Eftirlýstur

Á þessum tíma var forgangsverkefni mitt að reyna að stöðva þann stórfellda þjófnað sem átti sér stað á eignasafni sjóðsins. Hermitage Fund hafði þegar tapað 90% af verðgildi sínu á rússneska greiðslufallinu og nú voru ólígarkarnir að stela þeim 10% sem stóðu eftir. Sjóðurinn yrði tæmdur ef ég gerði ekkert í málinu.

Þessi þjófnaður átti sér stað í öllum geirum viðskiptalífsins, frá bönkum að náttúruauðlindum en stærsta fyrirtæki Rússlands stóð öllum öðrum framar í þessu athæfi, olíu- og gasrisinn Gazprom. Þegar litið var til framleiðslu og mikilvægis var Gazprom eitt af mikilvægustu fyrirtækjum heims en þó var allt markaðsvirði þess, 12 milljarðar dala, lægra en markaðsvirði meðalstórs olíu- og gasfyrirtækis í Bandaríkjunum. Vetniskolefnislindir Gazprom voru 8 til 12 sinnum stærri en lindir tveggja stærstu olíufyrirtækja í heiminum, ExxonMobil og BP en samt gengu hlutabréf í Gazprom kaupum og sölum á 99,7% lægra verði en hlutabréf í þeim miðað við lindir mældar í olíufötum.

Hvers vegna var verðið svo lágt? Einfalda svarið var að flestir fjárfestar töldu að 99,7% af eignum fyrirtækisins hefði verið stolið. En hvernig var hægt að stela næstum öllum eignum eins stærsta fyrirtækis í heiminum? Enginn vissi það með vissu en þó var litið á það sem staðreynd. Þrátt fyrir að ég vissi hversu viðsjárverðir Rússar geta verið gat ég varla trúað því að stjórn Gazprom hefði stolið öllu þessu. Ég gæti grætt stórfé ef einhvern veginn væri hægt að sýna fram á að mat markaðarins væri rangt. Ég þurfti að greina þetta fyrirtæki og finna út hvað raunverulega var í gangi. Ég þurfti með öðrum orðum að framkvæma „þjófnaðargreiningu“.

Hvernig er þjófnaðargreining gerð á rússnesku fyrirtæki? Ekkert slíkt var kennt í viðskiptadeildinni í Stanford. Ég gat augljóslega ekki gengið fyrir stjórn Gazprom og storkað henni. Ég gat ekki heldur spurt greinendur neins alþjóðlegs fjárfestingarbanka. Það eina sem skipti þá máli var að fá greitt fyrir vinnu sína sem fól í sér að þeir voru svo háðir stjórn Gazprom að þeir viðurkenndu aldrei opinberlega þann svívirðilega þjófnað sem átti sér stað fyrir augunum á þeim.

Þegar ég velti þessu fyrir mér varð mér ljóst að reynslan frá BCG var einhvers virði í þessu sambandi. Í ráðgjafastarfinu hafði ég lært að besta leiðin til að fá svör við erfiðum spurningum var að finna fólk sem þekkti svörin og spyrja það. Ég setti því saman lista yfir fólk sem vissi eitthvað um Gazprom: keppnauta, viðskiptavini, birgja, fyrrum starfsfólk, eftirlitsaðila og svo framvegis. Ég bauð síðan hverjum og einum í morgunverð, hádegisverð, kvöldverð, te, kaffi eða eftirrétt. Ég vildi ekki hræða fólkið of fljótt og sagði því þess vegna ekki í neinum smáatriðum eftir hverju ég væri að sækjast. Ég sagði bara að ég væri fjárfestir frá Vesturlöndum og hefði áhuga á að ræða við það. Mér til undrunar þáðu boðið þrír af hverjum fjórum af þeim um það bil 40 manneskjum sem voru á listanum mínum.

Sá sem við hittum fyrst var yfirmaður áætlana-gerða hjá litlum keppinaut Gazprom. Hann var sköllóttur og dálítið of feitur, með sovéskt úr og í krumpuðum gráum jakkafötum. Við Vadím borðuðum hádegisverð með honum á ítölsk-um veitingastað sem hét Dorian Grey og var handan Moskvuárinnar, beint á móti Bolotnaja-torgi. Eftir hefðbundið kynningarspjall sagði ég opinskátt: „Okkur langaði til að tala við þig vegna þess að við erum að reyna að komast að því hverju er stolið frá Gazprom. Þú ert einn af sérfræðingunum í greininni og ég velti fyrir mér hvort þú vildir deila einhverju af vitneskju þinni með okkur?“

Maðurinn þagði um stund og ég hugsaði með mér að ég hefði ef til vill farið yfir strikið. Síðan færðist bros yfir andlit hans. Hann lagði hendurnar á hvítan borðdúkinn og hallaði sér fram. „Það gleður mig að þið skulið spyrja. Stjórn Gazprom er stærsta samsafn glæpamanna sem hægt er að ímynda sér. Hún stelur öllu.“

„Eins og hverju?“ spurði Vadím.

„Tökum Tarkosaleneftegaz sem dæmi,” sagði maðurinn og barði í borðið með skeið. „Þeir tóku það út úr Gazprom.“

Vadím spurði: „Hvað er Tarko…“

„Tarko Saley,“ greip maðurinn fram í. „Það er gassvæði á Jamal–Nenets svæðinu. Þar eru um það bil 400 milljarðar rúmmetra af gasi.“

Vadím dró upp reiknivél og breytti þessari tölu í föt af olíuígildi.  Talan sem hann fékk, 2,7 milljarðar olíufata, fól í sér að lindir Tarko Saley voru stærri en lindir bandaríska fyrirtækisins Occidental Petroleum, sem metið var á 9 milljarða dala. Ég er ýmsu vanur en ég varð hneykslaður við tilhugsunina um að fyrirtæki sem var 9 milljarða dala virði hefði verið tekið út úr Gazprom. Þegar maðurinn hélt áfram að segja okkur frá smáatriðum nefndi hann nöfn og dagsetningar og sagði okkur frá öðrum gassvæðum sem hefði verið stolið. Við spurðum allra þeirra spurninga sem við gátum látið okkur til hugar koma og það sem við skráðum hjá okkur fyllti sjö blaðsíður í minnisbókinni okkar. Eftir tvær klukkustundir urðum við að ljúka hádegisverðinum því að annars hefði maðurinn talað til eilífðar.

Án þess að vita það hafði ég fyrir tilviljun rambað á eitt mikilvægasta menningarfyrirbæri Rússlands áranna eftir hrun Sovétríkjanna, ört vaxandi ójöfnuðinn. Á sovéttímanum var auðugasti maður Rússlands um það bil sex sinnum auðugri en sá fátækasti. Þeir sem sátu í stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins bjuggu í stærri íbúðum en aðrir, höfðu bíl og snoturt sumarhús til umráða en ekki miklu meira en það. Árið 2000 var auðugasti maðurinn orðinn 250.000 sinnum auðugri en sá fátækasti. Þessi ójöfnuður varð til á svo stuttum tíma að hann eitraði sálarlíf þjóðarinnar. Fólk var svo reitt að það var reiðubúið að tala við hvern sem var og segja frá öllu sem það vissi.

Flestir fundir okkar með fólkinu á listanum fóru nokkurn veginn á sömu lund. Við hittum ráðgjafa úr gasgeiranum sem sagði okkur frá öðru stolnu gassvæði. Við funduðum með háttsettum manni í gasleiðslufyrirtæki sem sagði okkur að Gazprom hefði beint allri gassölu í fyrrum Sovétríkjunum til vafasams milliliðar. Við hittum fyrrum starfsmenn sem lýstu því að Gazprom hefði lánað vinum stjórnarmanna stórar fjárhæðir á vöxtum sem voru undir markaðsvöxtum. Í heildina fylltum við tvær minnisbækur af skaðlegum ásökunum um þjófnað og svindl.

Þetta var sennilega mesti þjófnaður í allri viðskiptasögunni, ef trúa mátti öllum upplýsingunum sem við söfnuðum.