Samleið Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum þá og nú

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, leidd af Ólafi Jóhannessyni, sat frá júlí 1971 - ágúst 1974.

Að þessu sinni víkur lýsing á stjórnmálum líðandi stundar fyrir upprifjun á atburðum sem gerðust fyrir tæplegra hálfri öld. Með því að bregða ljósi á ágreininginn um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamninginn við Bandaríkin á árinu 1974 er þó jafnframt minnt á að enn logar í þeim glæðum hér á landi þrátt fyrir þjóðaröryggisstefnuna sem er reist á þessum meginstoðum ytri varna þjóðarinnar.

Deilurnar sem hér er lýst snerust ekki aðeins um Keflavíkurstöðina heldur einnig um hvað þótti við hæfi á vettvangi Norðurlandaráðs. Þá er vikið að máli sem enn er lifandi viðfangsefni: hvort ein norræn ríkisstjórn hafi ekki fullan rétt til að lýsa eigin skoðun í orðsendingu til annarrar. Í fyrra töldu norsku samtökin Nei til EU sig hafa „rétt“ til að hlutast til um stjórnmál á Íslandi í þágu eigin málstaðar af því að norska ríkisstjórnin skýrði íslensku ríkisstjórninni frá afstöðu sinni til þriðja orkupakkans frá ESB og nauðsyn innleiðingar hans á evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Loks er nefnt dæmi um að ekki er endilega allt sem sýnist á líðandi stundu. Vikið er að nýlegum gögnum sem taka af allan vafa um að Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, og stjórn hans lögðu að íslenskum stjórnvöldum að hrófla ekki við varnarsamstarfinu við Bandaríkin á sama tíma og Palme barðist gegn stríðsrekstri Bandaríkjamanna í Víetnam.

II.

Leiðari Morgunblaðsins, Hneykslið í Stokkhólmi, þriðjudaginn 19. febrúar 1974.

Til að tengja lesendur andrúmslofti þessara ára og viðfangsefninu birtist hér í heild leiðari Morgunblaðsins, Hneykslið í Stokkhólmi, frá þriðjudeginum 19. febrúar 1974:

„Magnús Kjartansson [þingmaður Alþýðubandalagsins, iðnaðarráðherra og fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans] var sjálfum sér og þjóð sinni til skammar á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í fyrradag. Líklega er ekkert fordæmi fyrir svo lágkúrulegri og rakalausri árás íslenzks ráðherra á vinaþjóðir á erlendum vettvangi og líklega hefur það aldrei gerzt áður að íslenzkur forsætisráðherra neyðist til að standa upp á fjölþjóðlegum fundi og mótmæla ummælum samráðherra síns eins og Ólafur Jóhannesson [Framsóknarflokki] gerði í Stokkhólmi á sunnudaginn var.

Í ræðu þeirri sem Magnús Kjartansson flutti í Stokkhólmi hélt hann því í fyrsta lagi fram, að orðsending sú, sem ríkisstjórn Lars Korvalds í Noregi sendi íslenzku ríkisstjórninni í septembermánuði s.l. væri afskiptasemi af íslenzkum innanríkismálum. Og í öðru lagi, að heimsókn nokkurra norskra stjórnmálamanna til Íslands í byrjun febrúar til þátttöku í ráðstefnu á vegum frjálsra félagasamtaka hér í borg um öryggismál Íslands og Noregs væri einnig afskiptasemi af íslenzkum innanríkismálum. Þessi ummæli Magnúsar Kjartanssonar urðu til þess að Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra gekk í ræðustólinn og lýsti því yfir, að hann liti ekki á orðsendingu Korvald-stjórnarinnar í Noregi sem afskipti af íslenzkum innanríkismálum. Forsætisráðherra sagði: „Ég tel að utanríkis- og varnarmál séu utan við starf Norðurlandaráðs, en ég biðst fyrst og fremst undan því að hér í Norðurlandaráði verði farið að ræða íslenzk innanríkismál – hvað bréfinu viðvíkur sem við fengum á sínum tíma frá norsku ríkisstjórninni, þá leit ég ekki á það sem nein afskipti af íslenzkum málefnum og það mun að sjálfsögðu ekki hafa úrslitaáhrif á afgreiðslu okkar á því máli.“

Ummæli iðnaðarráðherra vöktu að vonum svo mikla hneykslun og reiði meðal norrænna stjórnmálamanna, að Trygve Bratteli, forsætisráðherra Noregs, sá sér ekki annað fært en að mótmæla þeim á Norðurlandaráðsfundinum og K. B. Andersen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, gagnrýndi Magnús Kjartansson einnig harkalega fyrir þessa ræðu og sagði:

„Þetta var rödd úr gröfinni, sem heyrist nú sjaldan, rödd liðinnar tíðar, rödd þröngsýns föðurlandsofstækis sem aðeins heyrist frá æstustu vinstri mönnum í Evrópu nútímans.“ Afstaða þessara tveggja norrænu stjórnmálamanna er skiljanleg bæði vegna efnislegra ummæla Magnúsar Kjartanssonar og einnig hins, að samkvæmt starfsreglum Norðurlandaráðs er alls ekki til þess ætlazt, að öryggismál Norðurlanda séu rædd á fundum Norðurlandaráðs.

Magnús Kjartansson (f. 1919-d. 1981) var alþingismaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandalagið 1967-1978 og heilbrigðis- tryggingamála og iðnaðarráðherra 1971-1974. Áður hafði hann verið ritstjóri Þjóðviljans frá 1947-1971.

Þegar hugleitt er hvað veldur því að Magnús Kjartansson flutti þessa ræðu í Stokkhólmi, er augljóst hvað að baki liggur. Ræða þessi var ekki fyrst og fremst ætluð fulltrúum á Norðurlandaráðsfundi. Magnús Kjartansson talaði í raun til annars áheyrendahóps, enda þótt hann misnotaði vettvang Norðurlandaráðs til þess. Hann var að tala við hina svonefndu herstöðvaandstæðinga hér á Íslandi, sem hafa komizt að þeirri niðurstöðu að það baktjaldamakk, sem Alþýðubandalagið á nú í til þess að hanga í ráðherrastólum, þýði svik við málstað þess í hinu svonefnda herstöðvamáli. Á ræðu Magnúsar Kjartansson ber því að líta sem örvæntingarfulla tilraun hans til að friða þennan kjarna í Alþýðubandalaginu, sem nú hefur sakað flokkinn og hann um svik í þessu máli. Er það óneitanlega brjóstumkennanlegt að fylgjast með örvæntingu þessa kommúnistaráðherra, en hún afsakar engan veginn framkomu hans á erlendum vettvangi og þá hneisu, sem hann hefur með henni valdið þjóð sinni.

Ljóst er að sá atburður sem varð í Stokkhólmi á sunnudaginn var, getur haft margvíslegar afleiðingar. Máli þessu er engan veginn lokið. Eftirleikurinn er eftir. Það er með öllu dæmalaust að íslenzkur forsætisráðherra verði að setja ofan í samráðherra sinn á alþjóðavettvangi, eins og Ólafur Jóhannesson neyddist til að gera á sunnudaginn var. Og ekki verður annað séð en forsætisráðherra hljóti við heimkomuna að láta Magnús Kjartansson taka afleiðingum gerða sinna og biðjast lausnar fyrir ráðherrann. Með þeim hætti einum er sæmd ríkisstjórnarinnar sjálfrar og íslenzku þjóðarinnar borgið eftir hneykslið í Stokkhólmi á sunnudag.“

III.

Þessi 46 ára gamli leiðari Morgunblaðsins er til marks um sögulegar breytingar á umræðum um utanríkis- og öryggismál á norrænum vettvangi. Það er rétt sem Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og leiðarahöfundur segja að um langan aldur ræddu menn ekki utanríkis- og öryggismál á vettvangi Norðurlandaráðs. Ríkin fimm í ráðinu fylgdu ólíkri stefnu. Danmörk, Ísland og Noregur voru í Atlantshafsbandalagninu (NATO), Svíar voru hlutlausir utan hernaðarbandalaga, sömu sögu var að segja um Finna, sem höfðu auk þess vináttusamning við Sovétríkin. Þessi viðkvæmi málaflokkur var einfaldlega látinn liggja í þagnargildi á vettvangi Norðurlandaráðs. Þá þróaðist samstarf utanríkisráðherra landanna utan ramma norræna ráðherraráðsins og svo er enn þann dag í dag.

Nú ríkir ekkert þegjandi eða annars konar bann við því að ræða öryggis- og varnarmál frekar en önnur málefni á vettvangi Norðurlandaráðs. Mikilvægur áfangi á þeirri braut var útgáfa Stoltenberg-skýrslunnar svonefndu 9. febrúar 2009. Höfundur hennar var Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, og samdi hann skýrsluna í umboði utanríkisráðherra Norðurlandanna. Þar gerði hann 13 tillögur um nánara norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála.

Síðar sama ár var norrænt hermálasamstarf skipulagsbundið undir heitinu NORDEFCO, Nordic Defence Cooperation. Stofnsamkomulag samstarfsins var undirritað í nóvember 2009.

NORDEFCO er samstarfsvettvangur en ekki sameiginleg herstjórn. Samstarfsverkefni eru ákvörðuð hverju sinni innan ramma samkomulagsins en framkvæmd verkefnanna er á hendi hvers ríkis fyrir sig. Mikilvægt skref til aukins samráðs ríkjanna á hermálasviðinu var enn stigið fyrir nokkrum mánuðum þegar komið var upp „öruggu fjarskiptakerfi“ milli stjórnvalda landanna.

Norrænt samstarf í utanríkis- og öryggismálum hefur þróast stig af stigi. Á þeim tíma sem ofangreindur leiðari var skrifaður datt þó örugglega engum í hug að tæpri hálfri öld síðar ættu öll Norðurlandaríkin, hvert um sig, náið samstarf við Bandaríkjastjórn í varnarmálum. Þrjú ríkjanna eru í NATO en Svíar og Finnar eru áfram utan hernaðarbandalaga með samstarfssamning við NATO og tvíhliða samninga um varnarmál við Bandaríkjamenn.

Finnar héldu úti öflugum herafla og treystu alhliða varnarmátt sinn áfram þrátt fyrir hrun Sovétríkjanna. Svíar skáru hins vegar herafla sinn niður og lögðu af það sem þeir kalla „totalförsvar“, allsherjar varnir. Leggja þeir nú ríka áherslu á að endurreisa hvort tveggja fyrir utan að hafa stofnað til náins varnarmálasamstarfs við Finna. Á tíma leiðarans hefði þetta verið óhugsandi vegna andstöðu Sovétmanna.

IV.

Ingólfur Jónsson (f. 1909-d.1984) var alþingismaður Rangæinga og síðar Suðurlands 1942-1978 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var viðskipta- og iðnaðarmálaráðherra 1953–1956 og landbúnaðar- og samgöngumálaráðherra 1959–1971.

Á vettvangi Norðurlandaráðs greinir menn eðlilega á um varnarmál eins og önnur mál en atburður eins og sá sem varð í Stokkhólmi 17. febrúar 1974 gerist ekki við núverandi aðstæður. Að fjargviðrast á þingi Norðurlandaráðs yfir því þótt ein norræn ríkisstjórn segi annarri skoðun sína í varnarmálum var og er stórundarlegt, eða eins og Ingólfur Jónsson á Hellu, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, komst að orði í umræðum um hneykslið í Stokkhólmi á fundi alþingis 18. febrúar 1974:

„Árás á Ísland er einnig árás á Norðurlöndin, og árás á Norðurlöndin er einnig árás á Ísland. Þess vegna er eðlilegt, að það sé nokkur samstaða á milli frænda okkar Norðmanna og Íslendinga. Orðsending sú, sem íslenska ríkisstj. fékk frá norsku ríkisstj. á s.l. hausti, hefur verið gerð hér að umtalsefni. Þessi orðsending hefur ekki verið birt. Og það hefur verið sagt, að með þessum orðsendingaskiptum hafi Norðmenn jafnvel ætlað sér að blanda sér í íslensk mál. Það er alger misskilningur. Norðmenn hafa alltaf tekið fram, að þeim detti ekki í hug að blanda sér í íslensk málefni. Hins vegar létu þeir íslensku ríkisstj. vita, hvaða augum þeir litu á þessi mál. hvaða augum þeir líta á það, ef Ísland verður gert varnarlaust og Keflavíkurstöðin verður lögð niður. Nú spyr ég: Var ekki norsku ríkisstj. frjálst að gera þetta? Er það tiltökumál, þótt norska ríkisstj. vildi láta íslensku ríkisstj. vita, hvaða augum hún lítur á þessi mál? Það er langt frá því, að norska stjórnin hafi ætlað sér að blanda sér í það, hvað íslenska ríkisstj. gerði, þrátt fyrir þetta. Og ég vil taka undir það, sem hér var sagt áðan, að það er vitanlega nauðsynlegt að birta þessa orðsendingu almenningi á Íslandi, úr því að farið er að tala um hana í þeim tón eins og Norðmenn hafi ætlað að fara að blanda sér í íslensk málefni. Ég trúi því ekki, að Norðmenn hafi nokkuð á móti því, að þessi orðsending verði birt. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt, að það verði gert.“

V.

Þess sáust ýmis merki í febrúar 1974 að vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar liðaðist í sundur vegna innbyrðis ágreinings um önnur mál en utanríkismál. Tilgáta leiðarahöfundar Morgunblaðsins um baktjaldamakk til að alþýðubandalagsmenn gætu setið áfram í stjórninni þótt varnarliðið sæti áfram á við rök að styðjast.

Höfundur fjallaði um fund Norðurlandaráðs í Vísi þriðjudaginn 19. febrúar 1974. Á myndinni með greininni má sjá fremstan Ólaf Jóhannesson, forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, þar næst Magnús Kjartansson og aftastan Olaf Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Á þessum tíma var ég fréttastjóri erlendra frétta á dagblaðinu Vísi og birti þar 19. febrúar 1974 grein vegna ræðu Magnúsar Kjartanssonar í Stokkhólmi og sagði í lok hennar:

„Og þótt ýmsum hafi þótt Norðurlandaráðsfundir bragðdaufir, hefur þessi samstarfsvettvangur komið mörgu merku til leiðar á þeim sviðum, sem hann nær til. Íslendingar ættu ekki að verða fyrstir til að breyta ráðinu í vettvang pólitískra illdeilna, sem efnt er til í því skyni að vekja athygli á sér heima fyrir.“

Deilur um efnahagsmál og persónulegur ágreiningur við forsætisráðherra leiddu til þess að Björn Jónsson, samgöngu- og félagsmálaráðherra, úr Samtökum frjálslyndra og vinstri manna (SF) sagði af sér ráðherraembætti skömmu eftir atvikið í Stokkhólmi. Hannibal Valdimarsson, formaður SF, tilkynnti 6. maí 1974 að þingflokkur SF bæri ekki lengur traust til ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar og skoraði því á forsætisráðherra að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, sem hann gerði 8. maí 1974.

Vængstýfð ríkisstjórnin sat áfram sem starfsstjórn fram yfir kosningar 30. júní 1974 þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan sigur (42,7%) undir forystu Geirs Hallgrímssonar, sem síðan varð í ágúst forsætisráðherra í samsteypustjórn með Framsóknarflokknum.

Þegar leiðarinn um hneykslið í Stokkhólmi er lesinn vaknar spurning um hvers vegna höfundur hans nefndi ekki til sögunnar framtak sem var á döfinni þessa sömu febrúardaga og gjörbreytti til frambúðar afstöðu stjórnmálamanna til dvalar varnarliðsins og varð til þess að Alþýðubandalagið setti aldrei aftur brottför varnarliðsins sem skilyrði fyrir aðild flokksins að ríkisstjórn.

Daginn eftir að leiðarinn um hneykslið í Stokkhólmi birtist, eða miðvikudaginn 20. febrúar, lauk undirskriftasöfnuninni undir kjörorðinu Varið land sem hófst 15. janúar 1974. Markmiðið söfnunarinnar var að sýna stuðning landsmanna við veru varnarliðsins á Íslandi þrátt fyrir stefnu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar um endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin.

Alls rituðu 55.522 kjósendur, eða 49% þeirra sem atkvæði greiddu í alþingiskosningum 30. júní 1974, undir yfirlýsingu þar sem stóð:

„Við undirritaðir skorum á ríkisstjórn og Alþingi að standa vörð um öryggi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar með því að treysta samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins, en leggja á hilluna ótímabær áform um uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin og brottvísun varnarliðsins.“

VI.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins gerðu sér grein fyrir að þeim yrði álasað fyrir að sitja í ríkisstjórninni án þess að halda fast við kröfuna sem vó að öryggi Íslands. Til að sefa óánægju fylgismannanna var gripið til þess ráðs að flytja ræðu í bága við reglur Norðurlandaráðs og gegn öryggishagsmunum Íslands á fundinum í Stokkhólmi. Þetta var pólitísk mótvægisaðgerð sem Magnús Kjartansson greip til í samráði við Lúðvík Jósepsson, flokksbróður sinn og samráðherra.

Einkennilegast eftir öll þessi ár og allt sem síðan hefur gerst á norrænum vettvangi og í samstarfi Norðurlandaþjóðanna í utanríkisog öryggismálum er að innan raða vinstri grænna (VG) eru einhverjir straumar í öryggisog varnarmálum enn þann dag í dag líkir því sem Magnús Kjartansson boðaði í Stokkhólmi; Íslendingar eigi ekki fyrirvaralaust samleið með Norðurlandaþjóðunum í öryggismálum, unnt sé að skilgreina hagsmuni okkar á annan veg en þeirra.

Í kalda stríðinu mátti skýra ágreining um þetta á hugmyndafræðilegum forsendum. Brezhnev-kenningin sem varð til árið 1968 þegar sovéskur herafli var sendur inn í Prag snerist um „rétt“ Sovétmanna til að beita hervaldi til að verja sósíalískan ágreining á áhrifasvæði þeirra.

Víetnamstríðið stóð þegar Stokkhólmsræðan var flutt. Vegna aðildar sinnar að því varð Bandaríkjastjórn skotspónn margra áhrifamanna á Vesturlöndum. Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, skipaði sér í forystu andstæðinga hennar á alþjóðavettvangi.

Magnús Kjartansson taldi vafalaust að hann nyti skilnings hjá Palme þegar hann gagnrýndi í sænska þingsalnum norskan forsætisráðherra fyrir að lýsa stefnu eigin ríkistjórnar í öryggis- og varnarmálum. Stefnu sem var reist á aðild að NATO og trausti í garð Bandaríkjastjórnar á hættutímum. Stefnu sem stangaðist á við sjónarmið þeirra sem gengu leynt og ljóst erinda Sovétmanna.

Í bók sem blaðamaðurinn Mikael Holmström skrifaði, Den Dolda Alliansen – Sveriges hemliga NATO-förbindelser, og kom út árið 2015 segir hann að orð og gjörðir Palme hafi ekki farið saman í afstöðu hans til Bandaríkjastjórnar. Í október 1973 hafi Olof Palme reynt að sannfæra forsætisráðherra Íslands um að halda í Keflavíkurstöðina. Þetta megi finna í minnisblaði frá Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem segir:

„Palme ræddi við íslenska forsætisráðherrann og áréttaði hve mikilvægt væri fyrir vestrænt öryggi að ekki yrði hróflað við henni [Keflavíkurstöðinni] … Þessi tilmæli komu sér sérstaklega vel með vísan til núverandi samningaviðræðna okkar við Íslendinga,“ skrifaði Kissinger í orðsendingu til Nixons forseta.“ (Bls. 305.)

Holmström segir að áður óþekkt skjal frá bandaríska sendiráðinu í Stokkhólmi sýni að þetta hafi ekki verið einhver hugdetta hjá Palme eða oftúlkun hjá Kissinger.

Stig Gustaf Eugén Synnergren, hershöfðingi og yfirmaður sænska heraflans 1970 til 1978, átti fund með Robert Strauz-Hupé, bandaríska sendiherranum í Svíþjóð, í júlí 1974:

„Synnergren sagði að sænska ríkisstjórnin hefði nýlega reynt að hafa áhrif á Íslendinga til að tryggja að herstöð Bandaríkjamanna yrði áfram í Keflavík. Hann fór hörðum orðum um tilraunir Sovétmanna til að hafa áhrif á gang mála á Íslandi.“

Holmström segir að þetta hafi þótt svo mikilvægur boðskapur að hann hafi bæði verið sendur til bandaríska utanríkisráðherrans og varnarmálaráðherrans. Hann bætir við að Svíar hafi þannig beitt sér á virkan hátt gagnvart norræna NATO-landinu Íslandi til að þar kæmu menn til móts við Bandaríkjamenn og flugher þeirra. Sömu B-52 sprengjuvélarnar sem Palme gagnrýndi þegar þær voru sendar með sprengjur á Hanoi ættu þannig áfram að geta lent á Íslandi. Þaðan yrðu B-52 vélarnar og áhafnir þeirra sendar til árása á Sovétríkin yrði ráðist á Skandinavíu og styddu með því Svía.

VII.

Nú fer engin ríkisstjórn Norðurlandanna í felur með að besta öryggistrygging felst í varnartengslum við Bandaríkin.

„Náið samband okkar við Bandaríkin skiptir höfuðmáli fyrir öryggi Svíþjóðar og farsæld,“ sagði Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, í sænska þinginu miðvikudaginn 12. febrúar 2020 þegar hún flutti þinginu skýrslu um utanríkismál.

Áhrif Íslendinga á alþjóðavettvangi ráðast mjög af því að þeir skipi sér ákveðið í raðir með öðrum Norðurlandaþjóðum. Styðji sömu grundvallarhagsmuni og ráða afstöðu stjórnvalda þessara þjóða og skorist ekki undan merkjum vegna sérvisku eða dauðahalds í úreltar skoðanir. Þarna skipta öryggismálin miklu því að lokum ráða þau úrslitum um trúverðugleika.

Nú á tímum er ljóst að fylgi íslenskir stjórnmálamenn fyrirvarastefnu vegna aðildar að NATO eða samstarfs við Bandaríkjamenn á norrænum vettvangi velja þeir annan kost til að tryggja borgaralegt og hernaðarlegt öryggi en ríkisstjórnir allra Norðurlandaríkjanna. Þannig var þetta einnig árið 1974 þótt það lægi ekki eins í augum uppi þá.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.