Sjónvarpsþættirnir um Sögu þernunnar, eða The Handmaid‘s Tale, hafa notið mikilla vinsælda frá því að þeir komu út í apríl í fyrra. Tvær þáttaraðir hafa verið sýndar á bandarísku efnisveitunni Hulu, sem jafnframt framleiðir þættina, og sú þriðja hefur göngu sína í byrjun júní á þessu ári. Sjónvarpsþættirnir eru byggðir á samnefndri bók kanadíska rithöfundarins Margaret Atwood sem kom út árið 1985. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Ragnars árið 1987. Saga þernunnar er skáldsaga sem flokkast sem dystópía, sem er í raun sýn á framtíðarsamfélag sem hefur þróast í neikvæða mynd af útópíu.
Eitt það sem helst hefur vakið athygli og umræðu um þættina er vangaveltur um það hvort sá heimur sem þar er lýst geti einhvern tímann orðið að raunveruleika. Ef svo er þá er það ekki björt framtíð, nema fyrir kristna hvíta karlmenn. Bókin var nýlega gefin út á íslensku á ný og er í kynningarefni sögð eiga jafnvel meira erindi við lesendur dagsins í dag en þegar hún kom út fyrir rúmum 30 árum. Nánar að því hér síðar.
Augað fylgist með
Sögusvið bókarinnar (sem og þáttanna) er austurströnd Bandaríkjanna í náinni framtíð. Í stuttu máli er búið að steypa ríkisstjórn Bandaríkjanna af stóli, afnema stjórnarskrána (og um leið öll réttindi einstaklinga) og setja á fót nýtt alræðisríki, Gíleað (the Republic of Gilead).
Því stjórnar hópur hvítra kristinna karlmanna sem upphaflega stóðu fyrir byltingunni. Hún kom meðal annars til í kjölfar þess að útbreiðsla kynsjúkdóma og mikil mengun varð til þess að frjósemi kvenna fór hratt minnkandi. Öll réttindi kvenna hafa verið afnumin og þær eru fluttar undir yfirráð eiginmanna sinna eða náskyldra karlkyns ættingja. Samkynhneigðir karlmenn hafa verið drepnir og aðrir minnihlutahópar heyra svo gott sem sögunni til. Einhverjum íbúum tókst þó að flýja til Kanada meðan á byltingunni stóð.
Allar konur eru í raun valda- og áhrifalausar þó að staða þeirra sé misjöfn. Konur eru flokkaðar eftir notagildi; eiginkonurnar (sem flestar eru ófrjóar) stjórna heimilinu að nafninu til og klæðast allar sama sægræna kjólnum, Mörturnar (nefndar eftir Mörtu í Biblíunni) eru vinnukonur og klæðast grænum kjólum og þernurnar, sem klæðast rauðum kjólum, eru notaðar til undaneldis. Þernurnar eru þær konur sem teljast frjóar og eina hlutverk þeirra er í raun að geta liðsforingjum sínum og eiginkonum þeirra börn.
Frænkurnar, allar í brúnum kjólum, eru eldri konur sem sjá um þjálfun þernanna og framfylgja jafnframt reglum samfélagsins (þar með talið opinberum aftökum). Þær konur sem ekki falla undir þessa flokka eru sendar út fyrir borgina, út í svokallaðar nýlendur, þar sem þeim er ætlað að þrífa kjarnorkuúrgang og deyja við það verkefni. Aðrar eru sendar á leynileg hóruhús, því þrátt fyrir hin strangtrúuðu skilaboð ráðamanna heimsækja þeir reglulega húsin til að sletta úr klaufunum. Það er nú þannig að flestir þeir sem vilja ráðskast með líf annarra telja sig iðulega hafna yfir þær reglur sem þeir setja öðrum.
Sagan er sögð frá sjónarhorni þernunnar Offred, eða Hjáfreð eins og hún er nefnd í íslenskri þýðingu bókarinnar. Elizabeth Moss fer með hlutverk Offred í sjónvarpsþáttunum og hefur hlotið verðskuldað lof fyrir leik sinn. Bókin sjálf segir nær eingöngu frá raunum Offred og sýn hennar á þann hrylling sem hún býr við, en sjónvarpsþættirnir segja söguna í víðara sjónarhorni. Í þáttunum fáum við meðal annars innsýn inn í fyrra líf Offred, þegar hún hét June, átti mann, dóttur, starf og frelsi. Offred býr á heimili hjónanna Serenu Joy og Fred, sem er háttsettur í stjórn Gíleað, og hefur sem fyrr segir það hlutverk að fæða þeim barn. Í þáttunum fáum við líka að skyggnast inn í líf Serenu og Fred fyrir byltinguna, á þeim tíma sem Serena var rithöfundur og barðist fyrir réttindum kvenna.
Sú barátta hefur nú verið kveðin í kútinn því þrátt fyrir að eiginkonur hafi að nafninu til einhver réttindi er þeim bannað að skrifa, lesa, vinna og hafa skoðun yfir höfuð.
Loks ber að nefna að í Gíleað starfar einnig öflug leynilögregla, kölluð Augað, sem fylgist með hverju skrefi allra íbúa, greinir og kveður niður öll merki um uppreisn og eltir uppi fólk sem reynir að flýja. Í sjónvarpsþáttunum er, réttilega, dregin upp dökk mynd af starfsemi Augans.
Rímar við söguna
Lífið í Gíleað er ekki spennandi fyrir nokkurn mann, nema þá kannski þá sem haldnir eru þeirri þrá að ríkja yfir öðrum og ráðskast með líf annarra. Þegar sýning þáttanna hófst, vorið 2017, hafði Donald Trump aðeins verið forseti Bandaríkjanna í nokkra mánuði. Fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 jókst sala á bókinni (sem hafði komið úr rúmum 30 árum áður) til muna. Margir telja sig sjá merki um að stefna hans geti að lokum leitt til þess að Saga þernunnar verði einhvern tímann að veruleika.
Það er einmitt áhugavert að velta því fyrir sér hvort sá veruleiki sem lýst er í bókinni og með myndrænum og dramatískum hætti í þáttunum geti orðið að veruleika. Gæti það mögulega gerst að úr vestrænu lýðræðisríki spretti einhvers kona alræðisríki eins og hér hefur verið lýst? Er hægt að berja niður og útrýma öllum réttindum einstaklinga og gera nútímafólk að þrælum?
Stutta svarið er já, það gæti gerst. Þó má telja ólíklegt að það gerist undir stjórnartíð Donalds Trump, þó að vissulega sé hann ólíkindatól sem hirðir lítið um stjórnarskrá eða aðrar reglur sem kunna að þvælast fyrir honum. Að því sögðu er réttara að hafa í huga að sambærilegir atburðir hafa þegar átt sér stað í sögunni.
Það er rétt að hafa í huga að fyrrnefnd Margaret Atwood, höfundur bókarinnar, hefur greint frá því að jafnvel þó svo að sagan sé dystópísk sögu sé hún ekki vísindaskáldskapur. Með öðrum orðum, allt það sem fram kemur í bókinni á sér fyrirmynd og gæti gerst í raunveruleikanum. Hér eru engar geimverur, drekar eða galdrar – heldur raunsæ lýsing á því sem gæti (og hefur að hluta) gerst í raunheimum.
Atwood er fædd í Kanada árið 1939. Hún er þekktur rithöfundur og ljóðskáld og hefur barist fyrir mannréttindum og réttindum kvenna. Hún bjó í Vestur-Berlín þegar hún skrifaði bókina, á þeim tíma sem Þýskalandi (og Berlín) var enn skipt í austur og vestur. Frá því að sjónvarpsþættirnir litu dagsins ljós hefur hún margoft verið spurð að því hvort hún sjái einhver samasemmerki með bókinni og nútímanum. Hún hefur iðulega svarað því neitandi en þó bent á að sagan í heild eigi sér fyrirmyndir.
Hinum megin við múrinn
Og þar komum við að kjarna málsins. Auður Aðalsteinsdóttir ræddi um Sögu þernunnar (bókina) við bókmenntafræðingana Mörtu Sigríði Pétursdóttur og Helgu Margréti Ferdinandsdóttur í þættinum Bók vikunnar í Ríkisútvarpinu í mars 2017. Þar sagði Auður bókina lýsa fasísku samfélagi og hafa gengið í endurnýjun lífdaga eftir að Donald Trump var kjörinn forseti.
Helga Margrét lýsti því að bókin hefði ekki heillað hana þegar hún las hana fyrst en hins vegar hefði verið hætta á því að Trump yrði kjörinn forseti. Hún sagði að henni hefði fundist bókin vera komin nokkuð til ára sinna þangað til það hefði litið út fyrir að Donald Trump yrði mjög líklega kjörinn Bandaríkjaforseti.
„Og það er alveg […] mjög óhugnanlegt að sjá þessa atburði eiga sér stað í samtímanum. […] Þessi saga er áminning um að svona atburðir geti átt sér stað hvenær sem er við rétt skilyrði í raun og veru,“ sagði Helga Margrét í þættinum og bætti því við seinna í þættinum að sagan færi í hringi. Marta Sigríður minnti þó á að bókin var skrifuð í Vestur-Þýskalandi árið 1984 og að hinum megin við múrinn væri alræðisríki Austur-Þýskalands.
Í þættinum var einnig vitnað í Fríðu Björk Ingvarsdóttur, bókmenntafræðing og rektor Listaháskóla Íslands. Hún vitnaði réttilega til þess að bókin lýsti hættunum á miðstýrðu valdi og mannlegri túlkun á Biblíunni.
„Hún afhjúpar mjög vel hversu hættuleg mannanna túlkun getur verið þegar einhver ein túlkun er öðrum æðri og það má ekki viðurkenna sýn annarra á hlutina eins og þeir koma þeim fyrir sjónir. Þetta er bara mjög hollur boðskapur. Biblían er bara táknræn þarna, ekkert endilega fyrir trúarbrögð heldur einmitt fyrir miðlægt vald. Það að fara bókstaflega ofan í […] 2.000 ára gamla bók og taka það sem þar er sett fram á forsendum sem við höfum ekki hugmynd um hverjar voru og bera það fram sem einhvern sannleika sem sé öðrum sannleika æðri. Hún afhjúpar hversu hættulegt það er. Þetta hefur gerst ítrekað í heimssögunni. Ef við horfum til lesturs kommúnisma og Marx og svo framvegis.“
Það er hægt að taka undir þessi orð Fríðu Bjargar. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að almennum mannréttindum sé ýtt til hliðar í þágu ráðríkra manna. Mannkynssagan geymir fjölmörg slík dæmi og því miður þekkist þetta enn í nútímanum, til dæmis í Norður-Kóreu.
Sem fyrr segir er bókin Saga þernunnar skrifuð á þeim tíma sem Atwood bjó í Vestur- Berlín. Nú þekkjum við hvernig hin vökulu augu leyniþjónustu Austur-Þýskalands, Stasi, vöktu yfir íbúum þess ríkis dag sem nótt. Þeir sem reyndu að flýja voru skotnir, þeir sem óhlýðnuðust ríkisvaldinu fengu refsingu, voru fangelsaðir, pyntaðir eða drepnir. Hinn almenni borgari hafði í raun engin þau réttindi sem við þekkjum í dag, fólk mátti ekki lesa hvað sem er, segja hvað sem er eða gera hvað sem er. Í raun var allt bannað nema það sem sérstaklega var leyft. Lífinu í Austur-Þýskalandi eru gerð ágætis skil í bókinni Stasiland eftir Önnu Funder (sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2012) og þá er rétt að vekja athygli á þýsku myndinni Líf annarra (Das Leben der Anderen) sem kom út árið 2006 og lýsir óhugnanlegu lífi manna undir eftirliti Stasi.
Orwell sá þetta líka fyrir
Ef ætlunin er að setja Sögu þernunnar, hvort sem er bókina eða sjónvarpsþættina, í samhengi við nútímann er hún aðeins áminning um mikilvægi þess að minnka ríkisvaldið. Öll tenging sögunnar við orðræðu eða hegðun Donald Trump – og mögulega ágiskun um að hún hafi gengið í endurnýjun lífdaga með kjöri hans – er úr lausu lofti gripin og í skásta falli dramatísk viðbrögð þeirra sem eru honum hvað mest andsnúnir. Það ber alls ekki að túlka þessi skrif sem einhvers konar stuðning við Trump.
Það er hins vegar hægt að berjast gegn stjórnlyndi hans með öðrum hætti. Það má frekar líta á kjör Trump sem aðra áminningu um mikilvægi þess að takmarka völd hins opinbera.
Það er þó ekki þar með sagt að Saga þernunnar endurspegli ekki raunveruleikann eða varpi einhvers konar ljósi á það sem kann að eiga sér stað í raunveruleikanum. Í áratugi hafa menn vísað sögu George Orwell, 1984. Sú bók, sem einnig var dystópía, kom út árið 1949 en saga hennar á að gerast árið 1984 (sama ár og Saga þernunnar var skrifuð) þar sem ríkið ræður öllu, jafnvel hugsunum almennings. Rithöfundar á borð við Atwood og Orwell eiga mikið hrós skilið fyrir að draga upp dökka mynd af því hvernig lífið getur verið undir alræði ríkisins.
Við höfum ítrekað í mannkynssögunni séð stjórnlynda einstaklinga og hópa sem hafa það markmið að hefta frelsi. Þeir bera ýmis nöfn og andlit og bera fyrir sig trúarlegan jafnt sem veraldlegan boðskap en eiga það alltaf sameiginlegt að telja sig yfir aðra hafna og til þess fallna að stjórna öðrum. Baráttan fyrir frelsi einstaklingsins hefur staðið yfir lengi og henni er hvergi nær lokið.
Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.
Bókarýnin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.