Myndmál í riti Hannesar um frjálslynda íhaldsmenn

Út er komin í Brussel bókin Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers eftir dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. Útgefandi er hugveitan New Direction. Bókin er 884 blaðsíður í tveimur bindum og skreytt mörgum myndum. Eru myndir og myndatextar mikilvægur hluti bókarinnar. Þjóðmál birtir með leyfi nokkrar myndir úr bókinni ásamt textum.

Snorri Sturluson var fyrsti frjálslyndi íhaldsmaðurinn vegna þess að í Heimskringlu og Eglu varar hann við konungum en telur allt vald koma frá þjóðinni. Landnámsmenn lögðu á sig viku siglingu frá Noregi í misjöfnum veðrum til að geta stofnað á Íslandi þjóðveldi óháð konungum og skattheimtumönnum. Eins og fram kemur í ræðu Einars Þveræings vildi Snorri að við værum vinir Noregskonungs, ekki þegnar. Málverk eftir I.E.C. Rasmussen.

Ein helstu rök heilags Tómasar af Akvínas og annarra frjálslyndra íhaldsmanna fyrir einkaeignarrétti eru að hann minnki hættuna af átökum um knöpp gæði. Garður sé granna sættir. Menn girða af land og merkja sér dýr, og í meðförum þeirra stækka þessi verðmæti. Hér hefur komið til skotbardaga í villta vestrinu vegna ómerktrar kýr. Málverk eftir Frederic Remington.

Á stóru svæði í Evrópu, sem er í laginu eins og hálfmáni, frá Norður-Ítalíu til Niðurlanda og þaðan til Englands, var ríkisvald löngum veikt, svo að borgarastétt fékk þrifist og blómgast og borgir, verslunarmiðstöðvar, risu. Þar varð kapítalisminn til. John Locke taldi hann öllum í hag. Málverk eftir Quentin Massys.

Adam Smith varaði við samtökum framleiðenda um að hækka vöruverð. Frjáls samkeppni er umfram allt neytendum í hag, því að hún knýr framleiðendur til að leggja sig fram um að auka gæði og lækka verð. Það er hugsanlegt að Smith hafi átt þátt í afnámi einokunarverslunarinnar dönsku á Íslandi árið 1787 vegna áhrifa sinna á þrjá Norðmenn, Andreas Holt og bræðurna Peter og Carsten Anker, sem urðu vinir hans. Málverk eftir Rembrandt.

Byltingin í Frakklandi 1830 var borgaraleg bylting, sem Frédéric Bastiat studdi heils hugar. Bastiat samdi snjallar dæmisögur um kostina við viðskiptafrelsi og hafði mikil áhrif á stjórnmálaforingja og fræðimenn á seinni hluta nítjándu aldar. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði eftir Arnljót Ólafsson, er að miklu leyti endursögn á einni bóka Bastiats. Málverk eftir Eugène Delacroix.

Frjálslyndir íhaldsmenn studdu byltinguna dýrlegu í Bretlandi 1688 og bandarísku byltinguna 1776, því að þær voru gerðar til að verja og auka fengið frelsi. Þeir gagnrýna hins vegar frönsku byltinguna (á síðari stigum hennar) og rússnesku byltinguna, því að þær voru gerðar til að tortíma skipulaginu í heild sinni og reisa nýtt, en afleiðingin varð ógnarstjórn. Hér staðfesta bandarísku byltingarmennirnir stjórnarskrána, sem enn er í gildi og hefur reynst vel, en þar er kveðið á um skiptingu valdsins. Málverk eftir Howard Chandler Christie.

Einstaklingurinn, sem hefur öðlast vilja og getu til að velja og hafna í lífinu og er reiðubúinn að taka ábyrgð á lífi sínu, varð að sögn Michaels Oakeshotts til á ítalska endurreisnartímanum, en Hannes bendir á að Egill Skallagrímsson, eins og Snorri Sturluson lýsir honum, kunni að teljast fyrsti einstaklingurinn. Egill var ekki aðeins kvistur af meiði fjölskyldu sinnar, heldur hafði hann auðugt sálarlíf, eins og sést á ljóðum hans. Málverk eftir Caspar David Friedrich.

Sagan er stundum skrifuð með blóði frekar en bleki. Frakkar sættu sig aldrei við ósigurinn fyrir Þýskalandi 1870 og brunnu í skinninu eins og þessi kennari eftir að endurheimta Alsace og Lorraine (Elsass og Lothringen). Hversu margir nemendur hans skyldu hafa farist á vígvöllum fyrri heimsstyrjaldar? Málverk eftir Albert Bettanier.

Þegar yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í frelsisstríðinu, George Washington, skilaði inn umboði sínu að sigri loknum urðu tímamót. Þar vestra höfðu völd verið lögð í hendur manna sem kunnu með þau að fara og þekktu takmörk sín. Bandarísku byltingarmennirnir voru að endurheimta frelsi sitt, ekki endurskapa skipulagið. Málverk eftir John Trumbull.

Eftir byltingu bolsévíka í Pétursborg 7. nóvember 1917 voru embættismenn, liðsforingjar, kaupmenn og iðnrekendur taldir vera „fyrrverandi fólk“ og látnir hirða sorp. Margir voru síðan myrtir. Miklu fleiri voru teknir af lífi fyrstu mánuði bolsévíkastjórnarinnar en alla síðustu öldina áður en keisarastjórnin féll. Vatnslitamynd eftir Ívan Vladímírov.

Eftir hernám Austurríkis 12. mars 1938 létu nasistar í Vínarborg gyðinga hreinsa götur, en líklega féllu þeir síðan flestir í Helförinni. Frjálslyndir íhaldsmenn telja kommúnisma og nasisma hvort tveggja alræðisstefnur. Báðir flokkar þurfa óvini til að kenna um allt sem aflaga fer, nasistar benda á gyðinga, kommúnistar á fjármagnseigendur. Ljósmynd: Stringer.

Friedrich von Hayek ávarpar stofnfund Mont Pelerin-samtakanna í apríl 1947. Frá vinstri: Hayek, Dorothy Hahn (ritari Hayeks), William Rappard frá Sviss, Ludwig von Mises frá Bandaríkjunum, Walter Eucken frá Þýskalandi og Carl Iversen frá Danmörku. Aftar sést í Herbert Cornuelle frá Bandaríkjunum og Bertrand de Jouvenel frá Frakklandi. Ljósmynd: Hoover Institution.

Þeir Konrad Adenauer og Ludwig Erhard endurheimtu sál Þýskalands eftir stríð, en hún hafði týnst þegar Þýskaland breyttist við sigra Bismarcks í Stóra-Prússland árið 1866. Þeir breyttu Reich í Bund, studdu valddreifingu, einkaeignarrétt og viðskiptafrelsi, og Þýskaland reis úr rústum. Svipuð bandalög kristinna íhaldsmanna og frjálshyggjuhagfræðinga stóðu að endurreisn Ítalíu og Þýskalands. Ljósmynd: CDU.

Bretar búa við óskráða en sterka stjórnmálahefð, sem mótast hefur á þúsund árum. Valdið er vissulega talið koma frá þjóðinni en það takmarkast af þessari hefð og ýmsum stofnunum, föstum venjum og siðum. Burke og aðrir frjálslyndir íhaldsmenn telja lýðræðislegt alræði stórhættulegt. Teikning: David Low.

Popper hafnar aðleiðslu sem aðferð vísindanna, að við getum ályktað um lögmál af ótal dæmum (allir svanir sem við höfum séð eru hvítir; ergo: allir svanir eru hvítir). Þess í stað sé aðferð vísindanna afleiðsla, að setja fram djarfar tilgátur, prófa þær á veruleikanum og samþykkja þær sem bráðabirgðasannleik, uns annað kemur í ljós. Eitt dæmi (einn svartur svanur) nægir til að afsanna kenningu en ekki er til neinn fjöldi dæma sem nægir til að sanna hana. Ljósmynd: Rich Merry (Ástralíu).

Nozick spyr: Hverjir myndu kjósa sósíalismann? Hann bendir á raunhæft svar: samyrkjubúin í Ísrael. Um 6% fólks vilja búa þar. Frjálslyndir íhaldsmenn hafa ekkert á móti því að menn stofni til sósíalisma ef þeir gera það fyrir sig og neyða honum ekki upp á aðra. Frjálst hagskipulag er aðeins umgerð utan um þær heildir sem menn vilja stofna og búa í. Ljósmynd: Kluger Zoltan (kibbutz 1941).

Rand telur skýjakljúfinn eitthvert mesta afrek mannsandans. Menningin felist í sjálfstæði mannsins gegn mönnunum. Hetjan (sem Aristóteles kallaði hinn stórláta mann) sé andstæða múgsálarinnar og allra þeirra sem reyna að lifa á öðrum. Ljósmynd: Tony Jin.

Milton og Rose Friedman á Torgi hins himneska friðar árið 1988. Þegar Friedman fór til Kína og gaf gamalkunnug ráð sín, að selja ríkisfyrirtæki, fella niður tolla, lækka ríkisútgjöld, halda peningamagni í skefjum og auka á annan hátt atvinnufrelsi, sagði enginn neitt. Þegar hann fór til Síle og gaf sömu ráð sætti hann harðri gagnrýni. Er þó einræðisstjórn kommúnista í Kína miklu verri viðureignar en herforingjastjórnin í Síle, sem sætti sig að lokum við úrslit lýðræðislegra kosninga og fór frá völdum. Ljósmynd: Free to Choose Network.

 

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.