Ég var nokkuð spenntur að lesa sögu Eggerts Claessen, skráða af Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi. Fyrir því voru tvær ástæður. Önnur var sú að því miður má segja að Eggert sé að mörgu leyti gleymdur í sögunni. Að mörgu leyti er það skiljanlegt; við Íslendingar viljum helst horfa til þeirra sem sömdu ljóð og sögur eða höfðu einhver önnur sérkenni (misgóð) sem gera það að verkum að eftir þeim er munað lengi. Líklega hafa menn talið að Eggert væri of venjulegur til að um hann sé fjallað eða skrifað síðar eða hans minnst með öðrum hætti. Við lestur bókarinnar kemur allt annað í ljós, sem nánar verður komið að.
Hin ástæðan var sú að hafandi lesið bókina Thorsararnir – Auður, völd og örlög, þar sem Guðmundur rekur ævisögu athafnamannsins Thors Jensen og afkomenda hans, hafði ég væntingar um að bókin um Eggert Claessen yrði ekki síður áhugaverð. Þær væntingar stóðust að öllu leyti.
Líkt og í bókinni um Thor Jensen rekur Guðmundur sögu Eggerts allt frá barnsæsku og í raun aðeins lengra, því hann rekur sögu þess hvernig faðir hans, hinn danski Valgard Claessen, flutti hingað til lands til að sinna verslunarstörfum í Skagafirði. Mögulega hefði mátt fara hraðar yfir sögu í fyrstu köflum bókarinnar. Saga Valgards er rakin nokkuð ítarlega, en það ætti ekki að trufla þá sem hafa áhuga á sögunni á annað borð.
Nauðsynleg þekking höfundar
Eggert Claessen, sem fæddur var árið 1877, hafði frá unga aldri þá venju að halda nær öllum þeim skjölum sem hann meðhöndlaði til haga; allt frá skjölum sem tengdust lögmannsstörfum hans, samningum, bréfum og jafnvel kvittunum.
Þessi skjöl hafa legið svo gott sem óhreyfð í rúma hálfa öld, allt frá því Eggert lést árið 1950 á Reynistað, heimili sínu í Skerjafirði. Svona skjalasafn er, eðli málsins samkvæmt, gullnáma fyrir sagnfræðinga sem hafa áhuga og ekki síst getu og skilning til að fara í gegnum það.
Og gullnáman sem skjalasafnið er skapar grunn að þessari fínu bók Guðmundar. Rétt er að halda því til haga að áður hafði Guðni Th. Jóhannesson, sem þá hafði nýlega lokið við ítarlega ævisögu Gunnars Thoroddsen (sem var jafnframt systursonur Eggerts), verið fenginn til að skrifa ævisögu Eggerts.
Eftir að Guðni gerðist húsráðandi á Bessastöðum tók Guðmundur við verkinu. Og sem betur fer var það ekki einhver annar því ég er ekki viss um að margir hefðu náð að setja sögu Eggerts í eins gott samhengi og Guðmundur gerir. Fyrir utan það að hafa skrifað fyrrnefnda bók um Thorsarana hefur Guðmundur skrifað sögu Eimskipafélagsins (Eimskip frá upphafi til nútíma, 1998) og sögu Vinnuveitendasambandsins (Frá kreppu til þjóðarsáttar; Saga Vinnuveitendasambands Íslands, 2004). Eins og rakið er í bókinni um Eggert var hann einn stofnenda Eimskipafélagsins og leiddi síðar stofnun Vinnuveitendasambandsins, þannig að það er ekki eins og Eggert hafi verið Guðmundi alls ókunnugur.
Kallast á við samtímann
Eggert Claessen var fyrirferðarmikill í þjóðfélaginu, sem lögmaður, fjármálamaður og síðar sem formaður Vinnuveitendasambandsins. Andstæðingar hans drógu hvergi undan í gagnrýni sinni á Eggert og menn voru óhræddir við að kalla hann ýmsum nöfnum, bæði í ræðu og riti.
Eggert hefði hæglega getað haslað sér völl á vettvangi stjórnmálanna, en kaus frekar að einbeita sér að viðskipta- og atvinnulífinu. Hann var þó ekki áhugalaus um stjórnmál og var ráðgjafi og vinur margra af helstu stjórnmálaforingjum síðustu aldar, s.s. Hannesar Hafstein, Jóns Þorlákssonar (sem var mágur Eggerts) og Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins. Hann var líka vinur og lögmaður Einar Benediktssonar og viðskiptafélagi Thors Jensen um tíma.
Saga Eggerts og þeirra tíma sem hann lifði kallast þó að mörgu leyti á við samtímann og það er kannski ein helsta áminningin við lestur bókarinnar, fyrir utan upplýsingagildi hennar. Óbilgirni í umræðu um menn og málefni, öfund, reiði og hatur eru allt einkenni þeirra tíma sem hróður Eggerts var hvað mestur. Það má þó draga þann lærdóm, eftir að hafa lesið sögu Eggerts, að menn eiga ekki að láta slíka orðræðu hreyfa við sér heldur standa á prinsippum og byggja líf sitt á þeim. Sagan gleymir fljótt þeim sem bogna og enginn sagnfræðingur hefur áhuga á að skrifa sögu þeirra. Þó svo að starfsferill Eggerts hafi að mörgu leyti einkennst af átökum og hann verið umdeildur er saga hans ekki síður saga áfangasigra og árangurs.
Það má einnig nefna að lestur bókarinnar gefur einnig ákveðna mynd af persónunni sjálfri. Til dæmis er gaman að lesa um námsár Eggerts og hvernig hann hitti kærustu (og síðar eiginkonu) sína á laun því það hentaði ekki strax að opinbera sambandið. Jafnvel hörðustu kaupsýslumenn voru einu sinni ungir og ástfangnir.
Niðurstaða
Það koma ekki fram margir svona karakterar. Þess vegna er gaman að lesa um þá. Eggert virðist frá upphafi hafa verið maður sem hafði allt sitt á hreinu, vandvirkur og skynsamur. Mikilvægt er að saga slíkra manna sé skrifuð.
Sem fyrr segir hefðu væntanlega fáir verið jafn vel valdir til verksins en Guðmundur þó að ætla mætti að Guðni Th. hefði ekki síður skrifað bókina vel. Hér er á ferðinni vandað verk sem dregur upp athyglisverða og fróðlega mynd af sögu Eggerts Claessen en að sama skapi stóran part af sögu viðskipta og atvinnulífs síðustu aldar.
Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.
– Bókarýnin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2017.