem langtímaatvinnulaus og ljóst að sú tala fer ört vaxandi vegna heimsfaraldursins.

Það að missa vinnuna er eitt mesta áfall sem við getum orðið fyrir á lífsleiðinni. Grunninum er ógnað og við sem hluti af heildinni hættum að framleiða inn í hagkerfið. Allir tapa. Rannsóknir sýna að langvarandi atvinnuleysi dregur verulega úr trú fólks á eigin getu. Það upplifir sig sem einskis nýtt og vonleysi og lært hjálparleysi tekur við. Endurhæfing þeirra sem glíma við langvarandi atvinnuleysi reynist oft erfið og kostnaðarsöm. Þeim starfsmönnum sem detta út af vinnumarkaði vegna annarra ástæðna en samdráttar í rekstri fer einnig fjölgandi. Megináherslan ætti því að liggja í því að tryggja atvinnustig, sanngjörn laun og viðunandi vinnuumhverfi.

Sú staða sem nú er uppi kallar að mínu áliti á tímabæra endurskoðun á vinnumarkaðsúrræðum og hlutverkum þeirra sem að koma. Það er hafið yfir vafa að atvinna er í langflestum tilfellum bæði heilsusamleg og nauðsynleg okkur öllum og því ætti útgangspunkturinn að vera sá að allir hafi vinnu. Ef þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eru ekki komnir inn á vinnumarkað innan árs mætti skoða úrræði þar sem störf eru búin til. Eins konar atvinnutrygging kæmi til skjalanna. Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur skrifað um atvinnutryggingu og nefnt hana sem færa leið sem gæti hentað hér á landi. Útfærslan yrði að vera hvetjandi til lengri tíma og jafnvel gæti sú nálgun skapað störf bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum. Atvinnutrygging gæti verið hluti af þéttara kerfi, m.a. með auknu hlutverki VIRK starfsendurhæfingar og nánari samvinnu atvinnurekenda og Vinnumálastofnunar. Sú leið að búa til störf fyrir þá sem hafa verið án atvinnu um langa hríð þarfnast umræðu hér á landi. Langtímaatvinnuleysi þarf að heyra sögunni til.

Höfundur er lýðheilsufræðingur og frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.