Ásgeir Jónsson
Á skólaskipi
Í janúar 1990 tók sá sem hér ritar þá ákvörðun að hætta námi í líffræði við Háskóla Íslands eftir eina önn. Námið hafði í sjálfu sér gengið vel en ég hafði ekki fundið mig í því. Ég ákvað því að snúa aftur heim í Skagafjörð og munstra mig á togara. Ég eyddi næsta ári eða svo á sjó. Þetta var frábær tími. Það er freistandi í þessu sambandi að vitna í söngtexta Bjartmars Guðlaugssonar úr laginu Vottorð í leikfimi ; „að lífsspekin liggur í saltinu, rokinu og kláminu“. En það er önnur saga.
Togarinn minn hét Skagfirðingur og var einn fyrsti skuttogarinn sem kom til landsins í upphafi áttunda áratugarins (undir nafninu Bergvík). Hann var elsti togari flotans þegar ég steig um borð. Fiskiðjan á Sauðárkróki hafði þá safnað til sín nokkrum slíkum öldungum og mannað þá með sveitamönnum líkt og mér. Aðrar útgerðir gerðu grín að þessum tilburðum og kölluðu þetta „skólaskip“. Hvað um það. Skagfirska sveitaútgerðin snerist um vinnslu í landi. Skipstjórinn minn fékk þess vegna hringingu úr frystihúsinu á Sauðárkróki og var skipað um að koma með þessar og hinar tegundir á hinum og þessum tímum. Útgerðin var einnig að tuða við hann um eldsneytiskostnað og fleira. Þetta var allt annar fókus en hafði tíðkast á Íslandsmiðum þar sem aflakóngar höfðu löngum verið hafnir til virðingar. Á Halamiðum horfði ég síðan á nýsmíðaða Vestfjarðatogara spæna fram úr okkur og við vissum fullvel að enginn vestfjarðakapteinn tók við skipunum eða kvabbi úr landi. Þeir voru aflakóngar sem mokuðu afla á land og síðan var það mál landkrabbana að vinna fiskinn og selja.
Vestfirðingarnir voru í þann tíma í harðri baráttu gegn kvótakerfinu. Þingmenn þeirra lögðu endurtekið fram tillögur um sóknarmark á Alþingi – síðast undir merkjum Frjálslynda flokksins. Óskynsemin í því kerfi ætti að vera augljós. Sóknarmarkið felur það í sér að fiskveiðarnar verða að kapphlaupi við tímann þar sem skipin fiska eins hratt og hægt er – en sitja þess á milli bundin við bryggju. En vestfirðingarnir áttu styst að sækja á miðin og áttu því hægast með að moka fiski á land auk þess að sóknarmarkið var í samræmi við gamla aflakóngs-hugarfarið að hugsa um kíló af lönduðum fiski en ekki lokaverðmæti aflans.
Nú tæpum 30 árum síðar eru stóru Vestfjarðaskipin – spíttbátar í yfirstærð – horfin og kvóti þeirra kominn annað. Fiskiðjan Skagfirðingur er aftur á móti eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins. Sjávarútvegnum hefur verið umbylt á þessum 30 árum – fókus fyrirtækjanna er nú á allri virðiskeðjunni fremur en moka fiski á land í kapphlaupi. Fiskiðjan var vitaskuld ekki ein – flestar norðlenskar útgerðir voru þá þegar farnar að nýta sér kvótakerfið til þess að hámarka virði aflans sem fullunninnar vöru. Það var einmitt á þessum tíma sem hið gamalgróna iðnaðarsvæði í Eyjafirði gekk í endurnýjun lífdaga sem miðstöð fiskiðnaðar – og slorið tók við af ullinni. Þessar breytingar hafa þó verið hraðari en svo að þjóðarsálin hafi náð að fylgja þeim eftir, enda hefur þjóðmálaumræðan verið föst í fortíðinni – í rómantískum bábiljum þar sem sjávarútvegur snýst bara um veiðar. Jafnframt er talað líkt og góður árangur útvegsfyrirtækjanna sé eitthvert vandamál! Á sama tíma er ljóst að kvótakerfið er ekki meitlað í stein. Það er mikil nauðsyn að gera kerfið markaðsvænna, eyða þeirri eignaréttarlegu óvissu sem er til staðar við nýtingu heimildanna sem og þær pólitísku kvaðir sem enn liggja á kerfinu, s.s. hvað varðar stærð fyrirtækja. Og þá jafnframt þarft að skapa sátt um auðlindargjald.
Gjaldþrota grein
Þegar kvótakerfið kom fram í sinni fyrstu mynd árið 1984 var rekstur sjávarútvegsfyrirtækja herfilegur. Árið 1982 var 40% taprekstur af útgerð hérlendis, 13% tap árið 1983 og 19% tap árið 1984. Afli fór minnkandi vegna ofveiði samhliða því að gríðarleg umframframleiðslugeta var til staðar. Fiskmarkaðir þekktust ekki heldur var fiskverð ákveðið af opinberu verðlagsráði og millifærslukerfi. Vegakerfi landsins var byggt upp af malarvegum er voru vanbúnir fyrir þungaflutninga. Verðbólga mældist í tugum prósenta. Greininni hafði um langan tíma verið haldið uppi með lánum á neikvæðum raunvöxtum en eftir að verðtryggingu var komið á árið 1979 fór að þrengja að mörgum skuldsettum fyrirtækjum. Hrun þorskstofnsins árið 1989 var síðan gríðarlegt áfall – útgerðin var á leiðinni á hausinn og við lá að hún myndi draga bankakerfið með sér. Níundi áratugurinn endaði því á stóru „beiláti“ fyrir sjávarútveginn sem var með öðrum þræði „beilát“ fyrir bankakerfið sjálft. En þá jafnframt varð sú mikilvæga breyting gerð að aflaheimildir urðu framseljanlegar árið 1990 sem skapaði grunn fyrir hagræðingu í greininni – að hin hagkvæmari fyrirtæki keyptu út þau lakari. Samhliða hafa sjávarútvegsfyrirtækin stækkað en jafnframt hefur stoðum verið skotið undir gríðar mörg lítil og sérhæfð fyrirtæki.
Tilkoma kvótakerfisins var þó aðeins fyrsta skrefið í þá átt að snúa botnlausu tapi í arðsaman rekstur. Hin skrefin vilja oft gleymast, líkt og frjálsir fiskmarkaðir og malbikaðir vegir. Landið er nú eitt markaðssvæði fyrir fisk. Það hefur leitt til þess að gamla nauðhyggjan um að fiskimið, byggð og vinnsla séu reyrð saman er horfin. Nú geta útgerðarfyrirtæki stundað veiðar á einum stað en selt aflann til vinnslu annars staðar. Í stuttu máli má orða það svo að fiskvinnsla hafi orðið eins og hver annar iðnaður þar sem hráefni er keyrt á milli landsfjórðunga og nálægð við stöðugt vinnuafl, góðar vegsamgöngur, flugvelli og útflutningshafnir skipta álíka miklu máli og nálægð við fiskimiðin.
Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur landsbyggðarinnar og því hlýtur umræða um byggðamál ávallt að vera nátengd sjávarútvegnum. Á móti kemur vitaskuld að enginn hefur hagnast meira á hagkvæmum og vel reknum sjávarútvegi en einmitt landsbyggðin. Og Trumpískur populismi sem byggir á því að hindra framþróun og hagkvæmni í greininni til þess eins að vernda störf úti á landi mun koma illilega niður á lífskjörum þjóðarinnar. Hins vegar hangir aðeins meira á spýtunni en þetta.
Arður og auðlindarenta
Kvótakerfið skapar arð með tvennum hætti: í fyrsta lagi með skilvirkri veiðistjórnun út frá líffræðilegu sjónarhorni þar sem hægt er að ákveða heildarafla með nákvæmni og koma í veg fyrir ofnýtingu fiskistofna. Í öðru lagi gerir frjálst framsal aflaheimilda það að verkum að hagkvæmustu útgerðaraðilarnir munu kaupa þá lakari út og sjá um veiðarnar með lágmarks kostnaði og með mestri arðsemi. Þessir eiginleikar kvótakerfisins ættu nú að liggja í augum uppi eftir tæplega 30 ára reynslu þannig að lítt þurfi um þá að deila. Arðsköpunarkraftur kvótakerfisins er hins vegar mun meiri en venjulegs atvinnurekstrar þar sem kerfið snýst um að takmarka aðgang að auðlindinni og skapar þannig auðlindarentu. Auðlindarenta er grunnhugtak í hagfræði og er einfaldlega viðvarandi munur á söluverði afurða og kostnaðarverði aðfanga. Í almennum og venjubundnum rekstri þar sem engar aðgangshindranir eru til staðar hverfur rentan í samkeppni milli fyrirtækja. Ef hins vegar eitthvert fyrirtæki hefur aðgang að framleiðsluþætti, s.s. náttúruauðlindum, skapast jafnframt forsenda til þess að viðhalda rentu til lengri tíma. Rentan kemur fram í verði aflaheimilda.
Töluvert mikið hefur verið gert úr þeirri staðreynd að útgerðarmenn hafi fengið kvótann gefins árið 1984 á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan. Útgerðarfyrirtækin sem fengu þessa úthlutun áttu þó að baki ára og áratuga starfsemi og hjá þeim samsöfnuð reynsla og þekking Íslendinga í útgerð og það verður ekki séð að nokkur aðrir hefðu frekar átt að fá kvótann úthlutaðan. Á þeim tíma leit heldur enginn á kvótann sem gjöf enda var enginn arður til staðar í greininni á þeim tíma. Arðurinn og eignin varð ekki til fyrr en að atvinnugreinin hafði endurskipulegt sig og hagrætt. Aukinheldur, meðan á hagræðingarferlinu stóð þurftu bestu útgerðirnar að kaupa hinar út. Það er því heldur lítið sem eftir stendur af hinni upprunalegu kvótaúthlutun þar sem flestar útgerðir hafa keypt sinn kvóta og auðlindarentan hefur að mestu runnið til þeirra sem hafa hætt í greininni og verið borgaðir út. Hægt er að deila um hvort þetta hafi verið sanngjarnt eður ei – en það hefur í sjálfu sér litla þýðingu að líta í baksýnisspegilinn. Þetta var það gjald sem greinin þurfti að greiða til þess að vinda ofan af langvarandi offjárfestingu í greininni og ná fram hagræðingu.
Til framtíðar
Það sem nú blasir við er að endurbæta kvótakerfið og bæta úr núverandi vanköntum þess. Hér má helst nefna nauðsyn þess að tryggja betur eignaréttarlega stöðu aflaheimildanna sem og frjálst framsal þeirra. Það verði gert í fyrsta lagi með því losa um tengsl kvóta og skipa þannig að hvaða aðili sem er geti keypt og átt kvóta – veðsett hann og leigt hann. Í öðru lagi að eignarréttur sé tryggður með einhvers konar þjóðfélagssáttmála sem jafnframt feli það í sér að eigendur hans greiði auðlindagjald. Það skiptir í sjálfu sér ekki höfuðmáli hvort sem það gerist með einhvers konar uppboðum, nýtingarsamningum eða öðrum leiðum heldur að almenn sátt náist um málið. Í þriðja lagi er mikilvægt að ýmsum pólitískum höftum sé aflétt af greininni – s.s. hvað varðar stærð fyrirtækja – og ekki sé reynt að rjúfa virðiskeðjur útvegsfyrirtækjanna. Ef stjórnvöld vilja að greinin geti greitt auðlindagjald er ekki samtímis mögulegt að hindra arðmyndun með því að þvinga upp á hana pólitískum markmiðum sem oftar en ekki eru fjarri allri skynsemi. Gott dæmi er hin síendurtekna krafa um nýliðun í greininni. Af hverju þarf nýliðun í sjávarútvegi? Það er búið að eyða áratugum í það að reyna að fækka aðilum í sjávarútvegi – það var lykillinn að hagræðingunni. Af hverju þarf að draga einhverja nýja að?
Það er enn algengt að vísað sé til sjávarútvegs sem eins konar námuvinnslu þar sem hagnaðurinn skapist aðeins með því henda vörpu í sjó. Það er rangt í grundvallaratriðum. Ef annað veiðikerfi væri við lýði myndi það leiða til þess að veiðarnar væru hagnaðarlausar – líkt og var hérlendis fyrir daga kvótakerfisins og þekkist enn í mörgum vestrænum löndum. Hagnaðurinn skapast með því að byggja upp virðiskeðjur sem einnig mynda bakbein fyrir hátækniiðnað af ýmsum toga. Útgerðarmenn hafa í rúm þrjátíu ár farið eftir þeim leikreglum sem þeim voru settar af stjórnvöldum. Þeir eru því ekki þjófar eða lögbrjótar – heldur hafa þeir þrátt fyrir allt gengið vel um þá auðlind sem þeim hefur verið treyst fyrir. Og þeir hafa ekki fengið aflaheimildirnar ókeypis – heldur yfirleitt keypt þær af öðrum útgerðum. Það er þó ekki þar sem sagt að þeir geti haldið allri auðlindarentu Íslandsmiða eftir hjá sjálfum sér og áhöfnum skipanna til framtíðar. Staðreyndin er einfaldlega þessi: Ef ekki er brugðist við vaxandi þjóðfélagslegri óánægju mikillar arðmyndunar í greininni mun það að lokum verða höfuðbani kvótakerfisins hvað sem líður tuði hagfræðinga um hagvæmni og skilvirkni.
Dr. Ásgeir Jónsson er dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafi Virðingar. Greinin birtist upphaflega á vef Virðingar en er birt hér með leyfi höfundar.