Engelbert Humperdinck fæddist í Siegburg í Þýskalandi 1854 og lést í Neustrelitz 1921 og má því nokkurn veginn flokka sem síðrómantískt tónskáld. Hann hóf snemma að nema píanóleik og bar með sér augljósa tónlistarhæfileika en afréð þó að skrá sig í arkitektúr þegar kom að því að velja háskólanám. Ekki leið á löngu þar til Humperdinck gaf húsagerðarlistina upp á bátinn – föður sínum til armæðu – og innritaðist í tónlistarnám við Kölnarháskóla, ekki hvað síst fyrir áeggjan tónskáldsins Ferdinands Hiller. Þessu fór fram árið 1872. Námið sóttist vel og innan nokkurra ára hafði Humperdinck víða hlotið verðlaun fyrir námsárangur; hér má nefna Mozart-verðlaunin í Frankfurt 1876, Mendelssohn-verðlaunin í Berlín 1879 og Meyerbeer-verðlaunin í sömu borg 1881. Eftir fimm ár í Köln hélt Humperdinck í framhaldsnám við Konunglega tónlistarháskólann í München árið 1877 og komst þar í fyrsta skipti í kynni við tónlist Wagners. Hún átti eftir að hafa meiri áhrif á hann en nokkurt annað tónskáld. Humperdinck sá Hringinn árið 1878 og gekk í kjölfarið í Wagnerfélagið í München. Leiðir þeirra tveggja lágu svo saman stuttu síðar. Humperdinck hafði hlotið námsdvöl á Ítalíu að launum árið 1880 fyrir afburða námsárangur og þar komst hann í kynni við Richard Wagner sjálfan, sem í kjölfarið bauð hinu unga og upprennandi tónskáldi að koma til Bayreuth árið 1881 og aðstoða sig við frumflutninginn á Parsifal; boð sem Humperdinck þáði með þökkum.
Það dylst engum sem þekkir verk Wagners að þýski meistarinn hefur haft mikil áhrif á Humperdinck. Reyndar voru þessi áhrif vinum og samstarfsmönnum Humperdincks nokkurt áhyggjuefni; þeir töldu meðal annars að aðdáun hans á Wagner stefndi sjálfstæði hans í hættu. Þessu andmælti Humperdinck og svaraði því til að hann myndi glaður fórna öllum frumleika ef hann gæti samið kóra á borð við þá sem heyra má í Parsifal.
En þrátt fyrir áberandi Wagnerisma í hljómsveitarútsetningunni í óperunni Hans og Grétu – og hér má nefna dæmi eins og mjög þykka hljóma og býsna þunga hljómsveitarútsetningu, samofnar laglínur og ítrekun stefja í takt við atburðarás – má kannski segja að einfaldleiki sé annað aðalmerki verksins. Frábærlega eftirminnilegar laglínur – og þá bæði þær sem Humperdinck sótti í þýsk þjóðlög sem og frumsamdar laglínur – ljá verkinu ákveðinn blæ sem er ólíkur flestum öðrum óperum.
Humperdinck leggur út af þýskum þjóðlögum á þremur eða fjórum stöðum í Hans og Grétu. Það er hins vegar nokkuð algengur misskilningur að tónskáldið hafi stuðst meira og minna við þjóðlög í verkinu. Það er kannski ekkert skrýtið, enda eru sumar frumsamdar laglínur Humperdincks í óperunni einkar grípandi en um leið frábærlega einfaldar og vega þannig upp á móti þykkri hljómsveitarútsetningu.
Það var árið 1890 að systir Humperdincks, Adelheid (eða Aðalheiður) Wette, bað bróður sinn um að útsetja þjóðlög fyrir leikrit sem hún hafði samið upp úr ævintýrinu um Hans og Grétu. Útsetningarnar mæltust gríðarvel fyrir og í kjölfarið afréð tónskáldið að leggja drög að óperu, reista á þessari útgáfu systur sinnar af Grimms-ævintýrinu. Að vísu liggur ekki fyrir hvort Humperdinck átti sjálfur hugmyndina að fullmótaðri óperu um systkinin Hans og Grétu eða hvort fjölskyldan og samstarfsmenn gengu á eftir honum með að semja slíkt verk. En hvað um það, verkið var tilbúið í október 1893 og Humperdinck sendi það til Hirðleikhússins í Weimar með það fyrir augum að húsið tæki óperuna til sýninga. Þar hitti Humperdinck fyrir 29 ára gamlan tónlistarstjóra að nafni Richard Strauss, sem var ekki lengi að átta sig á mikilvægi hins nýja verks. Strauss bauð Hermanni Levi að stjórna frumflutningnum, en hann hafði einmitt stjórnað frumflutningnum á Parsifal rúmum áratug áður. Vegna veikinda söngvara þurfti hins vegar að fresta frumsýningunni um hálfan mánuð og þá var Levi ekki lengur viðlátinn; það var því Richard Strauss sem hélt á sprotanum þegar óperan Hans og Gréta var frumflutt í Weimar á Þorláksmessu 1893. Frumflutningurinn gekk að vísu ekki þrautalaust en sigurganga verksins í kjölfarið ætlaði engan endi að taka. Að minnsta kosti 72 leikhús í Þýskalandi settu óperuna upp innan við ári eftir frumsýninguna; Weingertner stjórnaði frumflutningnum í Berlín 1894 að viðstöddum keisaranum, sem hrósaði óperunni, og Gustav Mahler lýsti henni sem meistaraverki, en sjálfur stjórnaði hann frumflutningi Hans og Grétu í Frankfurt.
Þó svo að flestir hlustendur hafi alist upp við að heyra ævintýrið um Hans og Grétu er rétt að benda á að leikgerð Aðalheiðar Wette er örlítið frábrugðin útgáfu Grimms-bræðra. Þetta er þó bitamunur, ekki fjár, og í öllum aðalatriðum kannast hlustendur við söguna. Hér eru þó öngvir brauðmolar sem vísa veginn heim og í stað vondu stjúpunnar sem flæmir Hans og Grétu á brott hittum við fyrir sjálfa móður barnanna, Geirþrúði. Hún er í eðli sínu alls ekki illa innrætt eins og vonda stjúpan en er þjökuð af áhyggjum af framfærslu fjölskyldunnar. Pabbinn, Pétur, er hins vegar léttlyndur og kannski ívið drykkfelldur náungi sem hefur minni áhyggjur af framtíðarhorfum fjölskyldunnar.
Það er auðvitað býsna merkileg staðreynd að óperan Hans og Gréta var ekki hljóðrituð í heild sinni fyrr en 1953, sérstaklega ef við miðum við vinsældir hennar og að hún er ekki lengri en raun ber vitni (nokkuð undir tveimur klukkustundum í flutningi). Við það bætist að Hans og Gréta var fyrsta óperan sem var útvarpað beint, það er að segja óstytt; fyrst í Evrópu 1923 og síðar í Bandaríkjunum 1931.
Herbert von Karajan hafði aldrei stjórnað Hans og Grétu þegar hann var fenginn til að hljóðrita verkið fyrir EMI og jafnvel þó svo að hann hafi verið búinn að læra raddskrána áður en upptökur hófust hefur Elisabeth Schwartzkopf greint frá því að óperan hafi sífellt verið að koma von Karajan á óvart á meðan á upptökum stóð, fegurð hennar og þó ekki hvað síst snilldarleg hljómsveitarútsetning Humperdincks.
Það er skemmtileg staðreynd að langafi von Karajans, Theodor von Karajan, prófessor í þýskum bókmenntum við Háskólann í Vínarborg, var góðvinur Grimms-bræðra og eru margir þeirrar skoðunar að hljóðritun Herberts von Karajan á þessu Grimms-ævintýri sé enn sú besta sem fáanleg er af verkinu.
Þess má kannski geta til gaman hér að Herbert von Karajan var maðurinn sem uppgötvaði Elisabeth Grümmer (Hans á upptökunni sem von Karajan stjórnaði). Hún var gift konsertmeistara hljómsveitarinnar í Aachen, en von Karajan var aðalstjórnandi þar á árunum 1934 til 1941. Grümmer þótti hæfileikarík leikkona en hún hafði aldrei tekið þátt í óperuflutningi. Von Karajan hafði heyrt hana syngja í veislum sem haldnar voru eftir tónleika í Aachen og það kom flatt upp á Grümmer þegar hljómsveitarstjórinn bað hana um að syngja eitt af hlutverkum blómastúlknanna í Parsifal sem var sett á svið í Aachen. Sýningin hlaut góða dóma en Grümmer heyrði ekkert frá von Karajan – hvorki gott né slæmt – eftir frumsýninguna. Honum hefur þó án efa líkað frammistaða hennar, því stuttu seinna bauð von Karajan Grümmer hlutverk í óperum á borð við Falstaff og Rósariddaranum og sem var upphafið að löngum og farsælum ferli.
Humperdinck samdi alls átta sviðsverk, þar af bæði voldugar óperur á borð við Königskinder sem og smærri leikhúsverk, svo sem Úlfinn og kiðlingana sjö við samnefnt ævintýri Grimms-bræðra. Hans er þó ætíð minnst fyrir frumraun sína á óperusviðinu, Hans og Grétu, og er í augum margra „einnar-óperu-maður“ ef svo má segja. Margur hefur þó mátt sætta sig við minna, eins og eitt sinn var sagt um íslenskt skáld sem naut fyrst og fremst frægðar fyrir eitt kvæði.
Þó svo að upptökufyrirtæki hafi tekið seint við sér varðandi Hans og Grétu er nú um að velja nokkrar prýðilegar hljóðritanir af verkinu. Sem fyrr segir stjórnaði Herbert von Karajan flutningum á fyrstu hljóðrituninni sem gerð var af verkinu (í mónó). Þar syngja þær nöfnur Elisabeth Grümmer og Elisabeth Schwartzkopf hlutverk Hans og Grétu og upptakan er löngu orðin klassík í óperuheiminum. Þá má nefna prýðilega upptöku sem John Pritchard stjórnaði með Fredericu von Stade og Ileanu Cotrubas í titilhlutverkunum. Sir George Solti stjórnaði ljómandi góðri upptöku með Birgittu Fassbaender og Luciu Popp í hlutverkum Hans og Grétu og Donald Runnicles (með Larmore og Ziesak), Sir Jeffrey Tate (von Otter og Bonney) og Christian Thielemann (Sindram og Tonca) hafa stjórnað fínum hljóðritunum á verkinu. Sú síðastnefnda er á DVD. Best allra hljóðritana er hins vegar upptaka sem Sir Colin Davis stjórnaði. Þar gengur allt upp. Ann Murray og Edita Gruberova eru ógleymanlegar sem Hans og Gréta og það eru engin smá nöfn í smærri hlutverkum, til að mynda Lafði Gwyneth Jones (mamman) og Christa Ludwig (nornin).
Höfundur er sagnfræðingur.
—
Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.