Draumur Dags B. Eggertssonar

Þröstur hefur góðan skilning á því að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra langi ekkert til að fara inn í landsmálin undir fána Samfylkingarinnar. Og Þröstur hefur ákveðna samúð með Degi sem eitt sinn var talinn krónprins Samfylkingarinnar. En Dagur B. á sér draum.Dagur í Viðskiptablaðinu

Í landsmálum er Samfylkingin í sárum með 10% fylgi og í frjálsu falli allt þetta ár. Í desember á liðnu ári var fylgið 20% og þótti vart viðunandi. Í febrúar 2007 studdu nær 35% kjósenda flokkinn en 26,8% í kosningum um vorið og 29,8% í kosningunum 2009.

Kunningjar Þrastar í Samfylkingunni segja andrúmsloftið ömurlegt og þar sé hver höndin upp á móti annarri. Árni Páll Árnason var kjörinn formaður gegn vilja Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2013. Forsætisráðherrann fyrrverandi hefur síðan reynt að grafa undan eftirmanni sínum nú síðast með því að reyna að endurrita söguna í heimildarmynd. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gerði tilraun til hallarbyltingar með vitund og vilja Jóhönnu, en vantaði eitt atkvæði til að knésetja Árna Pál. Afleiðingin er sundurþættur flokkur.

Dagur B. Eggertsson áttar sig á því að engin framtíð er í landsmálum a.m.k. ekki innan Samfylkingarinnar. Þótt ástandið sé erfitt í borginni – Samfylkingin misst töluvert fylgi frá borgarstjórnarkosningum, erfitt (svo ekki sé sagt meira) fjárhagsstaða borgarinnar – er útlitið skárra fyrir stjórnmálamanninn Dag B. innan borgarstjórnar en á Alþingi.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku segist Dagur stefna að því að „klára þetta kjörtímabil hér með þessum meirihluta og geri ráð fyrir því að sækjast eftir endurkjöri“. Það heilli sig ekki að fara í landsmálin þótt þrýst hafi verið á hann:

„Jú, það hefur oft verið rætt og ég var auðvitað varaformaður Samfylkingarinnar um tíma. Þannig að ég þekki alveg það svið og það hefur oft verið rætt í gegnum tíðina hvort ég færi í þingframboð. En hjartað og hugurinn hefur alltaf verið í borginni.“

Þröstur er á því að Dagur meti stöðuna kórrétt. Raunar grunar Þröst að Dagur B. Eggertsson láti sig dreyma um að á næstu árum verði miklar breytingar á vinstri væng stjórnmálanna með sameiningu og/eða samvinnu VG, Samfylkingar og Pírata eða a.m.k. þess hluta Pírata sem fylgja Birgittu Jónsdóttur að máli. Draumur borgarstjóra er að verða sameiningartákn og leiðtogi undir einum gunnfána íslenskra vinstri manna.

Hitt er svo annað að Dagur B. Eggertsson er ekki fyrsti og líklega ekki sá síðasti sem á sér þennan draum.