Stóra lífgæðaskerðingin – sem þarf ekki að verða

Helsta framlag Íslendinga til loftslagsmála er að framleiða meiri græna orku og nýta þá orku sem fyrir er betur en nú er gert.

Bergþór Ólason.

Átök um hvernig nýta skuli auðlindir, takmarkaðar sem og endurnýjanlegar, eru stöðug og í raun nauðsynleg í allri stjórnmálaumræðu. Lífskjör landsmanna ráðast að miklu leyti af því hvernig til tekst í þeim efnum. Okkur hefur tekist að stýra stjórn fiskveiða með þeim hætti að athygli vekur um heim allan. Staðan er raunar sú að Ísland er eitt af fáum löndum þar sem ríkisstyrkir eru ekki til staðar í sjávarútvegi, heldur greiðir útgerðin, stór sem smá, umframgjald til ríkissjóðs, ofan á hefðbundna skatta.

Með þetta í huga og mikilvægi skynsamlegrar, sjálfbærrar nýtingar auðlinda er áhyggjuefni með hvaða hætti umræðan um loftslagsmál og náttúruvernd hefur þróast undanfarin ár. Þeir sem hæst tala fá athygli fjölmiðla, í stað þess að mál séu rædd af yfirvegun og leitað raunhæfra lausna. Vandamál tengd loftslaginu munu á endanum leysast með nýsköpun og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Ekki með endalausum boðum og bönnum, skattheimtu, heimsendaspám og þrá vinstrimanna til að draga úr lífsgæðum. „Sæl er sameiginleg eymd“ kemur því miður oft upp í huga þegar hlustað er á þá sem kalla eftir því að lýst verði yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, eins og það hafi einhverja þýðingu út af fyrir sig.

Við verðum að fara að tala um hlutina eins og þeir eru. Skoða raunhæfar lausnir. Gangast við því augljósa að loftslaginu er alveg sama hvar losun á sér stað í heiminum og þar með hætta að horfa á loftslagsmálin með eins þröngu móti og þeir sem harðast ganga fram hér heima gera.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði í andsvari við mig á Alþingi, þegar ég spurði hann hvort það skipti máli fyrir loftslagið hvar losun gróðurhúsalofttegunda ætti sér stað, að: „Auðvitað skiptir ekki máli hvar losun á sér stað.“ Án þess að ég sé að leggja til nýtt álver, þá segir þetta svar sína sögu. Við verðum að horfa á þessi mál heildstætt, en ekki með rörsýn á það sem íslensk heimili og fyrirtæki gera.

Sérstakt vandamál er svo að í umræðu um loftslagsmál og náttúruvernd er tilhneiging til að grauta öllu saman.

Það sem raunverulega skiptir máli

Hvað loftslagsmálin varðar er venjulegu fólki næstum ómögulegt að skilja mismunandi framsetningu í svokölluðu losunarbókhaldi, þar sem munað getur mörg hundruð prósentum á losun á hvern einstakling eftir því á hvaða mælikvarða er horft. Markmiðið virðist oft (sérstaklega í fréttaflutningi) að koma upp samviskubiti hjá landsmönnum, fremur en að fræða og upplýsa.

Í einu samhengi er losunin 12 tonn af CO2-ígildi á hvern Íslending, 14–20 í öðru og 41 í því þriðja. Fyrir venjulegt fólk er ómögulegt að rýna í hvað þessar tölur þýða í raun og veru.

Til að flækja málið enn frekar er ruglað saman þáttum sem snúa að loftslagsmálum, náttúruvernd og hringrásarhagkerfinu. Ég treysti mér til að fullyrða að drjúgur hluti landsmanna telur hið undarlega plastpokabann, sem allir flokkar (já, líka Sjálfstæðisflokkurinn) á þingi studdu nema Miðflokkurinn, vera hluta af loftslagsaðgerðum stjórnvalda. Svo er auðvitað ekki.

Á meðan upplýsingaóreiðan í umhverfis- og loftslagsmálum er eins mikil og verið hefur er ekki von á að horft verði til þeirra þátta sem raunverulega skipta máli.

Við erum til að mynda mjög upptekin af orkuskiptum í samgöngum. Það er jákvæð framtíðarsýn og mun verða að veruleika. En stóru áhrifin í þeim efnum koma ekki til vegna sértækrar reglusetningar á Íslandi. Þau verða á þeim hraða sem stóru erlendu framleiðendurnir stýra. Hvað fjölskyldubílinn varðar hefur til dæmis þýski bílaframleiðandinn Mercedes-Benz lýst því yfir að fyrirtækið ætli sér eingöngu að framleiða rafknúnar bifreiðar fyrir lok áratugarins. Í fluginu á sér stað mikil þróun og líklegt að styttri leiðir í farþegaflugi verði orðnar rafvæddar fyrr en flesta grunar. Í millilandaflugi er mikil gerjun að eiga sér stað hjá stóru framleiðendunum og líklegt að vetni verði lausnin sem verður ofan á. Mikill árangur hefur náðst í mikilvægum framfaraskrefum skipaflotans og hefur olíunotkun í sjávarútvegi dregist saman um 40% frá árinu 2005.

Á sama tíma og þessi árangur er að nást og er fram undan aka strætisvagnar Reykjavíkur um metanlausir að mestu, þrátt fyrir að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi sett sex milljarða í Gaju – gas og jarðgerðarstöð. Reyndar er samhengisleysið svo mikið hjá borgaryfirvöldum að þar er metaninu frekar brennt út í andrúmsloftið en að panta nýja strætisvagna með það í huga að nýta metanið sem þar er framleitt. Eins og oft vill verða hjá vinstrinu stenst þetta ekki nánari skoðun.

Allt er þetta sem sagt á réttri leið hvað samgöngurnar varðar, nema mögulega það sem við höfum raunverulega stjórn á, sem er flutningskerfi raforku sem þarf að vera til staðar til að rafbílavæðingin geti gengið eftir.

Framlag Íslands

Það er nauðsynlegt ræða loftslagsmálin út frá þeirri staðreynd að þau þarf að nálgast á heimsvísu. Loftslaginu er alveg sama hvar losun á sér stað. Losun í Kína hefur sömu áhrif og losun á Íslandi fyrir hvert tonn af CO2-ígildi. Loftslaginu er alveg nákvæmlega sama.

Helsta framlag okkar Íslendinga til loftslagsmála hlýtur því að verða að framleiða meiri græna orku og nýta þá orku sem fyrir er betur en nú er gert. Aðrir þættir sem raunverulega skipta máli og við höfum stjórn á eru meðal annars stóraukin skógrækt, bæði til bindingar og síðari tíma nýtingar afurða.

Umræðan um loftslagsmál virðist því miður oft markast af því að um trúarbrögð sé að ræða. Þeir sem leggja upp með aðra nálgun en þeir innvígðu, óska eftir því að mál verði skoðuð út frá öðrum sjónarhornum en umræðustjórarnir leggja upp með, eru kallaðir afneitunarsinnar (jafn ónotalega og sú samlíking hljómar fyrir þá sem þekkja söguna).

Á meðan aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, sósíalistinn frá Portúgal, hreykir sér af því að á þeim vettvangi séu þeir ekki velkomnir sem ekki deila með honum skoðun á vandanum og hvernig skuli nálgast lausnina, þá er voðinn vís. Þegar vísindamenn hætta að takast á og virðast raunar ekki mega það, þá erum við á vondum stað.

Nýlega kom út skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, 4.000 blaðsíðna löng, þar sem hnykkt var á ýmsu sem áður hafði fram komið. Sé mat þeirra sem leggja til efni í skýrsluna rétt (þó að nálgun Sameinuðu þjóðanna veki óhug eftir framgöngu aðalframkvæmdastjórans) blasir við að skýrslan leggur okkur Íslendingum beinlínis þær skyldur á herðar að auka framleiðslu á grænni, endurnýjanlegri orku, sem er einmitt það sem við erum góð í að gera og eigum að halda áfram að gera – og gera meira af.

Sýndarmennska eins og að binda loftslagsmarkmið stjórnvalda í lög, eins og gert var undir þinglok í vor, gerir engum gagn. Hvern á að draga til ábyrgðar ef loftslagsmarkmið fyrir árið 2040 nást ekki? Umhverfisráðherra þess tíma? Forsætisráðherra þess tíma? Núverandi umhverfisráðherra? Það blasir við að sú lagasetning sem rann í gegnum þingið í vor var eintóm sýndarmennska. Slíkar æfingar gera engum gagn og tímanum væri betur varið í að leita raunhæfra lausna.

Besta leiðin að markmiðinu

Nálgun hamfarasinna virðist ganga út á að gera vandamálið stærra (sem er ekki útilokað að gagnist pólitískum markmiðum þeirra) með því að loka fyrir framleiðslu á grænni orku. Þannig flyst framleiðsla orkunnar til landa þar sem hún er meðal annars keyrð áfram með kolabruna sem losar mun meira af gróðurhúsalofttegundum en umhverfisvæn orka okkar Íslendinga. Eftirspurnin eftir orkunni hættir ekki ef við lokum dyrunum, hún bara færist til og loftslagið geldur fyrir.

Þeir sem mest þykjast vita í þessum málum virðast oft ekki hafa lag á að tala við aðra en sjálfa sig og skoðanabræður sína. Það kom meðal annars glögglega fram í Borgarafundi Ríkissjónvarpsins um loftslagsmál undir lok árs 2019, þar sem sjálfskipaðir fræðingar í málaflokknum fóru mikinn og spöruðu ekki fyrirlitninguna í garð þeirra sem vildu horfa á málið með víðtækari hætti og leita annarra sjónarmiða í leit að raunhæfum lausnum. Þeir sem telja sig handhafa sannleikans og hlusta ekki á sjónarmið annarra eru ekki líklegir til að finna bestu leiðina að markmiðinu, sem í þessu tilfelli er betra loftslag í heiminum. Það má ekki blindast af eigin hroka og hætta að hlusta – þá fyrst rekur menn í vörðurnar.

Þeir sem vilja leggja mestar byrðar á herðar Íslendinga til að leysa loftslagsvandann og hlusta ekki á aðrar leiðir virðast flestir með einum eða öðrum hætti koma úr hugmyndafræðilegri átt vinstrisins. Markmiðið um eftirgjöf lífsgæða virðist til að mynda stýra forsvarsmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna, en þeir hreinlega ráða ekki við sig þegar tækifæri er til að nálgast sæluríki sameiginlegrar eymdar. Það væri í sjálfu sér ekki svo alvarlegt ef stjórnmálaflokkar sem snúast um að verja borgaraleg gildi hefðu haft staðfestu og þor til að spyrna við fótum og segja það sem blasir við; Íslendingar eru að standa sig vel þegar kemur að loftslagsmálum. Við erum með hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku í heiminum!

Í löngu máli væri hægt að fara út í með hvaða hætti sú markalína sem notast er við í alþjóða loftslagsbókhaldinu er okkur mótdræg. Þeirri staðreynd var haldið til haga með svokölluðu íslensku ákvæði við Kyoto-bókunina, en umhverfisráðherra VG, þeim sem nú vermir stól heilbrigðisráðherra, þótti ekki ástæða til að verja þá undanþágu í ráðherratíð sinni, þó að öll sanngirnisrök hafi hnigið í þá áttina og verulegir hagsmunir lægju undir. Sérstaða Íslands blasir við og stjórnmálamennirnir þurfa að verja þá sérstöðu á alþjóðlegum vettvangi.

Verum óhrædd við framfarir

Við sem erum í stjórnmálum verðum að hafa pólitískt þrek til að spyrna við fótum þegar vegið er ómaklega að lífsgæðum fólksins í landinu. Þeir sem hæst tala og telja sig hafa lausnirnar eru undantekningarlítið að leggja til aðgerðir sem munu stórskaða lífsgæði á Íslandi, draga úr hagvexti og gera okkur erfiðara um vik sem samfélagi að standa undir þeim velferðarkerfum sem nauðsynlegt er að styðja við og styrkja.

Þó að Maó hafi forðum reynt stóra stökkið fram á við (með hörmulegum afleiðingum) er engin ástæða fyrir okkur hér á Íslandi að taka á okkur stóra lífsgæðaskerðingu til að þjónkast pólitískum kreddum vinstrisins þegar raunhæfar lausnir sem raunverulega taka á vandanum sem stendur fyrir dyrum eru í boði. Lausnir sem raunverulega skila árangri til bindingar gróðurhúsalofttegunda og minni útblásturs þeirra, sem felast meðal annars í að framleiða meiri græna orku og binda meira af gróðurhúsalofttegundum með stóraukinni skógrækt.

Gleymum ekki að um 80% af allri orku sem við notum í dag eru hrein og græn, unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Hin 20% fara á bílana okkar og tæki í skipin og á flugvélarnar. Eins og hér hefur verið rakið er mikil og hröð þróun að eiga sér stað hvað bílana, skipin og flugið varðar. Við skulum því ekki setja alla orkuna í að horfa á þá þætti, þeir leysast með nýsköpun og fjárfestingu heimila og fyrirtækja.

Við eigum að vera óhrædd sem þjóð við að leggja raunverulega okkar af mörkum þegar kemur að loftslaginu með því að framleiða meiri græna orku hér á landi og flytja þá orku sem umfram er úr landi, til dæmis í formi vetnis eða ammoníaks. Það er alvöru framlag til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Gerum það.

Höfundur er þingmaður og oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.