Þess hefur verið beðið með talsverðri eftirvæntingu að út komi bók Péturs H. Ármannssonar (1961-) arkitekts um Guðjón Samúelsson (1887-1950), sem gegndi embætti húsameistara ríkisins um þriggja áratuga skeið. Guðjón mótaði byggingarsögu 20. aldar á Íslandi með meira afgerandi hætti en nokkur annar maður. Eftirvæntingin hefur að sönnu tengst viðfangsefninu en ekki síður meðhöndlun Péturs á því, en hann er öllum mönnum fróðari um feril og höfundarverk Guðjóns. Ekki hefur það skemmt fyrir hversu vel og tryggilega hann hefur gengið frá öðrum verkum um merka íslenska arkitekta, nú síðast bókinni um Gunnlaug Halldórsson (1909-1986) sem út kom hjá Bókmenntafélaginu árið 2014.
Þótt fyrri verk höfundar beri honum gott vitni var þó ljóst að heildstætt verk um Guðjón yrði á allan hátt meira að vöxtum en hin fyrri. Því ræður viðfangsefnið og það hversu lítið hefur í raun verið fjallað um fyrsta húsameistara ríkisins, ef undan eru skildar einstaka greinar í tímaritum og svo þær bækur sem Jónas Jónsson frá Hriflu (1885-1968) ritaði um Guðjón og verk hans á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Bók Péturs er afar vegleg, tæpar 450 síður og fagurlega skreytt ljósmyndum og teikningum á langflestum opnum sem dýpka umfjöllunina og glæða hana lífi.
Þegar vel tekst til, eins og raunin er með þessa bók, er hætt við að lesendum yfirsjáist þau flóknu úrlausnarefni sem verða á vegi höfundar þegar uppbygging bókar eins og þeirrar sem hér er tekin til umfjöllunar er ákveðin. Pétur hefur tekið ákvörðun um að byggja umfjöllun sína upp í kringum tímalínu sem spannar í raun æviskeið Guðjóns frá uppvaxtarárum og til andláts. Í lokahlutanum skyggnist Pétur áfram veginn, enda var stærsta höfundarverk Guðjóns ekki að fullu tilbúið fyrr en tæpum fjórum áratugum eftir að hann féll frá.
Pétri tekst mjög vel til að miðla efninu eftir þessari formúlu og gefur styrkleiki þeirrar nálgunar innsýn í þroskaferil Guðjóns sem listamanns og einnig hvernig hann verður, eftir því sem tímar líða fram, gríðarlega valdamikill í skipulags- og byggingarmálum þjóðarinnar. Út frá þeirri sögu spinnast svo ýmsir þræðir þar sem einna áhugaverðast er að fá betri innsýn í hversu umdeildur hann varð og hvernig þær átakalínur hverfðust ekki aðeins um hann sem persónu og embættismann heldur einnig tengslin við einhvern umdeildasta stjórnmálamann síðari tíma á Íslandi, Hriflu-Jónas.
Ferli Guðjóns skiptir Pétur með sannfærandi hætti upp í þrjú skeið. Tímabilið frá fæðingu Guðjóns og til þess tíma er hann tekur ungur við nýju embætti húsameistara ríkisins nefnir Pétur „Mótunarárin 1887-1920“. Þá er tímabil sem hann nefnir „Nýklassík og þjóðleg sérkenni 1920-1930“ og þriðja og síðasta skeiðið er „Náttúruform og nútímastíll 1930-1950“. Athygli vekur við lestur bókarinnar hversu misjafn framkvæmdahraði var á byggingum Guðjóns og spilaði þar einatt inn í staða þjóðarbúskapsins á hverjum tíma. Í sumum tilvikum var unnið á leifturhraða, bæði hvað varðar hönnunarvinnu og framkvæmdirnar sjálfar. Á það t.d. við í tilfelli Austurstrætis 14 og Hótels Borgar. Í öðrum tilvikum spannaði framkvæmdatíminn mörg ár, m.a. í tilfelli Sundhallarinnar í Reykjavík og einnig Þjóðleikhússins. Það hefði sennilega hjálpað lesendum að fá myndræna tímalínu sem sýnt hefði hönnunar- og framkvæmdatíma helstu bygginga sem fjallað er um í bókinni, annaðhvort í einni og sömu línunni eða í línu fyrir hvert og eitt þeirra. Það hefði einnig gefið gleggri mynd af því hvar vinna við ólíkar stórframkvæmdir skaraðist á ferli Guðjóns. Í sérstökum köflum um Kristskirkju á Landakotshæð, Akureyrarkirkju, Þjóðleikhúsið, Landspítala, Bankahúsin við Framnesveg og Hallgrímskirkjurnar tvær hefðu tímalínur af þessu tagi komið að góðu gagni.
Ljóst er að Pétri hefur verið talsverður vandi á höndum að bregða upp mynd af persónu Guðjóns, enda hefur lítið varðveist af því sem kalla má persónulegar hugleiðingar hans og er það nær alfarið bundið þegar útgefnu efni. Réttilega er bent á það í bókinni að Guðjón hefur lifað fjölbreyttu lífi og ferðast víðar en flestir. Reynsluna af þeim ferðalögum vitum við hins vegar harla lítið um, nema í því sem sérfræðingar á borð við Pétur lesa út úr verkum Guðjóns og hvert hann hefur mögulega sótt innblástur á hverjum tíma. Það sem gerir verkefnið enn flóknara er að stærstan hluta ævinnar bjó Guðjón einn, ef frá eru talin fá ár í upphafi fjórða áratugarins er hann bjó með Sigríði Ágústu Eufemíu Ólafsdóttur (1895-1983). Þau gengu í hjónaband 1931 en skildu að borði og sæng í árslok 1933. Eftir viðskilnað þeirra réði Guðjón sér ráðskonu að nafni Ólöf Jóna Vernharðsdóttir (1911-2001). Ekki er á bókinni að skilja að nokkuð liggi eftir í lýsingum þessara tveggja kvenna á Guðjóni, en þær lifðu báðar í áratugi eftir að hann féll frá. Þrátt fyrir hina brotakenndu mynd sem við höfum af manninum Guðjóni er vel hægt að ímynda sér hann við píanóið á heimili sínu við Skólavörðustíg 25 eða að skrafi við vini og samstarfsmenn í Reykjavík þess tíma. Ljóst er að Guðjón hefur verið félagslyndur þótt hann hafi örugglega varið stærstum hluta tíma síns við teikniborðið. Um það vitnar m.a. áratugalöng þátttaka hans í starfi frímúrara sem hófst í Kaupmannahöfn 1918 og stóð óslitið til dánardags.
Ótrúleg afköst
Við lestur bókarinnar fær lesandi betri tilfinningu fyrir þeim miklu áhrifum sem Guðjón hefur haft á húsagerðarlist þjóðarinnar og ásýnd Reykjavíkur og margra annarra staða um landið, allt frá þéttbýlisstöðum á borð við Ísafjörð og Akureyri en einnig í dreifbýli og má þar helst nefna staði eins og Reykholt, Laugarvatn og Þingvelli. En bókin sinnir ekki síður þeirri skyldu að varpa upp mynd af þeim fjölbreyttu og mögnuðu verkum Guðjóns sem aldrei urðu að veruleika. Á það við um ævintýralega skipulagsuppdrætti víða um landið en einnig byggingar sem annað tveggja voru aldrei reistar eða tóku gríðarlegum breytingum frá fyrstu tillögum og til endanlegrar útfærslu.
Þótt Guðjón hefði ekki teiknað annað en það sem síðar var byggt eftir hefði það þótt geysimikið ævistarf. Það sem hér er minnst á gefur hins vegar mynd af því hversu geysilegt höfundarverk liggur eftir hann. Má leiða að því líkur að þar eigi hlut að máli mikil og sterk sköpunargáfa (sem unglingur átti Guðjón sér þann draum að verða myndhöggvari), iðjusemi og sú staðreynd að hann hafði ekki fyrir öðrum að sjá en sjálfum sér og gat alfarið helgað sig því mikla verki sem honum var lagt í hendur.
Umdeildur eða gleymdur?
Guðjón Samúelsson er án efa í hópi merkustu Íslendinga sem lifðu 20. öldina. Nær allan sinn feril var hann áhrifamestur allra á sínu sviði og því réðu tilviljanir í bland við gáfur hans og elju. Hann var fyrstur Íslendinga útskrifaður með framhaldsmenntun í arkitektúr og á þeim tíma sem hann lauk námi var Reykjavík að vakna til lífsins. Reykjavíkurbruninn 1915 opnaði honum strax mikil tækifæri en ekki síður embættið sem hann var skipaður til árið 1920. Samtíðarmenn hans viðurkenndu áhrifin og kom það fram með formlegum hætti við vígslu Landspítala þegar hann hlaut prófessorsnafnbót frá Háskóla Íslands og þegar hann var gerður að heiðursdoktor við sama skóla þegar aðalbygging stofnunarinnar var risin í Vatnsmýri. Hann var einnig sæmdur öðrum heiðursmerkjum og má þar helst nefna riddarakross Fálkaorðunnar 1936 og stórriddarakross sömu orðu með stjörnu 1942.
En eftir því sem meira kvað að Guðjóni, og ekki síst þegar fleiri ungir Íslendingar luku námi í arkitektúr og héldu heim til þess að freista gæfunnar, varð hann umdeildur. Skiptar skoðanir voru um þá stefnu sem hann tók með verkum sínum en þá þótti mörgum súrt í broti hversu fá tækifæri aðrir arkitektar fengu til að hafa áhrif á hönnun opinberra bygginga um landið. Var m.a. hart deilt á stórar framkvæmdir þar sem ekki var efnt til samkeppni um útlit þeirra og hönnun og virðist það hafa lagst afar illa í marga arkitekta og gagnrýnendur Guðjóns þegar samkeppni var haldin en engum tillögum tekið en þess í stað leitað til húsameistara ríkisins (átti það m.a. við um hönnun Akureyrarkirkju og Hallgrímskirkju í Saurbæ).
Tók gagnrýnin á sig ýmsar myndir. Af heimildanotkun Péturs að dæma hefur Morgunblaðið oft verið gagnrýnið á Guðjón, bæði í eigin skrifum en einnig veitt farveg fyrir gagnrýni í hans garð á síðum sínum. Blaðið var þó ekki eitt um það, en svo virðist sem Tíminn, sem Jónas frá Hriflu og Framsóknarflokkurinn réðu yfir, hafi einatt tekið til varna fyrir húsameistarann. Aðrar og óvæntar víglínur birtust í átökum um endurbætur á Bessastöðum þar sem virðing við Sigurð Jónasson (1896-1965), gefanda staðarins, hafi ráðið mestu um að Gunnlaugur Halldórsson var valinn til þess að endurbæta og byggja við Bessastaðastofu en Guðjón tekið að sér mjög umdeildar breytingar á kirkjunni. Svo mjög skarst í odda vegna þeirra framkvæmda að Sveinn Björnsson (1881-1952) hvarf frá þeirri hugmynd að láta grafa sig innan kirkju. Hann lést tveimur árum á eftir Guðjóni, árið 1952.
Merkilegur þáttur í ævistarfi Guðjóns er þróun hans á hinni íslensku aðferð við að steina hús að utan. Bendir Pétur á að líklega hafi sú aðferð átt rætur að rekja til þekkingar sem hingað barst frá Ástralíu. Í öllu falli þróaði Guðjón aðferðina, tók hana upp á sína arma og nýtti í mörgum af sínum merkustu byggingum. En hugmyndir Guðjóns virðast ekki hafa einskorðast við byggingarlistina sem slíka. Hann mun einnig hafa varpað fram áhugaverðum hugmyndum um hvernig draga mætti úr árstíðasveiflum í atvinnustigi, talað fyrir sjálfbærri framleiðslu salts á Íslandi og þá virðist hann fyrstur hafa varpað fram þeirri hugmynd að uppbygging háskólabygginga yrði fjármögnuð með happdrætti. Forvitnileg er frásögnin í bókinni af tilraun Guðjóns til þess að fá einkaleyfi á steiningaraðferðinni fyrrnefndu. Virtist hún hafa heppnast en hún var þó felld úr gildi með dómi Hæstaréttar og hefur það eflaust valdið honum sárum vonbrigðum.
Undir lok bókarinnar segir höfundur að nafn Guðjóns hafi að mestu gleymst – sem verður að teljast með ólíkindum, t.d. í ljósi þess hversu langan tíma það tók að ljúka byggingu Hallgrímskirkju. Eins hafi verkþekking viðvíkjandi steiningaraðferðina nánast glatast úr landinu en verið bjargað fyrir horn á síðustu stundu. Á síðustu árum hefur þó orðið vart aukins áhuga á verkum Guðjóns, ekki síst meðal fólks sem af áhuga virðir fyrir sér eða nýtur þeirra bygginga sem hann skilur eftir sig. Bók Péturs mun án efa tryggja að þessum áhuga verði haldið við, hann muni aukast og að fólk eigi loks auðvelt með að draga upp heildstæða mynd af ævistarfi Guðjóns og manninum sem að því stóð – þótt sannarlega sé sú síðartalda brotakennd.
Því miður eru ákveðnar brotalamir á verkinu sem ekki verður komist hjá að nefna. Í fyrsta lagi er prófarkalestri talsvert ábótavant og truflar það lesturinn. Fann undirritaður í lestri sínum innsláttar- og málfarsvillur á þrjátíu stöðum í bókinni, sem er of mikið þegar um jafn vandað og stórt verk er að ræða. Þá er letrið sem valið var að notast við nokkuð „hvasst“ og smátt, sem gerir lesturinn erfiðari en hefði þurft að vera. Vissulega hefur hönnuði verið uppálagt að halda síðufjölda í skefjum en spyrja má hvort verkið hefði þurft að vera í tveimur bindum í stað eins. Pappírinn í bókinni er nokkuð glansandi og hefur eflaust verið valinn með tilliti til þess að myndefni skilaði sér sem best. Það torveldar þó lesturinn einnig.
Það má að lokum segja Pétri H. Ármannssyni til hróss að ofangreindir vankantar á bókinni hverfa í skuggann af frásögninni og viðfangsefninu, þeirri djúpstæðu þekkingu á efninu sem höfundurinn miðlar til lesandans. Þessa bók er ástæða til að sækja heim að nýju, að hluta til og í heild. Pétur hefur unnið þarft verk og mikilvægt.
Höfundur er blaðamaður.
—
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.