Hörundsárari og hefnigjarnari en aðrir

Með valdatöku Jóhönnu Sigurðardóttur á Samfylkingunni náði vinstri armur flokksins völdum og gamlir „hægri kratar“ áttu átt í vök að verjast. Með þátttöku í ríkisstjórn fengu Vinstri grænir tækifæri, sem þeim hafði verið neitað um í 18 ár eða allt frá því að Alþýðubandalagið var í ríkisstjórn. Enginn gat verið betri bandamaður í þeim efnum en Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafði loks fengið sitt tækifæri.

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon voru samverkamenn í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988 til 1991. Jóhanna var félagsmálaráðherra og Steingrímur landbúnaðar- og samgönguráðherra. Steingrímur Hermannsson lýsti andrúmsloftinu í ríkisstjórn-inni í ævisögu sinni sem Dagur B. Eggertsson ritaði. Hann var sannfærður um að einvalalið væri í ríkisstjórninni en hafði engu að síður töluverðar áhyggjur:

„Gallinn á gjöf Njarðar var hins vegar að þeir áttu það nánast allir sameiginlegt að hafa sjálfstraust í litlu hófi og leggja líf og sál í stjórnmálin. Þetta var mér umhugsunar- og áhyggjuefni. Stjórnmálamenn af þessari gerð eru oft hörundsárari og hefnigjarnari en aðrir.“