Frelsi er ekki ógn heldur bati fyrir umhverfið

Ísland mun ekki bjarga heiminum en Ísland getur orðið fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að umhverfismálum. Það er hægt með samstíga ákvörðunum ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.

Vala Pálsdóttir.

Fátt er rætt meira um en þá umhverfisvá sem blasir við heiminum. Öll spjót beinast að fyrirtækjum og stjórnvöldum um aðgerðir sem eiga að afstýra heimsendi.

Óháð aðgerðum, hvort skyldi vera árangursvænna: að vera með hræðsluáróður eða upplýsandi umræðu byggða á staðreyndum? Nokkrir hafa fordæmt fyrirtæki fyrir að ógna umhverfinu með starfsemi sinni. Í raun að frelsi í viðskiptum sé hin raunverulega ógn. Eiga stjórnvöld að ákveða hvað er almenningi fyrir bestu: rafmagnsbíll umfram dísil, gervikjöt (e. alternative meat) í stað dýrakjöts, að fækka ferðalögum og taka innlenda framleiðslu fram yfir erlenda vöru og skerða þannig kaupmátt almennings.

Ef boð og bönn verða sett á í nafni umhverfismála er rík hætta á að það dragi verulega úr lífsgæðum allra auk þess að hætt er á að umhverfisskattar verði að sjálfstæðri skattheimtu. Hvaða hagsmuni er verið að vernda, hvað þýðir þetta fyrir hagsæld og hafa allir sömu tækifæri til að lifa og starfa eftir nýjum reglum?

Hræðsla eykur vantrú

Efnahagsleg gæði Íslands eru afrakstur skynsamlegrar nýtingar auðlinda og aðgangs að erlendum mörkuðum. Þar er samkeppnishæfni lykilforsenda sem greiðir fyrir alþjóðlegum viðskiptum og því er mikilvægt að gæta að þeirri stöðu. Ísland flytur árlega rúm 600 þúsund tonn af matvælum út, sem eru að mestu eða öllu leyti sjávarfang. Álið hefur verið mikilvægur iðnaður þar sem endurnýtanleg orka og raforkuverð er sérstaða okkar. Á síðustu árum hefur kærkomin grunnstoð bæst við með fjölgun ferðamanna. Ein af lykilforsendum hagsældar hverrar þjóðar er að viðskiptajöfnuðurinn sé jákvæður, þ.e. á einföldu máli að heimilisbókhaldið standi undir sér. Frjálsir markaðir og alþjóðleg viðskipti skipta miklu máli fyrir litla þjóð eins og Ísland.

Það er ekki langt um liðið síðan hugmyndafræðileg átök Kalda stríðsins tókust á og úr varð vígbúnaðarkapphlaup. Það var raunveruleg ógn hvers dags að fyrirvaralaus kjarnorkuárás gæti orðið og gerði ekki bara venjulegt fólk óttaslegið heldur juku einræðisríki á ótta íbúa með hræðsluáróðri sem skapaði vantraust. Lýðræði með frelsi kapítalismans að vopni hafði að lokum betur og heimurinn tók risaskref í átt að framförum og velsæld. Nú á að taka fram fyrir hendur einstaklinga og stöðva fyrirtæki að störfum í nafni umhverfis. Erum við þá að stíga skref til baka í átt að einangrun og hvað þýðir það fyrir velferð okkar allra?

Fleiri jarðarbúar en samt meiri hagsæld

Loftlagsváin er vandi framtíðarinnar en hún verður leyst í nútímanum af þjóðum, fyrirtækjum og einstaklingum. Það verður ekki gert með boðum og bönnum heldur nýsköpun sem færir okkur lausnir, líkt og mannkynið hefur gert um ævi og aldir með vísindum og upplýsingum. Þó að tíminn virðist naumur er mikilvægt að veita svigrúm til að fá sem besta niðurstöðu. Forræðishyggja hefur hingað til fremur fært stöðnun í stað umbóta. Mikilvægt er að umræða sé byggð á staðreyndum og að loftslagsvísindi verði ekki að trúarbrögðum.

Þegar litið er til þess að útgjöld til einkaneyslu meðal þróaðra ríkja eru að meðaltali um 2/3 hluti af vergri landsframleiðslu er ljóst að neytendur hafa mikil áhrif. Afgangur neyslu er útgjöld fyrirtækja og ríkis og nettóútflutningur. Þá fer sá hópur millistéttar hratt vaxandi í Asíu sem hefur öðlast aukinn kaupmátt og skýrir það vöxt neyslu í heiminum að miklu leyti. Við búum við miklar andstæður og í því felst líka umhverfisvá.

Framleiðsla og neysla fá hluti til að hreyfast og þróast. Markaðurinn er kröfuharður og framleiðendur þurfa að mæta kröfum hans. Virðiskeðjan nær hringinn í kringum hnöttinn þar sem hagræðing og samkeppni leiða för. Innlend framleiðsla keppir við erlenda, innflutt aðföng eru nýtt til innlendrar framleiðslu og erlend framleiðsla er á stundum nauðsynleg á innanlandsmarkað.

Samkeppnishæfni byggist ekki eingöngu á verði. Það sem greinir á milli getur einnig verið byggt á þekkingu, gæðum, vinnuafli, nálægð við markað o.s.frv. Það þarf ekki að fjölyrða frekar um þann ávinning sem frjáls viðskipti hafa fært heiminum því á meðan jarðarbúum hefur fjölgað um milljarða á síðustu eitt hundrað árum hafa hlutfallslega fleiri það betra í dag en fyrir aldamótin 1900. Sífellt fleiri komast úr fátækt með þátttöku í heimsviðskiptum, þrátt fyrir vinstriáróður um annað.

Umhverfið er ekki eini vandinn

Á sama tíma og aukin neysla ríkir meðal milli- og efri stétta efnaðra samfélaga búa aðrir við frumstæðari skilyrði. Árið 2019 er um 821 milljón manna án nægilegrar næringar að sögn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hungur hefur verið að aukast frá árinu 2015 á sama tíma; af öllu fólki í heiminum er einn af hverjum átta of feitur og ein af hverjum þremur konum á barneignaraldri stríðir við blóðleysi. Matarsóun er gríðarleg, ekki bara í hinum vestræna heimi heldur líka í vanþróuðum löndum. Einn þriðji hluti allra matvæla sem eru framleidd fer í sóun. Ýmist er þeim hent ónýttum eða að lélegur aðbúnaður við framleiðslu og geymslu veldur afföllum, m.a. þar sem raki og meindýr komast í vörur.

Ábyrgð vestrænna ríkja í umhverfismálum er mikil en hún er ekki síður mikil þegar kemur að hagsæld annarra ríkja. Það getur orðið þungur róður smáríkja og vanþróaðri ef einangrun í nafni umhverfismála er hrundið af stað.

Það er jákvætt að tala um kolefnisspor en á sama tíma er mikilvægt að skilgreina nærmarkað og fjærmarkað. Sjálfbærni þarf ekki að þýða að alþjóðaverslun verði afnumin, þ.e. að lönd eigi að reiða sig að mestu á eigin framleiðslu.

Það þarf að skoða hvernig heimurinn tekur skref í átt að aukinni hagsæld öllum til handa um leið og við gætum að umhverfismálum. Sum fátækari samfélög reiða sig á ferðaþjónustu, framleiðslu fyrir erlenda markaði eða að íbúar þeirra leita að vinnu í öðrum löndum. Hreyfanleiki markaða er ákjósanlegur kostur síbreytilegs heims sem við búum í. Vert er að hafa í huga að þau ríki sem eru enn að þróast og þar sem fólki er að fjölga eru mörgum áratugum á eftir vestrænum þjóðum í umhverfismálum. Þar eru mikil tækifæri til að ná hröðum árangri með aðstoð þróaðri ríkja.

Markaðurinn leysir vandann

Við höfum séð hraðar framfarir í læknavísindum og heilbrigði ekki síður fyrir hvata einkaframtaksins. Fyrirtæki og einstaklingar víða um heim hafa lagt vanþróuðum ríkjum lið til að ráða bót á ungbarnadauða, útbreiðslu sjúkdóma og aðgengi að vatni. Verkefnum hefur verið hrundið af stað til að auka læsi, tækniþróun og fjölga atvinnutækifærum. Þetta er gert til að aðstoða samfélög til að taka skref fram á við og verða sjálfbær, þ.e. að þurfa ekki að reiða sig á aðstoð eða fjármagn annarra landa. Þá fyrst geta þau einnig tekið skref í átt að hlúa betur að umhverfinu. Tækifæri þróaðra ríkja er ekki síður að styðja við framgang annarra ríkja sem eru eftirbátar þeirra í umhverfismálum.

Byggðir heims eru að þéttast, framleiðsla færist nær borgarkjörnum og álag á ákveðna landshluta eykst. Stærð landa og skortur á innviðum er áskorun. Samgöngur eru fábrotnar, aðgengi að rafmagni og tækni er lítið sem veldur m.a. fæðuóöryggi, einangrun og fátækt. Því leitar fólk tækifæra í þéttbýlum og það eykur vandann, bæði efnahagslegan og varðandi umhverfið. Til þess að sporna við þessari þróun þarf að styrkja og styðja við uppbyggingu. Það þarf að horfa á hvernig má auka matvælavinnslu á þessum svæðum og koma matarbirgðum hraðar í hendur neytenda og koma veg fyrir sóun vegna aðbúnaðar. Kannski öllu heldur auka aðgengi að öruggri fæðu. Það eru margar áskoranir um hvernig við eigum að bæta umhverfið án þess að skerða lífsgæði.

Upplýsing og tækni vísa veginn

Þar sem ríki stendur í vegi fyrir frjálsum markaði líður markaðurinn fyrir það, hvort sem er í formi velferðar eða hagsældar. Nærtækast er að tala um hryllilegar aðstæður og hungur íbúa í Norður-Kóreu og Venesúela. Við viljum síður fjölga ríkjum þar sem íbúar eru upp á náð og miskunn stjórnvalda komnir. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað er það að framfarir og frjáls markaður leiða til lausna. Því er mikilvægt að hvetja fremur en að letja áframhaldandi þróun vestrænna landa til að beina kröftum þeirra að því að bæta heiminn. Því fleiri sem njóta velsældar, þeim mun líklegri eru þeir til að huga að umhverfismálum.

Einkenni frjáls markaðar er að leita lausna við vandamálum. Markaðurinn er kröfuharður og vill framfarir. Því ætti það ekki að vera hagur fyrirtækja að mæta kröfum neytenda um umhverfismál hvort sem lýtur að orkuskiptum, endurvinnslu, kolefnisbindingu, endurheimt votlendis eða matarháttum. Neytandinn er með mikið vald því oftast hefur hann vald til að taka ákvörðun sjálfur.

Staðreyndir í stað hræðslu

Ef dýr eru mengunarvaldar er eflaust hægt að finna upp lausnir sem minnka það án þess að stöðva kjötneyslu, sem hefur verið með mannfólkinu frá örófi alda. Ísland hefur sýnt að með fiskveiðistjórnunarkerfi og tækni er hægt að vernda fiskistofna og auka jafnframt gæði veiða og vinnslu á sama tíma og draga stórkostlega úr eldsneytisnotkun. Á meðan við höfum rætt um að unnar kjötvörur séu slæmar er verið að vinna vörur, samsettar úr mörgum efnum, til að líkja eftir einföldum afurðum á borð við kjöt, fisk og grænmeti. Það má alveg spyrja þeirrar spurningar hvort það sé ákjósanleg næring eða ekki.

Til að hlúa að umhverfinu þarf að upplýsa og nýta rannsóknir til að taka réttar ákvarðanir. Hvernig er best að standa að sorphirðu og endurvinnslu? Hvernig flytjum við matvæli frá framleiðslu til neyslu, sem bæði tryggir öryggi þeirra en líka kemur í veg fyrir sóun?

Hvernig minnkum við útblástur á sama tíma og við tryggjum fólks- og vöruflutninga? Hvernig bætum við framleiðsluferla til að hlúa að náttúrunni? Margar áleitnar spurningar sem er áskorun fyrir okkur að taka áfram og leysa úr.

Einu sinni var pappír umhverfisvandinn en í dag hafa aðilar starf af því að rækta nytjaskóga. Fyrir um 30 árum var heimsendir í nánd vegna eyðingar ósonlagsins. Það voru vísindin, aðgerðir einstaklinga, leiðtogar og tæknilausnir sem leystu þann bráða vanda. Getum við ef til vill endurtekið leikinn?

Hvers vegna er hræðsluáróðri beitt þegar kemur að umhverfismálum? Það er mikilvægt að spyrja sig hvaðan hann er sprottinn og hvaða hagsmunir eru að baki. Enn mikilvægara er að leyfa staðreyndum að tala máli sínu.

Ísland á að vera fyrirmynd

Enginn vafi leikur á því að Ísland stendur vel að vígi í umhverfismálum en getur og á að gera betur. Margir tala fyrir orkuskiptum og kolefnisbindingu með því t.d. að fækka flugferðum og skipta yfir í rafmagnsbíl. Grænir skattar kunna að hafa jákvæð áhrif en geta líka dregið úr velsæld. Það er mikilvægt að velta því upp hvort við getum náð árangri með öðrum aðferðum eins og með endurheimt votlendis, skógrækt, minni matarsóun og bættri endurvinnslu. Það eru mörg tækifæri áður en gripið er til aðgerða sem skerða lífsgæði. Við getum öll tekið betri ákvarðanir í eigin neyslu.

Ísland mun ekki bjarga heiminum en Ísland getur orðið fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að umhverfismálum. Það er hægt með samstíga ákvörðunum ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Við viljum sjá auknar framfarir og umbætur og að ákvarðanir um betri framtíð verði teknar með gögn og staðreyndir við hönd.

Höfundur er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.