Um og fyrir 1980 varð til nokkuð víðtækt samkomulag stjórnmálaflokka í mörgum löndum um að greiða fyrir alþjóðavæðingu í efnahagslífi, markaðsbúskap og einstaklingshyggju með áherslu á mannréttindi. Megnið af litrófi stjórnmálanna, frá frjálslyndum borgaraflokkum hægra megin við miðju til jafnaðarmannaflokka á vinstri vængnum, myndaði í raun eina fylkingu sem ég kallaði eitt sinn breiða miðju (Atli Harðarson, 2006). Það var þessi breiða miðja sem kom fjórfrelsinu á Evrópska efnahagssvæðinu á laggirnar með Maastricht-samkomulaginu árið 1992. Jafnaðarmannaflokkarnir tileinkuðu sér frjálshyggju í vaxandi mæli og borgaraflokkarnir tóku velferðarkerfið í sátt og úr varð það frjálslyndi sem við höfum búið að síðan. Sumir kenna þessa tíma við nýfrjálshyggju. Það má líka kenna þá við einstaklingshyggju og mannréttindi (Atli Harðarson, 2015) eða módernisma (Atli Harðarson, 2007).
Nú hin allra síðustu ár eru teikn á lofti um að miðjan breiða fari minnkandi og frjálslynd stjórnmálaöfl til hægri og vinstri séu fremur í vörn en sókn. Í því sem hér fer á eftir segi ég frá tveimur bókum sem nýlega komu út í Bandaríkjunum þar sem er fjallað um þessar ógöngur.
Bókin sem ég segi fyrst frá heitir Radical markets: Uprooting capitalism and democracy for a just society (Róttækir markaðir: Að uppræta auðvald og lýðræði í þágu réttláts samfélags) og er eftir Eric Posner, prófessor í lögfræði við Chicago-háskóla, og E. Glen Weyl, hagfræðing við rannsóknarstofnun Microsoft. Sú seinni heitir Why liberalism failed (Hvers vegna frjálslyndið brást) og er eftir Patrick J. Deneen, sem er prófessor í stjórnmálafræði við Notre Dame-háskólann í Indiana.
Höfundar bókanna eiga um margt samleið í greiningu sinni á kröggum frjálslyndra stjórnmála. Þeir segja að stór hluti almennings sé að missa trú á stjórnarháttum frjálslyndra afla. Í báðum bókunum er þetta ástand nefnt „crisis of legitimacy“. Sá frasi er ensk þýðing á hugtaki sem þýski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Jürgen Habermas kynnti árið 1973 og kallaði „Legitimationsproblem“. Orðalagið vísar til vanda sem felst í útbreiddu vantrausti á stofnunum samfélagsins og efasemdum um réttmæti ríkisvaldsins.
Vandi samtímans
Í báðum bókunum er rætt um vaxandi þjóðernis- og einangrunarstefnu og fylgi við „sterka“ leiðtoga, sem vandamál. Posner og Weyl (bls. 3) tala um sókn „popúlisma“ og kjósendur sem eru óánægðir með vaxandi ójöfnuð og minnkandi hagvöxt. Þeir segja það tímanna tákn að 90% af bandarískum börnum sem fæddust 1940 hafi búið við betri kjör en foreldrar þeirra en þetta gildi aðeins um helming barna sem fæddust 1980. Með aukinni markaðsvæðingu og alþjóðavæðingu frá því um 1980 hafi átt að vinna gegn stöðnun og verðbólgu áratuganna á undan. Menn áttu taka því þótt böggull fylgdi skammrifi og ójöfnuður ykist eitthvað. Úr varð enn meiri stöðnun og minni hagvöxtur svo ekkert hlaust af þessu nema meiri ójöfnuður, segja þeir (bls. 11).
Deneen ræðir um rótleysi sem margir bregðast við með því að flykkja sér um leiðtoga sem þeir vona að nái að snúa niður ríkis- og markaðsvæðinguna (bls. 177). Hann segir að hætta sé á að reiðin og óttinn komi einræðisherrum til valda. Hann segir líka að frjálslynd stjórnmál hafi brugðist vonum fólks um réttlæti og betri kjör, menn sjái þess í stað vaxandi ójöfnuð og finni til öryggisleysis vegna breytinga sem þeir hafi enga stjórn á, því þær birtist eins og óhjákvæmilegar afleiðingar af hagfræðilegum lögmálum (bls. 9).
Þótt samhljómur sé í lýsingum á því hvernig komið er eru úrræðin sem bent er á í þessum tveimur bókum svo andstæð sem vera má. Posner og Weyl vilja ganga götu markaðsvæðingar og frjálslyndrar einstaklingshyggju til enda og segja að vandinn liggi í því að mikilvæg skref hafi ekki verið stigin nema rétt til hálfs. Deneen telur hins vegar að sú leið sé blindgata og best sé að snúa við.
Posner, Weyl og róttæk markaðshyggja
Posner og Weyl byrja formála bókar sinnar á að minna á að frjálshyggjumenn 19. aldar voru róttæklingar. Þeir beittu sér fyrir djúptækum samfélagsbreytingum sem þeir töldu alþýðu til hagsbóta. Þeir reyna að endurvekja þennan anda róttækrar frjálshyggju til að auka jöfnuð og hagsæld og losa stjórnmálin úr þeirri úlfakreppu sem við blasir.
Vandræðagangi hinnar breiðu miðju lýsir bókin í stuttu máli á þá leið að þau sem eru á vinstri kantinum segi að ríkið eigi að auka skatta á auðmenn til að tryggja húsnæði, heilbrigðisþjónustu og vinnu fyrir alþýðuna. Þau sem eru á hægri jaðri miðjunnar svara að þá endum við með ástand eins og í Venesúela og Simbabve, nær sé að einkavæða það sem ríkið rekur, lækka skatta og draga úr regluverki, því þá batni kjör allra. Svo eru tæknikratarnir í miðju sem segja að það þurfi að fínstilla regluverkið og gera umbætur í þágu mannréttinda (bls. xiv). Posner og Weyl segja að þessi svör hafi gagnast á sínum tíma en nútíminn krefjist annars konar hugsunar. Þessa annars konar hugsun sækja þeir að nokkru leyti til 19. aldar, því hugmyndir þeirra byggjast um sumt á kenningum bandaríska hagfræðingsins Henry George (1839–1897).
Hann taldi hægt að auka jöfnuð, en njóta samt kosta markaðsbúskapar, með því að jarðnæði væri allt í almannaeigu, og til leigu, en vörur gengju kaupum og sölu á markaði. Ráðin gegn stöðnun og ójöfnuði sem Posner og Weyl benda á snúast um að vinna gegn markaðsbrestum. Þeir segja að þessir brestir stafi af því að eignir eins og jarðnæði, náttúruauðlindir og fyrirtæki séu ekki nógu fljótandi og lendi því ekki nógu greiðlega í höndum þeirra sem nýti þær best.
Þeir leggja til skipan sem líkja má við stöðug uppboð á hluta þess sem menn geta nú haldið fast í sem séreign. Róttækni þeirra er þó hófleg að því leyti að þeir vilja að byrjað sé á að prófa þetta í smáum stíl. Um sumt minna þessar tillögur á eina gerð andófs gegn kvótakerfinu í sjávarútvegi, sem nokkuð hefur borið á hér á landi, nefnilega hugmyndir um tíð uppboð á fiskveiðiheimildum.
Skorður við eignarrétti og ráð við fákeppni
Posner og Weyl taka undir það með hægrimönnum að styrkja þurfi markaðsbúskap og koma honum víðar við. En þeir finna að því að hægrisinnaðir flokkar beiti sér einatt gegn breytingum sem þurfi að gera til að draga úr fákeppni, einokun og markaðsbrestum. Til að bæta úr þessu leggja þeir til að vissar eignir verðleggi eigendur sjálfir og greiði skatt í hlutfalli við hvaða verðmiða þeir setja á þær. Eignir sem svo eru verðlagðar skulu ekki vera fastar í hendi heldur skal mönnum skylt að selja þær við því verði sem þeir telja fram. Eignamenn geta þá ekki vikið sér undan skattheimtu nema lækka verð eigna sinna svo að hætta sé á að aðrir kaupi þær á undirverði. Með þessu telja þeir hægt að sameina annars vegar dreifstýringu og kosti markaða og hins vegar félagslega eign á auðlindum og landi, þar sem hver sem er má kaupa eignir sem handhafi verðleggur lágt og enginn getur verðlagt eignir hátt nema borga meira í sameiginlega sjóði. Slíka skipan segja þeir verða til þess að eignir sem skila litlum arði lendi hjá nýjum eigendum og hagvöxtur aukist fyrir vikið.
Ef þetta kerfi yrði tekið upp í íslenskum sjávarútvegi mættu handhafar kvóta setja á hann hvaða verð sem er og borga skatt í hlutfalli við það. Þeir sem verðleggja kvóta sinn lágt, og segjast þar með ekki hafa efni á að borga nema lítinn skatt, verða þá að una því að hver sem telur sig geta staðið undir hærri sköttum geti keypt kvótann af þeim á því lága verði sem þeir tíunda. Nýr kaupandi getur svo verðlagt eign sína hátt til að halda henni en verður fyrir vikið að borga hærri skatt. Þetta virkar nánast eins og auðlindir séu til leigu og leiguverð sé ákveðið og sífellt endurskoðað með uppboðum.
Posner og Weyl taka vitaskuld önnur dæmi en fiskveiðikvóta en þeir útfæra hugmyndir sínar í nægilegum smáatriðum til að auðvelt sé að heimfæra þær á ólík svið. Eitt lykilatriði er að þeir segja að handhafar eigna eigi að mega verðleggja þær í kippum. Þannig mætti útgerð setja eitt verð á bæði skip og kvóta til að koma í veg fyrir að nokkur gæti leyst til sín annað af þessu með þeim afleiðingum að eigandi sæti uppi með hitt og gæti ekki nýtt það. Þeir orða þetta svo að við þá skipan sem þeir leggja til þurfi engir að una því að keyptur sé af þeim annar skórinn og þeir sitji uppi með hinn (bls. 64). Í stuttu máli má segja að róttæknin í bókinni felist í því að auka markaðsvæðingu og dreifstýringu en takmarka um leið eignarrétt. Það verður ekkert miðstjórnarvald sem verðleggur eignir manna. Þeir gera það hver fyrir sig. Á móti kemur að enginn getur neitað að selja eign sína.
Annað ráð sem þeir leggja til byggist líka á því að setja eignarrétti skorður. Þetta ráð er að takmarka möguleika fjárfesta og sjóða til að eiga hlut í tveimur eða fleiri fyrirtækjum í sömu grein atvinnulífs. Posner og Weyl segja að af því leiði í raun fákeppni þar sem nokkrir stórir fjárfestar eiga til að mynda í mörgum verslanakeðjum eða mörgum flugfélögum. Eigendurnir hafa þá meiri hag af að halda launum niðri en að etja fyrirtækjunum saman í samkeppni. Úr verður hagkerfi þar sem topparnir eru öruggir með sitt og þurfa lítt að óttast samkeppni en kjör verkafólks versna (bls. 201).
Sjóðval og sala á landvistarleyfum
Posner og Weyl vilja ganga býsna langt í að gera alla að kaupendum og seljendum og hafa sífellt uppboð á alls konar gæðum. Þeir leggja meðal annars til að atkvæðin, sem gefa almennum borgurum pólitísk völd, verði í meiri mæli eins og peningar þar sem hver kjósandi hefur sjóð atkvæða til ráðstöfunar. Við slíka skipan getur kjósandi notað mörg atkvæði til að styðja mál sem hann ber mjög fyrir brjósti. Sá sem það gerir verður þá snauður af atkvæðum til að verja í önnur mál, en þannig er það líka með peninga, sá sem eyðir miklu í eitt á minna aflögu í annað. Með þessu fyrirkomulagi getur sæmilega stór minnihlutahópur varið það sem honum er kærast þó að meirihlutinn sé allt eins til í að fórna því fyrir önnur gæði. Útfærsla Posners og Weyl á þessari hugmynd er allítarleg og studd stærðfræðilegum rökum sem erfitt er að rekja í stuttu máli. Dálítið svipuð hugmynd hefur verið kynnt hér á landi af Birni S. Stefánssyni (2003) sem kallar hana sjóðval, þar sem hver kjósandi á sjóð atkvæða.
Enn eitt efni sem fjallað er um í bókinni er fólksflutningar milli landa. Posner og Weyl segja að það sé almennt til hagsbóta að fólk flytji þaðan sem laun eru lág til staða þar sem laun eru hærri. Þeir benda á að Singapore vegni vel með tvo innflytjendur á móti hverjum þremur innfæddum og svipað megi segja um Ástralíu og Nýja-Sjáland, þar sem hlutfall innflytjenda er líka mjög hátt. Þeir nefna einnig staði á Vesturlöndum, eins og Toronto í Kanada, þar sem helftin af fólki er innflytjendur en samt almenn velmegun.
Posner og Weyl álíta að auðug samfélög geti tvöfaldað íbúafjölda sinn með því að opna fyrir aukinn innflutning frá fátækari löndum. Vandinn við þetta er, segja þeir, einkum sá að stór hluti alþýðu í ríku löndunum telur sér ógnað af innflytjendum, enda er erfitt fyrir verkafólk að keppa við nýbúa sem eru vanir mjög kröppum kjörum og sætta sig við þau (bls. 146). Tillaga þeirra um lausn á þessum vanda er mjög í anda markaðshyggju. Þeir telja að það ætti einfaldlega að leyfa fólki að bjóða útlendingi til sín, ganga í ábyrgð fyrir hann og taka gjald fyrir. Verkamaður getur þá sagt við stéttarbróður í öðru landi: Þú hækkar laun þín um milljón með því að flytja hingað, ég fæ vegarbréfsáritun fyrir þig og við skiptum kjarabótinni á milli okkar.
Þessi tillaga gefur ágæta hugmynd um tóninn í bókinni. Höfundar hennar eru til að í bjóða flestum hugmyndum okkar byrginn og ansi margt sem þeir segja ögrar fólki sem er alið upp við frjálslyndi af því tagi sem þeir segja að sé gengið sér til húðar, hvort sem það heitir hægristefna, vinstristefna eða eitthvað þar á milli. Úrræði þeirra eru þó öll rökstudd og skýrð sem rökrétt framhald af frjálslyndi af því tagi sem tíðkast innan hinnar breiðu miðju. Þau eru skref í átt að meiri einstaklingshyggju, meiri markaðsbúskap og auknum hreyfanleika fólks og fjármuna. Mörg af úrræðum þeirra, eins og sjóðval, sífelld uppboð á eignum og ábyrgð einstaklinga á innflytjendum gera ráð fyrir miklu rafrænu utanumhaldi, skráningu og eftirliti. Sumar hugmyndir þeirra eru raunar óframkvæmanlegar án nýjustu upplýsingaog samskiptatækni.
Deneen og frjálslyndi nútímans
Snúum okkur nú að hinni bókinni. Höfundur hennar, Deneen, segir að frjálslyndið (e. liberalism) sé fyrsta pólitíska hugmyndafræði nútímaríkja; kommúnisminn og fasisminn hafi komið fram sem andóf gegn því. En saga síðustu aldar dæmdi kommúnisma og fasisma úr leik og í aldarlok virtist frjálslyndið eina hugmyndafræðin sem hægt var að taka alvarlega (bls. 4).
Deneen segir að frjálslyndið sé draumur sem hafi frá öndverðu búið yfir tilhneigingu til að breytast í martröð. Hann segir líka að þeir sem reyni að bæta út göllum frjálslyndra samfélaga með enn meira frjálslyndi helli í raun olíu á eld (bls. 4). Það sé sama hvort litið sé til stjórnmála, hagkerfis eða menntakerfis; úrræði í anda frjálslyndis, sem ætlað sé að gefa fólki aukið svigrúm, virki sem fjötrar og valdi vaxandi gremju (bls. 6).
Vandi samtímans er að hinar stefnurnar, kommúnisminn og fasisminn, sem áttu að vera svör við frjálslyndri markaðs- og einstaklingshyggju, hafa reynst enn verri. Þeir sem leita annarra leiða í stjórnmálum hafa því ekki í mörg hús að venda. Það sem er athyglisverðast við skrif Deneen er hvernig hann rökstyður að frjálslyndi kalli á aukna skriffinnsku, regluverk og útþenslu ríkisvaldsins. Einstaklingshyggjan og trúin á ríkið haldast í hendur, segir hann (bls. 17). Aukinni markaðsvæðingu fylgir aukin skriffinnska og miðstýring, en líka einmanaleiki og niðurbrot smærri samfélaga þar sem fólk fær notið sín sem félagsverur. Hann segir líka að þrátt fyrir allt tal um jafnrétti stuðli frjálslynd samfélög í raun að viðhaldi stéttaskiptingar og noti menntakerfi sín til þess (bls. 134).
Samkvæmt því sem Deneen segir er frjálslyndi samtímans spunnið úr hugsun af tvennu tagi. Annars vegar úr einstaklingshyggju sem gerir ráð fyrir að hver og einn velji sér líf að eigin vilja og hins vegar úr heimspeki sem aðgreinir manninn frá náttúrunni (bls. 31). Þessa tvenns konar hugsun rekur hann til heimspekinga sem uppi voru fyrir þremur til fjórum öldum, einkum til Englendingsins Thomasar Hobbes. Gegn þessari samsuðu einstaklingshyggju og tvíhyggju teflir Deneen fram eldri viðhorfum sem gera ekki ráð fyrir að menn séu fæddir frjálsir heldur að þeir þurfi að læra að vera frjálsir og stjórna sér sjálfir (bls. 111). Hann vitnar í Rússann Alexander Solzhenitsyn, sem sagði að frjálslyndi stæðist ekki, vegna þess að það gerði ráð fyrir að hver og einn þjónaði lund sinni, en hugmyndafræðin rúmaði ekki sjálfsstjórn. Hún gerði ekki ráð fyrir öðru taumhaldi en löggæslu ríkisins (bls. 83).
Útúrdúr um James C. Scott
Hægt er að nálgast sömu sannindi með ýmsu móti og skýra það á ólíka vegu hvers vegna mönnum er mikilvægt að læra að stjórna sér sjálfir með fleiri ráðum en því einu að ríkið setji lög og refsi fyrir brot á þeim.
Bandaríski mannfræðingurinn James C. Scott hefur skrifað margt um ólán og afglöp sem fylgja miðstýringu, ríkisvæðingu og regluverki. Í þekktustu bók sinni, sem heitir Seeing like a state (Með augum ríkisins), fjallar Scott meðal annars um hvernig gamalgrónar borgir vinna gegn glæpum og tryggja öryggi með því að nágrannar líti til hver með öðrum. Þar sem smákaupmenn, veitingamenn og fleiri þekkja sitt heimafólk og sjá yfir götur og torg vex einhvers konar nágrannavarsla af sjálfri sér. En „þéttbýli þar sem enginn nema lögreglan sér um að halda reglu á hlutunum er afar hættulegur staður“ segir Scott (1998, bls. 136).
Þar sem vinnan er markaðsvara og einkalíf aðgreint frá atvinnulífi er fólk lítt bundið átthögum sínum og flytur ýmist þangað sem vinnu er að hafa eða býr í hverfum þar sem það þekkir ekki fólkið í næstu húsum. Mér virðist sennilegt að þetta ýti undir ástand af því tagi sem Scott varar við, þar sem lögreglan ein sér um að hafa hemil á fólki. Ef það gerist verður væntanlega þörf fyrir aukin umsvif löggæslu og refsikerfis, meira regluverk, eftirlit og miðstýringu.
Eftir því sem Scott (2012, 2017) segir hefur stór hluti mannkynsins lengst af lifað bæði án eiginlegs markaðshagkerfis og án ríkisvalds. Það var fyrir minna en fjögurhundruð árum sem ríkisvald tók að móta lífsskilyrði þorra jarðarbúa. Síðan hefur vöxtur þess haldist í hendur við aukna markaðsvæðingu og einstaklingshyggju. Scott veltir því fyrir sér hvort þetta hafi eyðilagt getu fólks til að koma á og viðhalda skipulagi sem byggist á samvinnu jafningja fremur en valdstjórn: Hvort ríkið ali upp þýlynt fólk og fylgispakt og komi beinlínis í veg fyrir að við lærum að lifa sem frjálsir menn og sjá fótum okkur forráð.
Scott kynnir sig sem róttækling og stjórnleysingja en flest orðalagið hjá Deneen bendir fremur til varfærni og íhaldssemi. Þeir eiga það þó sameiginlegt að standa utan við þá breiðu miðju sem ég lýsti í byrjun og hugmyndir þeirra eru að ýmsu leyti svipaðar.
Deneen veltir líka upp spurningum um hvort samfélagsskipan í anda frjálslyndis eyðileggi þá menningu sem gerir mönnum kleift að vera frjálsir og stjórna sér sjálfir (bls. 88).
Scott og Deneen eru á einu máli um að samfélag sem samanstendur aðeins af einstaklingum og ríkisvaldi sé harla nöturlegt. Í slíku samfélagi eru menn aðeins bundnir af lögum – og það þarf meira og meira af þeim, því þau geta í raun ekki unnið það verk sem venjur, siðir og samspil margra smærri félagsheilda hafa jafnan unnið. Þessar smærri heildir setja mönnum skorður sem eru af allt öðru tagi en lög ríkisins.
Lítill munur á hægri og vinstri
Mynd frjálslyndrar hugmyndafræði af samfélaginu gerir ráð fyrir að menn fái frelsið í vöggugjöf og hver og einn njóti þess meðan enginn annar neytir aflsmunar gegn honum. Ríkið er svo til að koma í veg fyrir ofbeldi og yfirgang og tryggja að hver maður fái að gera það sem hann vill, svo fremi hann gangi ekki á rétt annarra.
Að mati Deneen er þessi mynd af mannlífinu röng og villandi. Einstaklingsréttindin, sem ríkið ver, eru ekki náttúrulegt ástand heldur afsprengi valdstjórnar og það er markaðurinn líka. Sumt sem Deneen segir um þetta efni minnir á fræga bók eftir Ungverjann Karl Polanyi (2001) sem upphaflega kom út árið 1944 og heitir The Great Transformation (Umbreytingin mikla). Líkt og Polanyi segir Deneen að frjáls markaður („laissez-faire“) hafi verið skipulagður að ofan og þótt hann sé réttlættur með vísun í náttúrulegt frelsi krefjist hann sífellt atbeina ríkisvalds (bls. 52–53). Ef þetta er rétt er reglugerðafarganið í ríkjum nútímans ef til vill ekki í andstöðu við frelsið á markaðnum heldur afsprengi þess. (Rökfærsla Posners og Weyl styður þessa niðurstöðu á vissan hátt, því þeir draga enga dul á að sókn til aukinnar markaðsvæðingar og einstaklingshyggju kalli á háþróaða skriffinnsku.)
Deneen varar þó við að fara offari í gagnrýni á frjálslyndi samtímans og segir að margt gott hafi áunnist með markaðsvæðingu og miðstýrðu regluverki (bls. 179). En það þarf samt, segir hann, að finna leiðir til að hemja bæði ríki og markað. Mikilvægast telur hann að losa stjórnmálin úr viðjum hugmyndafræði og stóra sannleika og skapa smærri félagsheildum möguleika á að eflast og dafna. Hann mælir sem sagt ekki með neinni byltingu og sumt í máli hans minnir mig svolítið á íslenska framsóknarmenn.
Deneen neitar því ekki að úrræði í anda hinnar breiðu miðju bæti oft efnaleg kjör fólks. En rétt eins og Polanyi gerði, fyrir nær 75 árum, bendir hann á að félagslegt umrót sem fylgir markaðs- og alþjóðavæðingu geti komið svo miklum losarabrag á líf manna að þeir geti illa við unað. Hér kennir hann jafnt um hægra og vinstra frjálslyndi. Að hans dómi stendur öll hin breiða miðja saman um markaðsvæðingu og útþenslu ríkisvaldsins. Á sama tíma losnar um annað sem bindur fólk saman í fjölskyldur, söfnuði, félagasamtök og byggðarlög (bls. 46).
Um frjálslynda hægrimenn segir Deneen að þeir tali stundum eins og þeir séu íhaldssamir og standi vörð um gömul gildi, en þeir hafi í raun ekki fylgt slíkum stefnumálum eftir með neinum árangri heldur aðeins beitt sér fyrir aukinni alþjóðavæðingu hagkerfisins og varið misskiptingu auðs.
Um frjálslynda vinstri menn segir hann að þeir tali vissulega um jöfnuð og samstöðu. Hann bætir því svo við að þeir fylgi í raun engu eftir nema réttindum í anda einstaklingshyggju, sem verði til þess að hver maður sitji einn uppi með sjálfan sig og þurfi að skilgreina veru sína, vilja og kyn en vinnustaðurinn og jafnvel jörðin undir fótum hans tilheyri einum í dag og öðrum á morgun (bls. 63). (Ef Deneen þekkti til hér á landi tæki hann kannski merkingar á klósettum í Reykjavík sem dæmi um áherslu af því tagi sem vinstrimenn fylgja eftir.)
Arfur Thomasar Hobbes
Eins og áður segir rekur Deneen upphaf frjálslyndrar einstaklingshyggju til Thomasar Hobbes. Bók hans Leviathan sem út kom 1651 hafði ómæld áhrif á stjórnspeki og hugmyndir manna um þjóðríkin sem voru að mótast í Evrópu eftir að valdakerfi miðalda leið undir lok.
Hobbes hugsaði sér að án ríkisvalds væri ekkert samfélag og ekkert taumhald á mönnum. Án valdstjórnar lentu frjálsir einstaklingar, sem hugsuðu bara um eigin hag, í sífelldum árekstrum og útistöðum. Hann lýsti ríkinu svo að það væri eins og slíkir einstaklingar hefðu samið sín á milli um að fá einum aðila einkarétt til að setja lög og framfylgja þeim. Um þetta fjallar hann í 13. kafla Leviathan þar sem segir:
Sé ekkert vald sem allir óttast þá ríkir ófriður og sá ófriður er stríð allra manna gegn öllum mönnum … Meðan þetta ástand varir hefur iðjusemi engan tilgang því afrakstur hennar er ótryggur og því er engin jarðrækt og engar siglingar og menn nota ekki vörur sem fluttar eru sjóleiðis; ekki eru heldur neinar vel búnar byggingar og ekki neinar vélar til að flytja og fjarlægja hluti sem mikla krafta þarf við, engin þekking á yfirborði jarðarinnar, ekkert tímatal, engar listir, ekkert er skrifað og það er ekki neitt samfélag. Það versta er þó að menn búa við stöðugan ótta og sífellda ógn um grimmilegan dauðdaga og þeir lifa skamma ævi við einsemd og fátækt og nöturlegan skepnuskap (Hobbes, 1962, bls. 143).
Frjálslynd stjórnmál hafa gert ráð fyrir að ríkisvald, og einstaklingsréttindi sem það skilgreinir og ver, komi í veg fyrir þetta ástand. Menn vita þó að fyrir daga ríkisvalds lifði stór hluti fólks í friði og sátt svo að sagan um samkomulag til að binda enda á þá skelfingu sem Hobbes lýsti, og kallaði stríð allra gegn öllum, er ekki bókstaflegur sannleikur. Ef Deneen hefur lög að mæla er hins vegar áleitin spurning hvort hagskipan og samfélagshættir sem frjálslynd öfl beita sér fyrir skapi ástand þar sem engin lögregla er nógu fjölmenn til að fólki finnist það öruggt.
Lokaorð
Það er fróðlegt að lesa þessar tvær bækur saman vegna þess að þær benda á sömu ógöngur en vísa hvor í sína áttina á leið út úr þeim. Posner og Weyl huga einkum að ráðum gegn stöðnun, minnkandi hagvexti og vaxandi stéttaskiptingu. Úrræði þeirra auka hreyfanleika fólks og eigna og hætt er við að þau geri félagslegan veruleika enn hverfulli en hann er nú þegar. Deneen hefur minni áhyggjur af eiginlegum efnahagsmálum, en hugsar meira um rótleysi og öryggisleysi og niðurbrot lífshátta sem fólk þarf að styðjast við svo það læri að stjórna sér sjálft. Ráð hans eru því að hlúa að stöðugleika, einkum í smærri félagsheildum en ríkinu. Ég held að enginn viti hvort hægt er að gera þetta án þess að festast í þeim hjólförum stöðnunar og stéttaskiptingar sem Posner og Weyl vara við. Svör við spurningum um þau efni eru ekki fundin.
En meðan menn skrifa bækur eins og þessar tvær er að minnsta kosti leitað að lausnum á vandamálum samtímans.
Höfundur er heimspekingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Heimildarskrá má finna í prentútgáfu. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.