Arnar Sigurðsson
Ein af meinlokuhugmyndum vinstri manna hefur verið í sviðsljósinu upp á síðkastið nánar tiltekið viðskiptabann Reykjavíkur á Ísrael enda afleiðingar nokkuð fljótar að koma fram. Sama á ekki við um ýmislegt annað eins og t.d. ályktanir um að hverfa frá olíuleit á Drekasvæðinu. Enn annað dæmi er neyslustýring sem miðar að fjölgun diesel bíla með mun verri mengun, sér í lagi í þéttbýli þar sem Dagur og félagar laða til sín slíkan ófögnuð með ókeypis bílastæðum. Kjarni meinlokuhugmynda er að hugtökin orsök og afleiðing eru aldrei leidd út, eina sem skiptir máli er að hlutirnir hljómi vel og skori í skoðanakönnunum líðandi stundar.
Vissulega er það skiljanlegt að vinstri menn hörfi frá sinni hugmyndafræði sem öðrum þræði byggir á að sníða af alla galla mannlegra eiginleika og upphefja meðaltöl fram yfir einstklinginn. Delluhugmyndir koma bara og fara án neinnar skírskotunar til pólitískrar hugmyndafræði og því er hægt að afleggja allt slíkt.
Goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað annarra lifir svo enn þrátt fyrir regluleg skipbrot.
Bloomberg, birtir ágætis samantekt um ástand og horfur í loftslagsmálum. Í sögulegri samantekt er athyglisvert að Margaret Thatcher skuli hafa verið fyrst leiðtoga til þess að vara við afleiðingum hlýnunar.
Á sama tíma barðist hún gegn vinstri mönnum sem börðust fyrir áframhaldandi brennslu kola. Vinstri menn höfðu betur um tíma og sannanlega kólnaði þegar kolaþokan, öðru nafni ,,Lundúnaþokan“ einfaldlega skyggði fyrir sólu.
Fáir afneitunarsinnar frá þessum tíma (sumir hverjir fjármagnaðir af mannvininum Mua
mmar Gaddhafi) eru enn uppi í dag ef frá er talinn Jeremy Corbyn sem nú er orðin formaður Breska Verkamannaflokksins.
Sérstaða vinstri manna þegar kemur að mistökum er að toppa með nýjum. Gallinn við að veðja á stundarvinsældir umfram hugmyndafræði er að fyrr en síðar veðja menn á málefni sem svo fellur óvænt í vinsældum. Stjórnmál án hugmyndafræði eru hinsvegar soldið eins og stjórnskipun án stjórnarskrár. Gott dæmi um þetta er viðskiptabann á eina lýðræðisland miðausturlanda, Ísrael.
En aftur að olíuleit á Drekasvæðinu. Ísland notar olíu mest allra þjóða miðað við höfðatölu, á eftir Singapore. Við höfum gríðarstóran flutningsiðnað (líkt og Singapore) og öll skip og flugvélar eru keyrð áfram á olíu.
Ef við myndum finna 1 milljarðs tunna olíulind á Drekasvæðinu, (myndi flokkast sem stór fundur) þá myndi skattheimtan af henni duga til að borga upp allar skuldir ríkisins. Lindin myndi hins vegar ekki duga nema í rúman áratug til að halda Keflavíkurflugvelli gangandi.
Ferðaþjónustan, álframleiðslan, sjávarútvegurinn, auk alls inn- og útflutnings er drifið áfram af olíu. Því verður ekki breytt næstu áratugina. Að hætta við olíuleit á Drekasvæðinu hefði ekkert að gera með umhverfismál heldur væri að einu og öllu leiti stefnt gegn hagsmunum Íslands. Þar eru vinstri menn auðvitað á heimavelli eins og sást í Icesave málinu og svo aftur í viðskiptabanninu á Ísrael.