Frá einni krísu til annarrar – án sannfæringar

Vegna ákvörðunar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í lok júlí og byrjun ágúst 2015 um að banna innflutning á fiski frá Íslandi og eyðileggja vestræn matvæli í beinni útsendingu urðu líflegar umræður um samskipti íslenskra og rússneskra stjórnvalda. Því var haldið fram að ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í mars 2014 um að standa með vestrænum ríEfnisyfirlit-1kisstjórnum að refsiaðgerðum gegn Rússum fyrir brot á alþjóðalögum við innlimun Krímskaga hefði verið vanhugsuð. Hann hefði átt að sjá fyrir að Rússar mundu beita Íslendinga viðskiptabanni.

Þessi krafa um framsýni ráðherrans og embættismanna hans er í anda þess sem sagt var eftir á um hrun íslenska bankakerfisins; stjórnmálamenn og ráðamenn peningamála hefðu átt að sjá það fyrir. Rannsóknarnefnd alþingis birti mörg þúsund blaðsíðna skýrslu sem snerist að nokkru um skort á minnisblöðum, fundargerðum og áhættumati. Geir H. Haarde forsætisráðherra var ákærður og sakfelldur í landsdómi fyrir að setja ekki hættuástandið í bankakerfinu formlega á dagskrá ríkisstjórnarfunda. Í ljósi þess dóms er þess að vænta að utanríkisráðherra hafi að minnsta kosti lagt minnisblað um þátttöku í refsiaðgerðum gegn Rússum fyrir ríkisstjórn og utanríkismálanefnd.

Hvað sem segja má um aðildina að refsiaðgerðum gegn Rússum er augljóst að ákvörðun Pútíns um að banna allan innflutning á fiski frá Íslandi er langt úr hófi. Íslensk stjórnvöld styðja aðgerðir sem banna Rússum aðild að G8-ríkjasamstarfinu, setja skorður við ferðalögum háttsettra Rússa og binda eignir þeirra á Vesturlöndum, banna samskipti við einstakar rússneskar fjármálastofnanir og sölu á vopnum og hátæknivarningi til hernaðar til Rússlands. Lokun rússneskra fiskmarkaða á vörur frá þjóð sem á um 70 ára viðskiptasögu með Rússum fyrir það eitt að standa siðferðilega og pólitískt með samherjum sínum án þess að hún valdi beint sjálf Rússum minnsta skaða er einfaldlega freklegt brot á meðalhófsreglu í samskiptum ríkja.

Undarlegt er að ýmsir láti eins og Íslendingum sé fyrir bestu að sigla sína eigin leið og reyna á þann hátt að blíðka Rússa. Meira að segja er gefið til kynna að ekki eigi að bera á Rússa sakir fyrir að innlima Krím. Þeir séu ekki að gera annað en endurheimta eitthvað sem Nikita Krústjoff Sovétleiðtogi hafi gefið Úkraínumönnum árið 1954. Skjalfest er þó að staðið var að afhendingu Krím til stjórnvalda Úkraínu innan Sovétríkjanna að einu og öllu í samræmi við sovésk stjórnlög.

Hitt er síðan einnig staðreynd, hvað sem afhendingunni frá 1954 líður, að eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991 lýsti ríkisstjórn Rússlands skýrt yfir samþykki sínu við því hvernig landamæri Úkraínu voru dregin árið 1991, þetta var bæði gert i Belovezhskaja Pushstja- samningnum frá desember 1991 (samningnum sem býr að baki upplausn Sovétríkjanna og staðfestir hana) og í Búdapestsamkomulaginu frá 1994 þar sem mælt er fyrir um að Úkraína sé kjarnorkuvopnalaust land.

Nú láta ýmsir hér á landi eins og ekkert sé eðlilegra en Pútín hafi fyrri orð og afstöðu að engu. Rússar hafi fullt vald til að fara sínu fram. Nágrannar Rússa í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi kalla hins vegar á Bandaríkjamenn og NATO sér til hjálpar. Að Íslendingar eigi við þessar aðstæður að sitja hjá eða jafnvel rétta „friðarhönd“ til Rússa er fráleitt.

II.

Þegar umræðurnar um innflutningsbann Pútíns hófust var engu líkara en sumir alþingismenn og aðrir íslenskir ráðamenn misstu fótanna. Þeir bærust með straumnum eða hlýddu kalli þess sem hæst hrópaði. Leið þó ekki á löngu þar til forystumenn fótuðu sig og slógu því föstu að ekki yrði hróflað við mótaðri stefnu en grandskoðað yrði til hvaða óhagræðis hún leiddi fyrir fiskvinnslu- og útflutningsfyrirtæki.

Hið sama gerðist þegar fréttir bárust um hrikaleg örlög hundruð þúsunda farand- og flóttamanna sem flæddu yfir Evrópu af meiri þunga en áður. Mátti ætla að stjórnmálamenn teldu nauðsynlegt að varpa öllum skynsamlegum rökum eða reynslu annarra þjóða til hliðar. Þeir ættu að fara í kapphlaup um hver nefndi hæstu tölu þeirra sem taka ætti á móti hér á landi.

Vandinn vegna þessa mikla straums aðkomufólks hefur sett allt á annan endann innan Evrópusambandsins. Engu er líkara en ráðamenn þar telji sér trú um að hann verði leystur með því að setja reglur um kvótaskiptingu milli einstakra landa. Augljóst er að Schengen-samstarfið er í uppnámi. Grunnþáttur þess er að ytri landamæri svæðisins séu lokuð fyrir öðrum en þeim sem hafa löglega heimild til að koma inn á það. Þessi stoð er úr sögunni og þar með verður að grípa til annarra ráða.

Danir hafa skapað sér nokkra sérstöðu meðal þjóða ESB að því leyti að þeir standa mjög fast á rétti sínum til að stjórna komu farand- og flóttamanna til lands síns. Þar gætir ekki síst áhrifa Danska þjóðarflokksins þótt hann hafi aldrei átt ráðherra í ríkisstjórn. Í kosningunum hinn 18. júní 2015 hlaut flokkurinn 21,1% atkvæða.

Kristian Thulesen Dahl, formaður flokksins, segir í bréfi til flokksmanna sinna hinn 31. ágúst 2015 að við núverandi aðstæður skipti meira máli en oftast áður að ræða áhrif aðstreymi farand- og flóttamanna. Þjóðflutningar samtímans krefjist annarra aðgerða en gripið hafi verið til við landamæravörslu Evrópu til þessa. Hann segir mikilvægt að skilja á milli þeirra sem leita sér betri lífskjara, efnahagslegra farandmanna, og raunverulegra flóttamanna sem óttist um líf sitt í heimalöndum sínum.

Hann leggur til að ráðamenn í ESB taki sér Ástrali til fyrirmyndar. Þar hafi stjórnvöld tekið af skarið um að þeir sem reyni að komast til landsins á bátum smyglara fái ekki hæli í Ástralíu. Þetta hafi leitt til þess að almennt séð komi innflytjendur ekki lengur með slíkum bátum til Ástralíu. Innan Evrópu eigi að grípa til svipaðra aðgerða. Þetta muni hins vegar ekki gerast hratt og þess vegna sé nauðsynlegt að taka upp landamæraeftirlit. Reglum samkvæmt megi brottvísa þeim sem komi frá öruggu landi. Þannig megi láta Þjóðverja leysa úr máli þeirra hælisleitenda sem koma að þýsk-dönsku landamærunum. Þjóðverjar geti gert hið sama við eigin landamæri. Þeir ákveði það.

Þess er skemmst að minnast að fyrir fáeinum árum beitti dönsk ríkisstjórn með stuðningi þjóðarflokksins sér fyrir upptöku eftirlits við landamæri Danmerkur. Vakti þetta mikla undrun og reiði innan ESB. Nú talar jafnvel Angela Merkel Þýskalandskanslari fyrir slíku eftirliti í einhverri mynd. Danskir jafnaðarmenn sem voru andvígir því á sínum tíma styðja það nú.

Hertar reglur og skipuleg framkvæmd þeirra er ákall sem nær eyrum ráðamanna á meginlandi Evrópu. Hér eru umræður um nýja útlendingalöggjöf hins vegar á aðra lund. Við framkvæmd gildandi laga virðast meira að segja  ríkja efasemdir um hvort réttmætt sé að brottvísa Albönum.

Með ólíkindum er ef nokkur farand- eða flóttamaður sem hingað kemur átti síðast fyrir komu sína viðdvöl í öðru landi en því sem telja má öruggt í skilningi laga og reglna um afgreiðslu hælisumsókna. Ógöngur í útlendingamálum hér á landi eru heimatilbúnar og vandinn gjörólíkur því sem er annars staðar. Stundum mætti ætla að það beri að skilgreina stöðu okkar á hinn versta veg og mála síðan skrattann á vegginn.

Í þessu efni eins og öðrum ber að fara að gildandi lögum. Sé hins vegar vilji til að beita sérákvæðum til að taka á móti hópi fólks sem sannanlega flýr undan lífshættulegum ofsóknum ber að gera það á skipulegan og raunhæfan hátt en ekki andrúmslofti uppboðs eða kappleiks.

III.

Ástandinu meðal æðstu manna Rússlands hefur verið lýst á þann veg að í Kreml sé að finna fólk sem hafi lifað af hrun Sovétríkjanna og tekist að skapa sér valdastöðu á rústum þeirra. Þetta sé fólk sem þrífist á krísum og líf þess hafi þann tilgang að bjarga sér úr einni krísu til að skapa aðra. Þetta geti fólkinu tekist í langan tíma því að um sé að ræða hóp sem sé sérhæfður í að halda lífi hvað sem á dynur.

Þessi dramatíska lýsing á ekki við um íslenska stjórnmálamenn. Á hinn bóginn vekur hún þá spurningu hvort þeir berist frá einni krísunni til annarrar í stað þess að hafa sjálfir stjórn á málum og ráða stefnunni. Málin tvö sem nefnd eru hér að ofan bar í upphafi að á þann veg að ríkisstjórnin hraktist í stöðu í stað þess að hafa stjórn á umræðum eða atburðarás.

Þetta á ekki aðeins við um ríkisstjórnina.

Framvinda mála innan Bjartrar framtíðar, flokksins sem ætlaði að breyta stjórnmálaumræðunum, styður þessa skoðun. Um var að ræða valdabaráttu Gnarrista við aðra í flokknum. Hvergi var minnst á málefnalegan ágreining,

Vegna lélegs gengis í skoðanakönnunum sagði skjólstæðingur Jóns Gnarrs, Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrv. stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, að hún tæki ekki sæti sem varaþingmaður á alþingi fyrir þingmann í fæðingarorlofi nema Guðmundur Steingrímsson flokksformaður segði af sér. Hann boðaði afsögn og Heiða Kristín ætlar að setjast á þing.

Guðmundur Steingrímsson fór úr Framsóknarflokknum og stofnaði Bjarta framtíð með fólki úr Besta flokki Jóns Gnarrs hinn 5. febrúar 2012. Í fréttatillkynningu frá flokknum sagði þá:

„Á meðal nýbreytni í skipulagi má nefna, að flokkurinn mun reka málefnastarf sitt á netsíðu, allan sólarhringinn, allan ársins hring, og í forystu flokksins eru tveir formenn, sem skulu starfa saman og vera sammála um stórar ákvarðanir.“

Guðmundur var kosinn á þing árið 2009 fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi. Árið 2007 hafði hann boðið sig fram fyrir Samfylkinguna í SV-kjördæmi sat hann á þingi sem varaþingmaður nokkrum sinnum á árunum 2007 til 2009. Hann sagði sig úr Framsóknarflokknum árið 2011 og starfaði sem þingmaður utan flokka þar til hann stofnaði Bjarta framtíð (BF).

Heiða Kristín Helgadóttir birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni 15. desember 2014 um að hún ætlaði að „sleppa takinu, hleypa öðrum að og freista þess að hafa áhrif á samfélagið með öðrum hætti […] og hvíla dagleg afskipti af stjórnmálum um sinn“.  Hætti hún sem stjórnarformaður BF og var kynnt að hún mundi blása nýju lífi í þjóðfélagsumræður á Stöð 2. Þau áform urðu að engu.

Guðmundur Steingrímsson sagði þegar hann fór að kröfu Heiðu Kristínar um afsögn að hann vildi að formannskeflið gengi milli manna í flokknum á sex mánaða fresti enda væri slík skipan í ráðherraráði Evrópusambandsins, þar skiptust ríki á að hafa formennsku. Hann féll síðan frá þessari tillögu. Laugardaginn 5. september 2015 var Óttarr Proppé, alþingismaður og samstarfsmaður Jóns Gnarrs í borgarstjórn, kjörinn flokksformaður.

Á ruv.is var haft eftir Guðmundi 22. ágúst 2015 að hann yrði „helvíti flottur óbreyttur þingmaður“ og hann taldi „að þrátt fyrir gagnrýni Heiðu Kristínar muni starf þingflokksins ganga vel og segir að allir séu í stuði“.

Heiða Kristín sagði eftir afsögn Guðmundar:

„Mér finnst að það hafi átt sér stað nauðsynleg hreinsun.“

Hreinsanir eru stundaðar innan einræðisflokka. Gnarristar í Bjartri framtíð ganga hreint til verks.

IV.

Hinn 13. ágúst 2015 birtist viðtal við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, í Viðskiptablaðinu. Þá mældist flokkurinn með 12,2% fylgi en hinn 1. september 2015 var það komið niður í 9%, hafði ekki verið lægra í 15 ára sögu flokksins.

Árni Páll sagði í viðtalinu við Viðskiptablaðið að fylgistap Samfylkingarinnar mætti að einhverju leyti rekja til svikinna loforða Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. „Stóri áhrifavaldurinn“ hefði verið loforð ríkisstjórnarflokkanna um þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu. Í bæði skiptin hefðu orðið gríðarlegar fylgissveiflur og mikil fylgisaukning hjá þeim flokkum sem menn teldu standa fyrir eitthvað nýtt, fyrst Bjartri framtíð og í seinna skiptið Pírötum.

Í formannskjöri á landsfundi Samfylkingarinnar í mars 2015 sótti Sigríður Ingibjörg Ingadóttir alþingismaður að Árna Páli úr launsátri, aðeins munaði einu atkvæði að hún felldi formanninn. Í stað þess að segja af sér og stuðla að því að víðtæk samstaða næðist um eftirmann sem gætti leitt flokkinn af styrk ákvað Árni Páll að festa sig við stjórnvölinn og láta eins og sér tækist að stýra flokksstarfinu inn á lygnan sjó. Þetta hefur gjörsamlega mistekist. Flokkurinn er klofinn ofan í rót. Flokksmenn hafa gengið í þagnarbindindi og ræða ekki málefni hans fyrir opnum tjöldum.

Eftir að könnunin sem sýndi 9% fylgið birtist sagði Árni Páll í útvarpsviðtali (á Bylgjunni 6. september 2015):

„Auðvitað hefði ef til vill verið betra fyrir mig persónulega ef ég hefði tapað en ég vann og ég verð að axla þá ábyrgð á því að ég hef umboðið og þá skiptir máli hvað þú gerir við það. Ef ég teldi að ég væri vandamálið og að aðrir flokkar væru ekki í neinum vanda þá væri það augljóst að lausnin hlyti að vera að ég stígi til hliðar. Það eru allir grónir flokkar í þessum vanda og flokknum var að ganga ágætlega undir minni forystu alveg þangað til… það byrjar að halla undan fæti um áramótin og svo sunkum við hressilega eftir landsfund.“

Þetta er einstök afstaða flokksformanns í vanda. Hann situr áfram án fylgis innan eigin flokks og við dvínandi fylgi meðal kjósenda af því að hann telur aðra „gróna flokka“ í sömu stöðu.

IV.

Aðalfundi Pírata lauk sunnudaginn 30. ágúst 2015. Við setningu fundarins laugardaginn 29. ágúst flutti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður og samnefnari flokksins, ræðu og kynnti það sem henni væri efst í huga. Setti hún framgang stefnu sinnar um að kollvarpa núgildandi stjórnkerfi sem skilyrði fyrir að hún byði sig fram að nýju.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sem hverfur nú af þingi, trúr fyrirheiti sem hann gaf kjósendum, sagði í samtali við DV 30. maí 2014:

„Ekkert okkar ætlar að fara fram aftur. Birgitta er búin að margsegja að hún verði ekki á þingi í fleiri en tvö kjörtímabil.“

Birgitta vill að fyrir næstu þingkosningar geri hugsanlegir samstarfsaðilar í ríkisstjórn að kosningunum loknum með sér bindandi samkomulag. Í því felist að á sex mánuðum verði annars vegna lögfest ný stjórnarskrá og hins vegar boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ræða eigi áfram um aðild við ESB. Öll önnur mál verði látin sitja á hakanum þessa sex mánuði en tíminn notaður til agaðrar úttektar á allri stjórnsýslunni. Ráðherra ráði til sín „bestu mögulegu stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í opinni og nútímalegri stjórnsýslu bæði hérlenda sem erlenda og verkstýra þeim í þessari úttekt,“ sagði Birgitta.

Hún vill endurskoða stjórnarráðslögin og „hvort að núverandi ráðuneytakerfi [séu] gagnleg“  Telur Birgitta mikið um „að ráðuneyti séu í opinni samkeppni um fjárlög“. Heildræn stjórnsýsla þar sem heildarvelferð þjóðar og þjóðarbús sé ekki á oddinum „heldur smákónga slagir sem oft bitna á þeim sem kerfið á að þjóna“. Lítur hún helst á Finnland sem fyrirmynd. Næsta kjörtímabil verði aðeins 9 mánuðir.

„Mér finnst þetta vera verkefni sem ég er til í að leggja allt í sölurnar fyrir og það eina sem gæti orðið til þess að ég treysti mér aftur í framboð. Tilhugsunin um hefðbundið stjórnarfar er mér óbærileg. Ég hef séð hvernig þetta virkar þarna inni í kerfinu og þessi hugmynd er það eina sem mér dettur í hug til að nota þá stjórnmálakrísu sem er nú ríkjandi til að laga grunninn til frambúðar í samræmi við það sem kallað var svo afgerandi eftir í kjölfar hrunsins,“ sagði Birgitta.

Ólíklegt er að aðrir flokkar taki undir þessa stefnu Birgittu og því líklegt að hún verði ekki oftar í framboði fyrir Pírata, megi marka orð hennar.

Þetta er frumleg aðferð til að hverfa frá fyrri yfirlýsingum um að ætla að draga sig í hlé frá beinni þátttöku í stjórnmálum: að fela annarra flokka mönnum að ákveða hvort maður treysti sér í framboð með því að fallast fyrirfram á sett skilyrði.

V.

Hinn 1. september 2015 mældust Píratar með 36% fylgi í þjóðarpúlsi Gallups. Var það mesta fylgi þeirra á kjörtímabilinu og hið mesta sem mælst hafði hjá nokkrum flokki síðan í kosningunum 2013. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist á sama aðeins 21,6%, hafði ekki mælst minna síðan í nóvember 2008. (VG var með tæp 12%, Framsóknarflokkurinn um 11%, Samfylkingin 9% og Björt framtíð 4,4%.)

Þetta var síðasta könnun Gallups fyrir þingsetningu hinn 8. september en sama kvöld flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stefnuræðu sína. Í umræðum um hana mátti sjá skýringu á því hvers vegna hallar undir fæti hjá „grónu flokkunum“: Það má efast um að hugur fylgi máli hjá ræðumönnum. Ástæða er til að spyrja: Hafa þeir pólitíska sannfæringu?

Viðbrögð Árna Páls við vanda Samfylkingarinnar einkennast af sannfæringarskorti: Af því að hinum vegnar illa þarf ég ekki að hætta. Að hugtakið „fjórflokkurinn“ þyki gjaldgengt stafar af því að stefnufesta eða ágreiningur um meginmál setja ekki svip á stjórnmálastarfið. Þetta er sami grautur í sömu skál, segir fólk.

Í umræðum um stefnuræðuna greindi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sig frá öðrum með því að tala um það sem hann kallaði „frelsismál“, það er að þingið ætti að treysta fólki til samræmis við það sem fólk teldi að það ætti að fá að sjá frá þinginu. Hann vék með öðrum orðum að einstaklingsfrelsinu og svigrúmi hvers og eins til að ráða eigin málum. Stendur Sjálfstæðisflokkurinn við þá stefnu í reynd? Ekki með því að setja þriggja ára reglu um nám í framhaldsskóla eða þrengja rétt fólks til að sækja þar nám. Svo að eitt nærtækt mál sé nefnt.

Raunar flutti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands skýrustu stefnuræðuna þingsetningardaginn þegar hann talaði gegn vanhugsuðum breytingum á stjórnarskránni sem miðuðu að því að skerða fullveldi þjóðarinnar.

Fullyrðingar um að stjórnarskrá lýðveldisins standi þróun íslensks samfélags fyrir þrifum eru til marks um skort á sannfæringu um málefni þjóðinni til heilla. Síðasta þing einkenndist af innantómum ræðum um störf þingsins sjálfs eða fundarstjórn forseta af ótta við umræður um pólitísk átakamál.

Í tilefni af ræðu Ólafs Ragnars fór Birgitta Jónsdóttir í skotgrafirnar í umræðum um stefnuræðuna og sagði:

„Það er ljóst að forseti lýðveldisins hefur fært sig inn á háskalegar og gerræðislegar brautir gagnvart þingræðinu í dag og undir því get ég ekki setið án þess að andmæla af fullum krafti. Ljóst er að einhver þarf að bjóða sig fram til að sinna hlutverki forseta sem er annt um hið beina lýðræði og er tilbúinn að sleppa tökunum af málskotsréttinum til þjóðarinnar sjálfrar.“

Forsetinn sagði alþingi ekki fyrir verkum. Hann brá ekki fæti fyrir þingræðið. Hann lýsti hins vegar skoðun sem Birgitta er ósammála og fór með því „inn á háskalegar og gerræðislegar brautir“! Birgitta vill breyta stjórnarskránni, til þess hefur hún tækifæri sem þingmaður. Forseti Íslands getur ekki breytt stjórnarskránni.
Birgittu hefur hins vegar mistekist ætlunarverk sitt í árin sex sem hún hefur setið á þingi. Hvernig væri að líta í eigin barm en ekki skella skuldinni á aðra?