Framsýnn foringi – Hjalti Geir Kristjánsson

Hjalti Geir Kristjánsson, þá framkvæmdastjóri Húsgagnaverksmiðju Kristjáns Siggeirssonar. Myndin er tekin árið 1979.

Hjalti Geir Kristjánsson fæddist 21. ágúst 1926 í Reykjavík, sonur hjónanna Ragnhildar Hjaltadóttur, skipstjóra og konsúls Jónssonar (Eldeyjar-Hjalta) og konu hans Guðrúnar Ólafsdóttur, og Kristjáns Siggeirssonar Torfasonar kaupmanns og Helgu Vigfúsdóttur konu hans. Nafn hans var sótt í þessa tvo afa hans. Hjalti Geir átti eina systur, Guðrúnu (f. 1922), sem var gift Hannesi Guðmundssyni sendifulltrúa frá Siglufirði.

Hjalti Geir var kvæntur Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Þau eignuðust fjögur börn, Ragnhildi f. 1953, Kristján f. 1956, Erlend f. 1957 og Jóhönnu Vigdísi f. 1962.

Hjalti Geir lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands 1944 og sveinsprófi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1948. Í framhaldi af því sótti hann sér menntun í húsgagnaarkitektúr í Sviss og síðar í Svíþjóð og framleiðslustýringu við Columbia-háskóla í New York.

Aðstæður á Íslandi voru þröngar og erfiðar þegar Hjalti Geir kom heim frá námi. Íslendingar höfðu eytt öllum stríðsgróðanum og gjaldeyrisskortur var staðreynd. Skortur var á innflutningsleyfum og aðstæður flóknar. Markmiðið strax í upphafi var að hleypa lífi í hönnun og framleiðslu húsgagna og innréttinga á Íslandi.

Þarna hefur hann væntanlega áttað sig á því að við þáverandi ástand mætti ekki búa. Nauðsynlegt væri að breyta stöðunni til þess að hönnun, framleiðsla og verslun fengi starfsskilyrði sem aðrar þjóðir bjuggu við. Það var honum ljóst eftir fjögurra ára samfellda dvöl erlendis.1

Maður með framtíðarsýn

Hjalti Geir Kristjánsson (f. 1926 – d. 2020)

Eftir heimkomu frá New York hóf hann störf hjá Kristjáni Siggeirssyni hf. (Káess) og starfaði við hlið föður síns, þar til hann féll frá 1975, og síðan sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Húsgagnaframleiðsla og sala húsgagna og húsmuna varð starfsvettvangur hans. Hluti af því starfi var að hanna húsgögn, en því sinnti hann alla tíð af áhuga og nákvæmri sýn.

Hjalti Geir tók mikinn og virkan þátt í samtökum á vegum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Viðskiptaráðs (áður Verslunarráð) og SA (áður VSÍ). Hann var kjörinn í stjórnir fjölmargra fyrirtækja, svo sem Eimskip, Sjóvár Almennra trygginga og SPRON.

Þessi fjölbreytti starfsvettvangur varð til þess að hann hafði góða yfirsýn yfir atvinnulífið og þjóðfélagið allt og gerði sér grein fyrir því hvernig best væri að sækja fram í þeim tilgangi að hans kynslóð skilaði betra þjóðfélagi en hún tók við.

Það var ekki starf eins manns heldur heildar sem hafði sameiginlega framtíðarsýn. Sú framtíðarsýn var mótuð á vettvangi samtaka innan atvinnulífsins. Með ötulu starfi þessara samtaka og samtals við stjórnvöld var vörðuð leið frjálsra viðskipta sem leiddi til aukinnar velmegunar þjóðarinnar, öllum til heilla. Í þessu ferli var líka góð samvinna við ASÍ, því auðvitað var ein forsenda árangurs sú að kaupmáttur efldist.

Það var ekki sjálfgefið að sami maður væri í forystu Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs, og hagsmunir aðila innan iðnaðar og verslunar gátu stangast á.

Með víðsýni að leiðarljósi gerði Hjalti Geir sér grein fyrir því að viðhorf til mála „mátti ekki mótast af þröngum sérhagsmunum eða kreddum. Hann þekkti þarfir viðskiptalífsins af eigin raun sem og skaðsemi boða og banna skömmtunaráranna enda studdi hann og beitti sér fyrir að innflutningur iðnaðarvöru yrði gefinn frjáls og að atvinnulífið lagaði sig að frjálsum viðskiptaháttum í samstarfi við nálægar Evrópuþjóðir. Á fyrsta fundi Þorvarðar Elíassonar með stjórn Verzlunarráðs 1973 var fundarefnið það að ræða áhrif þess að Seðlabankinn hafði fellt gengið, verðlagsstjórn sent frá sér lækkun hámarksálagningar og ríkisstjórnin ákveðið að millifæra fé frá fiskvinnslu til fiskveiða o.s.frv. Lán var þá lítt hægt að fá í bönkum enda raunvextir neikvæðir og erlendur gjaldeyrir skammtaður. Þegar Hjalti Geir lauk formennsku sinni í Viðskiptaráði var allt gjörbreytt. Viðskiptalífið var að mestu laust úr höftunum og stjórnvöld höfðu tekið ákvörðun um að ganga þann veg frjálsra viðskipta sem nálægar Evrópuþjóðir fóru. Hjalti Geir var einn þeirra manna sem vörðuðu þá leið.“2

Þessi frásögn Þorvarðar lýsir vel þeim breytingum sem urðu á þessum árum. Samfélagið bjó við mikil höft og yfirþyrmandi regluverk. Þetta gerði öll viðskipti erfiðari og dýrari en þurfti.

Áhersla á alþjóðaviðskipti

Frá undirritun samnings um samstarf, verkaskiptingu og tengsl milli Verzlunarráðs Íslands (nú Viðskiptaráð) og Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtök atvinnulífsins), 18. desember 1981. Hjalti Geir, t.v. á myndinni, var þá formaður Verzlunarráðs og skrifar hér undir með Páli Sigurjónssyni, þá formanni Vinnuveitendasambandsins. (Mynd: Úr einkasafni)

En hvað gat breytt þessu umhverfi? Í hugum margra forystumanna í atvinnulífi þess tíma var nauðsynlegt að auka erlend viðskipti og fá betri aðgang að erlendum mörkuðum, bæði til inn- og útflutnings. Í framtíðarsýninni fólust aukin erlend samskipti en til að ná árangri á því sviði þurfti víðtækt samtal innan lands og utan.

„Hjalti Geir varð formaður Verslunarráðsins á aðalfundi þess hinn 23. febrúar 1978. Hann setti saman víðsýna framkvæmdastjórn, þar sem áttu sæti fulltrúar samgangna, stóriðju, innflutningsverslunar og útgerðar, auk hans. Á aðalfundinum var gengið frá samþykkt stefnu ráðsins í efnahags- og atvinnumálum sem nefnd undir forystu Víglundar Þorsteinssonar heitins hafði unnið. Hjalti Geir var þarna í forystu fyrir nýrri sýn á atvinnulífið sem lagði áherslu á almennar reglur um skipan efnahagsmála þar sem sameiginlegir hagsmunir atvinnulífsins og frjálsræði í efnahagsmálum var í fyrirrúmi, en ekki án aðhalds.

Viðskiptaþingin í formannstíð Hjalta Geirs voru stefnumarkandi og leiddu til breytinga. Þingið vorið 1979 tók fyrir gjaldeyris og utanríkisviðskipti en þingið vorið 1981 fjallaði um framtíð einkarekstrar. Þá beitti Hjalti Geir sér fyrir auknum erlendum samskiptum bæði með því að fá erlenda forystumenn í viðskiptalífi til þess að flytja erindi á fundum ráðsins og einnig með aukinni þátttöku í þingum Alþjóðaverslunarráðsins. All fjölmennur hópur Íslendinga sótti t.d. þing Alþjóðaverslunarráðsins í Manila á Filipseyjum í nóvember 1981. Var það undanfari þess að stofnað var til landsnefndar Alþjóðaverslunarráðsins hér á landi í apríl 1983.“3

Hér lýsir Árni Árnason, sem eins og Þorvarður var náinn samstarfsmaður Hjalta Geirs í tíð hans í stjórn Verslunarráðs, því hvernig ráðið leit ávallt til framtíðar, lagði til breytingar og fylgdi eftir framtíðarsýn um frjálst hagkerfi, og jafnframt hvernig hann leit til útlanda til að læra af þeim sem höfðu farið þá leið sem viðskiptalífið sóttist eftir á þeim tíma.

Þessi samskipti og samtal við viðskiptalífið í Evrópu og víðar jók víðsýni og bjó til hugmyndabanka sem unnið var úr – og reyndar stendur það samtal enn.

Aðlögun að breyttum aðstæðum

Þessi mynd af Hjalta Geir birtist í Iðnaðarblaðinu árið 1986. Húsgagnaverksmiðja Kristjáns Siggeirssonar var þá nýlega flutt að Hesthálsi í Reykjavík.

Innganga Íslands í EFTA árið 1970 gekk ekki átakalaust fyrir sig frekar en EES-samningurinn. Káess framleiddi heimilishúsgögn í verksmiðju sinni. Stór hluti framleiðslunnar var t.d. heimilishillur sem seldar voru undir vörumerkjunum Varia og Nova. Framleiðsla og sala gekk vel, en ein af ástæðunum var sú tollvernd sem íslenskur húsgagnaiðnaður naut.

Við EFTA-aðildina voru innflutningstollar á húsgögnum 90% en þeir fóru niður í 60% í fjögur ár og urðu svo að engu á næstu sex árum eftir það.

Hjalti Geir gerði sér grein fyrir því að með því að mæla með EFTA-samningnum myndi grundvöllur þeirrar framleiðslu bresta, þar sem hægt var að flytja inn ódýrari sambærilega vöru en framleidd var á Íslandi.

Við því þurfti að bregðast. Á fáum árum var framleiðslunni beint að skrifstofuhúsgagnamarkaði, en þar var ákveðin fjarlægðarvernd, því íslenski markaðurinn vildi hærra þjónustustig en innflutningur gat veitt á þeim tíma. Það skipti máli að geta afgreitt á skemmri tíma en erlendir keppinautar, auk þess sem íslenski markaðurinn vildi hátt þjónustustig.

Þannig breyttist stór hluti íslenskrar húsgagnaframleiðslu í fyrirtækjamarkað í stað heimilismarkaðar, og gekk ágætlega um margra ára skeið, og gerir í raun enn.

Káess tók þátt í heimilismarkaðnum með innflutningi á húsgögnum og þá sérstaklega frá Norðurlöndunum. Þannig varð til ný staða, framleiðsla á því sem hagkvæmt var að framleiða hér og flytja það inn sem ekki var hagkvæmt að framleiða hér.

Þetta gerðist í fleiri greinum en húsgagnaiðnaði. EFTA-samningurinn gerði mikið gagn til lengri tíma. Flest fyrirtæki löguðu sig að því með innri breytingum en það sem eftir stóð var frjálsari viðskipti sem leiddu til lægri kostnaðar fyrir íslensk heimili.

Hagræðing og sterkari einingar

Til viðbótar því að sinna eigin rekstri kom Hjalti Geir að rekstri fjölmargra fyrirtækja og tók mikinn og virkan þátt í samtökum á vegum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Viðskiptaráði (áður Verslunarráð) og SA (áður VSÍ). Hann var kjörinn í stjórnir fjölmargra fyrirtækja, svo sem Eimskips, Sjóvár Almennra trygginga og SPRON.

Íslenskur iðnaður stóð þá og stendur enn frammi fyrir áskorunum. Til að nútímavæða framleiðsluna réðst Káess í byggingu húsnæðis sem var sérhæft fyrir framleiðslu á skrifstofuhúsgögnum. Nauðsynlegt var að hagræða og gera framleiðsluna hagkvæmari, því samkeppni að utan var tekin að aukast.

Hagræðingin skilaði sér, en vaxtakostnaður á þessum árum var mjög hár, sem gerði heildarreksturinn þungan.

Til að bregðast við því ástandi var ákveðið að fara í sameiningarviðræður við aðra innlenda framleiðendur húsgagna fyrir skrifstofur og stofnanir. Niðurstaða þeirra viðræðna var að til varð GKS hf. við sameiningu Káess og Gamla Kompanísins. Stálhúsgagnagerð Steinars bættist í hópinn stuttu síðar. Hjalti Geir var formaður hins nýja félags. Síðar keypti Penninn GKS hf. og hefur lagað framleiðsluna að framleiðslu innréttinga samhliða innflutningi á skyldum vörum.

Þetta lýsir því vel hvernig iðnaðurinn getur lagað sig að breyttum aðstæðum; skipt út framleiðslu eftir því sem samkeppnishæfni og markaðsaðstæður breytast.

Hjalti Geir tók þátt í frekari sameiningu fyrirtækja. Sýn hans var að með því að byggja upp sterkari einingar yrði betur ráðið við hagsveiflur og möguleikar til vaxtar væru meiri.

Til marks um það voru tryggingafélögin Almennar tryggingar og Sjóvátryggingafélag Íslands sameinuð árið 1989. Í forsvari fyrir Almennar tryggingar voru Hjalti Geir sem stjórnarformaður og Ólafur B. Thors sem forstjóri. Í forsvari fyrir Sjóvá voru bræðurnir Benedikt og Einar Sveinssynir. Þessir aðilar sáu að með því að sameina félögin yrði til mjög sterkt tryggingafélag sem stæðist framtíðarvæntingar. Sú varð raunin og samvinna þessa hóps og vinátta var traust alla tíð.

Hjalti Geir og Sigríður ásamt börnum sínum. F.v. Kristján, Erlendur, Sigríður, Hjalti Geir, Ragnhildur og Jóhanna Vigdís. (Mynd: Úr einkasafni)

Húsgagnaarkitektinn

Hjalti Geir notaði starfsheitið húsgagnaarkitekt. Þar lá menntun hans og áhugi.

Með námi í húsgagnasmíði hjá föður sínum mótaðist áhugi hans fyrir húsgögnum og húsmunum almennt. Hugurinn leitaði til náms í hönnun húsgagna. Langflestir Íslendingar fóru á þessum tíma til Kaupmannahafnar til náms. Hjalti Geir hafði hins vegar aðrar hugmyndir og í stuttri dvöl í Kaupmannahöfn heimsótti hann svissneska sendiráðið þar og fékk upplýsingar um skóla í Sviss. Sú heimsókn var afdrifarík því hún leiddi til þess að hann fékk inngöngu í Kunstgewerbeschule der Stadt Zürich síðsumars 1948. Ákvörðunin reyndist mikið gæfuspor; skólinn var frábær og kennari hans og lærimeistari, Willy Guhl, reyndist honum ekki aðeins góður kennari heldur besti vinur. Hann opnaði dyrnar að heimi hönnunar og héldu þeir sambandi og tengslum alla tíð. Enginn hafði jafnmikil áhrif á Hjalta Geir og Willy Guhl og mótaði hann og afstöðu hans til hönnunar almennt.

Hönnun var að þróast á þessum árum, ekki síst í Sviss. Svisslendingar höfðu forskot því þeir gátu flutt inn húsgögn alls staðar að úr heiminum. Áður en dvölinni í Sviss lauk vann Hjalti Geir við að teikna innréttingar á teiknistofu bróður Willy Guhl í Stein am Rhein.

Hann tengdist Sviss sterkum böndum og varð síðar ræðismaður Sviss á Íslandi í áratug.

En Hjalti Geir var á leiðinni heim. Hann vissi að þegar hann væri kominn heim yrði ekki aftur snúið. Þess vegna dvaldi hann í eitt misseri við Kunstfachskolan í Stokkhólmi að lokinni dvölinni í Sviss. Í Svíþjóð starfaði hann einnig hjá Nordiska Kompaníinu sem rak umfangsmikla teiknistofu í Jönköping. Þannig fékk hann tækifæri til að afla sér reynslu og komast inn í hugarheim og þekkingarheim þess sem var að gerast í Skandinavíu.

Á árunum eftir heimkomuna voru fáir hönnuðir starfandi hér á landi og kom upp hugmynd um að þeir sneru bökum saman. Úr varð stofnun félags Húsgagna- og innanhússarkitekta árið 1955 á heimili Hjalta Geirs og Sigríðar, sem þá var á Laugavegi 13. Þar opnaðist sameiginlegur vettvangur húsgagnaarkitekta til að koma hönnun sinni og hugmyndum á framfæri. Stóðu félagsmenn saman að húsgagnasýningum, fyrst árið 1960 þar sem sýnd voru verk eingöngu eftir þá. Þessar sýningar vöktu mikla athygli og höfðu áhrif.

Félagið var honum afar kært og árið 2019 var Hjalti Geir gerður að fyrsta heiðursfélaga þess. Honum þótti mjög vænt um þann heiður og mat félaga sína mikils. Þeir skiptust á skoðunum og ræddu málefni tengd hönnun.

Þessi sýning var endurtekin árið 1961, sem leiddi til þess að Íslendingar tóku þátt í stórri iðnsýningu í München sama ár þar sem íslensk hönnun vakti í fyrsta skipti heimsathygli.4

Eftir inngönguna í EFTA beindu íslenskir hönnuðir sjónum sínum til útlanda, sem hleypti lífi í starf íslenskra húsgagnaarkitekta og er staða íslenskrar húsgagnahönnunar sterk í dag.

Hjalti Geir og Sigríður við opnun Canopy hótelsins í Reykjavík vorið 2017, en hótelið stendur á þeim reit hvar faðir Hjalta Geirs, Kristján Siggeirsson, rak um árabil húsgagnaverslun og framleiðslu. Á myndinni má sjá muni í eigu þeirra. Á hótelinu má finna húsgögn sem hönnuð voru af Hjalta Geir snemma á 7. áratugnum. (Mynd: Úr einkasafni)

„Hönnuður er sögumaður“

Hjalti Geir fylgdist með alþjóðlegri hönnun alla tíð og las evrópsk hönnunarblöð og bækur til að fylgjast með þróun hönnunar á hverjum tíma.

Í samtali við Hjalta Geir í sýningarskránni Stólar segir hann eftirfarandi: „Hönnuður er sögumaður. Hönnuður verður alltaf að hafa hugfast á hverju hann byggir hugmyndir sínar. Hann verður að bera virðingu fyrir þeim sem á undan fóru því af þeim hefur hann lært. Hönnuður byggir þannig vinnu sína á hugmyndum forfeðranna, þannig byggjum við upp framtíðina.“5

Á fjölbreyttri starfsævi var Hjalti Geir um langt skeið forystumaður og snjall málsvari ungrar atvinnugreinar á Íslandi. Á þeim vettvangi markaði hann varanleg spor í íslenska hönnunarsögu. Fyrir nokkrum árum var sett upp sýning á verkum hans, en þar birtist nýrri kynslóð framsækinn hönnuður sem nálgast hafði viðfangsefni sín af kunnáttu og smekkvísi. Hann fékk Ögmund Skarphéðinsson arkitekt til að setja sýninguna upp. „Hann gaf mér fullt frelsi til að móta sýninguna en var fylginn sér og benti á það sem honum fannst mikils vert að kæmist til skila af mildilegri ýtni.“6

Hjalti Geir var gæfumaður í einkalífi. Sigríður eiginkona hans var virkur þátttakandi í öllum verkum hans og studdi vel við hann, enda mikið verkefni að reka stórt og gestkvæmt heimili. Þau byggðu hús að Bergstaðastræti 70 í Reykjavík árið 1959 sem varð heimili þeirra upp frá því. Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt, vinur þeirra hjóna, teiknaði húsið. Húsið var friðlýst árið 2014 í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Skarphéðins.

Mikill fjöldi hönnuða og viðskiptamanna sótti þau hjón heim í gegnum tíðina, og þar urðu til vinasambönd sem stóðu alla tíð.

Hann var virkur þátttakandi í lífi barna sinna og barnabarna, sem og vinahóps barna sinna. Hann gaf ráð, hlustaði, tók eftir og lærði af því sjálfur. Þau Sigríður voru barnabörnum og afkomendum öllum góð fyrirmynd. Hjalti Geir varð aldrei gamall þótt hann næði háum aldri, var síungur og umgekkst allar kynslóðir sem jafningi.

Hjalti Geir var félagslyndur með afbrigðum. Skólafélagar þeirra hjóna, útskriftarárgangur Hjalta Geirs úr Verzlunarskólanum og Sigríðar úr MR, stóðu þeim hjónum alltaf nærri. Hjalti Geir hélt utan um samkomur Verzlunarskólaárgangsins alla tíð, en hann er næstsíðastur úr sínum árgangi sem kveður. Hann var virkur þátttakandi í starfi Rótarýklúbbs Reykjavíkur og Oddfellow-reglunnar í áratugi, og hlaut viðurkenningar fyrir störf sín á þeim vettvangi.

Árið 1983 keyptu þau Sigríður hús í Laugarási í Biskupstungum. Þar bjuggu þau stórfjölskyldunni aðstöðu sem allir nutu. Hann var leiðtoginn sem skipulagði og framkvæmdi. Þar var hann í essinu sínu og því fleiri úr fjölskyldunni sem þar dvöldu, því betra. Þótt Hjalti Geir væri Reykvíkingur í fimm ættliði í föðurætt unni hann náttúrunni og stundaði hestamennsku ásamt fjölskyldunni um árabil.

Bið var honum ekki að skapi, hlutir þurftu að gerast fljótt, en aldrei þannig að kastað væri til höndunum, því vel skal vanda sem lengi skal standa. Vandvirkni og nákvæmni voru honum í blóð borin.

Jóhann J. Ólafsson, kær vinur Hjalta Geirs, lýsir honum svo: „Hjalti Geir var góður fulltrúi gamla kapitalsins, afkomandi Eldeyjar-Hjalta, sem hann heitir eftir og var afi hans. Þótt Hjalti Geir hefði margt umfram meðbræður sína, efni, menntun og hæfileika, var hann ávallt sanngjarn. Hann setti alla við hlið sér, jafnt háa sem lága.“7

Tekið saman af Erlendi Hjaltasyni fyrir Þjóðmál.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Tilvitnanir:
  1. Stólar. Hjalti Geir, samtal, 2007.
  2. Þorvarður Elíasson, frkv.stj. Verzlunarráðs 1973–1979. Mbl. 27. október 2020.
  3. Árni Árnason, frkv.stj. Verzlunarráðs 1979–1987. Mbl. 28. október 2020.
  4. Stólar. Hjalti Geir, samtal, 2007.
  5. Sama heimild.
  6. Ögmundur Skarphéðinsson. Mbl. 27. október 2020.
  7. Jóhann J. Ólafsson. Mbl. 3. nóvember 2020.